Formannafundur Stóra Ármóti

Boðað hefur verið til formannafundar Búnaðarsambands Suðurlands að Stóra Ármóti föstudaginn 26. október kl. 13:30. Efni fundarins endurskoðun leiðbeiningaþjónustu í landbúnaði.
Á Búnaðarþingi var samþykkt tillaga um að endurskoða leiðbeiningaþjónustu í landinu. Þar kemur m.a fram að sameina skuli ráðgjafarstarfsemi búnaðarsambanda og Bændasamtaka Íslands í eina rekstrareiningu og að breytingarnar eigi að taka gildi um næstu áramót. Í kjölfar þess var myndaður stýrihópur sem réð Ágúst Þorbjörnsson ráðgjafa og verkefnisstjóra. Tillögur hans lágu fyrir í lok september og hafa verið til umræðu og útfærslu síðan.

Tekist á um innflutning lifandi dýra

Þessa dagana gætir vaxandi titrings vegna mótunar á samningsafstöðu Íslands gagnvart ESB varðandi landbúnað og matvælaöryggi. Utanríkismálanefnd hefur ekki náð samstöðu um að setja fram kröfu gagnvart Evrópusambandinu um að ekki verði heimilað að flytja inn lifandi dýr til landsins. Bændur óttast líka að ekki verði gerð krafa um tollvernd í aðildarviðræðunum við ESB. Stjórnvöld vinna nú mótun afstöðu um hvernig þau ætla að halda á landbúnaðarmálum gagnvart ESB. Forystumenn bænda finna vel fyrir því að það styttist í að menn þurfi að taka alvarlegar ákvarðanir. „Þetta er ekki lengur einhver samkvæmisleikur Samfylkingarinnar heldur standa menn frammi fyrir alvörunni,“ sagði Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, á haustfundi Landssambands kúabænda á Hvanneyri.

Erfðatækni, umhverfi og samfélag

Landbúnaðarháskóli Íslands stendur, í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Umhverfisstofnun og Matvælastofnun, fyrir námskeiðum á svið erfðatækni. Námskeið henta þeim sem vilja efla og dýpka þekkingu sína á erfðatækni á einn eða annan máta. Námskeiðin geta t.a.m. nýst vel þeim sem vinna við fjölmiðla, almenningsfræðslu, kennurum á mismunandi skólastigum, starfsfólki í heilbrigðisgeiranum, þeim sem vinna við landbúnað sem og þeim sem vinna við lyfja – og matvælaframleiðslu.

Rannsóknir á smitandi barkabólgu í nautgripum

Í gær bárust niðurstöður rannsókna á sýnum sem tekin voru samkvæmt fyrirmælum Matvælastofnunar á öllum kúabúum í Austurumdæmi, sem eru 40 talsins. Öll voru neikvæð að undanskildu endurteknu sýni frá Egilsstaðabúinu og sýni úr einum grip á bænum Fljótsbakka. Jafnframt bárust niðurstöður rannsókna á stroksýnum úr jákvæðum gripum á Egilsstaðabúinu, sem send voru til rannsóknar erlendis. Ekki tókst að einangra veiruna úr sýnunum.

Frá Degi sauðkindarinnar 13. október s.l.

Árlegur Dagur sauðkindarinnar var haldinn í Skeiðvangi á Hvolsvelli laugardaginn 13. október s.l. Að venju var fjölmenni og áhugi mikill fyrir því sem fram fór. Meðal dagskrár atriða voru, að efstu lamb- og veturgamlir hrútar úr heimasýningum voru boðaðir og dæmdir upp á nýtt og verðlaunaðir. Þá voru bestu gimbrarnar sem mættu stigaðar og dæmdar og keppt var um litfegursta lambið. Veitt voru verðlaun fyrir ræktunarbú ársins 2011, afurðahæstu 5. vetra ána og þyngsta dilkinn, það sem af var sláturtíðar. Þá var uppboð á nokkrum úrvalsgripum.

Næsti kvótamarkaður verður 1. nóv. n.k.

Við minnum á að næsti kvótamarkaður með greiðslumark í mjólk fer fram þann 1. nóvember 2012. Kaup- og sölutilboðum þarf að skila til Matvælastofnunar fyrir þann 25. október n.k.
Þeir sem hyggjast kaupa eða selja á greiðslumark ættu að kynna sér leiðbeiningar vel og athuga að útvega öll fylgigögn í tíma.

Hækkun sæðingagjalda

Sæðingagjöld hjá Kynbótastöð Suðurlands hækka um 400 kr. á kú á ársgrunni. Gjaldið var 1.600 kr á kú en hækkar í 2.000 kr á kú. Greitt er af kúafjölda samkvæmt forðagæsluskýrslum, óháð fjölda sæðinga pr. kú og sæðingar á kvígum fríar. Fyrir bú með 40 kýr er þetta hækkun úr 64 þúsundum á ári, í 80 þúsund á ári.

Samningsafstaða Íslands í landbúnaðar- og byggðamálum nánast tilbúin

Grunnurinn að samningsafstöðu Íslands í landbúnaðar- og byggðamálum vegna viðræðna við ESB er nánast tilbúinn, að sögn Steingríms J. Sigfússonar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Sama á við um kaflann um matvælaöryggi, en hann varðar m.a. innflutning á lifandi dýrum. „Þetta er í aðalatriðum tilbúið. Utanríkismálanefnd var að skoða einn af þessum köflum á dögunum,“ sagði Steingrímur. „Það mun ekkert standa á okkur með það.“, segir á mbl.is.
Evrópuvaktin sagði frá því á laugardag að fastafulltrúi Kýpur hefði greint sendiherra Íslands gagnvart ESB frá því að sambandið væri reiðubúið að ræða kafla 11 um landbúnaðar- og byggðamál og hefði óskað eftir samningsmarkmiðum Íslendinga.

Sauðfjárrækt í sátt við land og þjóð

Bændasamtök Íslands og Landssamtök sauðfjárbænda hafa í samvinnu látið gera stuttmynd til frekari skýringar á sjónarmiðum í tengslum við beitarmál o.fl. Kveikjan að gerð myndarinnar var mynd Herdísar Þorvaldsdóttur, „Fjallkonan hrópar…“, sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi, sunnudagskvöldið 14. október. Þar þótti bændum heldur vegið að íslensku sauðkindinni, umfjöllunin heldur einhliða og sjónarmiðum þeirra ekki gert hátt undir höfði.
Hér fyrir neðan er tenglar á myndina sem gerð var í tveimur útgáfum, styttri og lengri.

Kjarnfóður hefur hækkað gríðarlega á undanförnum árum

Um síðustu mánaðamót hækkuðu bæði Fóðurblandan og Lífland verð á kjarnfóðri. Búnaðarsamband Suðurlands hefur undanfarin ár fylgst með og tekið saman verðþróun á kjarnfóðri og birt á heimasíðunni. Þar er miðað við kjarnfóður með 16% próteininnihaldi þar sem aðalpróteingjafinn er fiskimjöl. Fóðurblandan hækkaði verð á þessari blöndu, Kúakögglum 16, um 7% og kostar tonnið nú kr. 91.109 með magn- og staðgreiðsluafslætti. Lífland hækkaði sambærilega blöndu (Góðnyt K-16, 16% prótein) um 8% og kostar tonnið nú kr. 92.772 með magn- og staðgreiðsluafslætti.
Fóðurblandan hefur birt nýjan verðlista á heimasíðu sinni en Lífland hefur ekki gert hið sama þrátt fyrir að bjóða upp á pöntun á heimasíðu sinni. Það hlýtur að teljast gagnrýnivert að bjóða upp á pöntun á vöru án þess að birta rétt verð hennar.

Engan bilug að finna á Blíðu 1151

Niðurstöður afurðaskýrslnanna í nautgriparæktinni við lok september 2012, hafa verið reiknaðar og birtar á nautgriparæktarsíðum bondi.is. Þegar yfirlitið var búið til höfðu borist skýrslur frá 93% þeirra 594 búa sem skráð eru í skýrsluhaldið.
Helstu niðurstöðurnar eru þær að 21.614,2 árskýr mjólkuðu að meðaltali 5.618 kg sl. 12 mánuði, sem er nánast sama niðurstaða og í síðasta uppgjöri, aðeins 15 kg lægri. Hæsta meðalnytin við lok september var í Miðdal í Kjós 7.815 kg eftir árskú. Næst á eftir kom búið á Hraunhálsi í Helgafellssveit á Snæfellsnesi en þar var nytin 7.766 kg og þriðja búið á listanum var að þessu sinni búið á Hóli í Sæmundarhllíð en þar voru meðalafurðirnar 7.762 kg eftir árskú.

Ályktun frá Félagi kúabænda á Suðurlandi

Á síðasta félagsráðsfundi Félags kúabænda á Suðurlandi sem haldinn var þann 3. október sl., var stjórn félagsins falið að koma á framfæri ályktun um tillögu að breytingu á löggjöf um tilraunastarf á Stóra-Ármóti. Ályktunin er eftirfarandi:

„Félag kúabænda á Suðurlandi varar við því að samstarf Landbúnaðarháskóla Íslands og Búnaðarsambands Suðurlands um tilraunabúið að Stóra-Ármóti sé stefnt í tvísýnu með drögum að lagabreytingum sem nú liggja fyrir og snerta mjög starfsemi LbhÍ. En þar er gert ráð fyrir að lögum um opinbera háskóla verði breytt þannig að LbHÍ verði hluti af þeim lögum eins og HÍ og HA hafa verið. Frá sama tíma verði felld út lög um búnaðarfræðslu, lög um tilraunastöðina á Stóra-Ármóti og kafli úr lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna.

Minnum á að panta lambaskoðun

Lambaskoðun og dómsstörf í sauðfjárræktinni hafa gengið vel í haust og margt afburða vel gerðra og fallegra gripa verið skoðað. Vöðvaþykkt og lærahold aukast stöðugt og er það vel. Nú viljum við biðja þá sem enn eiga eftir að panta lambaskoðun að gera slíkt hið fyrsta. Panta má lambaskoðun í netfangið saudfe@bssl.is eða í síma 480 1800.

Styrkir vegna nýliðunar í mjólkurframleiðslu

Bændasamtökin hafa auglýst eftir umsóknum um stuðning vegna nýliðunar í mjólkurframleiðslu, samkvæmt verklagsreglum sem kynntar voru með auglýsingu nr. 497/2012 í Stjórnartíðindum. Samkvæmt verklagsreglunum getur einstaklingur eða lögaðili sótt um framlög að fjárhæð allt að 5 milljónir króna við upphaf búskapar. Þeir aðilar sem hafa ekki áður verið skráðir handhafar beingreiðslna, með beinum eða óbeinum hætti, samkvæmt samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu á síðustu 8 árum, talið frá 1. janúar 2012, teljast nýliðar. Auk þess þarf viðkomandi að hafa ÍSAT-númer í búnaðargjaldsskyldri búgrein, opið vsk-númer, eiga eða leigja lögbýli og reikna sér endurgjald við reksturinn og taka þátt í gæðastýrðu skýrsluhaldi og uppfylla kröfur þess.

Sýnataka á öllum kúabúum landsins vegna smitandi barkabólgu

Landssamband kúabænda hefur óskað eftir samstarfi við Matvælastofnun um að farið verði í sýnatöku á öllum kúabúum landsins vegna sjúkdómsins smitandi barkabólgu sem greindist á Egilsstaðabúinu á Völlum í sýni sem tekið var við reglubundna skimun. Frá árinu 2007 hafa árlega verið tekin sýni frá u.þ.b. 80 búum á ári til rannsókna á nokkrum alvarlegum smitsjúkdómum, þar á meðal smitandi barkabólgu en öll sýni hafa hingað til verið neikvæð.

ESB hefur fallist á opnunarviðmið Íslands vegna landbúnaðarkafla

Evrópusambandið hefur fallist tillögu Íslands um með hvaða hætti opnunarviðmið landbúnaðarkafla aðildarviðræðna verða uppfyllt. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir að þar með sé ekkert því til fyrirstöðu að hefja viðræður við ESB um landbúnaðarmál. Þetta sagði Össur í umræðum um aðildarviðræður að ESB, en umræðan hófst að frumkvæði Ragnheiðar Elínar Árnadóttur alþingismanns.
„Það er alveg rétt að landbúnaðarkaflanum hefur seinkað, en ég hef aldrei ásakað neinn sérstaklega um það. Ég tel reyndar eftir á að hyggja að það hafi bara verið heppilegt og að það hafi glætt skilning Evrópusambandsins á sérstöðu íslensks landbúnaðar.

Dagur sauðkindarinnar 13. október n.k.

Dagur sauðkindarinnar verður haldinn í Skeiðvangi á Hvolsvelli 13. október n.k. kl. 14-17.
Meðal dagskrá atriða er að 10-15 efstu lamb- og veturgamlir hrútar úr heimasýningum verða boðaðir og dæmdir upp á nýtt og verðlaunaðir. Keppt verður um fallegustu gimbrina og litfegursta lambið. Veitt verða verðlaun fyrir ræktunarbú ársins 2011, afurðahæstu 5. vetra ána og þyngsta dilkinn, það sem af er sláturtíðar
Að auki er „rollubingó“, uppboð á úrvalsgripum og ýmislegt skemmtilegt fyrir börnin.
Kjötsúpa verður í boði Sláturfélags Suðurlands og síðan er hægt að kaupa kaffi og svaladrykki á staðnum.

Smitandi barkabólga (IBR/IPV) í kúm hérlendis

Í síðustu viku bárust svör við rannsókn á sýnum sem tekin voru samkvæmt áætlun Matvælastofnunar um skimun vegna smitsjúkdóma í nautgripum. Sýnin voru tekin á búum um allt land sem valin eru samkvæmt tilviljunarkenndu úrtaki. Sýni frá Egilsstaðabúinu á Egilsstöðum reyndist vera jákvætt vegna sjúkdómsins smitandi barkabólga/fósturlát í kúm. Sjúkdómurinn er ekki hættulegur fyrir fólk og smit berst ekki með afurðum. Um leið og niðurstöður lágu fyrir hafði Matvælastofnun samband við eiganda búsins og í ljós kom í samtali við hann og dýralækni búsins að engin einkenni hafa verið um sjúkdóminn og heilsufar kúnna hafi verið gott. Jafnframt var mælt fyrir um varúðarráðstafanir til að hindra útbreiðslu, s.s. bann við sölu lífdýra.

Niðurstöður búreikninga 2011 birtar

Hagþjónusta Landbúnaðarháskóla Íslands (áður Hagþjónusta landbúnaðarins) hefur birt niðurstöður búreikninga fyrir árið 2011. Í skýrslunni ásamt uppgjöri ársreikninga 2010, eru birt þrenn uppgjör sem unnin hafa verið á árinu 2012.
• Uppgjör búreikninga í nautgripa- og sauðfjárrækt fyrir rekstrarárið 2011.
• Uppgjör búreikninga garðyrkjubúa fyrir rekstrarárið 2010.
• Uppgjör ársreikninga í hrossarækt, svínarækt, loðdýrarækt, eggjaframleiðslu, alifuglarækt, blómaframleiðslu, grænmetisrækt/ylrækt, grænmetisrækt/útirækt, garðplöntuframleiðslu og kartöfluframleiðslu 2010.

Nýr búnaðarlagasamningur og búvörusamningar framlengdir

Nýr búnaðarlagasamningur var undirritaður í dag af hálfu Bændsamtakanna og ríkisvaldsins. Við sama tilefni voru núverandi búvörusamningar um framleiðslu sauðjárafurða, mjólkur og samningur um starfsskilyrði garðyrkjuframleiðenda framlengdir um tvö ár.
Í nýjum búnaðarlagasamningi eru staðfest framlög til leiðbeiningaþjónustu í landbúnaði, til búffjárræktar og jarðræktar, til lífrænnar ræktunar og Framleiðnisjóðs sem má segja að sé endurreistur í nýjum samningi. Heildarupphæð samningsins fyrir árið 2013 nemur 558,5 milljónum króna. Nýr búnaðarlagasamningur er að mörgu leyti áþekkur fyrri samningum en þó eru þar ýmsar breytingar. M.a. er sérstök áhersla lögð á eflingu kornræktar og þá er tekið tillit til uppstokkunar og endurskipulagningar á leiðbeiningaþjónustu í landbúnaði sem stendur fyrir dyrum.

back to top