Árni Snæbjörnsson er nýr aðstoðarmaður ráðherra

Árni Snæbjörnsson verður nýr aðstoðarmaður Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann tekur við af Gunnfríði Elínu Hreiðarsdóttur sem lét af störfum fyrir skömmu. Þetta kemur fram á vef Bændablaðsins.
Árni er sveitamaður í húð og hár. Hann er fæddur og uppalinn á Stað í Reykhólasveit. Árni tók kandidatspróf í búfræðum frá Hvanneyri og masterspróf í náttúrufræðum frá Edinborgarháskóla. Síðustu ár hefur Árni starfað sem framkvæmdastjóri Bjargráðasjóðs og einnig sem framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga.

Haustfundir LK hefjast í næstu viku

Fyrsti haustfundur Landssambands kúabænda 2011 verður haldinn í Þingborg í Flóa fimmtudaginn 13. október n.k. kl. 20.30. Á fundinum verður stefnumörkun Landssambands kúabænda til 2021 kynnt í fyrsta sinn. Stefnumörkunin lýsir framtíðarsýn búgreinarinnar til næstu 10 ára, auk þess sem hún útlistar með hvaða hætti LK hyggst starfa á næstu árum til hagsbóta fyrir íslenska nautgriparækt. Auk stefnumörkunarinnar verða til umfjöllunar á fundunum framleiðslu-, sölu- og afkomumál, framkvæmd mjólkursamnings, staða lánamála bænda, greiðslumark mjólkur og kvótamarkaður, breytingar á laga- og regluumhverfi greinarinnar og staða umsóknar Íslands að ESB. Aðrir haustfundir verða sem hér segir:

Kornskurður gengur tregt vegna veðurs

Kornskurður stendur nú sem hæst en er seinna á ferðinni í ár en síðustu ár vegna kulda og þurrka í sumar. Þá hefur veðurfar síðustu daga hefur tafið kornskurð en mikið rignt síðustu daga auk þess sem hvasst hefur verið á Suður- og Vesturlandi. Kornöxin geta farið illa í roki en þó er rok og rigning skárri en hvassviðri í þurru veðri. Ljóst er þó að korn hefur víða lagst undan veðrinu.
Spáð er skúrum í dag en á morgun á að snúast í norðanátt og þá ætti þresking að geta farið í fullan gang.

Greiða skal 0,13% í Starfsendurhæfingarsjóð frá 1. sept. s.l.

Samkvæmt lögum sem samþykkt voru á Alþingi í júní síðastliðnum (breyting á lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða) þá ber öllum launagreiðendum að greiða 0,13% af heildarlaunum allra starfsmanna sinna til VIRK–Starfsendurhæfingarsjóðs frá og með 1. september 2011 – þ.e. miða skal við iðgjaldastofn septembermánaðar 2011. Fram að þessum tíma hefur einungis verið kveðið á um greiðsluskyldu í kjarasamningum en nú nær hún til allra launamanna samkvæmt lögum þar með talið til sjálfstæðra atvinnurekenda og þeirra sem ekki eru félagsmenn stéttarfélaga.

Ásetningshlutfall sauðfjár óbreytt

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ákveðið, að tillögu framkvæmdanefndar búvörusamninga, að til að hljóta fullar beingreiðslur árið 2012 skuli fjöldi vetrarfóðraðra kinda vera að lágmarki 0,6 á hvert ærgildi greiðslumarks á lögbýli. Þetta er sama ásetningshlutfall og verið hefur undanfarin ár.

Enn munnhöggvast menn um matvælaverð og verðbólgu

Bændasamtök Íslands og ASÍ halda áfram að munnhöggvast um matvælaverð og verðbólgu. Haraldur Benediktsson, formaður samtakanna, sagði í samtali við Ríkisútvarpið í gær að málflutningur Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, væri „kjaftæði“ en í fyrradag sagði Gylfi að verðhækkanir á íslenskum matvælum helstu orsök hækkandi verðbólgu í samtali við RÚV. Verðbólga mældist 5,7 prósent í september og hafði þá hækkað um 0,7 prósentustig milli mánaða.

Bændasamtökin mótmæla málflutningi forseta ASÍ harðlega

Bændasamtökin hafa sent frá sér tilkynningu þar málflutningi forseta ASÍ varðandi það að skýringa á aukinni verðbólgu væri að leita í hækkunum á innlendri búvöru er harðlega mótmælt. Bændasmtökin vilja koma eftirfarandi atriðum á framfæri í þessu sambandi:

Forseti ASÍ vill stokka upp landbúnaðarkerfið

Forseti Alþýðusambands Íslands vill að landbúnaðarkerfið verði stokkað upp og segir hækkandi verð á íslenskum matvælum vera eina helsta orsök þess að verðbólga hefur ekki mælst hærri hér á landi í sextán mánuði. Hann segir engin rök fyrir hækkununum, bændur taki nú meira til sín í skjóli einokunar.
Vísitala neysluverðs eða verðbólga, hækkar um núll komma sjö prósentustug á milli mánaða og mælist nú fimm komma sjö prósent síðustu tólf mánuði. Verðbólgan hefur hækkað látlaust frá því í janúar, en hefur ekki mælst hærri í sextán mánuði eða frá því í maí í fyrra. Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, hefur miklar áhyggjur af þróuninni en kjarasamningar verða endurskoðaðir í janúar.

Frjósemi hjá dætrum sæðingastöðvarhrútanna vorið 2011

Eins og á undanförnum árum hafa rauntölur um frjósemi hjá þrem yngstu árgöngum dætra stöðvarhrútanna verið teknar saman í töflu sem er að finna á vef Bændasamtakanna, sjá hlekk neðar. Skil í skýrsluhaldinu eru meiri en nokkru sinni og því er þarna ákaflega mikið magn upplýsinga.
Einnig er búið að vinna nýtt BLUP kynbótamat fyrir frjósemi þar sem þessar upplýsingar hafa lagst við eldri gögn. Þær niðurstöður hafa margir þegar skoðaða í FJARVIS.IS. Nokkrar breytingar verða á mati hjá sumum hrútunum. sérstaklega þeim sem nú eiga sinn fyrsta árgang dætra úr sæðingum.

Dagur sauðkindarinnar 15. október n.k.

Félag sauðfjárbænda stendur fyrir degi sauðkindarinnar í fjórða sinn í Skeiðvangi á Hvolsvelli laugardaginn 15. október kl. 14 17. Sauðfjáreigendur frá Markarfljóti að Þjórsá geta komið með um 10 kindur á sýninguna og er fjölbreytni í litum og önnur sérkenni æskileg.
Opinn markaður verður á hrútum og gimbrum og eru fjáreigendur hvattir til að koma með fé til sölu.
Á sýninguna eru boðaðir 10-15 efstu lamb- og veturgamlir hrútar frá sýningum í heimasveit og verður þeim raðað upp á nýtt og verðlaun veitt.

Ráðið hefur verið í stöður héraðsdýralækna

Matvælastofnun hefur gengið frá ráðningu í þær sex stöður héraðsdýralækna sem verða til með breyttri umdæmaskipan frá og með 1. nóvember n.k. Héraðsdýralæknir í Suðurumdæmi verður Gunnar Þorkelsson, hann hefur gegnt stöðu héraðsdýralæknis í Vestur-Skaftafellsumdæmi.

Ráðherra undrandi á skilyrðum ESB

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra undrast þau skilyrði sem Evrópusambandið hefur sett fyrir því að hefja samningaviðræður um landbúnað og dreifbýlisþróun. Þetta kemur fram í grein eftir ráðherra sem m.a. er birt á vef ráðuneytisins. Ráðherra segir opnunarskilyrðin koma verulega á óvart þegar haft er í huga að á rýnifundi um landbúnaðarkaflann, sem fór fram í Brussel 27. janúar s.l. hafi íslenska samninganefndin gefið út sérstaka yfirlýsingu um málið miðað við þá ákvörðun Íslands að breyta ekki íslenskri stjórnsýslu, eða lögum fyrr en fyrir liggur að aðildarsamingur hafi verið samþykktur í þjóðaratkvæagreiðslu. Í yfirlýsingu samninganefndarinnar var því lýst að Íslandi verði unnt að gera allar nauðsynlegar laga og stjórnsýslubreytingar þannig að allt verði til reiðu frá gildistöku aðildar. Nú liggur fyrir að slík yfirlýsing er ekki fullnægjandi að mati framkvæmdastjórnar ESB.

Mjólkurinnleggið tók kipp í ágúst

Það sem af er ári eða til og með viku 37 hefur framleiðsla mjólkur numið 90,7 milljónum lítra sem er nánast sama framleiðsla og á sama tíma í fyrra. Munar aðeins 105 þús. lítrum eða 0,12% og þá þannig að framleiðslan er minni í ár. Á þessu ári hefur mjólkurinnlegg verið minna en í fyrra alla mánuði ef undanskildir eru maí og ágúst. Innlegg í ágúst var 535 þús. lítrum meira en í fyrra og það sem af er september er framleiðslan einnig meiri. Þarna getur þrennt komið til. Í fyrsta lagi geta fleiri kýr hafa borið á þessum tíma, fleiri kýr eru mjólkaðar en á sama tíma í fyrra eða kýrnar hafa náð að halda betur á sér.

Ný reglugerð um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum

Gefin hefur verið út reglugerð nr. 846/2011 um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum og er henni ætlað að tryggja dýraeigendum nauðsynlega almenna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu við dýr á landsvæðum þar sem fjöldi dýra er takmarkaður og/eða verkefni dýralækna eru af skornum skammti. Samkvæmt reglugerðinni getur Matvælastofnun gert þjónustusamning við sjálfstætt starfandi dýralækna, sem munu þá hafa starfsstöð og sinna dýralæknaþjónustu á tilteknum þjónustusvæðum, sem tilgreind eru í reglugerðinni. Undir þá skilgreiningu falla m.a. Austur- og Vestur-Skaftafellssýslur.

Geithafrasæði flutt til Bandaríkjanna

Í gær voru 100 skammtar af geithafrasæði fluttir út til Bandaríkjanna á vegum Sauðfjársæðingastöðvar Suðurlands. Sæðið var tekið í fyrrahaust en þá fékkst leyfi dýralæknayfirvalda til þess að flytja geithafra í gömlu nautastöðina á Hvanneyri til sæðistöku. Það var Erfðalindasetur Landbúnaðarháskólans sem stóð fyrir sæðistökunni með tilstyrk Erfðanefndar landbúnaðarins.

Rýniskýrsla ESB um landbúnað á íslensku

Búið er að þýða kafla um landbúnað og dreifbýlisþróun (11. kafla) í rýniskýrslu framkvæmdastjórnar ESB en skýrslan barst íslenskum stjórnvöldum í byrjun september eins og kunnugt er. Í kjölfarið hefur verið þó nokkur umræða um það að undirbúningur Íslands hvað þennan málaflokk snertir sé ónógur gagnvart samningum við ESB. Þá hafa þær raddir verið háværar sem telja koma mjög skýrt fram í skýrslunni að aðildarviðræður Íslands og ESB séu ekki samningsviðræður heldur aðildarferli.

Íslenskt þaraskyr kynnt á Sjávarútvegssýningunni

Íslenskt þaraskyr verður kynnt og fólk getur smakkað á Sjávarútvegssýningunni í Kópavogi laugardaginn 24. september, kl. 13-15. Þeir Jón Trausti Kárason og Kjartan Trauner hafa í samvinnu við Matís og fleiri þróað skyrið sem inniheldur þara af tegundinni Marínkjarna úr Breiðafirði. Auk Marínkjarnans inniheldur varan lífræna mjólk frá BioBú, íslensk aðalbláber, lífrænt blómahunang en engan viðbættan sykur né aukaefni.

Kjötsala dregst saman

Sala á kjöti hefur dregist saman um 3,9% á síðustu 12 mánuðum m.v. næstu 12 mánuði þar á undan samkvæmt yfirliti frá Bændasamtökum Íslands. Mestur er samdrátturinn í sölu hrossakjöts eða 11,9% en sala á kindakjöti hefur dregist saman um 6,5% Eina kjöttegundin sem heldur sínu er nautkjöt með 0,5% söluaukningu.

SS lækkar verð á kjarnfóðri

Sláturfélag Suðurlands hefur lækkað verð á kjarnfóðri og tók ný verðskrá gildi þann 12. september sl. Kúafóður 16 lækkar um 2,4% og Kúafóður 20 um 3,0% en verð annarra blandna er óbreytt. Lækkunin er tilkomin vegna breytinga á innkaupsverði, að því er segir í tilkynningu frá félaginu.

Búfræðimenntun metin til launahækkunar

Starfsgreinasambandið og Framsýn stéttarfélag í Þingeyjarsýslum hafa samið um kjör landbúnaðarverkamanna við Bændasamtök Íslands en skrifað var undir nýjan samning hjá ríkissáttasemjara í gær. Samningurinn felur í sér það nýmæli að menntun á háskólastigi á sviði búfræði, fiskeldisfræði og tamninga verður metin til launahækkunar.

back to top