Tilkynning vegna búnaðarþingskosninga 2012
Stjórn Búnaðarsambands Suðurlands hefur ákveðið að kosning fulltrúa til búnaðarþings fari fram á aðalfundi Búnaðarsambandsins í samræmi við 13. grein samþykkta Bændasamtaka Íslands. Dagsetning aðalfundar hefur jafnframt verið ákveðin 18. apríl 2012. Komi ekki fram krafa um almenna kosningu í síðasta lagi 6 vikum fyrir aðalfund mun kosning því fara fram á aðalfundinum. Krafa um almenna kosningu þarf því að koma fram í síðasta lagi þann 7. mars n.k. og vera borin fram af a.m.k. 40 atkvæðisbærum félagsmönnum.
Félagatal Búnaðarsambands Suðurlands hefur nú legið frammi á skrifstofum Búnaðarsambandsins frá 25. janúar 2012 og mun liggja frammi til og með 22. febrúar n.k. Hægt er að koma athugasemdum við félagatalið á framfæri á sömu stöðum og það liggur frammi og mun stjórn Búnaðarsambandsins úrskurða um þær að loknum þeim fresti er félagatalið liggur frammi. Telst það þá lögleg kjörskrá.
Verðhækkun á bilinu 3-9%
Skeljungur hefur gefið út áburðarverð fyrir árið 2012. Verðlistann er að finna á heimasíðu Skeljungs, sjá hlekk hér neðar. Til jafnaðar má segja að verðhækkun sé 3-9% eftir tegundum og þá einkum eftir fosfórinnihaldi. Ein tegund, Sprettur N26+S, lækkar örlítið milli ára eða um fjórðung úr prósenti. Svo dæmi séu tekin þá hækkar Sprettur 27%N um 3,1%, Sprettur 25-5 + Avail + Se hækkar um 4,3% og Sprettur 20-12-8 hækkar um 7,6%. Að jafnaði er hækkunin 5,7%.
Málþing, ljósmyndasýning og afmælishátíð
Laugardaginn 11. febrúar 2012 verður haldið upp á afmæli HRFH með tvennum hætti, kl. 14:00 verður málþing í félagsheimilinu á Flúðum og um kvöldið verður mikil hátíð með veislumat að hætti Hótels Flúða. Einnig verður sett upp ljósmyndasýning í Félagsheimilinu.
Á málþingið koma þeir Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, og Gunnar Arnarson, hrossaræktandi með meiru í Auðsholtshjáleigu. Allir sem áhuga hafa á hrossarækt eru hvattir til að koma og hlusta á fróðleg erindi. Frítt er inn á málþingið og kaffiveitingar í boði Hrossaræktarfélagsins.
Afmælishátíðin hefst svo kl. 20:30 en húsið opnar kl. 20:00 með fordrykk í boði Líflands.
Fóðurblandan hækkar gjaldskrá fyrir akstur
Fóðurblandan hefur sent frá sér tilkynningu þess efnis að gjaldskrá fyrir akstur á fóðri hækkaði um 9% frá og með gærdeginum, þ.e. mánudeginum 6. febrúar.
Frá aðalfundi Félags kúabænda á Suðurlandi 30. jan s.l.
Eftir venjuleg aðalfundarstörf og veittar viðurkenningar til fimm þátttakenda í Sunnu-verkefninu sem hafa sýnt hvað bestan árangur í rekstri og bústjórn voru flutt tvö erindi. Ráðunautur Búnaðarsambands Suðurlands, Runólfur Sigursveinsson, flutti afar íhugandi erindi um framtíð mjólkurframleiðslunnar á Íslandi og Sigurður Loftsson formaður Landssamband kúabænda fjallaði um nokkur mál sem Landsambandið vinnur að. Umræður voru ágætar um erindin og önnur mál. Sjá má fundargerð í heild sinni hér á vefnum, sjá neðar.
Skil á haustfjárbók vegna ársins 2011
Síðasti skiladagur á haustfjárbók fyrir árið 2011 er 1. febrúar n.k. Þeir sauðfjárbændur sem eru í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu missa álagsgreiðslur og detta út úr gæðastýringu ef ekki er skilað haustfjárbók fyrir 1. febrúar.
Þeir sem skila haustfjárbókum vinsamlegast komið þeim á skrifstofur Búnaðarsambandsins á Selfossi, Hvolsvelli, Kirkjubæjarklaustri eða Höfn.
Sauðfjárbændur í netskilum þurfa að muna eftir að ýta á „SKIL AÐ HAUSTI“ þegar búið er að ljúka öllum skráningum til að haustupplýsingarnar fari í uppgjör hjá Bændasamtökum Íslands.
Áburðaráætlanagerð
Nú fer að líða að því að bændur þurfa að panta áburð og býður Búnaðarsamband Suðurlands upp á áburðaráætlanagerð.
Sökum verðhækkana á áburði undanfarin ár er afar mikilvægt að áburður nýtist eins vel og við verður komið, og því eru bændur hvattir til að sækja sér aðstoð við gerð áætlana.
Viðurkenningar fyrir góðan rekstur kúabúa – SUNNU-bú
Á aðalfundi Félags kúabænda á Suðurlandi sem haldinn var 30.janúar sl. í Árhúsum á Hellu voru veittar viðurkenningar fyrir góðan rekstur sunnlenskra kúabúa undanfarin ár. Viðurkenningarnar eru veittar á grunni svokallaðs SUNNU-verkefnis Búnaðarsambands Suðurlands en árlega taka milli 60 og 70 kúabú á Suðurlandi þátt í því verkefni eða um fjórðungur allra kúabúa á Suðurlandi. Verkefnið hefur verið starfrækt síðastliðin 15 ár og byggir á úttekt á rekstrarárangri samkvæmt ársreikningum þessara búa. Mælistærðir varðandi árangur í rekstri er breytilegur kostnaður á hvern lítra í framleiðslu og framlegðarstig búanna.
Verðlaunaveitingin byggir á rekstrartölum þessara búa síðastliðin fimm ár. Að jafnaði stóðu þessi fimm búa efst í þeim samanburði sem unnin hefur verið innan SUNNU-hópsins en mörg önnur bú eru með mjög góðan árangur í sínum rekstri.
Skráning á sæðingaskýrslum í fjarvis.is
Enn eiga nokkuð margir eiga eftir að skila inn sæðingaskýrslum eða skrá sæðingar í fjarvis.is. Viðkomandi aðilar eru beðnir að skrá þessar upplýsingar sem fyrst. Ef enhver vandamál koma upp er viðkomandi bent á að hafa samband við skrifstofu BSSL í síma 480 1800 eða senda tölvupóst á fol@bssl.is.
Bændasamtökin svara gagnrýni um fjármál sín
Bændasamtökin hafa birt tilkynningu vegna umræðna fjármál þeirra þar sem gerð er nokkuð ítarleg grein fyrir ráðstöfun þeirra fjármuna sem til þeirra renna frá ríkinu. Tilkynningin fer hér á eftir:
„Bændasamtökin eru frjáls félagasamtök og í bókhaldi þeirra er skilið á milli þeirra fjármuna sem koma frá ríkinu vegna búnaðarlagasamnings og fjármuna sem fara í að reka hagsmunabaráttu bænda. Verkefni í gegnum búnaðarlagasamning eru lögbundin en um framlög ríkisins má lesa hér í heild sinni á vef sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Bændasamtökin skila ársreikningi sínum til Ríkisendurskoðunar og sjávarútvegs- og landbúnaðaráðuneytisins á hverju ári. Hann liggur einnig frammi til umfjöllunar á búnaðarþingi sem haldið er árlega.
Samkeppniseftirlitið vill endurskoðun búvörulaga
Samkeppniseftirlitið leggur til að búvörulög verði tekin til endurskoðunar til að auka samkeppni hér á landi og telur að slíkt yrði neytendum og öllu þjóðfélaginu til bóta. Þetta kemur fram í tillögum sem eftirlitið leggur fram í nýrri skýrslu um verðþróun og samkeppni á dagvörumarkaði sem kynnt var í gær. Haft er eftir Steingrími J. Sigfússyni, ráðherra landbúnaðar- og samkeppnismála, í Fréttablaðinu í dag að ekki standi til að kollvarpa landbúnaðarstefnunni vegna samkeppnislegra ástæðna. Þó komi til greina að gera breytingar á gildandi fyrirkomulagi.
Bændasamtökin: Ríki utan ríkisins?
Í Fréttablaðinu í dag er að finna grein eftir Þórólf Matthíasson, hagfræðiprófessor, sem hann kallar „Bændasamtökin: Ríki utan ríkisins?“. Þórólfur virðist hafa skorið upp herör gegn Bændasamtökunum en eigi að síður er full ástæða til þess að bændur og aðrir þeir sem láta sig landbúnað varða kynni sér þá umræðu sem þarna fer fram. Um efni greinarinnar verður ekki fjölyrt en fyrir áhugasama er hana að finna í visir.is, sjá hlekk neðar.
Greinin hefst á eftirfarandi málsgrein: „Í 15. gr. svokallaðs búnaðarlagasamnings sem gerður er á grundvelli laga nr. 70/1998 er kveðið á um að Bændasamtök Íslands skuli halda aðskildum fjármunum sem til samtakanna renna úr ríkissjóði og öðrum fjárreiðum sínum. Þá er í sömu grein kveðið á um að Bændasamtökin skuli afhenda sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu endurskoðaðan ársreikning sinn. Samþykktir Bændasamtakanna kveða einnig á um að fjárhagur starfsemi sem rekin er í umboði ríkissjóðs og á hans kostnað skuli aðskilinn frá annarri starfsemi Bændasamtakanna.„
Yara birtir áburðarverð – verðhækkun 4-10%
Sláturfélag Suðurlands, umboðsaðili Yara á Íslandi, hefur birt verð á áburði fyrir 2012. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að vegna hækkana á áburðarverði erlendis verði ekki hjá því komist að hækka verð á áburði. OPTI-KAS (N27) og OPTI-NS hækka um 4-5%. Algengar NPK áburðartegundir eru að hækka aðeins meira eða um 10%.
Afurðir aukast og meðalbúið stækkar
Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar eru nú komnar á vefinn hjá okkur. Um er að ræða viðbót frá því sem sett var inn í gær, þ.e. skýrslur nautgriparæktarfélaganna og afurðahæstu kýr þeirra.
Á árinu 2011 skiluðu 214 bú skýrslum yfir samtals 8.846,3 árskýr sem er 162,3 árskúm fleira en árið 2010. Meðalbúið stækkaði um 0,6 árskýr milli ára og var á árinu 2011 41,4 árskýr með meðalinnlegg upp á 216.518 kg mjólkur sem er aukning upp á 6.984 kg frá árinu áður. Meðalbúið hefur aldrei verið stærra en nú. Stærst eru búin í Árnessýslu þar sem þau telja 44,8 árskýr til jafnaðar og meðalinnleggið nemur 239.985 kg.
Kýrnar í Hraunkoti með stórglæsilegt Íslandsmet
Ársuppgjör skýrsluhalds nautgriparæktarinnar liggur nú fyrir. Helstu niðurstöður eru þær að meðalnyt á landsvísu jókst milli ára um 94 kg, úr 5.342 kg/árskú í 5.436 kg/árskú. Hér á Suðurlandi jukust meðalafurðir eftir árskú um 82 kg, úr 5.424 kg í 5.506 kg. Mestar eru afurðirnar í A-Skaft. eða 5.889 kg/árskú.
Afurðahæsta búið að þessu sinni er Hraunkot í Landbroti þar sem meðalafurðir ársins reyndust vera 8.340 kg eftir árskú. Þar er um að ræða nýtt og stórglæsilegt Íslandsmet en eldra met átti Akbraut í Holtum, 8.159 kg frá árinu 2008. Í verðefnum mjólkuðu kýrnar í Hraunkoti 601 kg MFP. Í öðru sæti hér sunnanlands og þriðja sæti á landsvísu er Kirkjulækur í Fljótshlíð með 7.811 kg/árskú og 584 kg MFP og í þriðja sæti Reykjahlíð á Skeiðum með 7.734 kg/árskú og 578 kg MFP.
Kjörskrá vegna búnaðarþingskosninga 2012
Í ár verður kosið til Búnaðarþings til næstu þriggja ára. Í 13. grein samþykkta Bændasamtaka Íslands segir:
„1. Á því ári sem kjósa skal til búnaðarþings skal stjórn búnaðarsambands halda aðalfund fyrir 1. september og auglýsa hann með 8 vikna fyrirvara.
2. Eigi síðar en 12 vikum fyrir aðalfund á kosningaári skal leggja fram félagatal sambandsins. Félagatalið liggi frammi í 4 vikur og skal stjórn búnaðarsambands auglýsa tryggilega hvar það er lagt fram. Þegar stjórn búnaðarsambands hefur úrskurðað um þær athugasemdir sem komið hafa fram við félagatalið telst það lögleg kjörskrá.
Niðurstöður ytri úttektar á kjötmati sláturhúsanna
Matvælastofnun hefur birt niðurstöður ytri úttektar á kjötmati lambaskrokka í sauðfjársláturhúsum landsins á heimasíðu sinni. Matið fór fram í haust þar sem komið höfðu fram efasemdir um að kjötmat hér á landi samkvæmt EUROP-kerfinu væri sambærilegt við túlkun á matsreglunum í nágrannalöndunum. Einkum lutu þær efasemdir að því að kröfur sem gerðar eru til bestu holdfyllingarflokkanna, U og E, væru orðnar of slakar. Einnig hafa verið uppi áhyggjur af meintu mismunandi kjötmati í sláturhúsunum, einkum holdfyllingarmati.
Meðalbúið aldrei verið stærra en á síðasta ári
Á síðasta ári nam heildarinnlegg mjólkur á Suðurlandi, þ.e. í A- og V-Skaftafellssýslum, Rangárvallasýslu og Árnessýslu, 48.934.361 lítrum sem er 749.383 lítrum meira en á árinu 2010. Mest var innleggið í Ánessýslu, 25.105.241 lítrar, og síðan í Rangárvallasýslu, 17.742.985 lítrar. Í V-Skaftafellssýslu var lagður inn 3.746.931 lítri og í A-Skaftafellssýslu 2.339.204 lítrar.
Meðalbúið hér á Suðurlandi hefur aldrei verið stærra en í fyrra eða 197.023 lítrar.
Enn eru laus sæti!
Á morgun, fimmtudaginn 19. janúar, og föstudaginn 20. janúar verða námskeið í jarðræktarforritinu jord.is á Hellu og Klaustri. Enn eru laus sæti og eru áhugasamir beðnir að skrá sig sem allra fyrst.
Hægt er að skrá sig með því að hringja í síma 433 5000 eða senda póst á endurmenntun@lbhi.is.
Fræðslukvöld: Hvað er reiðmennska?
Hrossaræktarsamtök Suðurlands standa fyrir fræðslukvöldi í kvöld þriðjudaginn 17. janúar kl. 20:00 í félagsheimili hestamannafélagsins Sleipnis, Hliðskjálf, Suðurtröð á Selfossi (hesthúsahverfinu).
Að þessu sinni ætlar Benedikt Líndal tamningameistari að vera með spjallkvöld undir yfirskriftinni „Hvað er reiðmennska?“ Er hægt að flokka hana niður? Stefnum við í rétta átt? Getum við gert eitthvað öðruvísi? Er í lagi með þann útbúnað sem er notaður? Hvað með viðhorf okkar til árangurs ofl. skemmtilegt og umhugsunarvert.






