Raunlækkun á kjöti 20% á síðustu þremur árum

Hagstofan mælir mánaðarlega smásöluverð á ýmsum vörum og mynda verðbreytingar á þeim síðan vísitölu neysluverðs. Meðal annars er verð á kjöti mælt. Frá ársbyrjun 2008 til ársloka 2010 hefur verð á öllu kjöti hækkað um samtals rúm 10%. Á sama tíma hefur almennt verðlag í landinu hækkað um tæp 30% og hefur því raunverð á kjöti lækkað um tæp 20% á þessum þremur árum. Á sama tímabili hefur verð á mat og drykkjarvörum í heild hækkað um 37,6% sem sýnir vel hvað innfluttar matvörur hafa hækkað.

Nautakjötið með mesta söluaukningu á árinu 2010

Á síðasta ári var markaðshlutdeild alifuglakjöts mest á landinu eða 30%, kindakjöt var í öðru sæti með 26,2% markaðshlutdeild, svínakjöt í þriðja með 25,2% og nautakjöt fjórða með 16,4%. Hrossakjötið rak svo lestina sem fyrr með 2,3% hlutdeild.
Í desember nam sala á kindakjöti 489 tonnum samanborið við 308 tonn í desember 2009 eða 59,8% meiri. Síðasta ársfjórðung síðasta jókst salan um 3,8% miðað við sama tíma árið 2009 og sé litið til 12 mánaða er aukningin 0,2%. Ef eingöngu er litið til dilkakjöts er söluaukningin meiri. Heildarsala kindakjöts nam 6.275 tonnum á árinu 2010.
Heildarframleiðsla kindakjöts nam 9.166 tonnum sem er 3,6% meira en 2009.

Fundir um www.fjarvis.is

Fyrirhugað er að halda fjóra fundi um skýrsluhaldskerfið fjarvis.is á starfssvæði Búnaðarsambandsins. Jón Viðar Jónmundsson og Jón Baldur Lorange frá BÍ munu mæta á fundina ásamt Þóreyju Bjarnadóttur. Þau fara yfir og ræða hina fjölbreytilegu möguleika til að sækja margvíslegar upplýsingar í kerfið. Jafnframt er leitað eftir hugmyndum notenda um þá þætti sem brýnast er að lagfæra eða bæta við í kerfinu. Þá er mjög mikilvægt að bændur komi vel undirbúnir á fundinn til að einhverjar umræður skapist um kerfið. Þarna er kjörin vettvangur að koma fram með það sem ykkur finnst vera ábótavant í kerfinu sem og spurningar varðandi kerfið. Þá er gagnlegt að heyra frá notendum hverjir styrkleikar eða kostir fjarvis.is eru í dag og hvernig sauðfjárbændur nýta sér kerfið sem hjálpartæki. Hver fundur gæti tekið rúmlega 2 klst. með fyrirlestrum og umræðum. Ekki er reiknað með því að bændur komi með tölvu með sér.

Skil á haustupplýsingum

Síðasti skiladagur á haustupplýsingum til að halda gæðastýringargreiðslunum er 1. febrúar n.k. Þeir sem skila haustbókum vinsamlegast komið þeim á skrifstofur búnaðarsambandsins á Selfossi, Hvolsvelli, Klaustri eða Höfn. Á skrifstofunni á Klaustri er ekki dagleg viðvera en bændur geta rennt bókinni í gengnum bréfalúguna á útihurðinni ef hún er læst. Það kemur manneskja reglulega á skrifstofuna og tekur bækurnar til skráningar.

Fræðslukvöld um kynbótamat íslenskra hrossa

Hrossaræktarsamtök Suðurlands standa fyrir fræðslukvöldi um kynbótamat íslenskra hrossa í samstarfi við endurmenntun LbhÍ. Allir sem hafa áhuga á ræktun íslenska hestsins eru hvattir til að mæta. Fræðslukvöldið verður miðvikudaginn 19. janúar, kl. 19:45 til 22:00, í félagsheimili hestamannafélagsins Sleipnis, Hliðskjálf, Suðurtröð á Selfossi (hesthúsahverfinu).
Farið verður yfir kynbótamatið, uppbyggingu þess og útfærslu. Enn fremur verður farið í þróun kynbótamatsins, samþættingu þess við keppniseiginleika og mikilvægi þess að taka tillit til forvals í gögnum. Markmiðið er að þátttakendur öðlist skilning á helstu atriðum kynbótamatsins og hvernig ræktendur geti nýtt sé það í ræktunarstarfinu.

Ársuppgjör skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

Ársuppgjör hefur nú verið keyrt í skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar. Við viljum biðja þá sem færa mjólkurskýrslur í Huppu að yfirfara það vel og koma athugasemdum og/eða leiðréttingum á framfæri ef einhverjar eru hið fyrsta eða í síðasta lagi þann 21. janúar n.k. Athugasemdum eða leiðréttingum má koma á framfæri við Guðmund Jóhannesson hjá BSSL (mundi@bssl.is) eða Sigurð Kristjánsson hjá BÍ (sk@bondi.is).
Ársuppgjör verður keyrt að nýju mánudaginn 25. janúar n.k. og athugasemdir eða leiðréttingar verða því að berast fyrir áður nefnda dagsetningu eigi þær að ná inn í það uppgjör. Að því uppgjöri loknu verða niðurstöður birtar og afurðatölum til birtingar ekki breytt eftir það. Leiðréttingar er að sjálfsögðu alltaf hægt að framkvæma en við einhvern tímapunkt verður að staðnæmast til birtingar á tölum.

Áramótavinnslur í dkBúbót og staðgreiðsla launagreiðenda 2011

Við áramót þurfa launagreiðendur að uppfæra fjárhæðir og mörk vegna staðgreiðslu og notendur dkBúbótar þurfa að færa helstu stðagreiðslutölur inn í launakerfið. Setja þarf inn í dkBúbót nýtt bókhaldsár og staðgreiðsluforsendur. Til að setja inn staðgreiðsluforsendur í dkBúbót er valið Laun – Uppsetning – Staðgreiðsluforsendur og ný færsla stofnuð. Athugið að allir notendur launakerfisins þurfa sjálfir að setja inn þessar breytingar.
Eins þarf að huga að ýmsum atriðum í mismunandi kerfum dkBúbótar. Ítarlegar upplýsingar og leiðbeiningur um þessar vinnslur má finna í handbók frá DK, Áramótavinnslur í dk.

Verður starfrækt út apríl næst komandi a.m.k.

Afleysingaþjónusta fyrir bændur á áhrifasvæði eldgossins í Eyjafjallajökli s.l. vor hefur verið starfrækt undanfarna mánuði. Þjónustan er starfrækt af Búnaðarsambandi Suðurlands, Bændasamtökum Íslands og Félagi kúabænda á Suðurlandi og fjármögnuð með gjafafé frá norskum bændum sem þeir söfnuðu af miklum stórhug til stuðnings íslenskum stéttarbræðrum sínum. Markmiðið með afleysingaþjónustunni er að bændafjölskyldur geti tekið sér frí frá bústörfum í 2-5 daga í senn.

Búnaðarþing nálgast – frestur til að senda inn mál er til 20. jan. n.k.

Frestur til að senda inn mál fyrir Búnaðarþing 2011 er til 20. janúar n.k. Sunnlenskir bændur eru hvattir til að hafa samband við Búnaðarþingsfulltrúa og reifa málin. Búnaðarþingsfulltrúar Búnaðarsambands Suðurlands eru:

Mikilvægt að fá lungu til rannsóknar

Að því er fram kemur á vef Matvælastofnunar bendir nú margt til þess að kindur undir Eyjafjöllum og í Mýrdal hafi veikst af lungnapest eins og við sögðum frá fyrr í vikunni. Enn hefur þó ekki verið staðfest að um venjulega lungnapest sé um að ræða.
Ekki eru sjáanleg tengsl milli þeirra bæja þar sem veikin hefur komið upp. Þrjár kindur af fjórum sem krufnar voru af dýralækni voru með einkenni í lungum sem bentu til lungnapestar, en sú fjórða var með einkenni sem ekki eiga skylt við lungnapest. Búið var að gefa kindunum sem drápust sýklalyf og því var ekki hægt að rækta bakteríur frá líffærum úr þeim.

Hörður Kristjánsson ráðinn ritstjóri Bændablaðsins

Hörður Kristjánsson hefur verið ráðinn ritstjóri Bændablaðsins og kemur til starfa á næstu vikum. Hörður hefur síðustu ár starfað á Viðskiptablaðinu. Hann hefur margháttaða reynslu af blaðamennsku og m.a. starfað sem fréttaritari og kvikmyndatökumaður fyrir Ríkisútvarpið með aðsetur á Ísafirði, ljósmyndari, hönnuður og umbrotsmaður í prentsmiðju ásamt því að hafa starfað sem blaðamaður hjá Vestfirska fréttablaðinu,Vestra, DV og Fiskifréttum. Hörður var í Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árum áður ásamt því að vera með meistararéttindi í ljósmyndun.

Kannar hvort díoxínmengað fóður eða matvæli hafi verið flutt til Íslands

Matvælastofnun kannar nú til frekari staðfestingar hvort díoxínmengað fóður eða matvæli frá Þýskalandi hafi verið flutt til Íslands en stofnunin hefur fengið upplýsingar í gegnum RASFF hraðviðvörunarkerfi Evrópu um dioxínmengun í þýsku fóðri. Einnig hefur verið fjallað mikið um málið í fjölmiðlum. Mengunin stafar frá iðnaðarolíu (bíodisel) sem notuð var til fóðurgerðar frá nóvember síðastliðnum og hefur fundist nú í svínakjöti, eggjum og alifuglum auk fóðurs.

Vaxtarsprotar á Suðurlandi

Vaxtarsprotar er stuðningsverkefni sem hefur það markmið að hvetja og styðja við fjölbreytta atvinnusköpun í sveitum. Þátttakendur sitja námskeið þar sem þeir fá aðstoð við að þróa hugmyndir um eigin atvinnurekstur yfir á framkvæmdastig.
Hagnýtar upplýsingar Námskeiðið hefst 1. febrúar og lýkur 26. apríl 2011. Kennt er einu sinni í viku í 4 klst. í senn. Áætlað er að kenna í tveimur hópum ef næg þátttaka fæst, staðsetning tekur mið af þörfum þátttakenda.
Nánari upplýsingar og skráning til 25. janúar hjá Erlu Sigurðardóttur í síma 522 9491/ 867 2669 eða með tölvupósti á erla.sig@nmi.is . Sjá nánar á www.nmi.is/impra.
Kynningarfundir um Vaxtarsprota verða haldnir þriðjudaginn 18. janúar kl. 12:00 í Árhúsum á Hellu og kl. 15:30 í Félagsheimilinu Þingborg.

Skráningarfrestur rennur út í dag

Bændabókhald BSSL mun í samstarfi við dk-hugbúnað halda fjárhagsbókhaldsnámskeið þann 12. janúar 2011 ef næg þátttaka fæst.
Farið verður yfir möguleika dk fjárhagsbókhaldsins. Uppsetningu, flokkun og skráningu bókhaldslykla. Uppsetningu fyrir virðisaukaskatt, ársreikninga og fjárhagsgreiningu. Einnig verður farið í uppflettingar og útprentanir, ásamt möguleikum dk Búbótar.

Sáðmaðurinn: Ný námskeiðsröð við Endurmenntun LbhÍ

Við minnum á að opið er fyrir skráningar en styttast fer í umsóknarfrestinn þar sem áætlað er að byrja dagana 14.-15. janúar!
Sáðmaðurinn er yfirskrift öflugs jarðræktarnáms sem ætlað er fróðleiksfúsu jarðræktarfólki, bændum, verktökum og þjónustuaðilum, sem vilja ná enn betri árangri í jarðrækt og fóðuröflun.

Námskeiðaröðin dreifist yfir einn og hálfan vetur. Byrjar í janúar og endar með útskriftarhátíð á vormánuðum 2012. Að jafnaði eru tvö námskeið fyrir áramót og þrjú eftir áramót, auk verkefnavinnu. Hvert námskeið er metið til 1 Fein. Samskipti nemenda og kennara á milli námskeiða fara fram um fjarnámsvef skólans, skoli.is. Fyrsta námskeiðaröðin hefst vorið 2011. Hámarksfjöldi þátttakenda á námskeiðaröðinni er 22.

Árið 2010 var hægviðrasamt, þurrt og snjólétt

Veðurfar var óvenjulegt árið 2010, sérstaklega um landið sunnan- og vestanvert. Í þeim landshlutum var það eitt hið hlýjasta sem vitað er um, jafnframt eitt hið þurrasta og snjóléttasta. Ársmeðalloftþrýstingur hefur aldrei mælst jafnhár og nú auk þess sem árið var einnig óvenju hægviðrasamt. Þetta kemur fram í yfirliti frá Veðurstofu Íslands um tíðarfar nýliðins árs.

Lungnapest í sauðfé í Mýrdal

Staðfest hefur verið að lungnapest hefur komið upp í sauðfé í Mýrdalnum í fyrsta sinn. Einar Þorsteinsson á Sólheimahjáleigu er reiður Matvælastofnun vegna breytinga á sauðfjárveikivarnarlínum. Þetta kemur fram á vef Sunnlenska, www.sunnlenska.is. Þetta er í fyrsta skipti sem veikin kemur upp í V-Skaftafellssýslu. Dýralæknir staðfesti á gamlársdag að ær sem drapst á bænum Sólheimahjáleigu í Mýrdal hafi verið með lungnapest. Einar Þorsteinsson, bóndi á Sólheimahjáleigu og fv. ráðunautur, segir að fimm aðrar kindur hafi drepist í haust með svipuð einkenni og ærin sem var krufin.

Efnainnihald áburðar nánast alltaf í samræmi við uppgefin gildi

Matvælastofnun hefur birt á heimasíðu sinni skýrslu um niðurstöður áburðareftirlits ársins 2010. Í skýrslunni má finna niðurstöður efnagreininga áburðarsýna sem tekin voru á árinu, einnig athugasemdir vegna merkinga áburðarins. Þá eru í skýrslunni upplýsingar um áburðartegundir sem voru fluttar inn eða framleiddar á landinu á árinu.
Yfirleitt virðist sá áburður sem fluttur er til landsins standast þær kröfur sem gerðar eru og efnainnihald vera í samræmi við uppgefin gildi. Frá þessu eru örfáar undantekningar og flestar athugsemdir sem gerðar voru lúta að ófullnægjandi merkingum áburðarins.

SS í fjárhagslega endurskipulagningu

Sláturfélag Suðurlands sendi frá sér tilkynningu milli jóla og nýárs þess efnis að vinna við fjárhagslega endurskipulagningu hæfist nú í janúar og áætlað væri að henni lyki eigi síðar en 30. júní 2011.
Endurskipulagningin er unnin í samstarfi við Arion banka hf., sem er aðallánveitandi félagsins, og stefnt er að því að lán við Arion banka verði endurfjármögnuð og aðlagaðar betur að greiðslugetu félagsins til lengri tíma. Fram kemur í tilkynningunni að öll lán og skuldir við lánadrottna eru í skilum. Endurskipulagningin á ekki að hafa nein áhrif á skuldir við lánadrottna og snýr eingöngu að endurfjármögnun lána við Arion banka.

Heimild til niðurfærslu keypts greiðslumarks fellur úr gildi um áramót

Á Alþingi voru samþykkt lög um breytingar á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld þann 18. desember sl. og þar með talin breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Með þeirri breytingu var felld niður heimild til að færa niður stofnkostnað við kaup á framleiðslurétti í landbúnaði. Mun breytingin gilda frá áramótum 2010/2011 þannig að greiðslumark sem keypt er eftir 1. janúar 2011 verður ekki heimilt að færa niður við kaup. Þrátt fyrir breytinguna var sett ákvæði til bráðabirgða svo þeim, sem keyptu greiðslumark fyrir þessi áramót, verði heimilt að klára niðurfærslu þegar keypts greiðslumarks svo og þess greiðslumarks sem keypt er á þessu ári.

back to top