Hollvinir og netföng


Hollvinir Landbúnaðarháskóla Íslands fá öðru hvoru tölvupósta um það sem er að gerast í Landbúnaðarháskóla Íslands. Hollvinir teljast þeir sem stunduðu nám við LbhÍ eða þær stofnanir sem síðar mynduðu Landbúnaðarháskóla Íslands.

Reykjahlíð og Skarðaborg hlutu landbúnaðarverðlaunin 2012

Það er fastur liður að afhenda framúrskarandi bæjum landbúnaðarverðlaunin við setningu Búnaðarþings. Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, afhenti þau að þessu sinni bændunum í Skarðaborg í Reykjahverfi og bændunum í Reykjahlíð á Skeiðum. Umsagnir um bæina fylgja hér á eftir.

Búnaðarþing verður sett á sunnudaginn

Búnaðarþing 2012 verður sett sunnudaginn 26. febrúar n.k. Að venju verður fjöldi mála tekinn fyrir á þinginu í ár en ekki er ólíklegt að eitt af fyrirferðarmestu málunum verði endurskipulagning ráðgjafarþjónustu í landbúnaði. Að því máli hefur verið unnið frá síðasta búnaðarþingi í samræmi við ályktun síðasta búnaðarþings. Skipuð var milliþinganefnd sem lagt hefur það til að ráðgjafarstarfsemi búnaðarsambandanna og Bændasamtakanna verði sameinuð. Leitað var til dönsku ráðgjafarþjónustunnar um vinnu að tillögu af þessu tagi og kom Ole Kristensen, ráðgjafi, hingað til lands í þrígang á síðasta ári og kortlagði ráðgjafarþjónustuna, fundaði með ráðunautum og félagskjörnum fulltrúum bænda og gerði tillögur að breytingum.

Aðalfundur Félags sauðfjárbænda í Árnessýslu

Aðalfundur Félags sauðfjárbænda í Árnessýslu verður haldinn 25. febrúar í Básnum, Ölfusi kl. 13:00.

ALLT ER ÞAÐ GOTT SEM AF KORNI KEMUR

Félagið Matur-saga-menning býður til fundar um kornrækt og kornneyslu fyrr og nú. Kornrækt hefur aukist á Íslandi og margar nýjungar komið fram.
Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 23. febrúar kl. 20:00 – 22:00 í Matvís, Stórhöfða 31 110 Rvk, aðkoma að neðanverðu við húsið.

Skeljungur lækkar verð á áburði

Skeljungur hefur tilkynnt um verðlækkun á nokkrum áburðartegundum og er nýja verðskrá að finna á heimasíðu fyrirtækisins.

SS lækkar verð á Yara áburði

Sláturfélag Suðurlands hefur sent frá sér tilkynningu þess efnis að ákveðið hafi verið að lækka verð á áburðartegundunum NP 26-6, NPK 24-4-7 og NPK 15-7-12, en verðskrá Yara var birt 25. janúar s.l. Að sögn SS er þetta gert til að tryggja viðskiptavinum fyrirtækisins afar hagstætt verð á einkorna Yara áburði. Þeir sem þegar hafa pantað Yara áburð frá SS munu njóta einnig verðlækkunarinnar og þurfa ekki að gera neinar sérstakar ráðstafanir vegna þess að því er fram kemur í tilkynningunni.

Nautgriparæktarfundur – verðlaunaveiting o.fl.

Föstudaginn 17. febrúar n.k. verður haldinn nautgriparæktarfundur í Árhúsum á Hellu og hefst kl. 13.30. Á fundinum verða niðurstöður skýrsluhaldsins árið 2011 kynntar og afurðahæstu búin og kýrnar verðlaunuð. Auk þess verður hæst dæmdu kúm fæddum 2006 veitt verðlaun fyrir kúaskoðun.

Betri bústjórn – fundir á svæðinu

Við vekjum athygli á fundum sem verða á svæðinu dagana 21.-22. febrúar n.k. Á fundunum verður fjallað um framtíðarhorfur mjólkurframleiðslunnar og hvernig tengja má þær við rekstur búanna frá degi til dags. Hvernig getum við náð betri árangri og aukið arðsemi greinarinnar? Fjallað verður um ytra umhverfi búanna og hvernig bæta má reksturinn með tilliti til hagnýtingu skýrsluhaldsins, ræktunarstarfsins, jarðræktar og gróffóðuröflunar og áætlanagerðar svo dæmi séu tekin.

Verðhækkun á áburði 1-6,9%

Áburðarverksmiðjan/Fóðurblandan hefur gefið út áburðarverðskrá 2012 og verðhækkun frá fyrra ári á bilinu 1-6,9%, mismikil eftir tegundum. Mest er hækkunin á Græði 8 sem hækkar um 6,9% en minnst hækkar Fjölgræðir 5 eða 1%. Að jafnaði er hækkunin 3,8%. Áburðarverksmiðjan býður nú 11% afslátt til þeirra sem panta fyrir 15. mars n.k. í stað 10% áður.

Tilkynning vegna búnaðarþingskosninga 2012

Stjórn Búnaðarsambands Suðurlands hefur ákveðið að kosning fulltrúa til búnaðarþings fari fram á aðalfundi Búnaðarsambandsins í samræmi við 13. grein samþykkta Bændasamtaka Íslands. Dagsetning aðalfundar hefur jafnframt verið ákveðin 18. apríl 2012. Komi ekki fram krafa um almenna kosningu í síðasta lagi 6 vikum fyrir aðalfund mun kosning því fara fram á aðalfundinum. Krafa um almenna kosningu þarf því að koma fram í síðasta lagi þann 7. mars n.k. og vera borin fram af a.m.k. 40 atkvæðisbærum félagsmönnum.
Félagatal Búnaðarsambands Suðurlands hefur nú legið frammi á skrifstofum Búnaðarsambandsins frá 25. janúar 2012 og mun liggja frammi til og með 22. febrúar n.k. Hægt er að koma athugasemdum við félagatalið á framfæri á sömu stöðum og það liggur frammi og mun stjórn Búnaðarsambandsins úrskurða um þær að loknum þeim fresti er félagatalið liggur frammi. Telst það þá lögleg kjörskrá.

Verðhækkun á bilinu 3-9%

Skeljungur hefur gefið út áburðarverð fyrir árið 2012. Verðlistann er að finna á heimasíðu Skeljungs, sjá hlekk hér neðar. Til jafnaðar má segja að verðhækkun sé 3-9% eftir tegundum og þá einkum eftir fosfórinnihaldi. Ein tegund, Sprettur N26+S, lækkar örlítið milli ára eða um fjórðung úr prósenti. Svo dæmi séu tekin þá hækkar Sprettur 27%N um 3,1%, Sprettur 25-5 + Avail + Se hækkar um 4,3% og Sprettur 20-12-8 hækkar um 7,6%. Að jafnaði er hækkunin 5,7%.

Málþing, ljósmyndasýning og afmælishátíð

Laugardaginn 11. febrúar 2012 verður haldið upp á afmæli HRFH með tvennum hætti, kl. 14:00 verður málþing í félagsheimilinu á Flúðum og um kvöldið verður mikil hátíð með veislumat að hætti Hótels Flúða. Einnig verður sett upp ljósmyndasýning í Félagsheimilinu.
Á málþingið koma þeir Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, og Gunnar Arnarson, hrossaræktandi með meiru í Auðsholtshjáleigu. Allir sem áhuga hafa á hrossarækt eru hvattir til að koma og hlusta á fróðleg erindi. Frítt er inn á málþingið og kaffiveitingar í boði Hrossaræktarfélagsins.
Afmælishátíðin hefst svo kl. 20:30 en húsið opnar kl. 20:00 með fordrykk í boði Líflands.

Fóðurblandan hækkar gjaldskrá fyrir akstur

Fóðurblandan hefur sent frá sér tilkynningu þess efnis að gjaldskrá fyrir akstur á fóðri hækkaði um 9% frá og með gærdeginum, þ.e. mánudeginum 6. febrúar.

Frá aðalfundi Félags kúabænda á Suðurlandi 30. jan s.l.

Eftir venjuleg aðalfundarstörf og veittar viðurkenningar til fimm þátttakenda í Sunnu-verkefninu sem hafa sýnt hvað bestan árangur í rekstri og bústjórn voru flutt tvö erindi. Ráðunautur Búnaðarsambands Suðurlands, Runólfur Sigursveinsson, flutti afar íhugandi erindi um framtíð mjólkurframleiðslunnar á Íslandi og Sigurður Loftsson formaður Landssamband kúabænda fjallaði um nokkur mál sem Landsambandið vinnur að. Umræður voru ágætar um erindin og önnur mál. Sjá má fundargerð í heild sinni hér á vefnum, sjá neðar.

Skil á haustfjárbók vegna ársins 2011

Síðasti skiladagur á haustfjárbók fyrir árið 2011 er 1. febrúar n.k. Þeir sauðfjárbændur sem eru í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu missa álagsgreiðslur og detta út úr gæðastýringu ef ekki er skilað haustfjárbók fyrir 1. febrúar.
Þeir sem skila haustfjárbókum vinsamlegast komið þeim á skrifstofur Búnaðarsambandsins á Selfossi, Hvolsvelli, Kirkjubæjarklaustri eða Höfn.
Sauðfjárbændur í netskilum þurfa að muna eftir að ýta á „SKIL AÐ HAUSTI“ þegar búið er að ljúka öllum skráningum til að haustupplýsingarnar fari í uppgjör hjá Bændasamtökum Íslands.

Áburðaráætlanagerð

Nú fer að líða að því að bændur þurfa að panta áburð og býður Búnaðarsamband Suðurlands upp á áburðaráætlanagerð.
Sökum verðhækkana á áburði undanfarin ár er afar mikilvægt að áburður nýtist eins vel og við verður komið, og því eru bændur hvattir til að sækja sér aðstoð við gerð áætlana.

Viðurkenningar fyrir góðan rekstur kúabúa – SUNNU-bú

Á aðalfundi Félags kúabænda á Suðurlandi sem haldinn var 30.janúar sl. í Árhúsum á Hellu voru veittar viðurkenningar fyrir góðan rekstur sunnlenskra kúabúa undanfarin ár. Viðurkenningarnar eru veittar á grunni svokallaðs SUNNU-verkefnis Búnaðarsambands Suðurlands en árlega taka milli 60 og 70 kúabú á Suðurlandi þátt í því verkefni eða um fjórðungur allra kúabúa á Suðurlandi. Verkefnið hefur verið starfrækt síðastliðin 15 ár og byggir á úttekt á rekstrarárangri samkvæmt ársreikningum þessara búa. Mælistærðir varðandi árangur í rekstri er breytilegur kostnaður á hvern lítra í framleiðslu og framlegðarstig búanna.
Verðlaunaveitingin byggir á rekstrartölum þessara búa síðastliðin fimm ár. Að jafnaði stóðu þessi fimm búa efst í þeim samanburði sem unnin hefur verið innan SUNNU-hópsins en mörg önnur bú eru með mjög góðan árangur í sínum rekstri.

Skráning á sæðingaskýrslum í fjarvis.is

Enn eiga nokkuð margir eiga eftir að skila inn sæðingaskýrslum eða skrá sæðingar í fjarvis.is. Viðkomandi aðilar eru beðnir að skrá þessar upplýsingar sem fyrst. Ef enhver vandamál koma upp er viðkomandi bent á að hafa samband við skrifstofu BSSL í síma 480 1800 eða senda tölvupóst á fol@bssl.is.

Bændasamtökin svara gagnrýni um fjármál sín

Bændasamtökin hafa birt tilkynningu vegna umræðna fjármál þeirra þar sem gerð er nokkuð ítarleg grein fyrir ráðstöfun þeirra fjármuna sem til þeirra renna frá ríkinu. Tilkynningin fer hér á eftir:
„Bændasamtökin eru frjáls félagasamtök og í bókhaldi þeirra er skilið á milli þeirra fjármuna sem koma frá ríkinu vegna búnaðarlagasamnings og fjármuna sem fara í að reka hagsmunabaráttu bænda. Verkefni í gegnum búnaðarlagasamning eru lögbundin en um framlög ríkisins má lesa hér í heild sinni á vef sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Bændasamtökin skila ársreikningi sínum til Ríkisendurskoðunar og sjávarútvegs- og landbúnaðaráðuneytisins á hverju ári. Hann liggur einnig frammi til umfjöllunar á búnaðarþingi sem haldið er árlega.

back to top