Kókómjólk valin besta ferska mjólkurvaran á Norðurlöndum

Kókómjólk frá Mjólkursamsölunni var valin besta ferska mjólkurvaran á Norðurlöndum á fagsýningu norrænna mjólkursamlaga sem haldin er í Herning. Þetta er í fyrsta skiptið sem verðlaunin falla öðrum en Dönum í skaut. Guðmundur Geir Gunnarsson, mjólkurbússtjóri MS á Selfossi, veitti viðurkenningunni móttöku úr hendi Jóakims Danaprins. Mjólkurbú hvaðanæva af Norðurlöndum taka þátt og er þetta í fyrsta sinn sem mjólkurbú utan Danmerkur vinnur þessi verðlaun.

MAST leggur til niðurskurð vegna smitandi barkabólgu

Matvælastofnun hefur sent atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu tillögu að aðgerðum sem í grundvallaratriðum byggist á að öllum gripum sem greinst hafa með smitandi barkabólgu verði slátrað en ákvörðun um frekari niðurskurð verði tekin á grundvelli niðurstaðna þeirra rannsókna sem nú standa yfir. Samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma, nr. 25/1993, er í höndum ráðherra að fyrirskipa ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að útrýma eða hindra útbreiðslu dýrasjúkdóma, að fengnum tillögum Matvælastofnunar.

Ullarskráning hjá ÍSTEX lokuð

Ullarskráning hjá Ístex er lokuð tímabundið vegna þess að verið er að ganga frá verklagsreglum um ullarnýtingargreiðslur skv. sauðfjársamningi. Nýr ullarkaupandi hefur boðað að hann vilji kaupa ull af bændum nú í vetur og útfæra þarf hvernig ullarnýtingargreiðslur berast bændum í ljósi þeirra breyttu aðstæðna. Af þeim sökum hefur ekki verið hægt að gefa út nýtt ullarverð og þ.a.l. sér Ístex sér ekki fært að opna fyrir skráningu.

Mesti fallþungi í yfir 100 ár

Meðalþyngd dilka hjá SS í ár er 16,33 kg og hefur aldrei verið hærri í 105 ára sögu SS. Sömu sögu er að segja frá Norðlenska en þar var meðalviktin 16,28 kg og hefur aldrei verið hærri í sögu félagsins.
Þyngsti dilkurinn sem lagður var inn hjá SS þetta árið kom frá Eiríki Jónssyni í Gýgjarhólskoti í Bláskógabyggð. Vóg hann 33,3 kg. Hann átti einnig næstþyngsta dilkinn, sem vóg 32,9 kg. Þess má geta að af 10 þyngstu dilkunum voru sjö frá Eiríki.

Afurðir enn á uppleið

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar við lok október 2012, hafa verið reiknaðar og birtar á vef Bændasamtakanna. Þegar yfirlitið var búið til, á miðnætti hinn 11. nóvember, höfðu borist skýrslur frá 93% þeirra 594 búa sem skráð eru í skýrsluhaldið. Helstu niðurstöður eru þær að 21.427,9 árskýr mjólkuðu að meðaltali 5.638 kg sl. 12 mánuði, sem er 20 kg hærri nyt en reiknaðist í síðasta uppgjöri.
Hæsta meðalnytin á því 12 mánaða tímabili sem lauk um síðustu mánaðamót, við lok október, var á búi Guðmundar og Svanborgar í Miðdal í Kjós, 7.889 kg á árskú og er það sama búið og var efst á listanum fyrir mánuði síðan. Næst á eftir kom bú Jóns og Hrefnu á Hóli í Sæmundarhlíð í Skagafirði, þar reiknaðist meðalnytin 7.807 kg eftir árskú. Þriðja búið í röðinni var bú Guðlaugar og Eybergs á Hraunhálsi í Helgafellssveit á Snæfellsnesi en meðalnytin þar var 7.711 kg á árskú. Búin nr. 2 og 3 í röðinni höfðu skipt um sæti frá síðasta uppgjöri. Þessi sömu bú hafa verið í þrem efstu sætunum sl. þrjá mánuði, röðin þó ekki alltaf hin sama.

Breytingar á svæðaskipulagi frjótækna

Nú hefur fastráðnum frjótæknum fækkað niður í fjóra og þar með breytast sæðingasvæðin í samræmi við það. Breytingin tekur gildi þann 20. nóvember n.k. Svæði Smára Tómassonar minnkar um Álftaver í austri en stækkar um Austur-Landeyjar í vestri. Hermann Árnason mun sjá um sæðingar í vesturhluta Rangárvallasýslu, þ.e. frá V-Landeyjum í austri, ásamt þeim hluta Flóa sem tilheyrði Villingaholtshreppi fyrrum. Bragi Ágústsson verður áfram með hluta Flóans tekur Skeiðin, hluta Biskupstungna, Laugardal, Grímsnes og Ölfus.

Mjólkurbú og mjólkurbændur

Nýverið kom á forsíðu nautgriparæktarkerfisns Huppu beiðni til kúabænda um þátttöku í könnun varðandi rekstur mjólkurbúa. Sérkennileg beiðni þar sem mjög fáir kúabændur koma að rekstri mjólkurbúa. Þeir reka hins vegar allir kúabú og því vel í stakk búnir til þess að taka þátt í könnun um rekstur þeirra.

Bjarni Einarsson frá Hæli lætur af störfum sem frjótæknir

Bjarni Einarsson frjótæknir, lét af störfum sem frjótæknir þann 1. nóvember s.l. Hann hóf störf við kúasæðingar árið 1967 og starfaði því í 45 ár hjá Kynbótastöð Suðurlands. Sæðingar sem Bjarni hefur framkvæmt eru því komnar vel á annað hundrað þúsund. Við störfum Bjarna tekur Úlfhéðinn Sigurmundsson í Haga.

Hrútaskráin 2012-2013 komin á vefinn

Hrútaskrá sauðfjársæðingastöðvanna fyrir 2012-2013 er komin á vefinn hjá okkur. Hún er á pdf-formi sem er hentugt til skoðunar sem og útprentunar. Hægt er að hlaða henni niður í heild sinni eða í tveimur pörtum, þ.e. annars vegar með þeim hrútum sem verða á Sauðfjársræðingastöð Suðurlands í vetur og hins vegar þeim sem verða á Sauðfjársæðingastöð Vesturlands.
Þá eru þeir hrútar sem verða á Suðurlandi í vetur birtir á töfluformi þar sem hægt er að raða þeim eftir nafni, númeri og kynbótamati. Þar er enn fremur hægt að sjá nánari upplýsingar um hvern hrút með því að smella á nafnið.

Haustfundir sauðfjárræktarinnar 2012

Hinir árlegu haustfundir sauðfjárræktarinnar verða haldnir 21. og 22. nóvember nk. Fundað verður á eftirtöldum stöðum:
Miðvikudaginn 21. nóvember:
Hótel Smyrlabjörg Suðursveit ………. kl. 13:30
Hótel Klaustur Kirkjubæjarklaustri …. kl. 20:00

Fimmtudaginn 22. nóvember:
Hótel Hvolsvöllur Hvolsvelli …………. kl. 14:30
Félagsheimilið Þingborg …………….. kl. 20:00

Niðurstöður afkvæmarannsókna fyrir sauðfjársæðingastöðvarnar 2012

Búið er að taka saman yfirlit um niðurstöður afkvæmarannsókna sem unnar voru vegna sauðfjársæðingastöðvanna haustið 2012. Um er að ræða niðurstöður afkvæmarannsókna sem framkvæmdar voru á Hjarðarfelli á Snæfellsnesi, á báðum búunum á Heydalsá, Hagalandi og Svalbarði í Þistilfirði, Ytri-Skógum undir Eyjafjöllum og á Hesti.

Ný heimasíða Fóðurblöndunnar

Fóðurblandan hefur sett nýja og endurbætta í loftið. Á nýju síðunni er lögð aukin áhersla á netverslun og verður kappkostað að veita sem bestar upplýsingar um þær fjöldamörgu vörur til búrekstrar sem Fóðurblandan hefur á boðstólnum að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Verð á greiðslumarki hækkaði um 5 kr/lítra

Við opnun tilboða um kaup og sölu á greiðslumarki mjólkur þann 1. nóvember 2012 kom fram jafnvægisverð á markaði, 305 kr. fyrir hvern lítra mjólkur. Alls bárust Matvælastofnun 61 tilboð um kaup eða sölu á greiðslumarki. Alls voru boðnir 1.105.739 lítrar til sölu en kauptilboð bárust í 1.480.279 lítra. Viðskipti urðu með 1.095.739 lítra og fengu 47 aðilar keypt greiðslumark af 14 söluaðilum. Kauphlutfall viðskipta er 79,96%.

Heykögglun

Þar sem kögglunarsamstæða Stefáns Þórðarsonar í Teigi í Eyjafjarðarsveit  (Fóðurvinnslan ehf) er af sérstökum ástæðum á ferð hér sunnan heiða, var ákveðið að láta það berast til sunnlenskra bænda og annarra, sem kynnu að eiga eitthvað af þurru heyi eða hálmi, sem þeir hefðu áhuga á að láta vinna í köggla.

Niðurstöður úr skoðun á sonum sæðingastöðvahrútanna 2012

Búið er að taka saman niðurstöður úr skoðun á sonum sæðingastöðvahrútanna á landinu öllu fyrir haustið 2012. Í heild hefur lambahópurinn aldrei verið betri en nú, lömbin eru að jafnaði kílói þyngri en fyrir ári síðan og bakvöðvamæling hefur einnig aldrei verið meiri en í haust, líkt og tölurnar segja til um.

Samþykkt að sameina ráðgjafastarfsemi BÍ og búnaðarsambandanna

Aukabúnaðarþing 2012 samþykkti nú fyrir skömmu að stofna skuli félag um leiðbeiningaþjónustu bænda. Mikil samstaða var um stofnun félagsins en alls voru 41 búnaðarþingsfulltrúi því samþykkur. Engin mótatkvæði voru greidd. Stefnt er að því að nýtt fyrirtæki taki til starfa um komandi áramót.
Á síðasta búnaðarþingi var samþykkt ályktun þar sem sagði að stefnt skyldi að því að sameina ráðgjafarþjónustu búnaðarsambanda og Bændasamtaka Íslands í eina rekstrareiningu. Sú ályktun var niðurstaða vinnu milliþinganefndar sem skipuð var á búnaðarþingi 2011 en sú nefnd fékk meðal annars danska ráðgjafan Ole Kristensen til að gera úttekt og vinna tillögu að nýju skipulagi slíks félags. Í framhaldi af því var skipaður starfshópur og ráðinn verkefnisstjóri til að útfæra tillögurnar enn frekar. Þær tillögur voru lagðar til grundvallar starfi auka búnaðarþings sem starfaði í dag.

Ekkert nýtt smit hefur fundist

Matvælastofnun vinnur enn að rannsóknum á útbreiðslu og mögulegum smitleiðum smitandi barkabólgu í kúm, í samvinnu við Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum, Landssamband kúabænda og viðkomandi búfjáreigendur. Ekkert nýtt smit hefur fundist.
Sýni frá 615 kúabúum af öllu landinu voru send út til rannsóknar í vikunni. Nú hafa 396 þeirra verið rannsökuð og ekki fundust mótefni gegn nautgripaherpesveiru í neinu þeirra.

Bónda dæmdar bætur í júlí án þess að greiðsla hafi enn borist frá ríkinu

Í byrjun júlí á þessu ári féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Sigurðar Hauks Jónssonar og Fjólu Helgadóttur, bænda á Skollagróf í Hrunamannahreppi, gegn ríkinu. Þar voru þeim hjónum dæmdar tæpar fjórtán milljónir í bætur vegna riðuniðurskurðar auk dráttarvaxta og 600 þúsund króna málskostnaðar.
Haustið 2007 kom upp riða í sauðfé í Skollagróf og í kjölfarið var allur fjárstofn búsins skorinn niður. Matsnefnd eignarnámsbóta úrskurðaði í mars 2010 að það ætti að greiða þeim tæpar þrettán milljónir en ríkið féllst ekki á úrskurðinn og ákvað einhliða að greiða bændunum rúmar fjórar milljónir. Þau voru ekki sátt við þær lyktir og stefndu því ríkinu.

Stuðningur BNA við landbúnað langtum meiri en ESB

Sú staðhæfing að landbúnaður í Bandaríkjunum sé rekinn með litlum opinberum stuðningi er bábilja sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. Þetta er niðurstaða Momagri (Movement for a world agricultural organization), samtaka sérfræðinga sem láta sig landbúnað varða. Samtökin hafa hannað greiningarmódel sem nefnist SGPA (Global Support to Agricultural Production) til þess að bera saman stærðir og ólík form á stuðningi við landbúnað milli landa.
Samkvæmt niðurstöðum Momagri er stuðningur við landbúnað í Bandaríkjunum hátt í þrisvar sinnum hærri á íbúa en í Evrópu. Þannig nam stuðningurinn árið 2010 152 evrum (24.626 ISK) á íbúa í ESB meðan að sambærilega tala var 422 evrur (68.368 ISK) í BNA. Það að stuðningur við landbúnað í BNA sé næstum þrisvar sinnum meiri á hvern íbúa en í ESB hljómar ótrúlega miðað við það sem yfirleitt hefur verið haldið fram.

Veiruskita í kúm – hvetjum bændur til að taka þátt í rannsókn

Veiruskita hefur herjað á kýr að undanförnu hér á Suðurlandi. Veiruskita er mjög smitandi en ekki er vitað með vissu um hvaða veiru er að ræða. Veikin gengur yfir í sveitum með nokkurra ára millibili. Þegar hún berst í fjós smitast flestar kýr sem ekki hafa smitast áður. Sjúkdómurinn er ekki hættulegur fólki og hefur ekki áhrif á neysluhæfni afurða.
Í þessu sambandi er minnt á rannsóknarverkefni á vegum Matvælastofnunar og Tilraunastöðvarinnar Háskóla Íslands á Keldum sem miðar að því að varpa ljósi á faraldsfræði veikinnar og hvaða veira veldur henni. Til að sú rannsókn skili sem bestum árangri er mikilvægt að fá upplýsingar um þróun sjúkdómsins frá sem flestum búum. Þeir bændur sem hafa lent í að fá veikina í fjósið hjá sér eru beðnir að fylla út eyðublað sem er að finna á vef Matvælastofnunar, sjá hlekk hér neðar.

back to top