Búast má við talsverðu öskufalli allvíða suðaustanlands í dag

Kraftur í gosinu í Grímsvötnum er nokkuð minni en í gær og hefur haldist nokkuð stöðugur í nótt. Gosmökkurinn nær nú í um 10 kílómetra hæð, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Askan hefur verið að berast í suður og suðvestur. Aska hefur fallið mjög víða á Suðurlandi. Öskufall er einna mest á og í grennd við Kirkjubæjarklaustur og er skyggni þar ekki nema um 5-50 metrar, að sögn lögreglu- og björgunarsveitarmanna.

Áfram má búast við talsverðu öskufalli

Í dag hafa bændur á áhrifasvæði eldgossins í Grímsvötnum sem óðast hugað að búfénaði, einkum lambfé sem komið var út. Menn hafa eftir því sem tök eru á tekið féð aftur á hús. Góðu fréttirnar eru þær að askan inniheldur ekki mikinn flúor, a.m.k. ekki meðan að gígurinn nær ekki upp úr vatni. Mikið öskufall var á Kirkjubæjarklaustri og þar í kring í morgun en heldur rofaði til eftir hádegi. Öskufallið hefur síðan færst vestur á bóginn og nær nú allt til Reykjavíkur.

Ekki mikil flúormengun í öskunni að svo stöddu

Jarðvísindastofnun Háskólans hefur birt niðurstöður mælinga úr öskusýni frá Kirkjubæjarklaustri, safnað um kl. 1 aðfararnótt 22. maí 2011. Öskufall var þá um 9,4 g pr fermetra. Eins og í undanförnum Grímsvatnagosum er fyrsta askan hreint glerríkt berg með mjög lítið magn efna á yfirborði og inniheldur hún 5-10 mg/kg af vatnsleysanlegum flúor á yfirborði. Þolmörk í fóðri nautgripa eru talin vera 30-40 mg/kg þurrefnis í fóðri og 2,5-4,0 mg/lítra drykkjarvatns. Þolmörk hjá sauðfé eru oftast sett við 70-100 mg/kg þurrefnis í fóðri og 12-15 mg/lítra drykkjarvatns.

Skráningu á kynbótasýninguna á Gaddstaðaflötum lokið

Skráningu á kynbótasýninguna á Gaddstaðaflötum er lokið þar sem hún er orðin full. Því miður er ekki hægt að hafa opið fyrir skráningu til miðnættis eins og til stóð í fyrstu. Þeir sem ekki náðu að skrá hross til sýningar geta haft samband við Búnaðarsambandið í fyrramálið, mánudaginn 23. maí, í síma 480 1800. Mögulegt er að setja hross á biðlista ef ske kynni að pláss losni.

Öflugt gos – bændur hugi að búfénaði á öskufallssvæðum

Ljóst er að gosið sem hófst í gær í Grímsvötnum er með stærri Grímsvatnagosum og mikið stærra en síðasta gos, árið 2004. Gosstöðvarnar virðast vera vera nánast á sama stað og gaus árið 2004, sem er í suðvesturhorni Grímsvatnaöskjunnar. Að sögn sérfræðinga er ekki útlit fyrir annað en að öskufallið haldi áfram um sinn a.m.k. Askan er fínkorna og það þarf að gera ráðstafanir til að anda henni ekki að sér. Leiðbeiningar um viðbrögð vegna eldgosa, m.a. varðandi búfénað má finna á upplýsingasíðu okkar vegna eldgossins í Eyjafjallajökli í fyrra.

Eldgos hafið í Grímsvötnum

Eldgos hófst í Grímsvötnum í kvöld en aukinn órói tók að mælast á skjálftamælum um kl. 17:30 samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofunni. Ekki er ljóst hvernig gosið kemur til með að þróast en það spáir norðlægri átt sem þýðir að aska fellur til suðurs. Fréttir hafa þó borist af öskufalli í byggð í nágrenni Vatnajökuls, m.a. á Kirkjubæjarklaustri. Bændur á svæðinu allt vestan frá Síðu og austur fyrir Reynivelli eru hvattir til að huga að búfénaði og fylgjast vel með veðurspá og framvindu gossins. Gos í Grímsvötnum eru þó að öllu jöfnu ekkert í líkingu við gosið í Eyjafjallajökli hvað varðar magn gosefna auk þess sem gjóska frá Grímsvötnum berst yfirleitt mun styttra vegna meiri grófleika.

Síðasti skráningardagur á kynbótasýninguna á Gaddstaðaflötum

Í dag er síðasti skráningardagur á kynbótasýninguna á Gaddstaðaflötum við Hellu sem hefst 30. maí og stendur til 10. júní. Hægt er að skrá í síma 480 1800 eða hér á heimasíðunni.
Nú þegar er búið að skrá vel á annað hundrað hross til sýningar á Gaddstaðaflötum. Við biðjum menn að vera frekar tímanlega því það hefur sýnt sig að álagið eykst þegar líður að lokum síðasta skráningardags og þá getur verið erfitt að hafa undan.

Hollaröð á kynbótasýningu á Sörlastöðum

Kynbótasýning hrossa á Sörlastöðum hefst mánudaginn 23. maí n.k. kl. 8.00 og munu dómar standa samfleytt fram á kvöld föstudaginn 27. maí n.k. Alls eru skráð 352 hross til sýningar. Við biðjum eigendur og knapa að sjá til þess að hross séu mætt tímanlega til dóms þannig að dómsstörf gangi eins hratt og vel fyrir sig og kostur er.

Bændur á hamfarasvæðum njóti beingreiðslna lengur án framleiðslu

Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis hefur lagt fram frumvarp um breytingar á ákvæðum til bráðabirgða í lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu samþykkti Alþingi lög nr. 46/2010, um breytingu á lögum um Bjargráðasjóð og lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (stuðningur við bændur á náttúruhamfarasvæðum), til að bregðast við afleiðingum eldgoss í Eyjafjallajökli á síðasta ári. Með lögunum var bændum sem áttu við erfiðleika að etja vegna eldgossins veittur ákveðinn stuðningur, en vegna öskufalls, og að nokkru leyti jökulhlaupa, höfðu bændur sums staðar undir Eyjafjöllum til athugunar að láta af búskap eða fækka bústofni, a.m.k. um tíma.

Sláturfélag Suðurlands hækkar verð á kjarnfóðri um 4-7,5%

Sláturfélag Suðurlands hefur tilkynnt um hækkun á kjarnfóðri um 4-7,5% frá 23. maí n.k. vegna hækkana á hráefnum til fóðurgerðar og óhagstæðrar gengisþróunar. Þar með hafa öll fóðurfyrirtækin hækkað verð á kjarnfóðri í maí.

Til knapa og eigenda kynbótahrossa á Hellu 30. maí – 10. júní 2011

Beiðni til knapa um þátttöku í rannsóknarverkefni á kynbótahrossum.
Hólaskóli, Háskólinn á Hólum vinnur í samvinnu við marga aðila til dæmis sænska landbúnaðarháskólann í Uppsölum í Svíþjóð, tilraunastöð Háskóla Íslands á Keldum. hrossaræktarráðunaut Íslands, starfsmenn kynbótasýninga, knapa og eigendur kynbótahrossa að rannsókn þar sem markmiðið er að meta álag á hross á kynbótasýningum. Fyrstu mælingar voru gerðar á kynbótasýningu á Sauðárkróki í lok apríl 2011 og tókust vel. Verkefnið hefur þegar verið kynnt í heimsóknum til nokkurra tamninga-og ræktunarbúa á Suðurlandi í apríl og maí og fengið afar góðar viðtökur. Þar sem ekki eru tök á að heimsækja alla er verkefnið kynnt hér og óskað eftir þátttöku allra knapa í verkefninu með kynbótahross sem sýnd verða á Hellu í vor.

Ráðherra vill auka stuðning við kornrækt

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur kynnt í ríkisstjórn skýrslu um eflingu kornræktar. Ráðherra lagði þar til að stuðningur hins opinbera við kornrækt hér á landi yrði sambærilegur því sem er í Danmörku.
Kornrækt á Íslandi nemur nú um 15 þúsund tonnum og hefur farið ört vaxandi síðustu ár. Miðað við núverandi rekstrarforsendur er þó talið að hægja muni á þessari aukningu. En það er mat skýrsluhöfunda að með þreföldun íslenskrar kornræktar megi spara þjóðarbúinu 200 milljónir í gjaldeyri og fullnægja byggþörf í íslenskum landbúnaði. Þar með má efla hagvarnir og fæðuöryggi þjóðarinnar, stuðla að stöðugra rekstrarumhverfi í landbúnaði og auka fjölbreytni í atvinnulífi hinna dreifðu byggða.

Vorhret framundan – huga þarf að búfénaði

Veðurstofan spáir norðaustan 5-13 m/s og rigningu en síðar slyddu á Norður- og Austurlandi. Skýjað með köflum og úrkomulítið suðvestan- og vestanlands. Hvessir í kvöld og nótt. Norðaustan 10-18 á morgun og snjókoma norðantil, slydda á Austfjörðum en skúrir sunnantil. Hiti 0 til 10 stig, hlýjast suðvestantil, en svalara á morgun.
Næstu daga má búast við stífri norðlægri átt með kólnandi veðri um allt land og slyddu eða snjókomu um norðanvert landið, en úrkomulítið suðvestantil.

Yfirlitssýning kynbótahrossa í Víðidal – hollraöð

Yfirlitssýning kynbótahrossa í Víðidal fer fram miðvikudaginn 18. maí og hefst stundvíslega kl. 10:00. Hollaröð á sýningunni er kominn á vefinn hjá okkur (sjá neðar). Röð flokka verður eftirfarandi:

Skráningu á kynbótasýningu á Sörlastöðum lokið

Skráningu á kynbótasýninguna á Sörlastöðum í Hafnarfirði er lokið þar sem fullbókað er á sýninuna. Við bendum á næstu kynbótasýningu sem verður á Gaddstaðaflötum 30. maí til 10. júní n.k. Byrjað verður að taka við skráningum á þá sýningu strax í fyrramálið, þ.e. 18. maí,  í síma 480 1800.

Íslandsmyndasafn Mats

Í fjölda ára hefur Mats Wibe Lund, ljósmyndari, flogið yfir sveitir landsins og myndað byggð ból og bæi. Á þessum tíma hefur Mats safnað miklu magni stórglæsilegra ljósmynda sem er ekki aðeins gaman að skoða heldur eru einnig merkileg heimild um ásýnd landsins og sveitanna á hverjum tíma. Mats hefur eytt miklum tíma undanfarin ár í að gera þessar myndir aðgengilegar til skoðunar á vefnum, www.mats.is.

Útlit fyrir verðhækkun á mjólk

Ekkert lát virðist vera á hækkunum á aðföngum til búrekstrar. Verðlagsnefnd búavara mun koma saman í byrjun næsta mánaðar til að meta grundvöll mjólkurverðsins. Búast má við verðhækkunum.
Tveir stærstu fóðursalar landsins tilkynntu nýlega um 4-8% hækkun á kjarnfóðri. Koma þær til viðbótar verðhækkunum undanfarinna mánaða. Landssamband kúabænda segir að kjarnfóðurverð hafi hækkað um ríflega fjórðung á síðustu tólf mánuðum.
Áburður og sáðvörur hafa hækkað í verði og þá er ótalin olían á vélarnar og önnur aðföng til búrekstrar.

Hvorki salmonella eða E. coli finnst í nautgripum á Íslandi

Á tímabilinu janúar 2010 til janúar 2011 tók Matvælastofnun sýni á 169 nautgripabúum í 7 umdæmum í þeim tilgangi að kanna hvort greina mætti salmonellu eða E. coli 0157:H7 í sýnunum. Sýnin voru rannsökuð af Tilraunstöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og reyndust Öll sýnin neikvæð m.t.t. salmonellu og E. coli 0157:H7. Þetta eru góðar niðurstöður og má draga þá ályktun af rannsókninni að litlar líkur séu á að E. coli O157:H7 og Salmonella berist í fólk með íslenskum nautgripaafurðum.

Hollaröð á kynbótasýningu í Víðidal

Hollaröð kynbótasýningar í Víðidal í Reykjavík er nú komin á vefinn. Dómar hefjast kl. 8.00 mánudaginn 16. maí n.k. sem og þriðjudaginn 17. maí n.k. Yfirlitssýning fer síðan fram miðvikudaginn 18. maí n.k. og hefst kl. 10.00.

Halló Helluvað! – Laugardaginn 14. maí 2011

Laugardaginn 14. maí n.k. kl. 13.30 bjóða ábúendur á Helluvaði í Rangárvallasýslu gestum og gangandi að fylgjast með þegar kúnum á bænum verður hleypt út eftir vetrarinnistöðu. Á Helluvaði reka Anna María Kristjánsdóttir og Ari Árnason blandað bú, með kýr og sauðfé. Sauðburður er í fullum gangi á búinu þannig að gott tækifæri gefst til að kíkja á lömbin í leiðinni.

back to top