Frá Félagi sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu

Stjórn Félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu samþykkti á fundi sínum 22. ágúst s.l. ályktun varðandi verð á kindakjöti til bænda. Ályktunin fer hér á eftir.
„Stjórn Félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu vill benda á eftirfarandi staðreyndir:
Verð á kjöti til útflutnings hefur hækkað mikið undanfarin misseri. Útflutningstekjur afurðastöðva ársins 2010 nægðu fyrir 75% af heildargreiðslum til bænda fyrir innlagt kindakjöt. Verð á gærum hefur fimmfaldast frá árinu 2009. Birgðastaða kjöts er góð og þar af leiðandi ætti vaxta-og geymslukostnaður sláturleyfishafa að vera miklu minni en áður. Hlutfall bóndans í verðmynduninni þegar kjötið er selt frá afurðastöð er 54%, á móti 46% sláturleyfishafans, eftir því sem fram hefur komið í fréttum.

Seinni yfirlitssýning síðsumarsýningar á Gaddstaðaflötum

Seinni yfirlitssýning síðsumarsýningar á Gaddstaðaflötum fer fram á morgun, fimmtudaginn 25. ágúst. Sýningin hefst stundvíslega kl. 8.00 með sýningu 7 vetra hryssna og eldri. Áætlað er að sýningunni ljúki um kl. 17.00. Dagskrá og skipulag flokka verður annars með eftirfarandi hætti:

Óljóst hvar mál standa

Samþykkt var í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis í gær að stefna að opnum fundum um aðildarferli og samningsmarkmið í landbúnaðarmálum, í viðræðunum við ESB. Í Morgunblaðinu í dag segir, að tillagan, sem borin var upp af Sigurði Inga Jóhannssyni, Framsóknarflokki, hljóði upp á að haldnir skuli a.m.k. tveir fundir og verði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra boðaður á annan þeirra en Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á hinn.
Lilja Rafney Magnúsdóttir nefndarformaður lagði einnig til að kannað yrði hvort halda mætti fundina sameiginlega með utanríkismálanefnd, þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefði mælt fyrir svipaðri tillögu.

Hollaröð fyrri yfirlitssýningar á Gaddstaðaflötum

Fyrri yfirlitssýning á síðsumarsýningunni á Gaddstaðaflötum fer fram á morgun, föstudaginn 19. ágúst og hefst stundvíslega kl. 9:00 og henni verður lokið upp úr hádegi. Hollaröð sýningarinnar er nú komin á vefinn.

Spenna milli ráðherra vegna ESB

Töluverð óeining virðist ríkja á stjórnarheimilinu varðandi aðildarviðræður Íslands að ESB ef marka má frétt Morgunblaðsins í dag. Þar kemur fram að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hafi um hríð krafist þess að Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra svari spurningum ESB um Greiðslustofnun landbúnaðar og landupplýsingakerfi, sem grundvallar styrkjakerfi Evrópusambandsins í landbúnaði.
Jón vill hins vegar bíða eftir væntanlegri rýniskýrslu ESB um málaflokkinn og bíða með að svara spurningum þar til sú skýrsla hefur litið dagsins ljós. Þetta hefur leitt til vaxandi spennu í samskiptum ráðherranna, jafnvel svo mikillar að Jóni hafi verið tjáð að hann gæti misst ráðuneyti sitt vegna málsins að því er Morgunblaðið segir sig hafa heimildir fyrir.

Fyrri yfirlitssýning á síðsumarsýningunni á Gaddstaðaflötum

Fyrri yfirlitssýning á síðsumarsýningunni á Gaddstaðaflötum fer fram á morgun, föstudaginn 19. ágúst og hefst stundvíslega kl. 9:00 og henni verður lokið upp úr hádegi. Röð flokka verður eftirfarandi:

Mókolla 230 á Kirkjulæk í 100 þús. kg hópinn

Mókolla 230 á Kirkjulæk í Fljótshlíð bættist í sumar í hóp þeirra örfáu íslensku kúa sem náð hafa 100.000 kg æviafurðum eða meira. Mókolla var í júlílok komin í 101.236 kg mjólkur. Mókolla er fædd 7. apríl 1996 undan Snarfara 93018 og Freyju 169 og er því orðin 15 vetra. Hún er enn í fullu fjöri og var í 16,4 kg í júlí s.l. en bar síðast 12. júlí 2010. Ef allt gengur upp og heilsufar Mókollu verður gott í vetur gæti hún náð eða hoggið nærri Íslandsmeti Hrafnhettu 153 í Hólmum í A-Landeyjum en það er 111.194 kg.

Kúasýningunni KÝR 2011 aflýst

Ákveðið hefur verið að aflýsa kúasýningunni KÝR 2011 sem vera átti laugardaginn 27. ágúst n.k. Ástæðan er þátttökuleysi en alltof fáir gripir voru skráðir til leiks. Búnaðarsambandið og Félag kúabænda á Suðurlandi þakka þeim kærlega sem skráðu gripi til sýningar en því miður er ekki hægt að standa fyrir sýningu með fjölda sem skráður var.

Flúor mældist ekki

Þann 14. júní s.l. voru tekin gróðursýni á eftirtöldum bæjum; Kálfafelli, Kirkjubæjar-klaustri, Fagurhlíð, Austurhlíð, Ytri-Ásum og Herjólfsstöðum(sjá töflu). Mælingarnar fóru fram hjá Landbúnaðarháskóla Íslands en mæld voru flúor F, kalsíum Ca, magnesíum mg, kalí K, natríum Na, fosfór P, brennisteinn S og járn Fe.

KS og SKVH greiða hæsta verðið

Fjallalamb og SAH-Afurðir hafa nú gefið út sínar verðskrár á kindakjöti fyrir sláturtíðina. SAH-afurðir bjóða álagsgreiðslur á lambakjöt frá viku 34 til og með 39. Viku. Þetta álag er 15% í vikum 34 og 35, 13% í viku 36, 8% í vikum 37 og 38, 3% í viku 39. Fjallalamb greiðir einnig álag með þeim hætti að greiddar eru 25 kr/kg á lambakjöt í viku 35-37 og 10 kr/kg í viku 38.
Þá hafa SS og Norðlenska hafa gefið út nýjar verðskrár.
Landssamtök sauðfjárbænda hafa gert verðsamanburð sem miðast við kjötmat og sláturmagn á landinu öllu árið 2010 eins og fyrri ár og tekur tillit til verðskráa afturðastöðva í vikum 35-45. Álagsgreiðslur Markaðsráðs eru ekki meðtaldar sem og einstakra fyrirtækja utan vikna 35-45. Skv. þessari samantekt er hækkun á lambakjötsverði til bænda 13,4% frá meðalverði 2010 en verð á kjöti af fullorðnu tæplega tvöfaldast. Meðalverðin eru námunduð í töflunni að næstu heilu krónu en eru reiknuð út með fullri nákvæmni.

Hraunkot komið í toppsætið

Að loknu júlíuppgjöri skýrsluhalds nautgriparæktarinnar eru meðalafurðir á árskú 5.355 kg eða ívið meiri á síðasta almanaksári þegar þær voru 5.342 kg. Á Suðurlandi eru afurðir eftir árskú að loknu júní-uppgjöri 5.418 kg og hafa nánast staðið í stað miðað við síðasta almanaksár.
Hraunkot í Landbroti í V-Skaft. vermir nú toppsætið með 8.015 kg eftir árskú og mun það vera í fyrsta skipti sem bú í V-Skaft. kemst á toppinn á landsvísu. Sannarlega glæsilegur árangur á ferðinni hjá Ólafi og Sigurlaugu. Í öðru sæti er Kirkjulækur í Fljótshlíð en þar eru meðalafurðir árskúa nú 7.944 kg og í þriðja sæti er Reykjahlíð á Skeiðum með 7.864 kg/árskú.

Enn samdráttur í sölu kjöts

Sala á kjöti dregst enn saman samkvæmt yfirliti frá Bændasamtökunum fyrir júlí s.l. Alls nemur samdrátturinn 4,1% á ársgrundvelli. Mestur er samdrátturinn í sölu hrossakjöts eða 22,4% og síðan á alifuglakjöti eða 6,4%. Kindakjötssalan hefur dregist saman um 4,6% en segja má að nauta- og svínakjötið haldi nokkuð sínu með samdrátt upp á 1,7% og 0,6%. Heildarsala á kjöti síðustu 12 mánuði 23.156 tonn.

Ungir bændur kanna áform um innflutning kjöts

Samtök ungra bænda hafa sent erindi á 20 fyrirtæki af handahófi sem aðild eiga að Samtökum verslunar og þjónustu vegna ummæla um að samtökin ætluðu að hefja innflutning á kjöti. Erindið sem aðildarfélög SVÞ fengu sent var svohljóðandi:
„Samtök ungra bænda harma afstöðu þinna hagsmunasamtaka þ.e. Samtaka verslunar og þjónustu gangvart innlendri búvöruframleiðslu og hagsmunum bænda.

Nær kornið þroska í ár?

Ef kornið hefur ekki verið skriðið um síðustu mánaðamót, þá eru litlar líkur á að það gefi nýtilega kornuppskeru. Þumalfingursreglan okkar segir að frá skriði þurfi kornið sex vikur í skurðarhæft korn, níu vikur í fullmatað korn og tíu vikur í sáðkorn.
Byggið byrjar að flytja sterkju upp í kornið eftir um þrjár vikur frá skriði. Þeir flutningar geta staðið næstu sex vikur þar frá. En þessir flutningar fara einungis fram við góðan hita (lágmark 10°C segja sumar heimildir). Svo mikið er víst að hérlendis stöðvast þessir flutningar að öllu jöfnu um miðjan september, líka þótt kornið sé ekki fullmatað.

Tæplega 260 hross skráð til dóms

Tæplega 260 hross eru skráð á kynbótasýninguna á Gaddstaðaflötum þannig að ákveðið hefur verið að byrja sýninguna ekki fyrr en á miðvikudeginum 17. ágúst nk. kl. 8 stundvíslega. Yfirlit verður síðan á föstudeginum 19. ágúst. Dómar halda síðan áfram frá mánudegi til miðvikudags og lýkur sýningunni á fimmtudeginum 25. ágúst með yfirlitssýningu. Hollaröðun verður birt seinnipartinn á morgun hér á heimasíðunni.

Tveir þriðju kúbænda skila mjólkurskýrslum rafrænt

Nú skila 67% kúabænda á Suðurlandi mjólkurskýrslum með rafrænum hætti í skýrsluhaldskerfinu Huppu. Þetta hlutfall hefur farið vaxandi á undanförnum mánuðum og vex enn með bættum nettengingum. Hæst er hlutfall rafrænna skila í Árnessýslu þar sem 74% þeirra sem halda skýrslur skila með rafrænum hætti. Lægst er hlutfallið í Rangárvallasýslu eða 58%.

Skráningarfrestur rennur út föstudaginn 12. ágúst nk.

Við minnum á að skráningarfrestur á kúasýninguna KÝR 2011 rennur út komandi föstudag 12. ágúst. Hægt er að skrá gripi til sýningar í síma 480 1800 eða á netfangið mundi@bssl.is.
Sýningin er fyrirhuguð laugardaginn 27. ágúst n.k. í Rangárhöllinni á Gaddstaðaflötum. Að venju verða gripir sýndir í fjórum flokkum; þ.e. tveir kálfaflokkar sem skiptast eftir aldri sýnenda þar sem annars vegar er um að ræða sýendur 11 ára og yngri og hins vegar sýnendur 12 ára og eldri. Kúnum er svo skipt í fyrsta kálfs kvígur og svo eldri kýr.

Framlög til kornræktar, grænfóðurs og grasræktar

Athygli bænda er vakin á því að ákveðnum fjármunum verður varið til korn-, græn- og grasræktar vegna þessa ræktunarárs. Vert er að benda á að lágmarksúttekt á samanlögðu ræktuðu landi er 2 ha og til að standast úttekt á ræktun þarf umsækjandi að leggja fram viðurkennt túnkort. Umsækjandi þarf að stunda búnaðargjaldsskylda framleiðslu.

Umsókn til Búnaðarsambands um úttekt að hausti jafngildir umsókn um styrk!!!

Verð á hveiti lækkar

Verð á hveiti lækkaði umtalsvert á mörkuðum í gær þegar Rússar seldu Egyptum verulegt magn á mun lægra verði en evrópskt og bandarískt hveiti hefur fengist á undanfarnar vikur. Á markaði í Chicago féll verðið um 2% og stóð í rétt um 30 kr/kg við lok viðskipta. Þetta verðfall bætir gráu ofan á svart fyrir Bandaríkin sem glíma nú við verulega efnahagsörðugleika. Hveitiverð hélst stöðugt á markaði í París í gær eða í kringum 33 kr/kg en í London lækkaði verðið í 27 kr/kg.

Nýtt búnaðarblað hefur göngu sína

Nýtt búnaðarblað hefur hafið göngu sína en á laugardaginn kom fyrsta tölublað búnaðarblaðsins Freyju út. Útgáfa Freyju er samvinnuverkefni þriggja einstaklinga sem töldu að bregðast þyrfti við tilfinnanlegum skorti vettvangi fyrir útgáfu hagnýts fag- og fræðsluefnis á íslensku fyrir bændur og áhugafólk um landbúnað en frá því að búnaðarblaðið Freyr hætti að koma út hefur útgáfa af þessu tagi legið niðri.

back to top