Sjálfstæðisflokkurinn vill mjólkurkvóta burt

Landsfundi Sjálfstæðisflokksins lauk helgina. Að venju voru samþykktar fjölmargar ályktanir en það er einkum þrennt sem snertir landbúnað sérstaklega. Í fyrsta lagi er það úr ályktun um atvinnumál þar sem segir að mikilvægt sé að tollar verði afnumdir, vörugjöld og aðflutningsgjöld endurskoðuð, þar með talið af landbúnaðarvörum, með það að markmiði að lækka vöruverð og örva verslun í landinu. Í öðru lagi má nefna kafla um landbúnaðarmál í ályktun um atvinnumál en þar vekur sérstaka athygli að Sjálfstæðisflokkurinn vill afnema kvótakerfi í mjólkurframleiðslu. Kaflinn um landbúnaðarmál í atvinnumálaályktuninni fylgir hér með í heild sinni. Það þriðja sem sérstaka eftirtekt vekur úr ályktunum fundarins er svo úr ályktun um fjármál heimilanna þar sem fjallað er um mat á bújörðum: „Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að mat á virði bújarða í tengslum við skuldaaðlögun bænda verði framkvæmt af úrskurðarnefnd sem fjármálastofnanir og bændasamtök koma sér saman um til þess að tryggja að jafnræðis sé gætt.“

Nautgripir f. frá og með 1. nóv. 2011 skulu merktir í bæði eyru

Við viljum vekja athygli kúabænda á því að þann 1. nóvember s.l. voru gerðar breytingar á einstaklingsmerkingum nautgripa með gildistöku reglugerðar nr. 968/2011 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1760/2000 um að koma á kerfi fyrir auðkenningu og skráningu nautgripa og um merkingar nautakjöts og nautakjötsafurða. Þar segir að: „Til að gera kleift að rekja flutninga á nautgripum skulu dýrin vera auðkennd með eyrnamerki í báðum eyrum…“. Jafnfram segir í bráðabirgðaákvæði með reglugerðinni að ekki sé krafist endurmerkingar á nautgripum sem eru fæddir fyrir gildistöku reglugerðar þessarar sem skráðir eru í kynbótaskýrsluhaldskerfi Bændasamtaka Íslands og eru einstaklingsmerktir á fullnægjandi hátt. Ef slíkt merki týnist úr grip skal hann þó merktur skv. ákvæðum reglugerðarinnar.

SS minnir á vetrarslátrun sauðfjár og vantar folöld til slátrunar

Sláturfélag Suðurlands hefur sent frá sér tilkynningu þar sem minnt er á að vetrarslátrun sauðfjár verður miðvikudaginn 30. nóvember n.k. og innlegg staðgreitt skv. verðskrá nóvember.

Hagstofan safnar hagtölum í landbúnaði

Hagstofa Íslands er að gera sérstakt átak í því að efla hagtölugerð í landbúnaði, en fram að þessu hafa Bændasamtök Íslands séð að mestu um að safna saman tölum um landbúnaðinn. Nokkuð hefur verið fjallað um þessi mál á síðustu misserum, m.a. í tengslum við umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Í skýrslu sem framkvæmdastjórn ESB sendi frá sér í haust sagði að sambandið teldi að Ísland væri ekki tilbúið til viðræðna um landbúnaðarmál, m.a. vegna þess að hagtölur um landbúnaðarmál á Íslandi væru ófullkomnar. ESB gagnrýnir m.a. að hagsmunasamtök sæu um að safna tölum um landbúnaðarmál.

5% aukning á framleiðslu lambakjöts

Horfur eru á að framleiðsla á lambakjöti verði talsvert meiri á þessu ári en í fyrra. Samkvæmt nýjum tölum frá Bændasamtökum Íslands er aukningin um 5% milli ára. Miðað við síðustu 12 mánuði nemur framleiðslan 9.592 tonnum. Fara þar aftur til ársins 2000 til að finna álíka mikla framleiðslu.
Mun minna var flutt út af lambakjöti í þessari sláturtíð en í fyrra. Á síðustu þremur mánuðum hafa verið flutt út 884 tonn, sem er 42% minna en á sama tímabili í fyrra.

Ullarverð til bænda hækkar um 5,1%

Gengið hefur verið frá samningi milli Ístex, Landssamtaka sauðfjárbænda og Bændasamtaka Íslands um ullarverð sem gildir frá og með 1. nóvember sl. og til októberloka 2012. Verðskráin hækkar um 5,1% frá fyrra ári og er það talsvert minna en kjötverð hækkaði í nýliðinni sláturtíð. Ástæða þess er að innlagt ullarmagn hefur aukist verulega undanfarið.
Framleiðslan var ríflega 1.000 tonn á síðasta ár sé miðað við óþvegna ull og úr henni urðu 785 tonn af hreinni ull. Ullarframleiðslan hefur aukist um rúm 100 tonn síðustu ár. Þar sem greiðslur fyrir ull skv. sauðfjársamningi eru föst fjárhæð en ekki framleiðslutengd þá dreifist hún nú á fleiri kíló en áður. Ístex hefur þó hækkað sínar greiðslur verulega á milli ára og hlutur fyrirtækisins í ullarverði er 40% hærri en á síðasta ári.

Verð á hvítu kjöti, eggjum og mjólk til bænda gæti lækkað um 25-50%

Auka þyrfti stuðning við bændur um allt að sex milljarða á ári ef tryggja ætti afkomu þeirra eftir inngöngu Íslands í Evrópusambandið og verð á sumum matvörum gæti lækkað um allt að helming við aðild. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu hagfræðinganna Daða Más Kristóferssonar, dósents við Háskóla Íslands, og Ernu Bjarnadóttur hjá Bændasamtökunum. Skýrslan var unnin fyrir samningahóp Íslands um landbúnaðarmál í aðildarviðræðum við Evrópusambandið en hópurinn mun nýta skýrsluna í aðildarviðræðunum við ESB.

Niðurstöður afkvæmarannsókna sauðfjársæðingastöðvanna

Tekið hefur verið saman yfirlit um niðurstöður afkvæmarannsókna sem unnar voru vegna sauðfjársæðingastöðvanna haustið 2011. Á grunni niðurstaðna þessara rannsókna hafa allmargir þeirra hrúta sem koma nýir á stöð núna verið valdir.

Hraunkot rígheldur í toppsætið

Niðurstöður afurðaskýrslna nautgriparæktarinnar fyrir októbermánuð hafa nú verið birtar. Þegar yfirlitið var tekið saman höfðu borist skýrslur frá 94% búa sem skráð eru í skýrsluhaldið. Síðustu 12 mánuði hafa 22.259,5 árskýr mjólkað að meðaltali 5.345 kg. Þetta eru sömu afurðir á mánuðinn á undan. Á Suðurlandi eru meðalafurðir á sama tíma 5.455 kg/árskú. Hæsta meðalnyt er í Hraunkoti í Skaftárhreppi 8.355 kg/árskú, næsthæstu meðalafurðir voru á Kirkjulæk 2 í Fljótshlíð en þar voru þær 7.936 kg og þriðja búið í röðinni er í Reykjahlíð á Skeiðum þar sem meðalnytin var 7.917 kg Þetta eru sömu búin og sátu efst í síðasta mánuði, röðin er þó breytt þannig að búin í Reykjahlíð og á Kirkjulæk hafa skipt um sæti.

Opinn dagur á Stóra Ármóti 11.11.11

Haldinn verður opinn dagur á Stóra Ármóti föstudaginn 11. nóvember n.k. Vonast er til að bændur og þéttbýlisbúar sæki búið heim. Allir velkomnir!
Starfsemi tilraunabúsins, Búnaðarsambands Suðurlands, Landbúnaðarháskóla íslands auk fleiri stofnana og fyrirtækja verður kynnt. Þá verða sýndir búfjárdómar, klaufskurður, rúningur o.fl.

Sláturhúsið Hellu heldur upp á 10 ára afmæli sitt

Sláturhúsið Hellu hf. heldur upp á 10 ára afmæli sitt þann 11. nóvember 2011 (þ.e. á morgun) en það var stofnað var stofnað 10. október 2001. Sláturhúsið býður hluthöfum, innleggjendum og viðskiptavinum til hófs í nýju kjötvinnsluhúsnæði við hliðina á Sláturhúsinu að Suðurlandsvegi 6 frá kl. 15:00 til 18:00. Sláturhúsið á Suðurlandsvegi 8, verður líka opið til skoðunar eftir miklar endurbætur að undanförnu.

Fallþungi ívið minni en í fyrra

Nú liggja fyrir niðurstöður kjötmats á lambakjöti í nýliðinni sláturtíð eða á tímabilinu 1. ágúst 2011 til 31. október 2011 samkvæmt samantekt MAST. Slátrun á tímabilinu var nokkru meiri en í fyrra, rúmlega 528 þúsund lömb, en 2010 var fjöldinn um 509 þúsund (+3,8%). Innvegið kjöt var alls 8.333 tonn, en tæp 8.125 tonn árið 2010 (+2,6%).
Meðalfallþungi í haust, þ.e. fram til 31. okt., var 15,77 kg sem er 190 gr. minna en í fyrra (-1,2%).

Líf og fjör á Stóra Ármóti

Það er líf og fjör á Stóra Ármóti þessa dagana og fyrirlestrarsalurinn á staðnum vel nýttur. Í dag eru 26 manns á gæðastýringarnámskeiði í sauðfjárrækt og á föstudaginn verður opinn dagur þar sem starfsemi tilraunabúsins, Búnaðarsambandsins, Landbúnaðarháskólans og ýmissa þjónustufyrirtækja landbúnaðarins verður kynnt. Auk þess verða sýndir búfjárdómar, klaufskurður, rúningur o.fl.

Fóðurblandan lækkar verð á fóðri um allt að 5%

Fóðurblandan hefur tilkynnt um allt að 5% lækkun á fóðri sem tekur gildi í dag, miðvikudaginn 9. nóvember. Lækkunin er misjöfn eftir tegundum.
Ástæða lækunarinnar er samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu lækkun á verði hráefna.

Ný matvælalöggjöf og breytingar gagnvart bændum

Þann 1. nóvember sl. kom til framkvæmda á Íslandi sá hluti nýrrar matvælalöggjafar á Evrópska efnahagssvæðinu sem snýr að bændum. Þessi hluti snýr þannig að þeim sem rækta fóður, framleiða dýraafurðir og dreifa, þeirra sem rækta eða nota grænmeti, korn eða gras til dreifingar, manneldis eða fóðurgerðar.
Ákvæði fyrir fóður, fisk og almenn matvæli tóku gildi þann 1. mars 2010, en nauðsynlegt þótti að seinka innleiðingu á þeim hluta sem snýr að bændum til að hægt væri fyrir fyrirtæki að koma á nauðsynlegum úrbótum og fyrir opinbera aðila að tryggja hlutlaust eftirlit. Matvælastofnun (MAST) stóð fyrir fræðslufundi fyrir bændur þann 1. nóvember sl. á Hvanneyri þar sem þeir voru upplýstir um þau atriði löggjafarinnar sem helst munu hafa áhrif á þeirra störf.

Lífland lækkar verð á kjarnfóðri um allt að 5%

Lífland hefur tilkynnt að fyrirtækið mun lækka verð á kjarnfóðri mánudaginn 7. nóvember n.k. Lækkunin nemur allt að 5%, mismunandi eftir tegundum.
Að því er fram kemur í tilkynningunni er ástæða verðbreytingarinnar lækkun á heimsmarkaðsverði hráefna til fóðurgerðar.

Landbúnaðarstefnan ekki til hagsbóta fyrir neytendur?

Um miðjan október s.l. ræddi Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, alþingismaður, umfæðuöryggismál í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi. Hann kom inn á að á vegum forsætisráðherra var unnin á sínum tíma Sóknaráætlun 20/20 þar sem kemur fram í 14. lið að hlutfall innlendrar matvöru í neyslu landsmanna skuli aukast um 10% fyrir árið 2020. Hann vitnaði enn fremur til að í samstarfsyfirlýsingu Samfylkingar og Vinstri grænna kæmi fram að ríkisstjórnin myndi standa vörð um innlendan landbúnað og tryggja fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar auk þess að standa vörð um störf í matvælaiðnaði. Í framhaldinu spurði hann forsætisráðherra frétta af þessum málum og hvað ríkisstjórninni fyndist um fæðuöryggismál sem og hvernig hún hygðist auka hlutfall innlendrar matvöru um 10%.

Bændasamtökin fá um 15 milljónir vegna verkefna fyrir ríki og stofnanir þess

Fréttastofa RÚV flutti 26. október sl. frétt um stjórnsýsluverkefni sem Bændasamtök Íslands sinna. Þar kom fram að ekki væri sjáanlegt á framlögðu fjárlagafrumvarpi að flytja ætti verkefni frá BÍ til Matvælastofnunar þrátt fyrir ábendingar þar um frá Ríkisendurskoðun. Í fréttinni kom jafnframt fram að ríkisvaldið greiði Bændasamtökunum 400 milljónir króna vegna umræddra verkefna og hafa aðrir fjölmiðlar einnig sett það fram í sínum fréttum. Bændasamtökin hafa nú sent frá sér tilkynningu þar sem þessu er réttilega mótmælt og rökstyðja það með eftirfarandi:

Verð á greiðslumarki mjólkur nú 290 kr/l

Tilboðsmarkaði um kaup og sölu á greiðslumarki mjólkur lauk í dag, 1. nóvember 2011 en alls bárust Matvælastofnun 44 tilboð um kaup eða sölu á greiðslumarki. Alls voru boðnir til 901.799 lítrar í 9 tilboðum en kauptilboð reyndust vera 34 í samtals 1.031.748 lítrar. Jafnvægisverð markaðarins reyndist vera 290 kr/l. og þannig munu þeir sem lögðu inn kauptilboð og buðu 290 kr/l. eða hærra fá nú keypt hlutdeild í því greiðslumarki sem til sölu kemur. Þeir sem lögðu inn tilboð um sölu á greiðslumarki á verði sem væri 290 kr/l. eða lægra selja nú greiðslumark sitt. Alls munu því 657.999 lítrar koma til sölu á þessum markaði.

Greiðslumark næsta árs verður 114,5 milljónir lítra

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ákveðið, að fengnum tillögum framkvæmdanefndar búvörusamninga, að heildargreiðslumark til framleiðslu mjólkur verðlagsárið 2012 skuli vera 114,5 milljónir lítra. Reglugerð þessa efnis er væntanleg á næstu vikum. Greiðslumarkið mun skiptast hlutfallslega milli lögbýla á sama hátt og á yfirstandandi ári, en þá var greiðslumarkið 116,0 milljónir lítra.

back to top