Kúabændur athugið

Búnaðarsamband Suðurlands býður bændum upp á fóðurætlun í NorFor fóðurmatskerfinu veturinn 2011/12 gegn vægu árgjaldi þ.e. 12.000 kr. NorFor fóðurmatskerfið tekur tillit til fleiri þátta en þekkst hefur i öðrum kerfum. Reynsla þeirra þjóða sem nú nota NorFor-kerfið (Danir, Norðmenn og Svíar) er sú að fóðrun verður markvissari og spara má verulegar fjárhæðir.
Til að hægt sé að gera fóðuráætlun í NorFor er mælst til að senda inn verkuð heysýni. Þau skal taka eftir 6-8 vikna verkun. Kostnaður á sýni er 6.800 kr. án vsk. Bssl mun hafa heysýnabora til láns til að taka verkuð sýni. Merkja þarf gróffóðursýnin NorFor svo þau fái þá viðbótargreiningu sem til þarf. Sýnin skulu berast á skrifstofu BSSL en þaðan verða þau send til greiningar.

Dýralæknar áhyggjufullir

Á aðalfundi Dýralæknafélags Íslands lýstu dýralæknar áhyggjum vegna þess hvert stefndi varðandi dýralæknaþjónustu í dreifðari byggðum landsins.

„Aðalfundur Dýralæknafélags Íslands, haldinn í Stykkishólmi þann 5. júní 2011, átelur harðlega seinagang Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis varðandi útgáfu reglugerðar sem er ætlað að kveða á um stuðning við dýralæknaþjónustu í dreifbýli. Aðalfundur skorar á ráðherra að láta málið til sín taka sem allra fyrst; þannig að velferð dýra verði ekki stefnt í voða við þá kerfisbreytingu sem tekur gildi þann 1. nóvember 2011.”

Kaup á svínabúum skoðuð á ný

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur úrskurðað að kaup Stjörnugríss á eignum svínabúa eigi að taka að nýju til skoðunar. Þetta kemur fram í nýjum úrskurði áfrýjunarnefndarinnar.
Ekki er fallist á ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá því í vetur um að hafast ekki að vegna samrunans þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að skilyrðin um fyrirtæki á fallanda fæti hafi verið fyrir hendi í málinu. Sönnunarbyrðin um það hvíli á samrunaðilum. Er málinu vísað til Samkeppniseftirlitsins til frekari meðferðar og nýrrar ákvörðunar. Hefur Samkeppniseftirlitið nú þegar tekið mál þetta aftur til athugunar.

Tímarammi stuðnings við bændur á hamfarasvæðum lengdur

Alþingi hefur samþykkt breytingu til bráðabirgða á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Breytingin felur í sér framlengingu á þeim tíma sem kúabændur á hamfarasvæðum geta notið stuðnings af beingreiðslum þótt framleiðsla þeirra raskist eða liggi niðri um tíma. Lögin kveða á um að það ákvæði gildi nú til ársloka 2014. Einnig er ráðherra veitt heimild til að víkja frá ásetningshlutfalli sauðfjár á lögbýlum þar sem framleiðsluskilyrði hafa raskast tímabundið vegna náttúruhamfara, jafnframt því sem sauðfjárframleiðendur geta notið óbreyttra greiðslna á grundvelli gæðastýringar þrátt fyrir að framleiðsla minnki eða falli niður um tíma á meðan framleiðsluskilyrði á býlum þeirra eru úr skorðum.

Afkvæmaverðlaun á landsmóti – mögulegir hestar

Nýtt kynbótamat hefur nú litið dagsins ljós og hefur verið fært í WorldFeng. Allnokkrar breytingar hafa orðið á matinu frá síðustu keyrslu, það ætti í sjálfu sér ekki að koma á óvart miðað við þann mikla fjölda hrossa sem sýndur var á vorsýningum. Margir hafa beðið spenntir eftir að sjá hvernig þeir hestar koma út sem mögulega gætu komið til afkvæmaverðlauna á landsmóti. Niðurstaðan er eftirfarandi:

Meðalafurðir ívið minni

Búið er að birta maí-uppgjör skýrsluhalds nautgriparæktarinnar. Meðalafurðir eftir árskú á landsvísu standa nú í 5.330 kg sem eru nánast sömu afurðir og á síðasta ári þegar þær voru 5.342 kg. Hér á Suðurlandi eru afurðir nú 5.407 kg eftir árskú sem er heldur minna en árið 2010 þegar afurðir stóðu í 5.424 kg. Afurðahæsta búið á Suðurlandi er í augnablikinu Kirkjulækur í Fljótshlíð með 7.732 kg eftir árskú. Kirkjulækur er í fjórða sæti á landsvísu en afurðir eru mestar Guðlaugu og Eyberg á Hraunhálsi eða 7.842 kg/árskú.

Bjargráðasjóður mun koma svipað að málum og eftir eldgosið í Eyjafjallajökli

Ríkisstjórnin fjallaði á fundi sínum í morgun um ýmsar aðgerðir í kjölfar eldgosa. Samþykkt var að veita nú 54,3 milljónir króna til úrbóta í kjölfar eldgosa í Grímsvötnum, Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi. Ákvarðanir um frekari fjárveitingar verða teknar um leið og frekari úttektir á aðstæðum og fjárþörf liggja fyrir. Áður hafði ríkisstjórnin samþykkt 867,7 m.kr. vegna ýmissa þátta og viðbragða í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi. Með þessari samþykkt um 54,3 m.kr. til viðbótar eru heildarframlög úr ríkissjóði á árinu 2010 og 2011 vegna eldgosanna þriggja orðin 922 m.kr. Þar að auki hafa Bjargráðasjóður og Viðlagatrygging staðið straum af umtalsverðum útgjöldum auk þess sem ráðuneyti og stofnanir hafa breytt forgangsröðun sinni og verkefnum til þess að mæta afleiðingum eldgosanna.

Félag lýsir þungum áhyggjum af stöðu dýralæknamála í V-Skaft.

Félag kúabænda á Suðurlandi hefur sent frá sér tilkynningu þar sem lýst er þungum áhyggjum af þeirri stöðu sem upp kann að koma í V-Skaftafellssýslu eftir 1. nóvember n.k. Þá mun að öllu óbreyttu embætti héraðsdýralæknis í sýslunni verða lagt niður og falla undir eitt af sex embættum héraðsdýralækna á landinu, svokallað Suðurumdæmi sem mun ná yfir Ásahrepp, Bláskógabyggð, Flóahrepp, Grímsnes- og Grafningshrepp, Hrunamannahrepp, Hveragerðisbæ, Mýrdalshrepp, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Skaftárhrepp, Skeiða- og Gnúpverjahrepp, Sveitarfélagið Árborg, Sveitarfélagið Ölfus og Vestmannaeyjabæ.
Tilkynning Félags kúabænda fer hér á eftir:

Hollaröð seinni yfirlitssýningar á Gaddstaðaflötum komin á vefinn

Hollaröð á seinni yfirlitssýningu kynbótahrossa á Gaddstaðaflötum er nú komin á vefinn hjá okkur. Yfirlitssýningin hefst kl. 8.00 í fyrramálið, föstudaginn 10. júní, og er áætlað að hún standi til milli kl. 19 og 20 annað kvöld. Sýningunni verður svo framhaldið á laugardaginn (11. júní) og hefst þá kl. 8.00. Áætlað er að sýningin standi til milli kl. 10 og 11 á laugardeginum.

Útflutningur á lambakjöti hefur aukist verulega

Útflutningur á lambakjöti hefur aukist verulega og annar t.d. Kaupfélag Skagfirðinga vart eftirspurn eftir íslensku lambakjöti og þarf að takmarka sölu til viðskiptavina sinna erlendis. Að sögn Guðmundar Gíslasonar, sölustjóra hjá KS, á aukinn útflutningur ekki að valda skorti á lambakjöti á innanlandsmarkaði.
Ástæða aukinnar eftirspurnar er skortur á lambakjöti um heim allan eftir að framboð frá nokkrum helstu framleiðslulöndunum; Nýja Sjálandi, Ástralíu og Spáni, djóst saman um þriðjung. Aukning hefur helst verið í Suður-Ameríku en hún er óveruleg.

Seinni yfirlitssýning á Gaddstaðaflötum

Seinni yfirlitssýning kynbótahrossa á Gaddstaðaflötum fer fram föstudaginn 10. og laugardaginn 11. júní n.k. Sýningin hefst kl. 8.00 báða dagana. Dagskrá þessara daga og skipulag flokka verður með eftirfarandi hætti:

Fyrstu naut úr 2005 árgangi í dreifingu eftir prófun

Fagráð í nautgrgiparækt hefur nú tekið ákvörðun um að setja fyrstu nautin úr árgangi 2005 til notkunar eftir afkvæmaprófun. Þetta eru 6 naut úr árgangnum en hin 25 bíða frekari niðurstaðna þar til ákvörðun verður tekin með þau. Yngri hluti árgangsins er ekki kominn með upplýsingar um nægilega margar dætur til þess að hægt sé að taka ákvörðun um framhald þeirra.
Þau naut sem verða sett í dreifingu eru; Stöðull 05001 frá Brekkukoti í Reykholtsdal, sem verður notaður sem nautsfaðir og 5 önnur sem nýtast sem kýrfeður. Það eru þeir Bauti 05002 frá Miðfelli V, Hryggur 05008 frá Bryðjuholti, Standur 05013 frá Skálpastöðum, Renningur 05014 frá Lambhaga og Gussi 05019 frá Dagverðareyri.
Jafnframt ákvað fagráð að nautsfeður til notkunar næstu mánuði verði þeir Hegri 03014, Tópas 03027, Stássi 04024, Stíll 04041 og Stöðull 05001.

Flúorstyrkur í gróðursýnum langt undir þolmörkum búfjár

Greind hafa verið sýni sem tekin voru á völdum bæjum á öskufallssvæðinu 25. maí 2011. Flúorstyrkur í sýnunum er mældur hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Grassýni voru tekin í Öræfum, Fljótshverfi, Síðu, Landbroti, Meðallandi, Skaftártungu og Álftaveri. Flúorstyrkur var í öllum tilfellum langt fyrir neðan þolmörk sauðfjár eða á bilinu 2-21 mg/kg F þurrefnis en þolmörkin eru 70-100 mg/kg F þurrefnis. Þetta er einnig vel undir þolmörkum nautgripa og hesta sem eru 30-40 mg/kg F þurrefnis.
Þessar niðurstöður eru í takt við mælingar Jarðvísindastofnunar Hí á öskunni sjálfri en þar reyndist styrkur flúors tiltölulega lítill.

Upplýsingafundur vegna Grímsvatnagossins

Upplýsingafundur um afleiðingar og úrræði vegna ösku úr Grímsvatnagosinu sem féll fyrir skömmu verður haldinn miðvikudaginn 8. júní 2011 í matsal Kirkjubæjarskóla. Fundurinn hefst kl. 14:00.
Meðal annars verður fjallað um efnainnihald og áhrif gosösku á gróður og heyöflun, endurræktun, áburðargjöf, heymiðlun, afrétti og beitarlönd, heilbrigði búfjár ofl.

Ný tegund af jógúrt komin á markað

Vesturmjólk ehf. í Borgarnesi hefur hafið dreifingu á jógúrt undir vörumerkinu Baula og kom hún í verslanir í síðustu viku. Um er að ræða jógúrt í 180 gramma dósum og fæst hún í þremur bragðtegundum, jarðarberja, bláberja og karamellu. Jógúrtin fæst nú í Bónus og nokkrum af verslunum Kaupáss en það félag rekur Krónuna, 11-11 og Nóatún. Ætlunin er að jógúrtin fáist einnig í 500 gramma dósum á næstunni.

Hella og SS bjóða bestu kjörin á nautgripakjöti

Samkvæmt verðlíkani Landssambands kúabænda bjóða Sláturhúsið Hellu og Sláturfélag Suðurlands áberandi betri kjör en aðrir sláturleyfishafar hvað nautgripakjöt varðar. Munurinn er 4-5%. Í verðlíkani LK er tekið tillit til flokkunar og meðalþunga sláturgripa á tímabilinu 1. maí 2010 til 30. apríl 2011.

Beinar skemmdir á korni af völdum ösku ekki miklar

Eftir gosið í Grímsvötnum hafa menn haft áhyggjur af afdrifum korns í ökrum þar sem öskufallið var mest. Þriðjudaginn 31. maí s.l. skoðuðu Jónatan Hermannsson hjá Landbúnaðarháskólanum og Kristján Bj. Jónsson hjá Búnaðarsambandi Suðurlands kornakra í Vestur-Skaftafellssýslu. Farið var í nánast hvern einasta kornakur í sýslunni. Komið var á 17 bæi – einn á Brunasandi, 5 á Síðu, 5 í Landbroti, 5 í Meðallandi og einn í Skaftártungu.
Ástandið reyndist miklum mun betra en menn höfðu óttast. Aska var öll fokin af ökrum því að þar var ekkert við að festast. Akrar voru eðlilega misjafnir en í heildina leit kornið prýðilega út. Sáð hafði verið í akra á bilinu 30. apríl – 18. maí. Sumt kornið var því ekki komið upp þegar öskubylur geisaði og hafði því ekkert af honum að segja. En af korninu sem farið var að spretta hafði öskufok sorfið blöðin svo þau visnuðu. Við það gulnuðu akrar um hríð. Hvergi sást þó að askan hefði skemmt vaxtarsprota og ný blöð koma nú fram á eðlilegan hátt.

SS hækkar verð á nautakjöti til bænda enn frekar

Sláturfélag Suðurlands hefur ákveðið að hækka verð á öllum flokkum nautakjöts um allt að 6% á einstaka flokka frá og með 30. maí s.l. Flutningskostnaður og heimtaka er óbreytt.

Hollaröð á fyrri yfirlitssýningu á Gaddstaðaflötum

Hollaröð á fyrri yfirlitssýningu kynbótahrossa á Gaddstaðaflötum er nú komin á vefinn hjá okkur. Yfirlitssýningin hefst kl. 8.00 í fyrramálið, föstudaginn 3. júní, og er áætlað að hún standi til milli kl. 19 og 20 annað kvöld.

Nautakjötsverð á uppleið

Verð á nautakjöti hefur hækkað töluvert á síðustu 12 mánuðum eða um 15-20%. Í dag tekur gildi hækkun á verði til bænda hjá bæði Sláturfélagi Suðurlands (SS) og sláturhúsinu Hellu (SH). SS hækkar allt ungneytakjöt um 3% en SH hækkar ungneyta- og kýrkjöt um 4-6%.
Haft er eftir Baldri H. Benjamínssyni, framkvæmdastjóra LK, í Morgunblaðinu í dag að við framleiðum ekki eins mikið og æskilegt væri og að sláturleyfishafar séu farnir að hringja í bændur og spyrjast fyrir um hvað þeir eigi af gripum. Hann segir þróunina ekki einskorðast við Ísland og að nautakjötsverð erlendis hafi hækkað talsvert mikið. Nefna má að hjá stærsta nautgripasláturhúsi í Danmörku hefur verð hækkað um 12-13% á árinu.

back to top