Fóðurblandan hækkar allt fóður um 4-8%

Fóðurblandan hefur sent frá sér fréttatilkynningu þess efnis að miðvikudaginn 11. maí 2011, þ.e. á morgun, hækki allt tilbúið fóður hjá fyrirtækinu um 4–8%, misjafnt eftir tegundum. Ástæða hækkunarinnar er samkvæmt tilkynningunni hækkun á verði aðfanga á erlendum mörkuðum og veiking íslensku krónunnar.
Frá síðustu hækkun hjá Fóðurblöndunni þann 16. febrúar s.l. hefur gengi krónunnar styrkst um 3,2% gagnvart dollar en veikst um 3,1% gagnvart evru.

Hollaröð á yfirlitssýningu á Brávöllum, Selfossi

Hollaröð yfirlitssýningar kynbótahrossa á Brávöllum á Selfossi liggur nú fyrir. Sýningin hefst kl. 12:30 á sýningu hryssna 7 vetra og eldri, þá koma 6 vetra hryssur og að endingu 5 vetra hryssur en engin 4 vetra hryssa var sýnd. Að loknum hryssunum verða stóðhestar 7 vetra og eldri sýndir, þá 6 vetra og að lokum 4 og 5 vetra stóðhestar.

Námskeið í gæðastýringu í sauðfjárrækt

Eitt af grunnskilyrðum fyrir þátttöku í gæðastýringu í sauðfjárrækt er að hafa sótt undirbúningsnámskeið. Fyrirhugað er að halda þrjú námskeið á þremur stöðum um miðjan júní:

Stóra Ármóti, Hvanneyri og á Akureyri.

Námskeiðin hefjast kl. 10.00 fyrir hádegi og þeim lýkur kl. 18.00.

Hugmynd að formlegu ræktunarfélagi nýrra nytjaplantna á Íslandi

Jötunn vélar hafa ákveðið að hafa forgöngu um stofnun á ræktunarfélagi um ræktun nýrra nytjaplantna á Ísland og þannig stuðla að aukinni og markvissari þróun ræktendatilrauna með nýjar nytjaplöntur á Íslandi. Helsta ástæðan fyrir þessu framtaki er mikill áhugi framsækinni bænda á ræktun framandi nytjaplantna bæði til fóðurs og olíuframleiðslu.
Árið í ár er hugsað sem undirbúningsár fyrir framtíðaruppbyggingu félagsins og verða ræktunartilraunir í ár því eingöngu tengdar vorsánum olíuplöntum (olíunepju og akurdoðru) en í framtíðinni er horft til allskonar plantna sem nýst gætu íslenskum bændum.

Hollaröð á kynbótasýningu á Brávöllum, Selfossi

Hollaröð fyrir kynbótasýninguna á Brávöllum á Selfossi er nú komin á vefinn hjá okkur. Dómar fara fram dagana 9. og 10. maí n.k. og hefjast dómstörf kl. 8.00 mánudaginn 9. maí og kl. 9.00 þriðjudaginn 10. maí. Sýnendur eru beðnir að mæta tímanlega með hross til dóms þannig að þau tefjist ekki af þeim sökum.
Yfirlitssýningin fer fram þriðjudaginn 10. maí og hefst kl. 12.30.

Útlit fyrir góða grassprettu í sumar

Útlit er fyrir góða grassprettu í sumar að sögn Páls Berþórssonar, veðurfræðings og fyrrverandi Veðurstofustjóra, en í Morgunblaðinu í dag birtir hann hefðbundna sprettuspá fyrir komandi sumar. Spá Páls byggist á meðalhita 7 mánaða í Stykkishólmi, október til apríl, en hitafar þar er líkt því sem er að meðaltali á landinu. „Fylgni þessa vetrarhita við heyfeng sumarsins framundan er mjög há, var til dæmis 0,96 árin 1901-1975. Ýmis annar gróður fer líka mjög eftir þessum hita, einkum spretta fjölærra jurta“, segir Páll.

Öllu er nú hægt að stela

Sex stórum áburðarsekkjum, sem hver var um 600 kíló að þyngd, var í nótt stolið af túni við Oddaveg í Rangárvallasýslu. Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli er talið líklegt að vörubóll með krana hafi verið notaður við þjófnaðinn.

Kynbótasýning á Selfossi

Núna í dag 2. maí og á morgun 3. maí er verið að taka við skráningum á kynbótasýninguna á Selfossi en hún hefst 9. maí. Tekið er við skráningum í síma 480-1800 og á heimasíðu Búnaðarsambands Suðurlands www.bssl.is. Sýningargjald á hvert hross er 15.000 kr fyrir fullnaðardóm en sé hrossið eingöngu skráð í byggingardóm er sýningargjaldið 10.500 kr. Hafi greiðsla ekki borist í síðasta lagi í lok síðasta skráningardags þ.e. 3. maí er viðkomandi hross ekki skráð í mót.

Lífland hækkar verð á kjarnfóðri um 4-8%

Lífland hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur að fyrirtækið mun hækka verð á kjarnfóðri um 4-8%, mismunandi eftir tegundum, þriðjudaginn 3. maí n.k. Ástæða verðbreytingarinnar er sögð vera hækkun á heimsmarkaðsverði hráefna til fóðurgerðar og veiking íslensku krónunnar gagnvart evru.

Skemmtilega litur kálfur

Nú á dögunum fengum við sendar myndir af einkennilega og skemmtilega litum kálfi á Herjólfsstöðum í Álftaveri.  Kálfurinn virðist vera þrílitur en langlíklegast er að þarna sé um að ræða mjög dökkgráan grip með erfðavísi fyrir kolóttu sem kemur svona fram. Kálfurinn hefur fengið nafnið Guttormur.

Verð á umframmjólk frá og með 1. maí n.k.

Stjórn Auðhumlu svf. hefur ákveðið verð á umframmjólk frá 1. maí 2011. Af fyrstu 2% umfram greiðslumark greiðast kr. 45 kr/ltr. Af því sem er umfram 2% greiðast kr. 37/ltr.

Kynbótasýningu sem vera átti á Sörlastöðum aflýst

Kynbótasýningin sem vera átti á Sörlastöðum í Hafnarfirði verður aflýst þar sem skráningar urðu ekki nema 10. Minnum á að næsta sýning verður á Selfossi vikuna 9. til 13. maí. Tekið er við skráningum á hana í síma 480-1800 dagana 2. og 3. maí.

MAST gerir athugasemdir við samþykktir aðalfundar LS

Á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda (LS) 2011 var gengið frá samþykktum sem m.a. snúa að starfsemi Matvælastofnunar (MAST). MAST hefur nú sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að samþykktir LS hafi verið til skoðunar hjá stofnuninni. Að því er fram kemur í tilkynningunni þykir MAST vegið af full mikilli hörku að starfsemi hennar og ekki í öllum tilvikum í samræmi við það sem rétt er. Þar segir að sum þessara mála hafi áður verið til umræðu milli aðila og úrbætur gerðar, önnur megi rekja nokkur ár aftur í tímann til starfshátta sem nú hafa tekið verulegum breytingum og þá eru þarna atriði sem stofnunin er sammála LS um og önnur sem MAST getur alls ekki fallist á. Það síðasta á meðal annars við um fræðslu og sjúkdómavarnir og fordæmingu LS á stjórnsýslu MAST í díoxínmálinu þar sem stofnunin hefur lagt mikið af mörkum við að tryggja matvælaöryggi gagnvart neytendum og standa við upplýsingaskyldu gagnvart fjölmörgum aðilum, bæði hér á landi og erlendis. Í díoxínmálinu sannast líklega hið fornkveðna um að spjótum er beint að boðbera slæmra tíðinda, því LS sér ekki ástæðu til að eyða einu orði á sjálfan mengunarvaldinn.

Aðbúnaður dýra í íslenskum landbúnaði

Í kvöld, þriðjudagskvöldið 26. apríl kl. 20:00, verður haldið málþing í Norræna húsinu um aðbúnað dýra í íslenskum landbúnaði og þeirri spurningu varpað fram hvort tími sé kominn til að breyta setningunni; „þú ert það sem þú borðar“ í „umhverfið er það sem við borðum“? Tilefni málþingsins er sýningin Manna – annars konar sýning um mat sem nú stendur yfir í Norræna húsinu. Sýningin fjallar um tengsl fæðu og umhverfis.
Í tilkynningu frá Norræna húsinu segir að þörf umræða hafi sprottið upp um ýmsa vankanta á aðbúnaði og velferð dýra íslenskum landbúnaði og jafnframt er spurt hvers vegna umræðan hafi orðið svona hávær að undanförnu? Er virkilega farið illa með þau dýr sem eru á boðstóli íslenskra neytenda? Hvað veldur þessum slæma aðbúnaði?

Sala á kjöti og mjólk minnkar

Samdráttur hefur orðið í sölu á bæði kjöti og mjólk í vetur miðað við fyrravetur. Sala á kjöti hefur dregist saman um 3% á síðustu 12 mánuðum og á mjólk um 2,7%. Í mars dróst sala á kjöti saman um 14%, mest á lambakjöti og kjúklingum. Ef miðað er við sölu síðustu 12 mánuðina varð sölusamdráttur á öllum kjöttegundum nema nautakjöti þar sem varð örlítil aukning.
Samkvæmt yfirliti frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði var sala á mjólkurvörum í mars var heldur minni í ár en á sama tíma í fyrra.

Niðurstöður afkvæmarannsókna hrúta á einstökum bæjum

Nú er búið að safna saman niðurstöðum úr öllum afkvæmarannsóknum á hrútum sem unnar voru á vegum búnaðarsambandanna haustið 2010. Umfang rannsóknanna var meira en nokkru sinni en þær voru unnar á nær 300 búum og yfir 2.500 afkvæmahópar fengu sínar niðurstöður. Í yfirlitinu sem birt er þá eru allar tölulegar upplýsingar fyrir alla afkvæmahópanna. Einnig er stutt umfjöllun um toppgripina í hverri rannsókn.

Fjármögnunarleigusamningur dæmdur ólöglegur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að fjármögnunarleigusamningur sem Íslandsbanki hafði gert við fyrirtæki væri ólöglegur. Gera má ráð fyrir að dómnum verði áfrýjað til Hæstaréttar. Í dómnum segir að ekki verði séð að fjármögnunarleigan hafi komið að kaupum á vélinni sem lánað var fyrir að öðru leyti en því að hann hafi verið skráður kaupandi til tryggingar á efndum á lánssamningi.

Vegna umfjöllunar um vanhirðu búfjár

Matvælastofnun hefur sent frá sér eftirfarandi athugasemd vegna umfjöllunar um vanhirðu búfjár: „Undanfarin ár hefur MAST þurft að hafa afskipti af ábúendum lögbýlis á Austfjörðum vegna búfjárhalds. Vegna aðgerða MAST hefur fé á lögbýlinu fækkað um 1000 kindur frá haustinu 2009. Eftir afskipti MAST af ábúendunum í síðustu viku ákváðu þeir að fækka enn frekar fé sínu um rúmlega 330 kindur. Féð var að mestu selt en lakasta fénu var slátrað. Þá leituðu búendur sér ráðgjafar ráðunautar til að bæta fóðrun. MAST vonar að þessar aðgerðir komi til með bæta búfjárhaldið á lögbýlinu og telur að ákveðinn árangur þess efnis hafi nú þegar náðst.

KÝR 2011 verður haldin í lok ágúst

Búnaðarsamband Suðurlands og Félag kúabænda á Suðurlandi hyggjast standa fyrir kúasýningu í lok ágúst í sumar. Sýningin verður að öllum líkindum haldin í Rangárhöllinni á Gaddstaðaflötum. Að venju verða sýndir kálfar og kýr að tilskyldu að þátttaka verði næg.
Innan skamms verða kúabændum sent bréf þar sem óskað verður eftir ákveðnum kúm til sýningar. Mörkin verða sett við að viðkomandi gripir hafi fengið a.m.k. 87 stig í útlitsmati en þó verður engum gripum vísað frá sem vilji er fyrir að sýna.
Kálfum verður skipt í tvo flokka þar sem um verður að ræða sýnendur 11 ára og yngri og sýnendur 12-15 ára. Æskilegt er að ekki sé komið með mjög unga kálfa til sýningar þar sem þeir þurfa að hafa lágmarksholdfyllingu til að þeir sýnist sem best.

Aðalfundur BSSL mótmælir hugmyndum um útjöfnun sæðingagjalda

Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands var haldinn 15. apríl s.l. á Hótel Selfossi. Fundurinn var með hefðbundnu sniði utan þess að nefndastörf voru nokkuð breytt frá fyrri fundum. Þannig var nefndum nú skipt eftir búgreinum. Auk þessa fór Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, yfir varnarlínur BÍ varðandi aðildarviðræður við ESB. Rekstur Búnaðarsambandsins á síðasta ári var í samræmi við áætlanir og skilaði Búnaðarsambandið ásamt dótturfyrirtækjum hagnaði upp á 2,2 milljónir kr. Guðbjörg Jónsdóttir og Gunnar Kr. Eiríksson voru endurkjörin í stjórn og hefur stjórn þegar skipt með sér verkum þannig að Guðbjörg er áfram formaður Búnaðarsambandsins. Fjöldi ályktana var samþykktur á fundinum og má sjá þær hér á eftir:

back to top