Búnaðarþing 2013

Nú styttist óðum í að búnaðarþingsfulltrúar okkar Sunnlendinga þurfa að skila inn málum fyrir næsta búnaðarþing. Nú er lag að heyra frá grasrótinni ef þið hafið mál sem þið viljið að tekin verða upp á þeim vetvangi. Vinsamlegast sendið erindi fyrir lok desember á skrifstofu BSSL að Austurvegi 1 á Selfossi eða á netfangið bssl@bssl.is merkt „Búnaðarþing 2013“. Einnig er velkomið að hafa samband við einhvern af fulltrúunum.

Breytingar á stjórn Félags kúabænda á Suðurlandi

Þórir Jónsson formaður Félags kúabænda á Suðurlandi hefur látið af störfum  sem formaður félagsins af heilsufarsástæðum. Ritari félagsins og varaformaður, Samúel U. Eyjólfsson í Bryðjuholti, mun gegna störfum formanns fram að aðalfundi félagsins sem haldinn verður væntanlega í lok janúar nk. en þá verður  kosinn nýr formaður.

Lífland hækkar verð á kjarnfóðri um 1,5-4%

Lífland hefur tilkynnt um hækkun á kjarnfóðri sem taka mun gildi á morgun, 4. desember 2012. Hækkunin er á bilinu 1,5-4%, mismunandi eftir tegundum. Ástæða hækkunarinnar er samkvæmt tilkynningu fyrirtækisins hækkun á verði nokkurra helstu hrávara og að íslenska krónan hafi veikst nokkuð á sama tíma.

Landsmarkaskrá komin á vefinn

Landsmarkaskrá er kominn á vefinn á slóðinni www.landsmarkaskra.is. Hún inniheldur um 14.700 mörk að frostmörkum meðtöldum. Auk markanna er ýmiss konar annar fróðleikur í skránni varðandi fjallskil og notkun marka, þar með um liti plötumerkja að ógleymdum öllum bæjarnúmerum í landinu.
Óhætt er að hrósa þessu löngu tímabæra framtaki því nú á tímum snjallsíma og spjaldtölva eru menn nettengdir nánast hvar sem og er og af hverju ekki í réttum þar sem ekki hvað síst er flett upp á mörkum.

Litir á eyrnamerkjum sauðfjár og geita breytast um næstu áramót

Um næstu áramót ganga í gildi nýjar reglur um litamerkingar sauðfjár og geita sem rétt er að menn hafi í huga. Þetta mun snerta sauðfjárbændur hér á Suðurlandi verulega en litir eyrnamerkja hér munu taka verulegum breytingum.

– Í Húnahólfi verður notaður gulur litur, var áður brúnn.
– Í Suðausturlandshólfi austan Hornafjarðarfljóts verður notaður gulur litur, var áður blár.
– Í Eyjafjalla- og Vestur-Skaftafellssýsluhólfi verður hvítur litur milli Markarfljóts og Jökulsár á Sólheimasandi, var áður grænn.
– Í Grímsnes- og Laugardalshólfi verður fjólublár litur var áður blár.
– Í Biskupstungnahólfi verður grænn litur var áður blár.
– Syðst í Norðausturlandshólfi í Jökulsárhlíð og Jökuldal norðan Jökulsár að undanskildum Möðrudal verður gulur litur, en þar var fjólublár litur.

Hugið að aldri og skráningu nautgripa fyrir slátrun

Matvælastofnun hefur birt á heimasíðu sinni ábendingu til bænda um að gæta að aldursmörkum nautgripa varðandi kjötmat. Einkum á þetta við um ungneytakjöt, þ.e. af nautum, uxum og kvígum á aldrinum 12-30 mánaða, en einnig um kýr.
Í ábendingunni er minnt á að samkvæmt kjötmatsreglugerðinni (nr. 882/2010) flokkast naut og uxar, eldri en 30 mánaða, sem bolakjöt (merktir Vinnslukjöt N) og kvígur sem kýr (KI U: vel holdfylltir skrokkar af 30-48 mánaða gömlum kúm eða í K-flokka eftir holdfyllingu og fitu).

Opið hús hjá Fóðurblöndunni

Fóðurblandan verður með opið hús í verslunum sínum á Selfossi miðvikudaginn 28 nóvember og Hvolsvelli fimmtudaginn 29 nóvember. Opið verður til 21:30 báða dagana og boðið verður upp á léttar veitingar og skemmtilega stund.
Meðal annars munu Chris King sérfræðingur í landbúnaðarvörum frá Rumenco og Nettex og Erlendur Jóhannsson fóðurfræðingur Fóðurblöndunnar veita fóðurráðgjöf. Bændur eru hvattir til að hafa niðurstöður heysýna meðferðis.

Neytendasamtökin sökuð um að brjóta trúnað

Neytendasamtökin voru sökuð um að brjóta trúnað á Alþingi í dag en þau birtu í gær frétt um að fulltrúar bænda hefðu gengið út af fundi starfshóps sem er að móta samningsafstöðu Íslands í aðildarviðræðum við ESB um landbúnaðarmál. Neytendasamtökin hafa sent frá yfirlýsingu vegna þessa þar sem segir:„Neytendasamtökin rufu ekki trúnað því frétt þessa efnis birtist á vef Evrópuvaktarinnar nú á þriðjudaginn og því voru þessi mótmæli þegar orðin opinber. Alþingismenn verða að kynna sér málin betur áður en þeir fara fram með tilhæfulausar ásakanir.“

Breytingar á sauðfjársamningi samþykktar af sauðfjárbændum

Tilkynnt hefur verið um niðurstöður í almennri kosningu meðal sauðfjárbænda um breytingar á samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktarinnar. Á kjörskrá voru 2.755, greidd atkvæði voru 891 og var þátttaka í atkvæðagreiðslunni því 32,3%. Atkvæði féllu þannig: Já sögðu 812, eða 91,1%. Nei sögðu 60, eða 6,7%. Auðir seðlar voru 19, eða 2,1%.

Breytingar á mjólkursamningi samþykktar af kúabændum

Tilkynnt hefur verið um niðurstöður í almennri kosningu meðal kúabænda um breytingar á samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar. Á kjörskrá voru 1.229, greidd atkvæði voru 443 og var þátttaka í atkvæðagreiðslunni því 36%. Atkvæði féllu þannig: Já sögðu 386, eða 87,1%. Nei sögðu 49, eða 11,1%. Auðir seðlar voru 8, eða 1,8%.

Ullarskráning opin á ný

Ístex hefur opnað fyrir ullarskráningu á vef sínum að nýju. Fyrirtækið biður bændur velvirðingar á því að ekki hafi verið hægt að skrá ullarinnlegg á vef fyrirtækisins. Ástæðan er m.a. að ekki hafa náðst samningar við Bændasamtökin um óbreytt fyrirkomulag á ullarsöfnun. Þá er einnig ljóst að breytingar verða á fyrirkomulagi ullarniðurgreiðslna sem mun leiða til breytingar á uppgjöri vegna ullarviðskipta.

Fulltrúar bænda gengu út af fundi starfshópsins

Nýlega gengu fulltrúar bænda út af fundi starfshóps sem er að móta samningsafstöðu Íslands í aðildarviðræðum við ESB um landbúnaðarmál. Ástæðan er sú að formaður starfshópsins upplýsti að í samningsafstöðu Íslands verði ekki krafist áframhaldandi tollverndar fyrir landbúnaðarvörur frá ESB-löndum. Þetta kemur fram í frétt á vef Neytendasamtakanna.
„Það er öllum ljóst sem hafa tekið hafa þátt í þessari vinnu að krafa um áframhaldandi tollvernd landbúnaðarvara er með öllu óraunhæf. Finnar settu þetta inn í kröfugerð á sínum tíma en ekki kom til greina af hálfu ESB að fallast á þá kröfu þar sem hún gengur gegn grundvallarhugmyndum um tollabandalag ESB. Finnum var hinsvegar heimilað að styrkja landbúnað sem stundaður er norðan 62. breiddargráðu með eigin framlögum, auk stuðnings úr landbúnaðarsjóði ESB. Minnt er á að Ísland liggur allt norðan þessarar breiddargráðu,“ segir í fréttinni.

Fundur um korn og repjurækt föstudaginn 23. nóv. nk.

Kornræktarfélag Suðurlands boðar til fundar um korn og repjurækt föstudaginn 23. nóvember n.k. kl.13.30 á Hótel Hvolsvelli. Á fundinum mun Jónatan Hermannsson, tilraunastjóri hjá LbhÍ, fjalla um korn og repjurækt á Suðurlandi, Ólafur Reykdal, verkefnastjóri hjá Matís, ræðir um gæði matkorns og Yngvi Eiríksson, rekstrarverkfræðingur hjá Verkfræðistofunni Mannvit, segir frá hagkvæmnisathugun á þurrkstöð fyrir korn á Suðurlandi.

Haustfundir sauðfjárræktarinnar á morgun og fimmtudag

Við minnum á hina árlegu haustfundi sauðfjárræktarinnar sem verða haldnir á morgun og fimmtudaginn, 21. og 22. nóvember nk. Á morgun verður fundað á á Hótel Smyrlabjörgum í Suðursveit kl. 13:30 og Hótel Kirkjubæjarklaustri kl. 20:00 .
Fimmtudaginn 22. nóvember verður svo fundað á Hótel Hvolsvelli kl. 14:30 og í félagsheimilinu Þingborg kl. 20:00.
Á fundunum verður farið yfir hauststörfin, hrútakostur Sauðfjársæðingastöðvar Suðurlands kynntur og farið yfir starfsemi stöðvarinnar. Endað verður á verðlaunaveitingum hrúta eftir kaffihlé.

Fræðslufundum um frjósemi og ræktun frestað

Því miður varð að fresta fræðslufundum um frjósemi og ræktun nautgripa sem vera áttu í gær á Klaustri og Hornafirði. Það sama er uppi á teningnum með fundinn sem vera átti á Hvolsvelli í dag. Nýr fundartími verður auglýstur síðar.

Minnum á breytingar á sæðingasvæðum frjótækna

Við minnum á breytingar sem verða á svæðaskiptingu frjótækna og taka gildi frá og með morgundeginum, 20. nóvember 2012. Svæði Smára Tómassonar minnkar um Álftaver í austri en stækkar um Austur-Landeyjar í vestri. Hermann Árnason mun sjá um sæðingar í vesturhluta Rangárvallasýslu, þ.e. frá V-Landeyjum í austri, ásamt þeim hluta Flóa sem tilheyrði Villingaholtshreppi fyrrum. Bragi Ágústsson verður áfram með Flóann, utan fyrrum Villingaholtshr., og við hans svæði bætast Skeiðin, Biskupstungur neðan Hvítarbrú v/Bræðratungu og Laugardalur. Grímsnes og Ölfus munu áfram tilheyra svæði Braga. Úlfhéðinn Sigurmundsson mun sinna sæðingum í fyrrum Gnúpverjahreppi, Hrunamannahreppi og Biskupstungum ofan Hvítarbrúar v/Bræðratungu. Guðmundur Jón Skúlason verður á bakvakt, staðsettur í Fljótshólum og mun sjá um sæðingar á bæjum í nágrenninu.

Neysla kindakjöts á hvern íbúa í fyrra sú minnsta frá 1983

Neysla á kindakjöti hér á landi var að jafnaði 18,8 kíló á hvern íbúa árið 2011, en það er minnsta neysla frá því að Hagstofan hóf að safna slíkum gögnum árið 1983. Til samanburðar var neysla á kindakjöti 45,3 kíló á hvern íbúa árið 1987. Árið 2007 varð neysla alifuglakjöts í fyrsta sinn meiri en neysla kindakjöts. Í fyrra var neysla á alifuglakjöti að meðaltali 24,2 kíló á hvern íbúa.
Þessar upplýsingar má finna í Landshögum 2012, hagtöluárbók Hagstofu Íslands, sem kemur út í dag, mánudaginn 19. nóvember. Landshagir eru lykilrit um opinbera hagskýrslugerð á Íslandi og er yfirlit tölulegra upplýsinga um flesta þætti efnahags- og félagsmála.

Hrútaskráin nýtur gríðarlegra vinsælda

Hrútaskráin 2012-2013 kom út s.l. miðvikudag og er óhætt að segja að hennar hafi verið beðið með óþreyju. „Línurnar hafa verið rauðglóandi hjá okkur í allan dag og ekkert lát á, ég hef aldrei kynnst öðru eins, það eru allir að spyrja um Hrútaskrána 2012-2013″, sem var að koma úr prentsmiðjunni og ég var að sækja til Prentmets Suðurlands“, sagði Jóna Þórunn Ragnarsdóttir, ráðunautur hjá Búnaðarsambandinu, í samtali við dfs.is á miðvikudaginn.
Í gærkvöldi var síðan umfjöllun um útgáfu hrútaskráarinnar í fréttum Stöðvar 2. Þar kom m.a. fram hvað ritið er vinsæælt hjá sauðfjárbændum og öðrum áhugamönnum um sauðfjárrækt.

Íslenska sauðkindin heiðruð á Flúðum í dag

Flúðaskóli ætlar að heiðra íslensku sauðkindina í dag, á degi íslenskrar tungu, föstudaginn 16. nóvember. Þá verður opið hús í skólanum frá 12.30 – 14:00 þar sem boðið verður upp á kjötsúpu og atriði tengd sauðkindinni, auk þess sem verk nemenda munu vera til sýnis. Allir hjartanlega velkomnir.

Kókómjólk valin besta ferska mjólkurvaran á Norðurlöndum

Kókómjólk frá Mjólkursamsölunni var valin besta ferska mjólkurvaran á Norðurlöndum á fagsýningu norrænna mjólkursamlaga sem haldin er í Herning. Þetta er í fyrsta skiptið sem verðlaunin falla öðrum en Dönum í skaut. Guðmundur Geir Gunnarsson, mjólkurbússtjóri MS á Selfossi, veitti viðurkenningunni móttöku úr hendi Jóakims Danaprins. Mjólkurbú hvaðanæva af Norðurlöndum taka þátt og er þetta í fyrsta sinn sem mjólkurbú utan Danmerkur vinnur þessi verðlaun.

back to top