Breytingar hjá Búnaðarsambandi Suðurlands
Um síðustu áramót tók Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins RML til starfa. Fyrirtækið tekur yfir faglegt starf og ráðgjöf til bænda sem verið hefur á höndum búnaðarsambanda og ráðgjafasviðs Bændasamtakanna. Það er hægast að lista það upp sem eftir verður hjá Búnaðarsambandinu. Fyrirtæki Búnaðarsambandsins. Kynbótastöð Suðurlands, Sauðfjársæðingastöð Suðurlands, Tilraunabúið Stóra Ármóti og bændabókhaldsdeildin. Búnaðarsambandið leigir RML starfsaðstöðu og afnot af bílum. Þá mun BSSL áfram sinna félagslegum störfum, umsýslu og úttektum jarða- og húsabóta, umsóknum um lögbýli og sjá um fleiri verkefni sem m.a. lúta að lögum um búfjárhald, girðingalögum, vörnum vegna landbrots ofl. Búnaðarsamböndin munu sjá um túnkortagerð, úttektir og eftirlit vegna umsókna m.a. í Framleiðnisjóð og Bjargráðasjóð. Þá urðu þær breytingar um áramót að Ólafur Þór tók við umsjón yfir bændabókhaldi í stað Skafta Bjarnasonar sem fór í 70 % starf um leið og hann tók við oddvitastöðu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Nýr formaður BÍ Sindri Sigurgeirsson
Búnaðarþing var núna rétt í þessu að kjósa nýjan formann BÍ Sigurgeir Sindra Sigurgeirsson bónda í Bakkakoti.
Sala á mjólkurafurðum jókst í fyrra
Hækkun á klaufskurði
Búnaðarþing 2013 „Bændur segja allt gott“
Búnaðarþing 2013 var sett í gær á Hótel sögu. Yfirskrift þingsins þetta árið er „Bændur segja allt gott“. Búnaðarþing stendur til miðvikudags og er fjöldi mála yfir 30. Setningarræðu hélt Haraldur Benediktsson og ávarp flutti Steingrímur J. Sigfússon, sem jafnframt veitti Landbúnaðarverðlaun 2013. Verlaunin í ár fengu bændurir í Laxárdal II í Skeiða- og Gnúpverjahrepp og handverkshópurinn Handverkskonur milli heiða.
Samanburður á áburðarverði
Samanburð á áburðarverði þeirra fjögurra aðila sem hafa auglýst áburð til sölu handa bændum. Í töflunni er verð borið saman miðað við að bera 100 kg N á hektara. Greiðslukjör eru mismunandi en miðað er við greiðslu í maí og að pantað sé fyrir 15. mars. Er þetta birt með fyrirvara um villur og verðbreytingar.
Landsýn vísindaþing landbúnaðarins
Framleiðnisjóður landbúnaðarins
Búnaðarþing hefst 3. mars 2013
Aðalfundur Nautgriparæktarfélags Austur-Skaftfellinga
Nautgriparæktarfélag Austur-Skaftfellinga boðar til aðalfundar í veitingasal á Brunnhól á Mýrum, miðvikudaginn 27. febrúar n.k. og hefst hann kl. 20.30.
Vegna heimasíðu BSSL
Heimasíða BSSL hefur ekki verið uppfærð frá mánaðamótum jan/feb. s.l. Ástæðan er sú að um áramót breyttist starfsemi og hlutverk Búnaðarsambandsins í kjölfar stofnunar Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML). Vefstjóri heimasíðunnar Guðmundur Jóhannesson fluttist yfir í í nýja fyrirtækið ásamt flestu starfsfólki Búnaðarsambandsins. Á stjórnarfundi BSSL þann 25. febrúar var ákveðið að halda áfram með heimasíðuna og aðlaga hana að breyttu hlutverki sambandsins.
Fimm kúabú verðlaunuð fyrir góðan rekstur
Á aðalfundi Félags kúabænda á Suðurlandi á Hellu á mánudaginn fengu fimm kúabú viðurkenningu frá Búnaðarsambandi Suðurlands og Auðhumlu fyrir frábæran rekstur og bústjórn á búum sínum. Til grundvallar voru lagðar rekstrartölur áranna 2010 og 2011 samkvæmt bústjórnarverkefninu SUNNA en það er verkefni sem rúmlega 60 sunnlensk kúabú taka þátt í árlega og hefur verið samvinnuverkefni Búnaðarsambands Suðurlands og viðkomandi búa.
Námskeið í jörð.is
Við vekjum athygli á námskeiði í jörð.is sem boðið verður upp á dagana 6.-8. febrúar n.k. á þremur stöðum hér á Suðurlandi. Námskeiðið er einkum ætlað bændum, en er þó öðrum opið. Hámark þátttakanda er 12. Námskeiðið verður kennt í kennslustofum með nettengingu. Nemendur mæta með sínar eigin fartölvur, þeir sem geta, aðrir fá lánaðar tölvur á staðnum.
Dalbær í Hrunamannahreppi afurðahæsta kúabú Suðurlands 2012
Eins og við sögðum frá í gær er ársuppgjöri skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir árið 2012 nú lokið. Að venju höfum við tekið saman lista yfir afurðahæstu búin og kýrnar á Suðurlandi. Eins og undanfarin ár er sá háttur hafður á að búunum er raðað eftir kg verðefna þar sem afurðir eftir árskú og efnainnihald innleggsmjólkur er lagt til grundvallar.
Afurðahæsta búið að þessu sinni er Dalbær í Hrunamannahreppi þar sem meðalafurðir ársins reyndust vera 565 kg MFP eftir árskú og 7.525 kg mjólkur. Í öðru sæti Kirkjulækur í Fljótshlíð með nánast sömu afurðir í verðefnum eða 564 kg MFP eftir árskú og 7.454 kg mjólkur. Þriðja sætinu hampar Reykjahlíð á Skeiðum með 560 kg MFP eftir árskú og 7.492 kg mjólkur. Fjórða sætið skipar svo afurðahæsta bú síðasta árs og handhafi Íslandsmetsins, Hraunkot í Landbroti með 558 kg MFP eftir árskú og mestar afurðir í kg mjólkur eða 7.577 kg. Eins og sjá má er í raun aðeins sjónarmunur milli þessara búa.
Afurðir jukust um 170 kg/árskú milli ára
Nú er lokið ársuppgjöri í skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar fyrir árið 2012. Niðurstöður eru þær helstar að 22.879,0 árskýr mjólkuðu að meðaltali 5.606 kg á árinu og er það afurðaaukning um 170 kg/árskú frá árinu áður. Þetta eru jafnframt mestu meðalafurðir sem náðst hafa á einu almanaksári til þessa.
Hæsta meðalnytin á á árinu var á búi Guðmundar og Svanborgar í Miðdal í Kjós, 8.086 kg á árskú. Næst á eftir var bú Jóns og Hrefnu á Hóli í Sæmundarhlíð í Skagafirði, þar reiknaðist meðalnytin 8.058 kg eftir árskú. Þriðja búið í röðinni var bú Helga Bjarna Steinssonar á Syðri-Bægisá í Öxnadal en meðalnytin þar var 7.599 kg á árskú.
Frumbýlingastyrkir í sauðfjárrækt
Við vekjum athygli á því að auglýst hefur verið eftir umsóknum um frumbýlingastyrki í sauðfjárrækt fyrir árið 2013. Úmsóknarfrestur er til 1. mars 2013.
Samkvæmt samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar skal árlega verja fjármunum til nýliðunar í stétt sauðfjárbænda, í formi styrkja til bústofnskaupa, bæði til frumbýlinga og við ættliðaskipti á bújörðum. Fjármunirnir eru hluti af liðnum “Nýliðunar- og átaksverkefni” í samningnum og miðast við 43,75% af fjárhæð hans eins og hún er hverju sinni.
Sigurgeir Sindri gefur kost á sér sem formaður BÍ
Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, sauðfjárbóndi í Bakkakoti í Stafholtstungum, hefur ákveðið að gefa kost á sér sem formaður Bændasamtaka Íslands en nýr formaður verður kosinn á komandi búnaðarþingi í byrjun mars. Þá mun Haraldur Benediktsson láta af formennsku eftir níu ára setu. Sindri er fyrrum formaður Landssamtaka sauðfjárbænda og hefur setið á búnaðarþingi síðustu tólf ár.
Að sögn Sigurgeirs Sindra er ákvörðunin tekin vegna þess að hann hafi mikla trú á íslenskum landbúnaði og möguleikum hans. „Það hafa margir haft samband við mig og hvatt mig til framboðs, eftir að í ljós kom að Haraldur hygðist láta af formennsku. Það eru bændur alls staðar af landinu, úr mörgum búgreinum. Ég er þakklátur fyrir þann stuðning og með hann í farteskinu ákvað ég að láta slag standa. Íslenskur landbúnaður býr yfir geysilegum möguleikum og ég hef mikla trú á honum. Þetta er bara spurning um að nýta tækifærin, sem hafa kannski aldrei verið jafn mörg. Það er ljóst að það þarf að auka matvælaframleiðslu á heimsvísu og við höfum mikla möguleika á því.“, er haft eftir Sigurgeiri Sindra á bbl.is.
Haraldur Benediktsson hættir sem formaður BÍ
Haraldur Benediktsson hefur ákveðið að hætta sem formaður Bændasamtaka Íslands á komandi búnaðarþingi, sem sett verður 3. mars næstkomandi. Ástæðan er sú að Haraldur mun sitja í öðru sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi í komandi Alþingiskosningum. Það er því ljóst að nýr formaður Bændasamtakanna verður kjörinn á búnaðarþingi.
Sala á kjöti jókst um 7% á síðasta ári
Á síðasta ári varð 1.600 tonna eða 7% aukning í sölu kjöts miðað við árið áður og er innflutt kjöt ekki talið með í þeim tölum. Markaðshlutdeild einstakra kjöttegunda árið 2012 var þannig að alifuglakjöt er í 1. sæti sem fyrr (31,4%), kindakjöt í 2. sæti (26,8%), svínakjöt í þriðja (22,6%), svo nautakjöt (16,5%) og loks hrossakjöt (2,7%). Allar ofangreindar tölur miðast eingöngu við innanlandssölu.
Ef litið er nánar á framleiðslu nauta- og kindakjöts þá voru framleidd hér á landi 4.112 tonn af nautakjöti sem er meira en dæmi eru um á einu almanaksári. Nautakjötssalan nam nánast sama magni eða 4.110 tonnum, sem einnig er met. Þetta er 6,6% aukning í framleiðslu og sölu frá árinu áður. Innflutningur nautgripakjöts fyrstu 11 mánuði ársins 2012 var 194 tonn og er það innan við helmingur þess sem var flutt inn á sama tímabili 2011.
Rekstur Ístex gekk vel á síðasta ári
Aðalfundur Ístex hf. fyrir árið 2012 var haldinn sl. föstudag. Þar kom fram að rekstur félagsins gekk vel á síðasta ári en 77 milljóna króna hagnaður var á árinu samanborið við 60 milljónir árið 2011. Rekstur Ístex hefur gengið vel á undanförnum árum en góður árangur hefur náðist á erlendum mörkuðum. Á síðasta ári var einnig vöxtur á innanlandsmarkaði, þó mun minni en á erlendum mörkuðum. Heildartekjur félagsins jukust um rúm 10% milli ára. Skuldir lækkuðu jafnframt um 74 milljónir króna, bæði vegna niðurgreiðslu í ljósi góðrar afkomu og leiðréttinga lána. Heildarskuldir hafa lækkað um nær 180 milljónir króna á síðustu árum.