Hraunkot heldur fast í toppsætið

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir ágúst hafa verið birtar á vef Bændasamtakanna. Afurðir á landsvísu standa nú í 5.334 kg/árskú sem eru nákvæmlega sömu afurðir og að afloknu ágúst-uppgjöri í fyrra. Hér á Suðurlandi standa afurðirnar í 5.435 kg/árskú og eru mesta í Árnessýslu eða 5.532 kg/árskú.
Hraunkot í Landbroti situr í toppsætinu með 8.079 kg/árskú en fast á eftir er Kirkjulækur í Fljótshlíð með 7.948 kg/árskú. Þriðja búið í röðinni er Reykjahlíð á Skeiðum með litlu minni afurðir eða 7.935 kg/árskú.

Aðildarviðræður eða aðlögunarferli?

Eftir að Evrópusambandið sendi íslenskum stjórnvöldum rýniskýrslu sína um landbúnaðarmál og byggðaþróun í upphafi vikunnar hefur orðið nokkur umræða um framgang aðildarviðræðna Íslands við ESB hvað þennan málaflokk snertir. Ljóst er að kaflarnir um landbúnaðarmál og sjávarútveg verða erfiðustu málaflokkar viðræðnanna enda eru þeir ekki hluti EES-samningsins. Segja má að í þeim málaflokkum sem tilheyra honum sé ekkert um að semja þar Ísalnd hefur í flestu eða öllu tekið upp reglur ESB nú þegar.
Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmstjóri LK, birti nú í vikunni leiðara á naut.is þar sem fram kemur að aðildarviðræður við ESB séu í reynda aðlögunarferli en ekki aðildarviðræður. Nokkuð sem ekki er nýtt í umræðunni og margir hafa viljað meina að væri raunin. Í lok leiðara Baldurs segir hann;

Fóðurblandan lækkar verð á fóðri

Fóðurblandan hefur sent frá sér tilkynningu þess efnis að í dag, miðvikudaginn 7. sept. 2001, muni allt tilbúið fóður hjá fyrirtækinu lækka um 0-4%. Nýr verðlisti hefur ekki verið birtur né heldur er ástæða lækkunarinnar gefin upp í tilkynningunni.

MS flytur út ost og Hleðslu

MS flutti á dögunum út gám af gouda-osti til Hollands og er það í fyrsta skipti í tólf ár sem fastur ostur er fluttur út frá Íslandi en síðast var fastur ostur fluttur út að einhverju ráði árið 1992. Um er að ræða tilraunaverkefni og segir Jón Axel Pétursson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs MS að verið sé að kanna markaðsmöguleika með útflutningnum. Gríðarlega góður gangur hefur verið í sölu á skyri í Finnlandi upp á síðkastið og er það hvetjandi til að áframhaldandi markaðsstarfs.

Ríkisstuðningur við landbúnað hefur minnkað mikið

Ríkisstuðningur við landbúnað á Íslandi eða svokallaður PSE-stuðningur (Produced Subsidy Equivalent) hefur minnkað mikið á síðustu árum, m.a. vegna falls krónunnar. Með PSE-stuðningi er reynt að mæla ríkisstyrki og annan beinan stuðning við landbúnað sem og óbeinan stuðning eins og tollvernd. Það liggur í hlutarins eðli að gengi gjaldmiðla hefur mikil áhrif á þennan útreikning. Árið 2007 reiknaðist ríkisstuðningur um 60% á Íslandi, en samkvæmt skýrslu ESB um landbúnaðarmál, sem kynnt var á mánudag, nam hann 47% árið 2009. Sama ár var meðalstuðningur innan ESB 23%.

Íslensk stjórnvöld verða að setja fram skýr samningsmarkmið

Bændasamtökin hafa sent frá sér fréttatilkynningu vegna rýniskýrslu Evrópusambandsins um landbúnaðarmál og dreifbýlisþróun. Í bréfi sem ESB sendi til íslenskra stjórnvalda kemur fram að Ísland er ekki nægilega undirbúið til þess að opna samningakafla um landbúnaðarmál í aðildarviðræðunum við sambandið.
Bændasamtökin halda því fram að þetta sýni glögglega að ESB krefjist þess að Ísland aðlagi lagasetningu, stjórnkerfi og upplýsingakerfi þannig að þau uppfylli kröfur ESB á sama tíma og verið er að vinna að aðildarsamningi. Með þessu sé ljóst að íslensk stjórnvöld geti ekki lengur vikið sér frá því að setja fram skýr samningsmarkmið um landbúnaðarmál í viðræðunum við ESB.
Tilkynning BÍ hljóðar svo í heild sinni:

Undirbúningur í landbúnaðarmálum ónógur

Íslenskum stjórnvöldum hefur borist rýniskýrsla Evrópusambandsins um landbúnaðarmál ásamt bréfi þar sem Pólverjar, sem fara með formennsku í Evrópusambandinu, tilkynna íslenskum stjórnvöldum að Ísland sé ekki nægilega búið undir samninga um landbúnaðarmál í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Í bréfinu, sem Jan Tombinski, fastafulltrúi Pólverja skrifar undir, segir að Evrópusambandið telji að ekki sé hægt að taka upp samningaviðræður á þessu sviði fyrr en að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Kornsláttur hafinn undir Eyjafjöllum

Kornsláttur hófst undir Eyjafjöllum nú fyrir mánaðmótin en samkvæmt heimildum BSSL var fyrsti akurinn þresktur í Stóradal þann 27. ágúst s.l. Að sögn Ragnars Lárussonar, bónda í Stóradal, var uppskeran lakari en í meðalári eða um 2,3 tonn/ha. af þurru korni. Kornið hafi hins vegar verið ágætlega þroskað, þó ekkert í líkingu við það sem var í fyrra. Ragnar sagðist hafa sáð í lok apríl og kornið hefði farið mjög vel af stað en um miðjan maí gerði kulda og þurrk sem dró mjög úr vexti og þroska kornsins.

Nýr starfsmaður hjá Búnaðarsambandi Suðurlands

Hrafnhildur Baldursdóttir frá Litla-Ármóti í Flóahreppi hefur verið ráðin til starfa hjá Búnaðarsambandi Suðurlands. Hún mun fyrst og fremst vinna við fóðurleiðbeiningar og þá sérstaklega við NorFor fóðurmatskerfið fyrir kúabændur. Hrafnhildur lauk búvísindanámi frá Landbúnaðarháskóla Íslands vorið 2007 og fór að því loknu til náms við Norwegian University of Life Sciences í Noregi og lauk meistaranámi þaðan í fóðurfræði nautgripa vorið 2010.

Lífland lækkar verð á kjarnfóðri

Lífland tilkynnt um allt að 4% lækkun á verði kjarnfóðurs, mismunandi eftir tegundum, sem tekur gildi í dag fimmtudaginn 1. september 2011.
Ástæða verðbreytingarinnar er sögð vera lækkun á heimsmarkaðsverði hráefna til fóðurgerðar vegna nýrrar uppskeru.

Góður hagnaður hjá Sláturfélaginu

Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á fyrri helmingi ársins 2011 var 921 milljón króna. Á sama tímabili árið áður var 193 milljóna króna hagnaður hjá félaginu. Eigið fé Sláturfélagsins var 2.448 mkr. í lok júní.
Með samkomulagi við viðskiptabanka félagsins um uppgjör gengistryggðra lána og uppgreiðslu lána lækka langtímaskuldir um 1.100 mkr. Að teknu tilliti til reiknaðs tekjuskatts hefur uppgjör gengistryggðra lána um 800 mkr. jákvæð áhrif á afkomu félagsins á fyrra árshelmingi. Langtímaskuldir félagsins voru endurfjármagnaðar með nýrri lántöku að fjárhæð 1.600 mkr. til 25 ára sem lækkar umtalsvert árlegar afborganir lána.

Sveitarfélögin vilja forðagæsluna til Matvælastofnunar og búnaðarsambanda

Samband íslenskra sveitarfélaga telur eðlilegast að Matvælastofnun fari með lögbundnar valdheimildir um dýravernd, í samráði við hlutaðeigandi héraðsdýralækni. Búfjáreftirlitsmenn verði að meginstefnu til starfsmenn búnaðarsambanda, en með samningum þeirra við Matvælastofnun og héraðsdýralækna mætti tryggja að staðbundnar viðbragðsáætlanir séu fyrir hendi og skilvirk stjórnsýsla í þeim tilvikum þegar úrbóta er þörf. Þetta kemur m.a. fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um drög að frumvarpi til laga um dýravelferð.
Samkvæmt núverandi lögum er búfjáreftirlit á ábyrgð sveitarfélaga.

Kynningarfundur um drög að nýjum jarðalögum

Búnaðarsamband Suðurlands stendur fyrir fundi þar sem kynnt verða drög að frumvörpum til laga um breytingar á jarðalögum, nr. 81/2004 og ábúðarlögum, nr. 80/2004 sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur látið vinna og eru nú til umsagnar.
Fundurinn verður haldinn í Árhúsum, Hellu fimmtudaginn 1. september n.k. og hefst kl 20:30.

Nýr frjótæknir í Skaftárhreppi

Sigríður Böðvarsdóttir kúabóndi í Fagurhlíð í Landbroti tekur við starfi frjótæknis í Skaftárhreppi fyrir austan Skálm miðvikudaginn 31. ágúst n.k. af Gunnari Þorkelssyni dýralækni. Símanúmer og símatími verður óbreytt a.m.k fyrst um sinn. Sigríður lauk námskeiði fyrir frjótækna síðasta vetur.

Bændasamtökin senda frá sér yfirlýsingu vegna umræðu um sauðfjárrækt

Í ljósi umræðu um greinaskrif Þórólfs Matthíassonar háskólaprófessors við HÍ og umfjöllunar í fjölmiðlum um málefni sem tengjast sauðfjárrækt og sauðfjárbændum hafa Bændasamtökin sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:
„Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag, fimmtudaginn25. ágúst, var flutt frétt byggð á greinarskrifum Þórólfs Matthíassonar, deildarforseta hagfræðideildar Háskóla Íslands, sem birtist í Fréttablaðinu í morgun. Auk þess tók fréttamaður Rúv viðtal við deildarforsetann. Í viðtalinu var m.a. rætt um fyrirkomulag opinbers stuðnings við íslenska sauðfjárrækt. Enn fremur var fjallað um það í fréttinni að sauðfjárbændur hefðu gengið á fund háskólarektors til þess að ræða um framgöngu deildarforseta hagfræðideildar undanfarnar vikur í neikvæðri umfjöllun hans um framleiðslu og verðlagningu sauðfjárafurða.

Auðhumla hækkar verð á mjólk umfram greiðslumark

Stjórn Auðhumlu svf. hefur ákveðið að hækka verð á mjólk umfram greiðslumark frá 1. september 2011. Fyrir fyrstu 2% umfram greiðslumark verða greiddar 50 kr/ltr og 40 kr/ltr fyrir allt umfram þau 2%. Hækkunin nemur 5 kr/ltr fyrir fyrstu 2% umfram greiðslumark og 3 kr/ltr fyrir allt umfram það. Ástæða hækkunarinnar er hátt heimsmarkaðsverð á mjólk og mjólkurvörum.
Innanlandsframleiðsla á mjólk síðustu 12 mánuði (júlí 2010-júní 2011) nemur 122,2 milljónum lítra. Sala á próteingrunni var 114,8 milljónir lítra en 111 milljónir lítra á fitugrunni. Því þarf að flytja út prótein úr 7,8 milljónum lítra og fitu úr 11,2 milljónum lítra. Mest af próteininu er flutt út í formi undanrennudufts en einnig í nokkrum mæli sem skyr. Salan á skyrinu er stöðug í Bandaríkjunum og fer mjög vel af stað í Finnlandi.

Verðhækkun lambakjöts til bænda 14,3% skv. nýjustu verðskrám

Landssamtök sauðfjárbænda birtu í lok síðustu viku verðsamanburð á kindakjöti en allir sláturleyfishafar hafa nú gefið út verð. SS, Norðlenska og Fjallalamb hafa gefið út verðskrár tvisvar en hinir einu sinni. Verðsamanburðurinn miðast við kjötmat og sláturmagn á landinu öllu árið 2010 eins og fyrri ár og tekur tillit til verðskráa afurðastöðva í vikum 35-45. Álagsgreiðslur Markaðsráðs eru ekki meðtaldar sem og einstakra fyrirtækja utan vikna 35-45. Skv. þessari samantekt er hækkun á raunverði lambakjöts til bænda um 60 krónur á kíló lambakjöts (14,3%) en verð á kjöti af fullorðnu ríflega tvöfaldast. Meðalverðin eru námunduð í töflunni að næstu heilu krónu en eru reiknuð út með fullri nákvæmni. Heildarmeðaltalið er þó birt með aukastöfum til að draga betur fram mun á verði einstakra fyrirtækja, þar sem hann er í sumum tilvikum afar lítill.

Sala á nýslátruðu lambakjöti gengur vel

Sala á því lambakjöti sem slátrað hefur verið nú í ágúst hefur gengið mjög vel. Í þessari viku og þeirri síðustu hefur nokkur þúsund lömbum verið slátrað. Sláturhúsin verða þó almennt ekki komin í full afköst fyrr en vika er liðin af september. „Það sem komið er lítur vel út og það er allt upp í þokkalegustu lömb í þessu,“ segir Gísli Garðarsson, sláturhússtjóri hjá SAH Afurðum ehf. á Blönduósi á mbl.is. Hann tekur fram að lömbin falli ekki í verðflokkum vegna fitu, eins og eðlilegt sé á þessum árstíma.

Hollaröð seinni yfirlitssýningar á Gaddstaðaflötum

Seinni yfirlitssýning á síðsumarsýningunni á Gaddstaðaflötum fer fram á morgun, fimmtudaginn 25. ágúst og hefst stundvíslega kl. 8:00 sýningu 7 vetra hryssna og eldri. Áætlað er að sýningunni ljúki um kl. 17.00. Hollaröð sýningarinnar er nú komin á vefinn.

Formaður LS fundaði með rektor HÍ – viðskipti við Hagfræðistofnun afþökkuð

Sindri Sigurgeirsson formaður Landssamtaka sauðfjárbænda (LS) átti fund með Kristínu Ingólfsdóttur rektor Háskóla Íslands síðdegis á mánudag. Tilefni fundarins eru ítrekuð skrif Þórólfs Matthíassonar, prófessors og deildarforseta hagfræðideildar HÍ í fjölmiðlum um framleiðslu og verðlagningu kindakjöts.
Hefur bændum þótt verulega að sér vegið í skrifum deildarforsetans. Á fundinum tjáði Sindri rektor að ekki yrði óskað eftir kaupum LS á vinnu sem fyrirhugað var að kaupa frá Hagfræðistofnun varðandi stefnumótun í sauðfjárrækt. Var þetta ítrekað með tölvupósti til Hagfræðistofnunar frá skrifstofu Landssamtaka sauðfjárbænda í gærmorgun. Þetta kemur fram á vef Bændablaðsins.

back to top