Telur hlutverk BÍ of víðtækt við stjórnsýslu landbúnaðarmála

Ríkisendurskoðun telur að stjórnvöld hafi falið Bændasamtökum Íslands of víðtækt hlutverk við stjórnsýslu landbúnaðarmála og að endurskoða þurfi fyrirkomulagið. Þá verði stjórnvöld að efla eftirlit sitt með framlögum til landbúnaðar.
Alþingi og stjórnvöld hafa falið Bændasamtökum Íslands framkvæmd margvíslegra stjórnsýsluverkefna á sviði landbúnaðarmála og eftirlit með þeim. Meðal annars taka samtökin ákvarðanir um opinberar greiðslur til bænda, annast útreikning þeirra og afgreiðslu. Einnig sinna samtökin ráðgjöf við stjórnvöld og fulltrúar þeirra sitja í nefndum sem taka ákvarðanir um landbúnaðarmál. Þá annast samtökin áætlana- og hagskýrslugerð um landbúnað.

Lilja Rafney Magnúsdóttir er nýr formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar

Kosið var að nýju í nefndir Alþingis á þingfundi í síðustu viku í kjölfar þess að Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir sögðu sig úr þingflokki Vinstri grænna (Vg). Sú breyting varð á skipan í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að Ásmundur Einar Daðason þingmaður (Vg) fór út úr nefndinni og í hans stað kom Lilja Rafney Magnúsdóttir inn. Hún er jafnframt formaður nefndarinnar.

Formaður LK gagnrýnir stjórnvöld og Alþingi harðlega

Sigurður Loftsson, formaður LK, gagnrýni stjórnvöld harðlega í setningarræðu sinni á aðalfundi Landssambands kúabænda. Sigurður ræddi um í ræðu sinni nýgerðar breytingar á lögum um tekjuskatt þegar felld var niður heimild til afskrifta á greiðslumarki í mjólk. Helstu rök sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins fyrir breytingunni voru að að ekki væru talin þörf á jafn örum skipulagsbreytingum í landbúnaði og álitið var á sínum tíma. „Landssambandi kúabænda er ekki kunnugt um að nokkur tilraun hafi verið gerð til að meta áhrif þessara breytinga á rekstur og efnahag kúabænda, nýliðun, eða hvað þá verðþróun í viðskiptum með greiðslumark. Ekkert samráð var heldur haft við hagsmunaaðila vegna málsins og engin umræða hefur farið fram um það innan greinarinnar“, sagði Sigurður í ræðu sinni. Þá bætti Sigurður við: „Tæplega er von að kúabændur átti sig á því til hvers er ætlast af þeim frá stjórnvöldum þessa lands. Engu er líkara en innan stjórnvalda séu tvennskonar öfl að verki sem togi greinina til sitt hvorrar áttar. Annars vegar eru þeir sem telja eðlilegt að losa allar hömlur og setja greinina í óhefta samkeppni með inngöngu í Evrópusambandið. Hins vegar eru það hinir sem telja minni þörf á skipulagsbreytingum en verið hefur. Það er óneitanlega sérstök staða“.

Aðalfundur LK hefst í dag

Aðalfundur Landssambands kúabænda verður haldinn dagana 25. og 26. mars nk. á hótel KEA á Akureyri. Föstudaginn 25. mars hefst fundurinn kl. 10 með hefðbundinni dagskrá s.s. skýrslu stjórnar og ávörpum gesta. Eftir hádegi verða flutt tvö erindi. Annars vegar flytur Daði Már Kristófersson, hagfræðingur, erindi um áhrif kynbóta á framleiðni íslenskra kúabúa og hins vegar flytur Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri LK, erindi um stefnumörkun nautgriparæktarinnar 2021.
Fundurinn er opinn öllum og við hvetjum alla sem hafa tök á að fylgjast með störfum fundarins að gera það, annað hvort á staðnum eða hér á vefnum en sýnt verður beint frá fundinum á www.naut.is.

Aðalfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands

Aðalfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands verður fimmtudagskvöldið 31. mars kl. 20:00 í Hliðskjálf félagsheimili hestamannafélagsins Sleipnis á Selfossi. Dagskrá fundarins eru hefðbundin aðalfundarstörf. Kjósa á um formann en Sveinn Steinarsson hefur ákveðið að gefa kost á sér áfram. Halldór Guðjónsson og Bertha Kvaran hafa tilkynnt að þau sjái sér ekki fært að sitja lengur í stjórn. Gestur fundarins verður að þessu sinni Sigurbjörg Þorsteinsdóttir Dr.Med.Sc. ónæmisfræðingur hjá Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum en hún mun kynna nýjustu niðurstöður í rannsóknum á sumarexemi. Erindið nefnist: Sumarexem (smámýsofnæmi í hestum) möguleikar á meðferð.

Lífland dregur úr verðhækkun á íslensku byggyrkjunum

Lífland hefur breytt áður útgefnum sáðvöruverðlista á þann veg að íslensku byggyrkin (Kría, Skúmur og Lómur) lækka úr 159 kr/kg í 150 kr/kg. Þannig verður hækkun á þeim milli ára 13,6%. Verðmunur á byggyrkjum hjá Líflandi er því aðeins 1 kr/kg eftir því hvort um er að ræða íslenskt eða erlent.

Sáðvara hækkar í verði

Lífland  hefur birt verð á sáðvörum fyrir vorið 2011. Verðin hækka nokkuð frá fyrra ári og t.d. hækkar vallarfoxgras um 6-11%, grasfræblöndur hækka um 7-9% og vallarrýgresi um 8%. Grænfóðurfræ eins og repja og rýgresi hækkar á bilinu 16-23% misjafnt eftir tegundum og yrkjum. Bygg til þroska hækkar um 15-20%, minnst er hækkun á Judit (6 raða) en mest á íslensku yrkjunum Kríu (2ja raða) og Skúmi (6 raða).

Ný og endurbætt og áburðarhandbók frá Áburðarverksmiðjunni

Áburðarverksmiðjan/Fóðurblandan hafa gefið út nýja og endurbætta útgáfu af áburðarhandbókinni sem byggir á áburðartegundum Áburðarverksmiðjunnar. Handbókin er ætluð bændum, ráðunautum og öllum þeim sem nota áburð.
Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að mikið af nýju efni hafi verið bætt við og áburðartegundum Áburðarverksmiðjunnar séu gerð góð skil. Vonast er til þess að handbókin verði bændum og öðrum ræktendum leiðarvísir við val á áburðartegundum og áhrifaríka notkun á áburði.

Rýnifundi um byggðamál lokið

Rýnifundi um 22. kafla samningaviðræðna við Evrópusambandið, byggðastefnu ESB og samræmingu uppbyggingarsjóða, lauk í Brussel í dag. Á fundinum, sem var sá síðari af tveimur, báru sérfræðingar Íslands og ESB saman löggjöf í þessum samningskafla. Fyrir íslenska hópnum fór Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, formaður samningahópsins.
Byggðamál standa utan EES-samningsins og þarf að semja um þau frá grunni. Markmið byggðastefnu ESB er að efla atvinnulíf og efnahagsstarfsemi innan svæða sambandsins. Markmiðunum til stuðnings eru þrír sjóðir, Samheldnisjóður, Félagsmálasjóður og Byggðaþróunarsjóður. Ákveðin stjórnsýsla vegna umsýslu með áætlunum, verkefnum og fjármunum þarf að vera til staðar í aðildarríkjunum, en eins og kemur fram í áliti meirihluta utanríkismálanefndar kunna að skapast ný tækifæri til endurskipulagningar á byggðastefnu íslenskra stjórnvalda á grunni nýrrar hugmyndafræði.

KS og SKVH greiða uppbót á sauðfjárinnlegg

Kjötafurðastöð KS á Sauðárkróki og Sláturhús KVH ehf. á Hvammstanga hafa tekið þá ákvörðum að greiða sínum innleggjendum 8 krónu uppbót á hvert kíló af innlögðu dilkakjöti sem slátrað var s.l sláturtíð.

Umsóknir um leyfi til að selja líflömb 2011

Sauðfjárbændur sem ætla að sækja um nýtt leyfi til að selja líflömb skulu senda skriflega umsókn til Matvælastofnunar eigi síðar en 1. apríl 2011 á eyðublöðum sem finna má á vef MAST eða með því að hafa samband í síma 530-4800 og fá þau send.
Sauðfjárbóndi sem nú þegar hefur fengið söluleyfi heldur því milli ára án umsóknar, svo lengi sem hann uppfyllir skilyrði reglugerðarinnar. Tilkynna þarf Matvælastofnun ef óskað er að söluleyfi verði fellt niður og mun stofnunin þá taka nafn búsins af lista yfir bú sem hafa leyfi til að selja líflömb árið 2011.

Ráðstefna um meðferð hrossa innan- og utanhúss

Alþjóðlega NJF-ráðstefnan ”Housing and management of horses in Nordic and Baltic climate” verður haldin á Hótel Loftleiðum dagana 6. og 7. júní nk., en NJF eru samtök búvísindamanna á Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum. Samtökin spanna allt litróf landbúnaðarins og í þeim eru samtals tæplega 2.000 einstaklingar. Meginviðfangsefni samtakanna er að skipuleggja námskeið, ráðstefnur og vinnufundi t.d. til undirbúnings stærri verkefnastyrkja.
Markmið ráðstefnunnar er að draga saman nýjustu rannsóknarniðurstöður og leiðbeiningar varðandi meðferð hrossa, bæði innan sem utanhúss, með sérstaka áherslu á nærumhverfi bæði hrossa og manna.

Skálað í repjuolíu

Félag kúabænda á Suðurlandi hélt í gær kynningarfund um repjuræktun og olíuframleiðslu í fundarsal MS á Selfossi. Fyrirlesari var Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri. Sagt var frá fundinum í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi og var ma.a rætt við Ólaf Eggertsson og Þóri Jónsson bónda á Selalæk og formann Félags kúabænda á Suðurlandi.

Lög um búfjárhald og dýravernd sameinuð í lög um velferð dýra

Vorið 2008 var ákveðið að hefja skyldi endurskoðun á lögum um dýravernd og jafnframt að skoða ákvæði laga um búfjárhald og um friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum, með það fyrir augum að samræma sem best ákvæði þessara laga og laga um dýravernd. Markmið með endurskoðuninni var meðal annars að stjórnsýsla og eftirfylgni mála á sviði dýraverndar yrði skilvirk og sem einföldust í framkvæmd og að fara yfir hvort endurskoða þyrfti þvingunarúrræði og viðurlög laga um dýravernd.
Endurskoðun þessi hefur reynst umfangsmikil og nefnd sérfræðinga á þessu sviði hefur annast þetta verkefni og nú eru drög að frumvarpi til laga nær tilbúin. Nefndin kynnti sér löggjöf nágrannaþjóðanna á þessu sviði og þó einkum nýlega löggjöf Norðmanna, sem þykir skara fram úr, enda vel til verksins vandað á sex ára tímabili.

Hagnaður MS á síðasti ári 293 millj. króna

Aðalfundur Mjólkursamsölunnar (MS) var haldinn síðastliðinn föstudag, en félagið er að langstærstum hluta í eigu kúabænda (93%) á móti 7% Kaupfélags Skagfirðinga. Reksturinn síðasta árs var góður og nam hagnaður af starfseminni 293 milljónum eftir skatta sem er mikill viðsnúningur frá árinu 2009. Heildarvelta fyrirtækisins var 18,6 milljarðar króna sem er 4% aukning frá árinu 2009 og nærri 47% aukning frá árinu 2007.
Einar Sigurðsson, forstjóri MS, segir meginástæður rekstrarbatans þær að félaginu tókst að lækka söfnunar-, vinnslu- og afsetningarkostnað um 200 milljónir króna frá árinu 2009 þrátt fyrir margvíslegar kostnaðarhækkanir. Þá skipti verðhækkun á seinni helmingi árs 2009 verulegu máli. Jafnframt séu hagræðingaraðgerðir fyrri ára að skila sér inn í rekstrarniðurstöður fyrirtækisins. Þrátt fyrir góðan árangur varðandi rekstur MS er hagnaðurinn þó aðeins um 1,6% af veltu félagsins.

N1 hefur áhuga á ræktun repju til olíuframleiðslu

Í baksviðsgrein í Morgunblaðinu í gær er fjallað um áhuga N1 á samstarfi við bændur um ræktun á repju eða nepju til olíuframleiðslu, þ.e. lífdísil. Meða l þess sem fram kemur í greininni er að fyrirtækið telur að arðbær hreinsistöð þurfi að geta framleitt um 8 þúsund tonn á ári. Til þess þarf ræktun á 8 þúsund hekturum eða tvöföldu því landsvæði ef miðað er við að landið nýtist til þessarar ræktunar annað hvert ár.
„Við erum að líta til orkuöryggis þjóðarinnar til langs tíma. Jarðolíuöldinni mun ljúka á þessari öld og þá þarf eitthvað annað að koma í staðinn,“ segir Hermann Guðmundsson, forstjóri N1.

Hagnaður SS 186 milljónir kr. á síðasta ári

Á síðasta ári nam hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands, þ.e. Sláturfélags Suðurlands og Reykjagarðs hf., 186 milljónum kr. samanborið við 412 milljonir kr. árið áður. Heildareignir Sláturfélagsins 31. desember 2010 voru 5.620 milljónir kr. og eiginfjárhlutfall 28% og hefur hækkað milli ára en það nam 23% árið áður.
Aðalfundur félagsins verður haldinn 25. mars n.k. og þar mun stjórn félagsins leggja til að hvorki verði greiddur arður af B-deild né reiknaðir vextir á höfuðstól inneigna í A-deild stofnsjóðs. Hins vegar hefur komið fram krafa um útgreiðslu arðs af eigendum yfir 10% hluta í B-deild stofnsjóðs. Hámarks arðgreiðsla getur þó ekki orðið hærri en 14.344 þúsund króna en það er óráðstafað eigið fé 31. desember 2010.

Mjólkurgæði hafa aldrei verið meiri

Á aðalfundi SAM, sem haldinn var í dag, föstudaginn 11. mars, var Erlingur Teitsson kjörinn stjórnarformaður í stað Rögnvaldar Ólafssonar sem kjörinn var varaformaður. Á fundinum kom fram að 1 millj. kr. tap varð á rekstri SAM og námu tekjur félagsins 124,9 millj. kr. Stærsti einstaki gjaldaliður SAM eru laun og annar starfsmannakostnaður sem námu 71 millj. kr.

Eldgosið virðist ekki hafa haft mikil áhrif á heilsufar búfjár

Rannsóknir, sem gerðar voru í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli á síðasta ári, benda ekki til þess að öskufallið úr jöklinum hafi haft veruleg áhrif á heislufar búfjár. Í skýrslu sem Matvælastofnun hefur tekið saman og kynnt var á Fræðaþingi landbúnaðarins í gær segir að ekki sé ástæða til að óttast mikil áhrif af flúor í fóðrinu og ekki virðist vera alvarleg uppsöfnun af járni í búfé. Full ástæða er þó talin til þess að hafa sérstaka vöktun á heilsufari búfjár á stóru svæði á Suðurlandi og fylgjast með hvort einhver langtímaáhrif verða af öskufalli og öskufoki.

Seinagangur við úrlausn skuldamála harðlega átalinn

Búnaðarþing, sem lauk í vikunni, samþykkti m.a. ályktun þar seinagangur við úrlausn skuldamála bænda er harðlega átalinn og þær lánastofnanir sem ekki hafa hafist handa við endurútreikning á gengistryggðum lánum gagnrýndar. Jafnframt er þess krafist að lánastofnanir hraði úrlausnum á skuldamálum bænda og að verðmæti rekstrarins verði lagt til grundvallar þeim úrlausnum. Áréttað er að lánastofnanir gæti samræmis við úrvinnslu þessara mála.

back to top