Rekstur Ístex gekk vel á síðasta ári

Aðalfundur Ístex hf. fyrir árið 2012 var haldinn sl. föstudag. Þar kom fram að rekstur félagsins gekk vel á síðasta ári en 77 milljóna króna hagnaður var á árinu samanborið við 60 milljónir árið 2011. Rekstur Ístex hefur gengið vel á undanförnum árum en góður árangur hefur náðist á erlendum mörkuðum. Á síðasta ári var einnig vöxtur á innanlandsmarkaði, þó mun minni en á erlendum mörkuðum. Heildartekjur félagsins jukust um rúm 10% milli ára. Skuldir lækkuðu jafnframt um 74 milljónir króna, bæði vegna niðurgreiðslu í ljósi góðrar afkomu og leiðréttinga lána. Heildarskuldir hafa lækkað um nær 180 milljónir króna á síðustu árum.

Mest kjöt eftir á í Gýgjarhólskoti

Niðurstöður skýrsluhalds sauðfjárræktarinnar fyrir árið 2012 hafa verið uppfærðar á vef Bændasamtakanna. Þar kemur m.a. fram að á búum með 100 skýrslufærðar ær eða fleiri voru afurðir eftir kind mestar hjá Eiríki Jónssyni í Gýgjarhólskoti. Hjá honum skilaði hver á með lambi 43,9 kg. Næst í röðinni eru Indriði og Lóa á Skjaldfönn með 39,4 kg eftir hverja á með lambi og þriðja bú í röðinni er hjá Guðbrandi og Lilju á Bassastöðum en þar skilaði hver á með lambi 38,3 kg.

Sigurborg Daðadóttir er nýr yfirdýralæknir

Sigurborg Daðadóttir hefur verið skipuð í Embætti yfirdýralæknis að því er fram kemur í tilkynningu frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu. Sigurborg er dýralæknir frá Tieräztlich Hocschule í Hannover og hefur auk þess lokið námi í rekstrar- og viðskiptafræði frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands.

Upplýsingar um jarðræktarstyrki á Bændatorginu

Þann 28. desember sl. voru jarðræktarstyrkir vegna ræktunar ársins 2012 greiddir út til bænda. Styrkirnir eru greiddir úr sjóði sem er fjármagnaður af búnaðarlagasamningi, mjólkursamningi og sauðfjársamningi. Styrkurinn nam 13.350 kr. á fyrstu 20 ha, en 8.900 kr. á ræktun frá 20–40 ha. Ræktun umfram 40 ha var ekki styrkt.
Upplýsingar um jarðræktarstyrkina geta bændur nú nálgast á Bændatorginu. Umsókn um styrk, úttekt ráðunautar og bréf dagsett 3. janúar 2013 um staðfestingu þess að viðkomandi hefur hlotið styrk, hversu háan og inn á hvaða reikning hann hefur verið lagður. Í þeim tilfellum sem það er ekki raunhæft munu Bændasamtökin að sjálfsögðu senda bréfið póstleiðis sé þess óskað.

Breytingar á júgurbólgurannsóknum hjá MS

Í stað núverandi ræktunar á júgurbólgubakteríum hefur verið tekin í notkun ný tækni við júgurbólgugreiningu, svokölluð PCR júgurbólgugreining, sem er mun fljótvirkari og næmari en ræktunarðaferðin. Frá og með áramótum fara PCR-júgurbólgugreiningarnar fram á rannsóknarstofu SAM í Reykjavík. Á sama tíma verður hætt að rækta júgurbólgusýni á rannsóknarstofu SAM á Selfossi.

Landstólpi hækkar verð á kjarnfóðri um allt að 6%

Landstólpi hefur sent frá tilkyningu þess efnis að mánudaginn 7. janúar n.k. mun fyrirtækið hækka verð á kjarnfóðri um allt að 6 %. Ástæða hækkunarinnar er veiking íslensku krónunnar gagnvart evru. Í tilkynningunni kemur fram að fóðurverð Landstólpa hefur ekki hækkað síðan í september og segir fyrirtækið það því miður óumflýjanlegt nú vegna gengis íslensku krónunnar. Verði breyting þar á til batnaðar munu viðskiptavinir að sjálfsögðu njóta þess þegar þar að kemur, segir í tilkynningu Landstólpa.

Breytingar á reglum um gæðastýrt skýrsluhald

Nýjar reglur um gæðastýrt skýrsluhald tóku gildi nú um áramótin. Tvær breytingar eru á reglunum frá því sem áður hefur verið.
1. Greiðslur fyrir gæðastýrt skýrsluhald eru nú greiddar út fjórum sinnum á ári (ársfjórðungslega) en áður voru greiðslurnar þrjár (ársþriðjungslega
2. Gerð er krafa um tvær kýrsýnatökur á hverjum ársfjórðungi en áður var krafa um eina kýrsýnatöku.
Hér að neðan má sjá yfirlit yfir tímabil, kröfur um skil og kýrsýnatökur á hverju tímabili og greiðslumánuði ársins 2013. Gert er ráð fyrir að greitt sé út fyrsta virka dag greiðslumánaðar.

Fleiri gestir en færri heimsóknir

Heimsóknum á vefsíðu Búnaðarsambandsins fækkaði á síðasta ári frá árinu 2011 en hins vegar fjölgaði þeim sem heimsóttu vefinn. Alls heimsóttu 20.539 vefinn á árinu 2012 samanborið 20.139 árið áður. Hins vegar fækkaði heimsóknum eins og áður sagði og námu þær alls 127.224 borið saman við 155.561 árið 2011. Síðuflettingum fækkaði einnig milli ára eða úr 355.858 á árinu 2011 í 300.005 á síðasta ári. Ástæðan fyrir þessari fækkun er ef til vill sú að fréttir á bssl.is birtast einnig á Facebook og Twitter-síðum Búnaðarsambandsins og svo geta menn einnig nálgast þær með appi í farsímann hjá sér.

Greiðslumark mjólkur 116 milljónir lítra á árinu 2013

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið gaf út skömmu fyrir jól, reglugerð um greiðslumark mjólkur á lögbýlum og beinar greiðslur til bænda verðlagsárið 2013. Breytingar frá reglugerð sama efnis fyrir árið 2012 eru ekki miklar en þó má nefna að greiðslumark mjólkur er aukið um 1,5 milljónir lítra og verður 116 milljónir lítra á verðlagsárinu 2013. Beingreiðslur verða 45,75 kr/ltr og gripagreiðslur að jafnaði 5,41 kr/ltr. Hlutfallsleg skipting A, B og C-greiðslna er óbreytt milli ára þannig að A-hluti er 47,67%, B-hluti 35,45% og C-hluti 16,88%. Skipting C-greiðslna milli mánaða verður óbreytt frá fyrra ári eða 10% í júlí, 15% í ágúst og september og 20% í október, nóvember og desember.

Verð á rafmagni hækkar í dreifbýli

RARIK hækkaði verðskrá sína fyrir dreifingu og flutning raforku í dreifbýli um 8% nú um áramótin, áður en tekið er tillit til dreifbýlisframlags. Verðskrá í þéttbýli verður hins vegar óbreytt fyrir alla almenna notkun. Fastagjald fyrir ótryggða orku hækkar bæði í þéttbýli og dreifbýli í samræmi við aukinn tilkostnað vegna viðskiptavina sem nýta ótryggða orku. Þá hækka þjónustugjöld um 5%.
Ef ekki verður breyting á dreifbýlisframlagi á fjárlögum fyrir árið 2013 munu greiðslur viðskiptavina í dreifbýli hækka heldur meira en sem nemur hækkun RARIK.

Merkingar á áburði hafa batnað verulega

Matvælastofnun birti ársskýrslu um áburðareftirlit fyrir árið 2012 milli jóla og nýárs. Samkvæmt henni fluttu 28 fyrirtæki inn 261 áburðartegund á árinu 2012 og nam heildarmagnið 51.753 tonnum. Innlendir framleiðendur eru 13, það eru fyrirtæki sem framleiða áburð eða jarðvegsbætandi efni á landinu. Áburðarfyrirtækin sem voru með einhverja starfsemi á árinu eru því 41. Sýnataka og vöruskoðun var gerð hjá 9 innflutningsfyrirtækjum og voru alls 55 áburðarsýni tekin á árinu. Auk þess voru merkingar og umbúðir skoðaðar.

Skrifstofur BSSL lokaðar á aðfangadag jóla

Skrifstofur Búnaðarsambands Suðurlands verða lokaðar mánudaginn 24. desember n.k.. (aðfangadag jóla).
Stjórn og starfsfólk Búnaðarsambandsins senda bændum og búaliði sínar hugheilustu óskir um gleðileg jól og farsæld á nýju ári með þökkum fyrir samstarfið og samskiptin á því sem er að kveðja.

Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins ehf. tekur til starfa nýju ári

Búið er að ganga frá ráðningum í stjórnunarstöður hjá nýju ráðgjafarfyrirtæki bænda sem tekur formlega til starfa um áramótin. Karvel Lindberg Karvelsson verður framkvæmdastjóri en hann starfar nú sem landsráðunautur í svína- og alifuglarækt hjá Bændasamtökum Íslands.
Fyrirtækið, sem mun heita „Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins ehf.“, verður til eftir sameiningu leiðbeiningaþjónustu búnaðarsambandanna og ráðgjafarsviðs Bændasamtaka Íslands.
Eftirtaldir munu taka að sér stjórnunarstörf hjá fyrirtækinu:

Metútsending á hrútasæði hjá Sauðfjársæðingastöð Suðurlands

Sauðfjársæðingum þessarar fengitíðar lauk í dag en í morgun var síðasta sæðisútsending þessa árs frá sauðfjársæðingastöðvunum. Hrútarnir fá nú kærkomið jólafrí enda hafa þeir verið undir miklu álagi undanfarnar vikur. Hjá Sauðfjársæðingastöð Suðurlands gekk sæðistaka og útsending ákaflega vel og var áhugi, þátttaka og útsending meiri en nokkru sinni fyrr. Frá stöðinni var sent út sæði í 22.775 ær sem er met. Ef reiknað er með 70% nýtingu á sæði, sem er algengt, má reikna með að 15.900 ær hafi verið sæddar með sæði frá stöðinni. Til samanburðar var sent út sæði í 18.440 ær í fyrra og útsending þessa árs því 4.335 skömmtum meiri en ársins 2011. Þá má geta þess að mest var sent út þann 13. desember en þá var afgreitt sæði í 1.825 ær.

Ný nautaskrá komin á netið

Nautaskrá Nautastöðvar BÍ fyrir veturinn 2013 er komin á netið. Skráin verður send út í fyrstu viku nýs árs til kúabænda ásamt fylgispjöldum um skyldleika og reynd naut. Þangað til verða bændur að láta jólabækurnar duga eða skoða skrána á netinu.

Skýrsluhald í hrossarækt rafrænt og pappírslaust

Athygli skýrsluhaldara á Íslandi er vakin á því að í haust var ákveðið að senda ekki skýrsluhald í hrossarækt á pappír og pósti eins og verið hefur. Skref í átt að þessu var stigið hálfa leið á síðasta ári og núna til fulls. Í heimaréttinni undir „Skýrsluhald“ má finna upplýsingar og leiðbeiningar um hvernig skuli gengið frá skýrsluhaldinu með rafrænum hætti.

Hróður Mókollu berst út fyrir landsteinana

Mókolla 230 frá Kirkjulæk í Fljótshlíð er orðin þekkt utan landsteinanna en eins og við sögðum frá fyrir skömmu sló hún Íslandsmetið í æviafurðum í nóvember s.l. Þá hafði hún mjólkað 111.354 kg á 14 árum og er enn að. Hún bætir því metið með hverjum degi sem líður.
Á bandaríska fréttavefnum UPI er fjallað um afrek Mókollu og m.a. sagt frá farsælli ævi Mókollu og því að hún er fædd 7. apríl 1996 og því á sínum 17. vetri.

Fóðurblandan hækkar verð á kjarnfóðri um 1-4%

Fóðurblandan hefur tilkynnt um hækkun á kjarnfóðri um 1-4% sem taka mun gildi mánudaginn 17. desember n.k. Hækkunin er misjöfn eftir tegundum. Í tilkynningu frá Fóðurblöndunni segir að ástæðan hækkunarinnar sé hækkun á verði aðfanga á erlendum hráefnamörkuðum og veiking íslensku krónunnar.

Meðalnytin nánast sú sama og í október

Búið er að birta niðurstöður afurðaskýrslna nautgriparæktinnar við lok nóvemer 2012. Þegar yfirlitið var búið til, á miðnætti hinn 11. desember, höfðu borist skýrslur frá 94% þeirra 594 búa sem skráð eru í skýrsluhaldið.
Niðurstöðurnar eru þær helstar að 21.949,1 árskýr mjólkaði að meðaltali 5.628 kg sl. 12 mánuði, sem er 10 kg lægri nyt en reiknaðist í síðasta uppgjöri.

Mókolla 230 setur nýtt Íslandsmet í æviafurðum

Mókolla 230 á Kirkjulæk í Fljótshlíð hefur nú slegið Íslandsmet Hrafnhettu 153 í Hólmum í A-Landeyjum. Mókolla sem enn er að hafði nú í lok nóvember mjólkað samtals 111.354 kg mjólkur eða 151 kg meira en Hrafnhetta gerði á sínum tíma.
Mókolla 230 hefur verið ákaflega farsæl kýr, hún er fædd 7. apríl 1996, dóttir Snarfara 93018, og er því á sínum 17. vetri. Langlífið og afurðirnar á Mókolla því kannski ekki langt að sækja því amma hennar, Snegla 231 í Hjálmholti, móðir Snarfara, varð 17 vetra og mjólkaði samtals 100.736 kg á sinni ævi.

back to top