Heimilað að rækta erfðabreytt bygg

Umhverfisstofnun hefur gefið út leyfi fyrir ræktun á erfðabreyttu byggi í tilraunagróðurhúsi Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum í Ölfusi til ORF Líftækni hf. Leyfið heimilar ORF Líftækni að sá, rækta inni og uppskera erfðabreytt bygg á allt að 1.100 fermetrum í gróðurhúsi.

Hraunkot haggast ekki á toppnum

Uppgjör afurðaskýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir nóvember hefur nú verið birt. Þegar yfirlitið var tekið saman höfðu borist skýrslur frá 94% búa sem skráð eru í skýrsluhaldið. Helstu niðurstöður eru þær að 22.430,0 árskýr mjólkuðu að meðaltali 5.414 kg síðustu 12 mánuðina. Ef eingöngu er litið á Suðurland höfðu 8541,7 árskýr mjólkað 5.533 kg að meðaltali á sama tíma.
Hæsta meðalnytin í lok nóvember var í Hraunkoti í Skaftárhreppi 8.341 kg og næsthæstu meðalafurðir voru á Kirkjulæk 2 í Fljótshlíð 7.925 kg. Þriðja búið í röðinni er í Reykjahlíð á Skeiðum þar sem meðalnytin var 7.886 kg. Þarna eru á ferðinni sömu búin og sátu efst í síðasta mánuði, röðin sú sama og þá.

Arion banki og Stjörnugrís í mál við svínabændur

Arion banki og Stjörnugrís hafa ákveðið að höfða mál gegn Samkeppnisstofnun, áfrýjunarnefnd samkeppnismála og fimm svínabændum vegna þess að sameiningu tveggja svínabúa í eigu bankans og Stjörnugríss var hafnað. Forsaga málsins er sú að í byrjun síðasta árs yfirtók Arion banki svínabúin í Brautarholti á Kjalarnesi og á Hýrumel í Borgarfirði þar sem fyrirtækin urðu ógjaldfær vegna erfiðleika á markaðnum í kjölfar bankahrunsins. Bankinn ákvað að selja búin í einum pakka og samdi við stærsta svínakjötsframleiðanda landsins, Stjörnugrís á Kjalarnesi, um að kaupa.

Bændafundir í dag

Við minnum á bændafundi BÍ sem verða í dag á Hótel Lunda í Vík í Mýrdal kl. 13.00, Smyrlabjörgum í Suðursveit kl. 14.00 og Geirlandi á Síðu kl. 20.00.

Leitir.is – Samþætt leitargátt fyrir Ísland

Leitarvefurinn http://leitir.is var opnaður fyrir um mánuði síðan eða þann 11. nóvember s.l. Vefurinn leitar samtímis í Gegni sem er samskrá velflestra bókasafna í landinu, tengdu stafrænu íslensku efni ásamt erlendum áskriftum að stafrænu vísindaefni í Landsaðgangi. Nafn vefgáttarinnar er sótt til þess viðburðar sem á sér stað á haustin í sveitum landsins er bændur halda til fjalla og smala saman búpeningi sínum. Þeir fara í leitir. Á vefnum leitir.is fara menn einnig í leitir og smala saman upplýsingum. Það er margt sem þar kemur í leitirnar.

Vegið meðalverð á dilkakjöti til bænda rúma 492 kr/kg í haust

Landssamtök sauðfjárbænda hafa birt vegið meðalverð til bænda að fengnum niðurstöðum úr kjötmati haustsins. Lokaverðið reyndist lægra en áætlað hafði verið og skýrist það af því að flokkun var aðeins lakari í ár en í fyrra. Vegið meðalverð á lambakjöti reyndist vera rúmar 492 krónur pr kg. Hækkun frá raunverði 2010 var rúm 71 kr/kg. Verð á öðru kindakjöti varð tæpar 245 kr/kg. Það ríflega tvöfaldaðist í verði frá 2010 og nam hækkunin um 128 kr/kg. Viðmiðunarverð LS fyrir lambakjöt var 581 kr fyrir lambakjöt og 301 kr fyrir annað kindakjöt svo talsvert vantaði upp á að það næðist.

Fyrirlestur um rafrænt kjötmat

Eyþór Einarsson heldur opinn fyrirlestur um meistaraverkefni sitt við Auðlindadeild Lbhí, miðvikudaginn 14. desember kl. 15 í Ásgarði á Hvanneyri en það fjallar um rafrænt mat á lambakjöti, sem byggt er á stafrænum myndum af kjötskrokkum (video image analysis; VIAscan®) og viðfangsefnið er að meta notagildi þessarar tækni í sláturhúsum hér á landi. Prófanir á tækninni fóru fram á sláturhúsi kjötafurðarstöðvar KS á Sauðárkróki. Markmið rannsóknarinnar var annars vegar að meta hæfni tækninnar til að spá fyrir um vöðvahlutfall skrokka og að flokka samkvæmt EUROP kerfinu (5 vöðvaflokkar og 6 fituflokkar) sem er núgildandi matskerfi. Hins vegar að meta erfðastuðla bæði fyrir kjötmatsþætti og stigun líflamba með áherslu á að kanna hversu vel líflambamatið tengist rafræna matinu og hvort rafrænt EUROP mat (viaEUROP) og núgildandi EUROP mat (pEUROP) mældi sömu eiginleika.

Skýrsla um reynslu af nýlegum legubásafjósum á Íslandi

Landbúnaðarháskólinn hefur gefið út skýrslu um reynslu af nýlegum legubásafjósum á Íslandi í samantekt Snorra Sigurðssonar. Í kynningu segir að þróun í fjósbyggingum hafi verið hröð hérlendis á undanförnum árum með auknum fjölda lausagöngufjósa sem ýmist eru nýbyggingar eða breyttar eldri byggingar. Ljóst er að enn er þó mikil þörf fyrir áframhaldandi þróun á aðbúnaði mjólkurkúa og einnig er þekkt að á liðnum árum hafa litið dagsins ljós fjölbreyttar og oft ólíkar lausnir við hönnun og frágang fjósa landsins. Brýnt var talið að safna saman reynslu bændanna úr þessum ólíku fjósum og miðla áfram til bænda sem huga á framkvæmdir og setti Landbúnaðarháskóli Íslands því í gang verkefnið Betri fjós, en verkefnið var styrkt af Þróunarsjóði nautgriparæktarinnar.

Sauðfjárbændur misnota ekki kerfið

Ríkisendurskoðun telur ekki ástæðu til að ætla að sauðfjárbændur fái hærri beingreiðslur en þeir eiga rétt á samkvæmt lögum og reglum en fyrr á þessu ári fékk Ríkisendurskoðun ábendingu um að dæmi væru um að sauðfjárbændur fengju hærri beingreiðslur en þeir ættu rétt á. Athugun Ríkisendurskoðunar, sem fjallað er um í nýrri skýrslu, bendir ekki til þess að ábendingin eigi við rök að styðjast.

Glærur frá ráðstefnu um nautgriparækt 30. nóv. s.l.

Fagráð í nautgriparækt stóð fyrir ráðstefnu 30. nóvember 2011 þar sem tekin voru fyrir málefni er tengdust kynbótastarfi í nautgriparækt. Á ráðstefnunni sem haldin var í Bændahöllinni var m.a. rætt um árangur kynbótastarfsins, breytingar á áherslum í ræktunarstarfinu á undanförnum árum, nýjungar í kynbótum og nýjar leiðir, kynbætur á grundvelli upplýsinga um erfðamengi, árangur skipulagðrar blendingsræktar, ræktunarstarf í nálægum löndum o.fl. Glærur frá ráðstefnunni eru nú aðgengilegar á heimasíðu Bændasamtakanna.

Fyrsti bændafundur BÍ á Suðurlandi í dag

Í dag verður fyrsti bændafundur BÍ hér á Suðurlandi á Icelandair hótel Flúðum og hefst hann kl. 13.00. Við hvetjum bændur til þess að fjölmenna á fundinn sem og aðra bændafundi BÍ sem verða næstu daga.
Á morgun verður fundunum framhaldið hér sunnanlands og er fundaplanið eftirfarandi:

Nýjung frá Fóðurblöndunni

Fóðurblandan hefur sett á markað geldstöðustamp og kurl, LIFELINE – Líflínu, sem er í 22,5 kg fötum eða 20 kg pokum. Að sögn Fóðurblöndunnar er um að ræða góða og hagkvæma lausn við bætiefnagjöf geldstöðunnar. Í tilkynningu frá Fóðurblöndunni segir meðal annars um Lifeline:

Undirbúningur að útgáfu markaskráa 2012 í fullum gangi

Nú er unnið að útgáfu markaskráa um land allt en þær munu koma út á næsta ári. Eigendum eyrnamarka búfjár og frostmerkja hrossa er bent á að hafa samband við markaverði til þess að skrá mörk sín í markaskrá. Gildir þetta bæði um þá sem eiga skráð mörk og þá sem hyggjast fá mark eða taka upp nýtt. Brýnt er einnig að tilkynna markavörðum um eigendaskipti að mörkum. BSSL er ekki kunnugt um skráningargjöld fyrir mörk í markaskrá nema í Árnessýslu austan vatna, þ.e. austan Ölfusár og Hvítár, þar sem gjaldið hefur verið ákveðið 2.500 kr.
Markaverðir á starfssvæði Búnaðarsambands Suðurlands eru:

Erfðaframfarir skila meðalbúinu yfir 100 þús. kr. á ári

Nú stendur yfir ráðstefna um nautgriparækt á Hótel Sögu í Reykjavík. Á ráðstefnunni hefur margt fróðlegt komið fram en hún hófst á erindi um ræktunarárangur síðustu 30 ára sem Ágúst Sigurðsson flutti. Erindið var unnið upp úr rannsókn sem Ágúst og Jón Viðar Jónmundsson gerðu og voru niðurstöður hennar birtar í Icelandic Agricultural Sciences (www.ias.is) fyrir skömmu. Í erindinu kom fram að erfðaframfarir hafa skilað okkur síðasta áratuginn aukningu í nyt sem nemur 33 kg af mjólk á grip á ári eða 1,2 kg próteins. Ef við reiknum þessa afurðaaukningu til verðs þá nemur aukningin rúmlega 2.500 kr/grip á ári og er þá eingöngu verið að tala um framfarir í mjólkurmagni.

Umsóknarfestur í Framleiðnisjóð er til 5. des. n.k.

Við minnum á að umsóknarfrestur um styrki frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins til nýsköpunar atvinnu á bújörðum, samstarfsverkefni bænda og annarar eflingu atvinnu til sveita rennur út þann 5. desember n.k. (póststimpill gildir). Allar nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, Hvanneyri í síma 430-4300 eða í gegnum netfangið fl@fl.is.

Bókin Hrossaræktin 2011 til félaga í FH

Allir félagsmenn í Félagi hrossabænda fá eintak af bókinni Hrossaræktin 2011 sér að kostnaðarlausu. Aðildarfélög FH hafa fengið bókina afhenta og munu sjá um dreifingu. Félagar í Hrossaræktarsamtökum Suðurlands geta fengið bókina afhenta hjá Höllu Eygló Sveinsdóttur á skrifstofu Búnaðarsambands Suðurlands, Austurvegi 1 á Selfossi.

Samkomulag við Rússa um útflutning á mjólkurafurðum

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra skrifaði í gær undir samkomulag við rússnesk stjórnvöld um gagnkvæma vottun mjólkurframleiðenda sem mun opna fyrir útflutning íslenskra mjólkurafurða, þ.á.m. skyrs, mjólkurdufts og smjörs, inn á Rússlandsmarkað. Samkvæmt samkomulaginu ábyrgist Matvælastofnun að íslenskir framleiðendur mjólkurafurða uppfylli þær gæðakröfur sem rússnesk yfirvöld gera til innflytjenda. Það greiðir leið íslenskra mjólkurafurða inn á Rússamarkað, og reyndar einnig til Hvíta-Rússlands og Kasakstan, en ríkin þrjú gengu nýverið í tollabandalag.

Heldur minni fallþungi hjá SS

Hefðbundinni sláturtíð er lokið hjá Sláturfélagi Suðurlands er lokið. Samtals var slátrað 92.184 dilkum hjá félaginu frá viku 34 til og með viku 45. Meðalfallþungi reyndist vera 15,72 kg samanborið við 15,77 kg í fyrra.
Meðaleinkunn fyrir gerð lækkaði úr 8,68 en fitueinkunn var nánast óbreytt milli ára, 6,61 í ár en var 6,60 árið 2010.

Haustfundir sauðfjárræktarinnar hefjast í dag

Hinir árlegu haustfundir sauðfjárræktarinnar hefjast í dag en fyrsti fundurinn hefst kl. 14.30 í Þingborg. Alls verða haldnir fjórir fundir í dag og á morgun. Til umfjöllunar á fundunum verða hauststörfin, hrútakostur Sauðfjársæðingastöðvar Suðurlands kynntur og farið yfir starfsemi stöðvarinnar. Nýtt kynningarmyndband um Sauðfjársæðingastöðina verður sýnt auk þess sem nýútkominni hrútaskrá sauðfjársæðingastöðvanna verður dreift. Þá verða hæst dæmdu hrútar haustsins verðlaunaðir. Fundað verður á eftirtöldum stöðum:

Opið hús í verslunum Fóðurblöndunnar

Fóðurblandan verður með opið hús í verslunum sínum á Suðurlandi miðvikudaginn 23. nóvember á Selfossi og fimmtudaginn 24. nóvember á Hvolsvelli. Báða dagana verður opið til kl 21:00 – kynning byrjar kl. 15:00
Boðið verður upp á léttar veitingar auk þess sem frábær tilboð verða báða dagana og nýjar vörur kynntar.

back to top