Sunnubændur athugið!

Nú er öllum rekstrargreiningum á rekstrargögnum frá 2011 lokið. Þeir bændur sem vilja fá heimsókn til sín eða koma á skrifstofuna eru beðnir um að hafa samband annað hvort við Margréti, margret@bssl.is, í síma 480-1809 eða Runólf, rs@bssl.is í síma 480-1811.

Fóðurblandan hækkar verð á kjarnfóðri um 2-9%

Fóðurblandan hefur sent frá sér tilkynningu þess efnis að mánudaginn 1. október 2012 muni allt tilbúið fóður hjá fyrirtækinu hækka um 2-9%, misjafnt eftir tegundum. Fram kemur í tilkynningunni að ástæðan sé hækkun á verði á hráefnum á erlendum hráefnamörkuðum og veiking íslensku krónunnar.

Lífland hækkar kjarnfóðurverð um 4-9%

Lífland hefur sent frá sér tilkynningu um 4-9% hækkun á kjarnfóðri, mismunandi eftir tegundum, frá og með föstudeginum 28. september n.k. Að því er fram kemur í tilkynningunni er ástæða hækkunarinnar sú að helstu aðföng til fóðurgerðar hafa hækkað verulega. Mest hefur hækkunin orðið á sojamjöli og korni vegna uppskerubrests. Gengissig íslensku krónunnar undanfarið hefur heldur ekki bætt úr, segir í tilkynningunni.

Stjórn BSSL sendir bændum norðanlands baráttu- og stuðningskveðjur

Stjórn Búnaðarsambands Suðurlands fundaði í gær. Á fundinum var m.a. rætt um óveðrið sem gekk yfir Norðurland 10. september s.l. og þær búsifjar sem það hefur valdið bændum þar nyrðra. Meðal annars kom fram að hugur margra bænda á Suðurlandi hefur verið með kollegum sínum norðanlands. Stjórn Búnaðarsambandsins samþykkti eftirfarandi ályktun á fundinum:

Nýtt kynbótamat fyrir frjósemi

Nýtt kynbótamat fyrir frjósemi hefur verið reiknað þar sem upplýsingar um frjósemi frá vorinu 2012 hafa verið teknar með. Í skjalinu hér að neðan er yfirlit yfir þá hrúta sem voru í notkun á sæðingastöðvunum síðasta vetur. Bæði er eldra mat þeirra birt sem og nýtt mat ásamt því að breytingin í stigum er einnig sýnd.

Lokafrestur til að sækja um jarðræktarstyrk er 1. okt. n.k.

Við minnum á að lokafrestur til þess að sækja um styrki vegna gras- og grænfóðurræktar á árinu 2012 rennur út mánudaginn 1. okt. n.k. Þeir sem enn eiga eftir að sækja um eru beðnir að gera það hið fyrsta. Sérstaklega skal vakin athygli á því að til að til að standast úttekt þarf umsækjandi að hafa lagt fram túnkort af ræktarlandinu.

Íslendingar heimsmeistarar í dráttarvélaeign?

Oft komast Íslendingar á toppinn á heimsvísu í krafti höfðatölu eða annars konar hlutfallareiknings. Eitt slíkt met er nú komið fram í dagsljósið, því samkvæmt gögnum Alþjóðabankans er hvergi í heiminum að finna fleiri dráttarvélar á hvern hektara af ræktanlegu landi en einmitt hér. Tímaritið Economist segir frá þessu. Í frétt Economist segir að á Íslandi séu fleiri dráttarvélar en hektarar af ræktanlegu landi, eða samtals 1,6 traktor á hvern hektara. Er það jafnframt eina land heims þar sem málum er svo háttað að dráttarvélar eru fleiri en hektarar í ræktun. Ísland ber þarna höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir með 1,6 dráttarvélar á hektara en næsta land á eftir er Slóvenía, þá Japan, Sviss og Austurríki. Byggt er á gögnum Alþjóðabankans frá árinu 2009.

Heiðar á Norðausturlandi smalaðar í dag

Umfangsmikil leit verður gerð af sauðfé a heiðum á Norðausturlandi í dag en Ríkislögreglustjóri lýsti í gær yfir neyðarstigi almannavarna vegna afleiðinga óveðursins á Norðausturlandi síðasta sólarhring, að ósk lögreglustjórans á Húsavík, sem stjórnar aðgerðum í héraði. Talið er að bjarga þurfi um 12.000 fjár sem eru nærri byggð eða á heiðum á Norðausturlandi.

Blíða trónir enn á toppnum

Niðurstöður afurðaskýrslnanna í nautgriparæktinni við lok ágúst 2012, hafa verið reiknaðar og birtar á nautgriparæktarsíðunum á vef BÍ. Þegar yfirlitið var búið til, á miðnætti hinn 10. september, höfðu borist skýrslur frá 93% þeirra 595 búa sem skráð eru í skýrsluhaldið.
Helstu niðurstöðurnar eru þær að 21.891,8 árskýr mjólkuðu að meðaltali 5.633 kg sl. 12 mánuði, sem er 9 kg hærri nyt en reiknaðist í síðasta uppgjöri. Hæsta meðalnytin við lok júlí var á Hóli í Sæmundarhlíð í Skagafirði 7.884 kg eftir árskú en þar voru einnig hæstar meðalafurðir í mánuðinum á undan. Næst á eftir kom búið á Hraunhálsi í Helgafellssveit á Snæfellsnesi en þar var nytin 7.666 kg en það bú var einnig nr. 2 síðasta mánuði. Þriðja búið á listanum var í Miðdal í Kjós en þar voru meðalafurðirnar 7.730 kg eftir árskú, en það bú var einnig í þriðja sæti í síðasta mánuði þannig að nú hefur röð þriggja hæstu búanna ekki breyst frá uppgjörinu á undan.

Hauststörfin í sauðfjárrækt

Upplýsingar og dagskrá hauststarfanna í sauðfjárræktinni eru nú komnar á vefinn hjá okkur. Við biðjum sauðfjárbændur og aðra sem málið varðar að kynna sér upplýsingarnar og dagskrána vel og gæta sérstaklega að tímamörkum vegna pantana á skðoun.

Nýir sæðishrútar 2012

Í vor voru valdir 14 nýir hrútar til notkunar á sauðfjársæðingastöðvunum. Þessir hrútar eru nú allir komnir í einangrunargirðingar stöðvanna og í lok september bætast nokkrir við eftir afkvæmarannsóknir þær sem skipulagðar voru síðasta vetur. Afkvæmarannsóknir eru að þessu sinni á Hesti, Hjarðarfelli, Heydalsá, Hagalandi, Svalbarði og í Ytri-Skógum. Smá lýsingar á nýjum hrútunum hafa verið teknar saman munu þær birtist á síðu Sauðfjársæðingastöðvarinnar næstu daga fyrir hvern og einn ásamt mynd.

Verð á umframmjólk hækkaði um 0,5 kr/l. þann 1. sept. sl.

Stjórn Auðhumlu hefur ákveðið verð á umframmjólk frá 1. september 2012 kr. 38,00 fyrir fyrstu 2% umfram greiðslumark og kr. 33,00 fyrir það sem umfram það er. Þetta er 0,50 kr. hækkun frá síðustu ákvörðun á verði umframmjólkur sem gilti frá 1. júní s.l.

KS og SKVH með hæsta verðið á kindakjöti til bænda

SAH gaf út afurðaverð fyrir haustið í vikunni. Í tilkynningu félagsins segir m.a: „Verð dilkakjöts hækkar að jafnaði um 6-7% aðeins mismunandi á milli flokka, en verð fyrir fullorðna hrúta lækkar nokkuð, og verð fyrir ærkjöt lækkar lítillega.“ SV gaf síðan út verð í dag. Þar með hafa sex af sjö afurðastöðvum gefið út verð fyrir haustið, þar af SS tvisvar. Fjallalamb hefur ekki sent neitt frá sér ennþá.
Eins og fyrri ár reikna Landssamtök sauðfjárbænda vegið meðalverð á kindakjöti hjá einstökum afurðastöðvum eftir því sem verðskrár birtast. Meðalverðið miðast við kjötmat og sláturmagn í vikum 34-45 eins og það var á landinu öllu árið 2011 og innifelur þær álagsgreiðslur sem fyrirtækin bjóða á þessu tímabili.

Yfirlitssýning síðsumarsýningar á Hellu

Yfirlitssýning síðsumarsýningar kynbótahrossa á Gaddstaðaflötum við hellu fer fram á föstudaginn 24. ágúst og verður framhaldið laugardaginn 25. ágúst n.k. Sýningin hefst stundvíslega kl. 8.30 báða dagana. Röð holla verður eftirfarandi:

Föstudagur 24. ágúst kl. 8.30.
* 7 vetra og eldri hryssur
* Hádegishlé
* 6 vetra hryssur

SS hagnaðist um 160 millj. króna á fyrri helmingi þessa árs

Sláturfélag Suðurlands (SS) skilaði 160 milljóna króna hagnaði á fyrri helmingi þessa árs. Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 4.925 mkr. á tímabilinu samanborið við 4.397 mkr. á sama tíma árið áður og hækka því um 12%. Aðrar tekjur voru 23 mkr. en 31 mkr. árið áður. Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að stjórnendur SS telja fjárhagsstöðu Sláturfélagsins trausta með 47% eiginfjárhlutfall og veltufjárhlutfall 3,2. Heildarskuldir samstæðunnar hafa lækkað um tæpa 2 milljarða króna frá miðju ári 2009. Eftir endurfjármögnun og uppgreiðslu lána eru lán samstæðunnar nú til mjög langs tíma sem tryggir lága árlega greiðslubyrði.
Þá segir enn fremur að tæplega 3% söluaukning hefi orðið í innanlandssölu á kjöti frá fyrra ári sem eru jákvæð umskipti eftir erfið ár þar á undan. Útflutningshorfur á lambakjöti eru hins vegar mun verri fyrir haustið en á sama tíma í fyrra. Bæði kemur til verðlækkun og sölutregða vegna erfiðleika í Evrópu. Af þessum sökum er gert ráð fyrir neikvæðum horfum á rekstur afurðahluta félagsins á síðari árshelmingi.

KS og SKVH gefa út verðskrá fyrir haustið – SS með endurskoðaða verðskrá

KS og SKVH gáfu út afurðaverð síðdegis á mánudaginn. Í tilkynningu félaganna er ekki tekið fram hver hækkunin er frá fyrra ári, en skv. útreikningum Landssamtaka sauðfjárbænda (LS) er hún um það bil 6,6% frá grunnverði ársins 2011. Eins og fyrri ár reiknar LS vegið meðalverð á kindakjöti hjá einstökum afurðastöðvum eftir því sem verðskrár birtast. Meðalverðið miðast við kjötmat og sláturmagn í vikum 34-45 eins og það var á landinu öllu árið 2011 og innifelur þær álagsgreiðslur sem fyrirtækin bjóða á þessu tímabili.
Þá gaf Sláturfélag Suðurlands út endurskoðaða afurðaverðskrá í gær.

Hollaröð síðsumarsýningar kynbótahrossa komin á vefinn

Hollaröð síðsumarsýningar kynbótahrossa á Gaddstaðaflötum við Hellu 20.-25. ágúst n.k. er komin á vefinn hjá okkur. Tvær auðveldar leiðir eru til þess að komast í hollaröðina. Annars vegar er að finna hlekk með því að smella á „Síðsumarsýning á Gaddstaðaflötum“ í rammanum hér hægra megin á síðunni, þ.e. í „Á döfinni“. Hins vegar er hægt að nota flýtileiðina hægra megin á síðunni og velja „Kynbótasýningar 2012“. Undir „Kynbótasýningar 2012“ er að finna hlekk í hollaröðina í „Áhugavert“ hægra megin á síðunni.

Blíða 1151 í Flatey mjólkar og mjólkar

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktinnar við lok júlí 2012, hafa verið reiknaðar og birtar á nautgriparæktarsíðunum á bondi.is. Þegar yfirlitið var búið til, á miðnætti hinn 12. júlí, höfðu borist skýrslur frá 94% þeirra 596 búa sem skráð eru í skýrsluhaldið.
Helstu niðurstöðurnar eru þær að 21.975,6 árskýr mjólkuðu að meðaltali 5.624 kg sl. 12 mánuði, sem er nánast sama niðurstaða og í síðasta uppgjöri, aðeins 3 kg lægri. Hæsta meðalnytin við lok júlí var á Hóli í Sæmundarhlíð í Skagafirði 7.888 kg eftir árskú en þar voru einnig hæstar meðalafurðir í júní sl. Næst á eftir kom búið á Hraunhálsi í Helgafellssveit á Snæfellsnesi en þar var nytin 7.674 kg en það bú var nr. 3 í síðasta mánuði. Þriðja búið á listanum var að þessu sinni búið í Miðdal í Kjós en þar voru meðalafurðirnar 7.586 kg eftir árskú.

Síðsumarsýning á Gaddstaðaflötum

Nú liggja fyrir skráningar til síðsumarsýningar á Gaddstaðaflötum. Dæmt verður dagana 20.-23. ágúst (mán.-fim./tvær dómnefndir að störfum) og yfirlitssýning 24.-25. (fös.-lau.).

Skil á vorupplýsingum fyrir 20. ágúst 2012

Bændur sem eru í skýrsluhaldi og þeir sem eru að byrja í skýrsluhaldi eru hvattir til að skila vorupplýsingum til Bændasamtaka Íslands fyrir 20. ágúst n.k. Það er mikið vinnuhagræði af því bæði fyrir bóndann og einnig búnaðarsambönd.
• Bóndinn fær til baka LAMBABÓK þar sem lömbin eru í númeraröð. Í lambabókina er hægt að skrá allar haustupplýsingar og jafnframt eru upplýsingar um ætterni lambanna, lit og fæðingardag. Einnig fá öll lömb ætterniseinkunn, bæði hvað varðar frjósemi og afurðasemi.

back to top