Meira en fjórðungur mjólkurinnar frá búum með mjaltaþjóna

Þrátt fyrir að lítið hafi selst af mjaltaþjónum hér á landi á síðustu tveimur árum, hefur hlutfall mjólkur frá mjaltaþjónabúum aukist samhliða auknum afurðum í þessum búum hér á landi. Þetta kemur fram í nýrri samantekt frá tæknihópi NMSM, en NMSM eru mjólkurgæðasamtök afurðastöðva á Norðurlöndunum. Samantektin er birt á vef Landssmbands kúabænda (naut.is). Þar kemur fram að um síðustu áramót hafi hlutfall mjólkur frá kúabúum hér á landi með mjaltaþjóna numið 26,4% af heildarframleiðslu ársins 2010 og er einungis Danmörk með hærra hlutfall mjólkur á heimsvísu eða 26,9%. Við þetta má bæta að hér á Suðurlandi er þetta hlutfall hærra en af framleiðslu ársins 2010 komu 28,1% frá búum með mjaltaþjóna eða rúmlega 13,5 milljónir lítra.

Norðlenska greiðir uppbót á allt kjötinnlegg síðasta haust

Norðlenska hefur ákveðið að fylgja fordæmi annara sláturleyfishafa og greiða 9 kr/kg uppbót á haustslátrun dilka 2010. Hins vegar gengur Norðlenska enn lengra en aðrir að því leytinu til að félagið hefur ákveðið að greiða einnig kr/kg uppbót á innlegg svínakjöts, nautakjöts og nautgripakjöts fyrir tímabilið 1. september til 31. desember 2010. Greitt verður inn á bankareikninga bænda 15. apríl næstkomandi.

Sauðfé úr umsjá ábúenda á Stórhóli

Matvælastofnun hefur tekið sjötíu kindur úr umsjá ábúenda á bænum Stórhóli í Álftafirði að því er RÚV hefur greint frá. Féð geymdu bændurnir á bæ í Lóni. Þeir hafa frest til morguns til að andmæla vörslusviptingunni.
Á undanförnum árum hafa ítrekað verið gerðar athugasemdir við umhirðu og ástand sauðfjár á Stórhóli í Djúpavogshreppi en allar tilraunir til úrbóta hafa mistekist. Við eftirlit hefur sauðféð reynst alvarlega vanfóðrað og öll umhirða á bænum talist langt frá því ásættanleg.

Skinnaverð aldrei hærra en nú

Verð fyrir íslensk minkaskinn hækkaði um fimm til sjö prósent á uppboði í Kaupmannahöfn í morgun og hefur aldrei verið hærra. Verðið hefur tífaldast frá því það var lægst fyrir tuttugu árum. Haft var eftir formanni Sambands íslenskra loðdýrabænda, Birni Halldórssyni í Vopnafirði, í fréttum Stöðvar 2 í síðasta mánuði að hann þekkti ekki neina atvinnugrein í landinu með betri afkomu um þessar mundir. Á uppboðinu sem hófst í Kaupmannahöfn í morgun er verið að selja 30 til 40 þúsund minkaskinn frá Íslandi og stefnir í að um og yfir átta þúsund íslenskar krónur fáist að meðaltali fyrir hvert skinn, eða 370-400 danskar krónur.

Bændum hefur fækkað um 26% á síðustu 10 árum

Á síðustu 10 árum hefur bændum á Íslandi fækkað um 26%. Kúabændum hefur fækkað um 37% og sauðfjárbændum um 22%. Þetta kom fram í svari Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á Alþingi við fyrirspurn frá Sigmundi Erni Rúnarssyni alþingismanni. Ráðherra sagði í svari sínu að á þessu tímabili hefði kúabændum á Austurlandi fækkað um 43% og um 45% á Vestfjörðum. Sauðfjárbúum hefði fækkað mest á Reykjanesi og Vesturlandi. Jafnframt kom fram að loðdýrabúum hefði á tímabilinu fækkað um yfir 60% og svínabændum hefði fækkað um 51%.

Mars-uppgjör komið á vefinn

Mars-uppgjör skýrsluhalds nautgriparæktarinnar hefur verið birt á vef Bændasamtakanna. Afurðir eftir árskú s.l. 12 mánuði hafa heldur minnkað hér á Suðurlandi samanborið við almanaksárið 2010. Þær standa nú í 5.400 kg en voru 5.424 kg á árinu 2010. Hafa verður í huga að ávallt verður nokkur sveifla milli mánaða þannig að ekki er um verulegan mun að ræða.
Afurðir eru nú mestar Rangárvallsýslu eða 5.470 kg/árskú og næstmestar í Árnessýslu 4.465 kg/árskú eða nánast þær sömu.
Afurðahæsta búið á Suðurlandi nú er hjá Arnari Bjarna og Berglindi í Gunnbjarnarholti með 7.712 kg/árskú og síðan kemur Kirkjulækur í Fljótshlíð með 7.708 kg/árskú. Rétt er að taka fram að efnainnihald er hærra á Kirkjulæk þannig að ef afurðir væru reiknaðar í verðefnum væri Kirkjulækur efst.

Sauðfjársæðingar – skil á sæðingaskýrslum

Þeir sem tóku þátt í sauðfjársæðingum í desember s.l. en eiga eftir að skrá upplýsingar um sæddar ær þurfa að gera það sem fyrst. Allar sæðingar skulu skráðar inn á fjarvis.is. Þeir sem eru með aðgang að fjarvis.is geta skráð sæðingarnar sjálfir en aðrir geta komið sæðingablöðunum á skrifstofu Búnaðarsambands Suðurlands á Selfossi til skráningar. Upplýsingar um árangur sæðinga gefa mikilvægar upplýsingar um t.d. frjósemi, sæðisgæði, árangur eftir sæðingamönnum og sæðingastöðvum.

Bændatorgið komið í notkun

Bændatorg, upplýsingagátt fyrir bændur og ráðunauta, er ný vefþjónusta frá BÍ sem er komin í notkun. Í hægra horninu uppi á bondi.is er hnappur sem heitir „Bændatorg“. Þegar smellt er á hann birtist innskráningargluggi inn á Bændatorgið þar sem notendur geta náð í margvíslegar upplýsingar úr sínum búrekstri.

Formður LS gagnrýnir úrræðaleysi stjórnvalda

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda stendur nú yfir en hann hófst í Bændahöllinni eftir hádegi nú í dag og setti Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson formaður fundinn með ávarpi. Í ávarpi Sindra kom fram að ársins 2010 myndi verða minnst sem árs náttúruhamfara, ekki eingöngu hér innanlands heldur um heim allan. Hins vegar væri nöturlegt að hugsa til þess þeir umhverfisþættir sem þó væri í mannana valdi að hafa stjórn á skyldu nú valda innlendri matvælaframleiðslu skaða. Vísaði hann þar til díoxínmálsins svokallaða í Skutulsfirði.

Fóðurblandan birtir verð á sáðvöru

Fóðurblandan hefur birt verð á sáðvöru fyrir vorið 2011. Verðbreytingar eru mismiklar eftir tegundum og í reynd má segja að verð á grasfræi sé hið sama og í fyrra hjá Fóðurblöndunni. Þannig hækka tvö yrki vallarfoxgrass um 6% meðan að önnur lækka um 1%. Grasfræblöndur lækka um 1% milli ára. Þetta þýðir að Fóðurblandan býður bestu verðin á ár hvað grasfræ snertir.
Ef ltið er á korn til þroska þá hækkar það um 10-31% hjá Fóðurblöndunni. Mest er hækkunin á höfrum en minnst á 6 raða byggi (Olsok og Ven). Bygg til þroska kostar frá 143 kr/kg upp í 155 kr(kg hjá Fóðurblöndunni sem er álíka og hjá Lnadstólpa og Líflandi.

Allnokkur hækkun á sáðvöru milli ára

Landstólpi hefur birt sáðvöruverðskrá sína fyrir vorið 2011. Fyrirtækið hækkar flestar tegundir allverulega og t.d. hækkar vallarfoxgras um 5-28%, grasfræblöndur um 15,5%-18% og vallarrýgresi um 28%. Grænfóðurfræ eins og rýgresi hækkar um 40% en sumarrepja lækkar í verði um 24%. Bygg til þroska hækkar um 21-25% milli ára hjá Landstólpa og er verðið á bilinu 140-149 kr/kg.
Lífland birti sitt sáðvöruverð fyrir um hálfum mánuði og þar voru hækkanir öllu minni eða 6-11% á vallarfoxgrasi, 7-9% á grasfræblöndum og 8% á vallarrýgresi svo dæmi séu tekin.

Engar undanþágur í boði ef Ísland gengur í ESB

Í Bændablaðinu í dag kemur fram að afdráttarlaust hafi komið í ljós á rýnifundum í Brussel að undanförnu að ekki sé í boði að Ísland fái varanlega heimild til að banna innflutning á lifandi búfé og plöntum frá öðrum löndum ESB. Þetta hafi meðal annars komið skýrt í ljós á tvíhliðafundi um dýra- og plöntuheilbrigði 28.-31. mars sl. þar sem fulltrúar ESB lýstu því yfir án nokkurra tvímæla að Ísland gæti ekki fengið slíkar undanþágur frá innflutningi plantna og dýra til landsins.
Erna Bjarnadóttir og fleiri starfsmenn BÍ sátu þennan fund sem áheyrnarfulltrúar og fylgdust með honum í beinni útsendingu í utanríkisráðuneytinu. Að sögn Ernu tók Wolf Meyer yfirmaður hjá framkvæmdastjórn ESB á sviði heilbrigðismála (SANCO), til máls á fundinum og sagði afdráttarlaust að ekki yrði um neinar slíkar undanþágur að ræða . „Þið þurfið að svara hvort þið getið tekið upp okkar reglur, ef ekki, þá getum við hætt þessu, þið getið ekki unnið eftir ykkar reglum, þið verðið að fara eftir okkar.“ Fulltrúar ESB á fundinum lögðu áherslu á að viðskipti Íslands við önnur lönd innan sambandsins teldust ekki innflutningur. Innflutningur ætti við um viðskipti við þriðju ríki.

Ábúðarskylda á lögbýli að nýju?

Samkvæmt drögum að frumvarpi til nýrra jarða- og ábúðarlaga sem Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lagt fram til kynningar verður eigendum lögbýla skylt að byggja þau sjálfir eða að leigja þau hæfum umsækjanda að mati sveitarstjórna. Því verður ábúðarskylda lögbýla innleidd að nýju. Þá munu einstaklingar eða lögaðilar ekki mega vera eigendur að fleiri lögbýlum en þremur, hvorki að öllu leyti né að hluta. Gildir það einnig um eignarhluti í félögum. Þá er tiltekið að eignist einstaklingar eða lögaðilar fleiri en eitt lögbýli skuli þau liggja í ákveðinni fjarlægð í loftlínu frá íbúðarhúsnæði á því lögbýli sem viðkomandi eignast fyrst. Sú fjarlægð hefur enn ekki verið ákveðin.

Ársfundur Fagráðs í nautgriparækt 6. apríl n.k.

Ársfundur Fagráðs í nautgriparækt verður haldinn miðvikudaginn 6. apríl 2011 að Heimalandi undir Eyjafjöllum og hefst kl. 13:00. Við hvetjum kúabændur til þess að mæta á fundinn.

Jafnvægisverð aprílmarkaðar er 285 kr. lítrinn

Við opnun tilboða um kaup og sölu á greiðslumarki mjólkur þann 1. apríl 2011 hefur komið fram jafnvægisverð á markaði 285 kr. fyrir hvern lítra mjólkur. Alls bárust Matvælastofnun 72 tilboð um kaup eða sölu á greiðslumarki og var fjöldi gildra tilboða um sölu 10 talsins og fjöldi gildra tilboða um kaup 62 talsins. Alls voru boðnir 408.060 lítrar til sölu en kauptilboð bárust í 1.601.620 lítra. Hins vegar munu ekki nema 229.072 lítrar skipta um hendur eða 56% af því greiðslumarki sem boðið var til sölu.

SS greiðir uppbót á dilka

Sláturfélag Suðurlands hefur ákveðið að greiða uppbót, 9 kr/kg, á dilka sem lagðir voru inn til SS síðasta haust. Greitt verður inn á bankareikninga bænda 18. apríl næstkomandi. Í tilkynningu frá SS segir að verðskrá fyrir innlagt dilkakjöt hafi verið ákveðin í júlí s.l. og síðan hafi verðþróun erlendis verið til hækkunar og gengi íslensku krónunnar verið útflutningi hagstætt.

Tap vegna hóstapestarinnar gæti numið um milljarði króna

Tjón vegna hóstapestar í hrossum sem upp kom í fyrra gæti numið um miljjarði króna. Samdráttur í útflutningi einn og sér olli tapi upp á 260 milljónir ef horft er til meðalverðs og útflutnings árið 2009. Tap vegna samdráttar í ferðaþjónustu var einnig gífurlegt þó ekki sé hægt að ná utan um umfang þess en Samtök ferðaþjónustunnar hafa giskað á að tap ferðaþjónustunnar hafi getað numið allt að 800 millj. kr. Þetta kom fram í svari Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannessonar þingmanns Framsóknarflokksins á Alþingi í vikunni.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið gerir athugasemdir við skýrslu Ríkisendurskoðunar

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur sent frá sér athugasemd vegna nýútkominnar skýrslu Ríkisendurskoðunar um útvistun opinberra verkefna til Bændasamtaka Íslands þar sem segir að rangt sé farið með að samtökin hafi hafnað beiðni ráðuneytisins um að starfsmenn samtakanna veittu sérfræðiaðstoð um landbúnaðarmál vegna aðildarumsóknar Íslands að ESB.
„Vegna umræðu um nýbirta skýrslu Ríkisendurskoðunar um útvistun opinberra verkefna til Bændasamtaka íslands vill sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið koma eftirfarandi leiðréttingu á framfæri.

VIlja flytja inn holdasæði

Aðalfundur Landssambands kúabænda samþykkti meðal annars áskorun á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þess efnis að beita sér af festu og einurð fyrir því að mögulegt verði að flytja inn holdanautasæði frá viðurkenndum einangrunarstöðum í þeim nágrannalöndum okkar, þar sem heilbrigðisástand nautgripa er hvað best.
Ástæðan fyrir þessari ósk er sú að mikil skyldleikarækt er í greininni í dag þar sem stofninn er lítill. Bændur telja að þetta torveldi orðið framförum í nautakjötsframleiðslu. „Það er því orðið brýnna en nokkru sinni fyrr að erfðaefni hérlendra holdanautakynja, sérstaklega skoska kynsins Aberdeen Angus, verði endurnýjað svo fljótt sem verða má.“

Aðalfundur LK gagnrýnir landbúnaðarráðherra harðlega

Aðalfundi Landssambands kúabænda lauk á laugardaginn. Á fundinum var meðal annars samþykkt ályktun þar sem Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er gagnrýndur harðlega fyrir að hafa ekki samráð við setningu reglugerðar um tilboðsmarkað með greiðslumark.

back to top