Landsmóti hestamanna frestað

Ákveðið var á fundi hagsmunaaðila í hrossarækt í dag að fresta landsmóti hestamanna í sumar vegna hrossapestarinnar sem herjað hefur á íslenska stofninn. Ríkisútvarpið hafði eftir Haraldi Þórarinssyni, formanni stjórnar landsmótsins, að þetta hafi verið erfið en nauðsynlega ákvörðun.

Bakteríusýking er orsök kvefpestarinnar

Nú liggur fyrir að smitandi hósti er ekki af völdum neinna af þeim alvarlegu veirusýkingum sem þekktar eru og leggjast á öndunafæri hrossa. Bakterían Streptococcus zooepidemicus hefur hins vegar ræktast úr öllum sýnum sem tekin hafa verið úr hrossum með hósta og graftarkenndan hor, en ekki úr hrossum sem eingöngu hafa verið með nefrennsli eða heilbrigð. Ljóst er að bakteríusýkingin er afgerandi fyrir sjúkdómsmyndina og að hún er bráðsmitandi. Rannsóknirnar hafa verið unnar á Tilraunastöðinni á Keldum í samstarfi við hérlendar og erlendar rannsóknarstofnanir.

Áfram stefnt að Landsmóti á sama tíma

Landsmót hestamanna verður haldið á áður ákveðnum tíma á Vindheimamelum í Skagafirði þrátt fyrir hóstapestina sem herjað hefur á hross að undanförnu. Hagsmunaaðilar innan hestamennskunnar voru boðaðir á fund í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í dag til að fá heildarsýn yfir stöðu mála vegna hóstapestarinnar.

Framkvæmd Landsmóts í óvissu

Í gær var haldinn fjölmennur fundur hjá hestamannafélaginu Fáki um kvefpestina sem nú herjar á íslenska hrossastofninn. Fundurinn var haldinn í reiðhöllinni í Víðidal og framsögumenn voru dýralæknarnir Sigríður Björnsdóttir og Vilhjálmur Svansson. Greinilegt er að hestamenn eru mjög áhyggjufullir yfir stöðu mála, einkum og sér í lagi er framkvæmd Landsmóts hestamanna í óvissu. Í dag munu hagsmunahópar í hestamennsku eiga fund með landbúnaðarráðherra og ráðuneytismönnum vegna þeirrar stöðu sem upp er komin.

Smitandi hósti í hrossum dregur dilk á eftir sér

Smitandi hósti breiðist áfram út meðal hrossa sem haldin eru á húsi víða um land. Enn hefur ekki fundist hvað veldur en allt bendir til að um veirusýkingu sé að ræða sem magnast upp í þétt skipuðum hesthúsum. Í kuldatíð undanfarinna vikna hefur reynst erfitt að halda góðu lofti í húsunum án þess að slái að hrossum sem gengin eru úr hárum og má reikna með að það hafi haft sitt að segja.

Kynbótasýningar hrossa 2010

Senn líður að kynbótasýningum og því rétt að kynna þær. Reiknað er með því að dómar standi samfleytt frá 10. maí til 11. júní. Sýningar á Suðurlandi verða að venju þrjár. Fyrsta sýningin verður í Víðidal í Reykjavík. Tvær dómnefndir verði að störfum á Sörlastöðum og Hellu. Stefnt er að sýningu í Hornafirði ef næg þátttaka fæst, lágmarks skráning er 15 hross.
Sýningar í umsjón Búnaðarsambands Suðurlands eru:
Víðidalur í Reykjavík dagana 10. til 14. maí
Tekið við skráningum í síma 480-1800 dagana 29.apríl til 3. maí

Sörlastaðir í Hafnarfirði dagana 17. til 28. maí
Tekið við skráningum í síma 480-1800 dagana 4. til 6. maí

Héraðssýning Gaddstaðaflötum dagana 31. maí til 11. júní
Tekið við skráningum í síma 480-1800 dagana 17. til 20. maí

Hornafjörður 1. til 2. júní
Tekið við skráningum í síma 470-8088/864-6487 dagana 26.og 27.maí

Breytingar á vægi einkunna í kynbótadómi

Eftirfarandi breytingar hafa verið gerðar á vægi á skeiði, feti og vilja og geðslagi: Skeið hækkar úr 9% í 10%, fet hækkar úr 1,5% í 4% og vilji og geðslag lækkar úr 12,5% í 9%. Undir hrossarækt -kynbótasýningar má finna dómareikni en þar er hægt að slá inn einkunnir og sjá hvaða aðaleinkunn hross hlýtur. Getur verið forvitnilegt fyrir þá sem hyggjast koma með hross í dóm í vor.
Aðrar breytingar lúta að þröskuldum sem settir eru á hærri einkunnir fyrir tölt og stökk. Þær eru:

Nauðsynlegt að hvíla hross sem hósta

Smitandi hósti í hrossum breiðist nú á milli hesthúsa víða um land og er talið líklegast að um veirusýkingu sé að ræða. Fyrstu rannsóknir benda til þess að ekki sé um hestainflúensu eða smitandi háls- og lungnakvef/fósturlát (EHV-1) að ræða en það eru alvarlegustu veirusýkingarnar sem leggjast á öndunarfæri hrossa. Áfram er unnið að því að greina orsökina. Ekki er enn vitað til þess að hross á útigangi hafi sýkst og óvíst hvort það muni gerast, en það kæmi sér sérlega illa nú þegar hætta á öskufalli er yfirvofandi á stórum landssvæðum. Hestamönnum er því ráðlagt að hafa fataskipti og þvo sér um hendur áður en útigangshrossum er gefið og ekki gefa útigangi moð frá sýktum hrossum.

Ræktun 2010 frestað til laugardagsins 24. apríl n.k.

Sýningu Hrossaræktarsamtaka Suðurlands RÆKTUN 2010 sem fara átti fram laugardaginn 17. apríl n.k. hefur verið frestað til laugardagsins 24. apríl n.k.
Ástæðan er sú að vægt kvef og hósti hefur verið að stinga sér niður í hrossum og rétt þótti að gefa hrossum færi á að ná sér. Sem betur fer er þessi kvefpest væg og fljót að ganga yfir.

Ræktun 2010 17. apríl 2010

Stórsýningin RÆKTUN 2010 verður haldin í Ölfushöllinni 17.apríl n.k. og standa Hrossaræktarsamtök Suðurlands fyrir sýningu þessari.
Fram koma:

1. Ræktunarbú
Gömul og ný hrossaræktarbú kynna ræktun sína.

Vinna á framtíðarstefnu fyrir Landsmót hestamanna

Stefnt er að því að móta stefnu um mótsstaði Landsmóts hestamanna til framtíðar á landsþingi Landssambands hestamannafélaga (LH) á Akureyri í haust. Skipa á svokallaða milliþinganefnd sem á að vinna að stefnumótun í þá veru og skila niðurstöðum í haust. Þetta var ákveðið á formannafundi LH 26. mars síðastliðinn.

Björk frá Hvolsvelli heiðurshryssa Suðurlands

Ungfolasýning Hrossaræktarsamtaka Suðurlands fór fram laugardaginn 27.mars s.l. og tókst mjög vel. Alls komu fram 27 folar tveggja og þriggja vetra undan mörgum af bestu ræktunarhrossum landsins. Heiðurshryssa Suðurlands 2010 var heiðruð en fyrir valinu var Björk frá Hvolsvelli en undan henni hafa 8 afkvæmi hlotið fullnaðardóm og 7 farið í 1.verðlaun, þ.á.m. Bylgja frá Strandarhjáleigu með 8,58 í aðaleinkunn. Björk var ræktuð að Þormari Andréssyni og fjölskyldu á Hvolsvelli en þau kenna hrossin sín við Strandarhjáleigu. Búið hlaut viðurkenningu sem ræktunarbú ársins 2009.

Ungfolasýningin er á morgun

Ungfolasýning Hrossaræktarsamtaka Suðurlands er nú á laugardaginn og hefst sköpulagsmat kl.16:00 en sýning þeirra í höllinni hefst kl. 20:00.
Feður folanna eru m.a. Ægir frá Litlalandi, Gandálfur frá Selfossi, Stáli frá Kjarri, Smári frá Skagaströnd, Gígjar frá Auðsholtshjáleigu, Óður frá Brún, Álfur frá Selfossi, Vilmundur frá Feti, Blær frá Torfunesi, Þytur frá Neðra-Seli, Þóroddur frá Þóroddsstöðum og Rammi frá Búlandi.

Eftirfarandi folar koma fram á Ungfolasýningu Hrossaræktarsamtaka Suðurlands:

Sláturhúsum er óheimilt að taka við ómerktun hrossum eftir 1. apríl 2010

Reglugerð um einstaklingsmerkingar búfjár tók gildi árið 2005 þar sem m.a. er kveðið á um að skylt sé að skrá og einstaklingsmerkja öll hross eldri en 10 mánaða. Í byrjun voru hross fædd fyrir árið 2003 undanþegin merkingarskyldu en nú hefur sú undanþága verið felld úr gildi. Hross sem fædd eru árið 2008 og síðar skulu vera örmerkt en frostmerki eru viðurkennd í eldri hrossum, að því gefnu að þau séu læsileg.

Mikil andstaða við Reykjavík sem landsmótsstað

Stjórnir 26 hestamannafélaga hafa undiritað mótmælaskjal þar sem mótmælt er hvernig staðið var að vali á Reykjavík sem staðsetningu Landsmóts hestamanna árið 2012. Alls eru 47 félög aðilar að Landssambandi Hestamannafélaga (LH). Búið var að ákveða fund með Haraldi Þórarinssyni formanni LH 5. mars síðastliðinn þar sem afhenda átti mótmælaskjalið en Haraldur aflýsti þeim fundi að kvöldi 4. mars en boðaði til fundar 9. mars í staðinn. Hinn 5. mars skrifuðu Haraldur, forsvarsmenn Fáks í Reykjavík og fulltrúar Reykjavíkurborgar síðan undir samning um að Landsmót skyldi haldið í Reykjavík.

Ungfolasýning HS

Árleg ungfolasýning Hrossaræktarsamtaka Suðurlands verður haldin í Ölfushöllinni laugardaginn 27.mars n.k. Starfandi kynbótadómarar munu taka út folana bæði fyrir sköpulag og gangeiginleika.
Rétt til þátttöku hafa 2ja vetra folar (fæddir 2008) og 3ja vetra (fæddir 2007).
Sköpulag folana verður skoðað kl. 15:00 að deginum en þeir verða reknir til í höllinni kl. 20:00 þar sem að ganglag og hreyfieðli þeirra verður metið.
Áhorfendur velja svo hvaða foli er bestur en eigendur folanna fá skjal þar sem úttekt á folanum er sett fram á línulegum skala.

Landsmót í Reykjavík – Ákvörðun í mótsögn við vilja Búnaðarþings

Landssamband hestamannafélaga og Fákur í Reykjavík undirrituðu í dag samning um að Landsmót hestamanna 2012 verði haldið í Reykjavík. Haraldur Þórarinsson, formaður Landssambandsins, Bjarni Finnsson, formaður Fáks og Kjartan Magnússon, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur undirrituðu samninginn. Frá þessu er greint á vef Viðskiptablaðsins, vb.is.

Bændasamtökin vilja landsmót á Hellu og í Skagafirði

Bændasamtökin hyggjast beita sér fyrir því að landsmót hestamanna verði haldin á landsbyggðinni og að landsmótsstaðirnir verði tveir, Vindheimamelar í Skagafirði og Gaddstaðaflatir við Hellu. Búnaðarþing samþykkti þetta í ályktun sinni í vikunni.

Hrossaræktarfundir

Almennir fundir um málefni hrossaræktarinnar verða haldnir á eftirtöldum stöðum á svæði Hrossaræktarsamtaka Suðurlands á næstu vikum. Allir fundirnir hefjast kl. 20:30.

Mánudaginn 8. mars. Félagsheimili Fáks, Reykjavík.
Miðvikudaginn 10. mars. Félagsheimili Sleipnis, Selfossi.
Þriðjudaginn 16. mars. Stekkhól, Hornafirði.

Worldfengur viðurkenndur af ESB sem rafrænn hestapassi

Farið var þess á leit við Evrópusambandið að gagnagrunnurinn WF, með lyfjaskráningum, yrði viðurkenndur sem rafrænn hestapassi. Sú viðurkenning hefur nú fengist og mun liðka fyrir útflutningi á reiðhestum, kynbótahrossum og hrossakjöti. Engin fordæmi eru fyrir rafrænum hestapassa innan ESB og má segja að WF hafi rutt brautina.

back to top