Matvælastofnun upplýsti ekki um of hátt kadmíum-innihald áburðar

Matvælastofnun beið með að upplýsa að áburði, sem innihélt kadmíum langt yfir leyfilegum mörkum, hefði verið dreift í verulegu magni víða um land síðastliðið vor. Um er að ræða áburð sem Skeljungur hefur dreift og gengur undir nafninu Sprettur en hann hefur meðal annars verið notaður af Landgræðslu ríkisins.

Ný reynd naut komin í dreifingu

Í dag var sæðisáfylling í kúta frjótækna Kynbótastöðvar Suðurlands og því verður sæði úr þeim reyndu nautum sem fagráð ákvað að setja í dreifingu á fundi sínum fyrir jól aðgengilegt á morgun. Um er að ræða nautin Baug 05026, Vindil 05028, Herkúles 05031, Frama 05034, Sússa 05037, Rösk 05039, Birting 05043 og Kola 06003. Jafnframt voru mörg eldri nauta tekin úr dreifingu.
Upplýsingar um þau naut sem nú eru í dreifingu má sjá á  www.nautaskra.net auk þess sem nautaspjaldið er aðgengilegt hér á vefsíðunni.

Gestum fjölgaði en heimsóknum fækkaði á bssl.is á síðasta ári

Heimsóknum á vefsíðu Búnaðarsambandsins fækkaði á síðasta ári frá árinu 2010 en hins vegar fjölgaði þeim sem heimsóttu vefinn. Alls heimsóttu 20.139 vefinn á árinu 2011 samanborið 19.621 árið áður. Hins vegar fækkaði heimsóknum eins og áður sagði og námu þær alls 155.561 borið saman við 181.843 árið 2010. Síðuflettingum fækkaði einnig milli ára eða úr 432.159 á árinu 2010 í 355.858 á síðasta ári. Ástæðan fyrir þessari fækkun er ef til vill sú að fréttir á bssl.is birtast einnig á facebook-síðu Búnaðarsambandsins og svo geta menn einnig nálgast þær með appi í farsímann hjá sér.
Mestra vinsælda nutu fréttir og tilkynningar af kynbótasýningum hrossa en þegar þær standa yfir er vefurinn mikið notaður.

Auðhumla ákveður viðskiptaskilmála vegna kaupa á lífrænt vottaðri mjólk

Auðhumla svf. hefur ákveðið viðauka við almenna viðskiptaskilmála er lúta að kaupum á lífrænt vottaðri mjólk. Lífrænt vottuð mjólkurframleiðsla er kostnaðarsamari en venjuleg framleiðsla og Auðhumla svf. hefur því greitt lífrænt álag til framleiðenda fyrir þessa framleiðslu. Því miður hefur ekki reynst markaður fyrir alla þá lífrænt vottuðu mjólk sem framleidd hefur verið.

Reglugerð um greiðslumark mjólkur verðlagsárið 2012

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur birt reglugerð um greiðslumark mjólkur og greiðslur til bænda verðlagsárið 2012. Heildargreiðslumarkið verður 114,5 milljónir lítra eins áður hafði komið fram. Breytingar frá gildandi reglugerð eru ekki aðrar en þær að inn kemur ákvæði um stuðning við nýliðun í kúabúskap auk þess að upphæðir sem varið er til gras- og grænfóðurræktar og kynbótaverkefna taka breytingum.

Jón Bjarnason ósáttur við ráðherraskipti

Jón Bjarnason er á leið úr ríkisstjórn og mun Steingrímur J. Sigfússon láta af embætti fjármálaráðherra og taka við þeim ráðuneytum sem síðar mynda nýtt atvinnumálaráðuneyti, þ.m.t. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Jón sagðist ósáttur við vinnubrögðin við ráðherraskiptin og það sem að baki byggi. Hann segir ljóst að þarna sé á ferðinni að hann hafi verið afdráttarlaus andstæðingur inngöngu í Evrópusambandið og haldið því stíft fram þó sú vinna sé í gangi.
Jón Bjarnason sendi frá sér yfirlýsingu að loknum þingflokksfundi Vinstri-grænna þar sem hann lýsti miklum vonbrigðum með atburðarásina. Hana má lesa hér að neðan:

Tíðarfar ársins var lengst af hagstætt

Veðurstofan hefur birt stutt yfirlit um tíðarfar ársins 2011. Ítarlegri umfjöllun um einstaka veðurfarsþætti ársins er að finna á heimasíðu Veðurstofunnar, www.vedur.is. Þetta stutta yfirlit frá Veðurstofunni fer hér á eftir:
„Tíðarfar var lengst af hagstætt á árinu um meginhluta landsins. Síðari hluti vors og fyrri hluti sumars voru þó óhagstæð um stóran hluta landsins en þeirrar erfiðu tíðar gætti lítið á Suðvesturlandi.

Stuðningur við nýliða í kúabúskap

Bændasamtök Íslands, Landssamband kúabænda og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hafa gert samkomulag sín á milli um að stofna starfshóp sem hefur það hlutverk að útfæra reglur um stuðning vegna nýliðunar í stétt kúabænda.
Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna er kveðið á um stuðning við nýliðun í bændastétt og gildandi búvörusamningur gerir sömuleiðis ráð fyrir stuðningi við nýliðun.
Yfirlýsingin, sem undirrituð var í dag 29. desember, er svohljóðandi:

Hugum að útigangi vegna jarðbannar og áramóta

Við bendum umráðamönnum útigangshrossa að huga að þeim en nú er víða jarðbönn vegna umtalsverðs fannfergis síðustu daga. Nauðsynlegt er að gefa útigangi við þessar aðstæður, sérstaklega fylfullum og/eða mjólkandi hryssum og ungviði. Útigangshross þurfa að vera í góðum holdum á þessum árstíma og hafa aðgang að skjóli og nægu fóðri.
Þar sem líður að áramótum með tilheyrandi flugeldum, ljósagangi og hávaða, er einnig ástæða til að benda umráðamönnum hrossa að bregðast við eins og kostur er. Mörg dæmi eru um að hross á útigangi hafi algerlega tryllst, brotist gegnum girðingar, flúið til fjalls og ekki fundist fyrr en löngu síðar oft illa útleikin. Sjálfsagt er ef möguleiki er á að hýsa hross á nýársnótt meðan mestu lætin ganga yfir.

Opnunartími BSSL yfir hátíðirnar

Búnaðarsamband Suðurlands óskar sunnlenskum bændum og fjölskyldum þeirra sem og öðrum gleðilegrar jólahátíðar, árs og friðar.
Skrifstofur Búnaðarsambandsins á Selfossi verða opnar hátíðirnar sem hér segir:

Um greiðslur á geymslugjaldi samkvæmt sauðfjársamningi

Vart hefur orðið misskilnings þess efnis að von sé á geymslugjaldsgreiðslu nú fyrir áramótin til sauðfjárbænda. Svo er þó ekki. Ástæðan kann að vera sú að greiðsla fór fram í nóvember 2010 (vegna ársins 2010) en síðan aftur í febrúar sl. (vegna ársins 2011). Árið 2009 og fyrr gengu þessar greiðslur til sláturhúsanna. Eftir að því var hætt fá sláturhúsin engar greiðslur samkvæmt sauðfjársamningi.

Kadmíum innihald í Spretti alltof hátt

Matvælastofnun hefur birt á heimasíðu sinni skýrslu um niðurstöður áburðareftirlits ársins 2011. Í skýrslunni er að finna niðurstöður efnagreininga áburðarsýna sem tekin voru á árinu. Einnig athugasemdir vegna merkinga áburðarins. Í skýrslunni eru einnig upplýsingar um þær áburðartegundir sem fluttar voru inn eða framleiddar á landinu á árinu.
Af niðurstöðum má nefna að kadmíum innihald áburðar sem Skeljungur flytur inn undir nafninu Sprettur reyndist allt of hátt. Af þrettán sýnum sem tekin voru reyndist kadmíum innihald of hátt í ellefu þeirra, eða í öllum þeim áburðartegundum sem innihéldu fosfór. Innihald kadmíums var í sumum tilfellum ríflega þrefalt meira en leyfilegt er og verður ekki leyft að dreifa þessum áburðartegundum til notenda fyrr en að lokinni sýnatöku og efnagreiningum sem sýni að kadmíum innihald sé innan leyfðra marka.

Sæði í 18.440 ær sent frá stöðinni

Í dag var síðasti útsendingardagur á hrútasæði frá Sauðfjársæðingastöð Suðurlands en útsending hófst þann 1. des. s.l. og hefur því staðið samfleytt í 3 vikur. Að þessu sinni var sent sæði í 18.440 ær frá stöðinni sem þýðir að miðað við 70% nýtingu má reikna með að rétt tæplega 13 þús. ær hafi verið sæddar. Þetta er heldur minna en í fyrra og munar þar um 500 ám.
SIgurvegari vertíðarinnar ef hægt er að orða það svo er Hergill 08-870 frá Laxárdal í Þistilfirði en úr honum var sent út sæði í 1.715 ær. Skammt á hæla honum kemur Borði 08-838 frá Hesti í Borgarfirði með útsendingu í 1.700 ær og ekki langt undan er Sokki 07-835 frá Brúnastöðum í Fljótum með sæði í 1.685 ær. Af kollóttu hrútunum var mest sent út úr Stera 07-855 frá Árbæ í Reykhólasveit eða í 1.400 ær.

Nú er hægt að panta aukamerki í nautgripi

Búið er að opna fyrir þann möguleika að panta annað merkjasett fyrir þá gripi sem eru fæddir frá og með 1. nóv. 2011 í Markinu (www.bufe.is). Þannig geta þeir bændur sem hafa nýlega pantað einföld merki í eyrun á nautgripum sínum nú endurtekið einu sinni síðustu pöntun af einföldum merkjum og keypt merki í hitt eyrað. Þegar þessi möguleiki er notaður endurpantar kerfið alla síðustu merkjaröð nema að hjarðbók í Huppu sýni að gripur sem skráður er fyrir merkinu sé dauður. Einnig eru merki sem kerfið finnur í gripum fæddum fyrir 1. nóvember 2011 tekin út úr pöntuninni.

Ný reynd naut til dreifingar í janúar

Nú er afkvæmadómi nauta fæddra 2005 lokið og að honum loknum munu koma 7 ný reynd naut úr þeim árgangi til dreifingar. Auk þess hefur verið ákveðið að setja 1 naut úr 2006 árgangi í dreifingu. Þau naut sem koma ný til dreifingar eru; Baugur 05026 frá Kotlaugum, Vindill 05028 frá Ytri-Tjörnum, Herkúles 05031 frá Bessastöðum, Frami 05034 frá Skúfsstöðum, Sússi 05037 frá Hóli, Röskur 05039 frá Brúnastöðum, Birtingur 05043 frá Birtingaholti 1 og Koli 06003 frá Sólheimum. Upplýsingar um þessi naut eru komnar á www.nautaskra.net.

Töluverðar breytingar fylgja hinni nýju matvælalöggjöf

Félagsráð Félags kúabænda fundaði 7. desember s.l. og er fundargerð fundarins komin á vefinn. Á fundinum var að venju m.a. farið yfir starfsemi félagsins. Þar kom fram að stjórnarmenn FKS fóru á fund atvinnuveganefndar Alþingis til viðræðna um forgang greiðslumarksmjólkur á innanlandsmarkað og að félagið tók þátt í opnum degi á Stóra Ármóti þann 11. nóvember s.l.
Á fundinn komu Jón Gíslason forstjóri MAST, Halldór Runólfsson yfirdýralæknir, Þorsteinn Ólafsson sérgreinadýralæknir og Gunnar Þorkelsson héraðsdýralæknir til viðræðna um ýmislegt er snýr að nautgripabændum. Þar kom fram að MAST væri að vinna eftir nýrri matvælalöggjöf sem þýddi innleiðingu á fjölda reglugerða sem byggja á grunni nýrrar matvælalöggjafar. Búið er að fella út kröfu um árlega fjósskoðun en hins vegar verður unnið út frá áhættumati í hverju tilviki og eftirlitið mun byggja á því. Aðbúnaðarreglugerðir eru í endurskoðun og sérreglur um einstakar búgreinar verða einfaldaðar.

Uppgjör sauðfjárræktarinnar árið 2011

Uppgjör á skýrslum fjárræktarfélaganna fyrir árið 2011 er þegar hafið og gengur vel þessa dagana. Listar yfir efstu búin í kjöt eftir kind og svo yfir þá sem eru yfir 8 í gerð eru þegar aðgengilegir á vefnum. Við þá bætist síðan jafnt og þétt eftir því sem uppgjörinu miðar áfram.

Gott verð á minkaskinnum og allt selst

Minkaskinn seldust vel á fyrsta loðskinnauppboði sölutímabilsins í Kaupmannahöfn í gær og voru verð á svipuðu róli og í fyrra. Byrjunin þykir lofa góðu fyrir framhaldið í vetur en salan er 100% sala og markaðurinn virðist vera í jafnvægi. Margir höfðu átt von á því að verð myndi lækka eitthvað nú eftir há verð í fyrravetur og vor. Hins vegar virðist gríðarleg eftirspurn halda verðinu uppi.

Dagatal ungra bænda fyrir árið 2012

Líkt og í fyrra stóðu Samtök ungra bænda fyrir ljósmyndasamkeppni fyrr á þessu ári vegna útgáfu dagatals fyrir árið 2012. Rúmlega 100 ljósmyndir bárust inn í keppnina og prýða tólf þær bestu að mati dómnefndar nú dagatal ungra bænda árið 2012. Bjarkey Sigurðardóttir hafði umsjón með útgáfu dagatalsins en ásamt henni í dómnefnd voru þeir Eyþór Ingi Jónsson og Hörður Elís Finnbogason.
Dagatalið kostar 2.000 krónur og rennur ágóðinn af sölu þess til samtakanna og landshlutafélaganna sem þeim tilheyra. Dagatalið verður til sölu hjá landshlutafélögunum og er mönnum bent á að hafa samband við stjórnarmenn á hverju svæði fyrir sig. Þá er hægt að hafa samband við stjórn samtakanna, t.d. með því að senda póst á vefstjóra. Dagatalið er einnig til sölu hér hjá Búnaðarsambandinu.

Hrútamyndir

Nú er búið að setja mikið af sauðfjárræktarmyndum Búnaðarsambandsins á vefinn. Þar er að finna myndir frá sauðfjárræktarfundum, verðlaunahöfum og þeim hrútum sem stiguðust upp á 36,5 stig eða meira fyrir bak, malir og læri.

back to top