Námskeið í fjarvis.is

Við minnum á námskeið í sauðfjárræktarkerfinu fjarvis.is sem haldin verða á Kirkjubæjarklaustri þann 19. nóvember n.k. og Höfn þann 26. nóvember n.k. Nú fer hver að verða síðastur að skrá sig. Nánari upplýsingar með því að smella á „Lesa meira…“

Kýrnar í Tröð gera harða hríð að Íslandsmeti

Uppgjör skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir október er lokið og standa meðalafurðir á árskú nú í 5.318 kg yfir landið allt. Afurðir eru nokkru meiri hér á Suðurlandi eða 5.431 kg/árskú til jafnaðar. Afurðir eru sem fyrr mestar í Árnesýslu eða 5.504 kg/árskú og síðan 5.486 kg/árskú í Rangárvallasýslu.
Afurðahæsta búið á landinu er hjá Steinari Guðbrandssyni í Tröð í Borgarbyggð eða fyrrum Kolbeinsstaðahreppi. Þar hafa kýrnar mjólkað 7.945 kg/árskú til jafnaðar síðustu 12 mánuði og eru nú komnar mjög nærri Íslandsmeti kúnna í Akbraut frá 2008 en það er 8.159 kg. Hér á Suðurlandi eru afurðir s.l. 12 mánaða mestar hjá Arnari Bjarna og Berglindi í Gunnbjarnarholti þar sem 109,6 árskýr hafa mjólkað að jafnaði 7.618 kg. Þau eru í fjórða sæti á landsvísu. Lífsval ehf. Í Flatey í Hornafirði er í öðru sæti á Suðurlandi og sjötta á landsvísu með 7.530 kg/árskú og þeim fylgir svo fast á hæla góður listi gróinna sunnlenskra afurðabúa. Þar má nefna Reykjahlíð, Kirkjulæk, Ytri-Skóga, Hraunkot, Helluvað, Arakot, Stóra Ármót og Fjall.

Meiri og betri afurðir en nokkru sinni

Uppgjör á skýrslum fjárræktarfélaganna fyrir árið 2010 er þegar hafið. Það er fyrr á ferðinni en nokkru sinni áður. Afrekslistarnir eru þegar aðgengilegir á vefnum. Við þá bætist síðan jafnt og þétt eftir því sem uppgjörinu miðar áfram. Af þessum fyrstu tölum er hins vegar strax ljóst að afurðir eru meiri og kjötmatsniðurstöður betri haustið 2010 en áður hefur sést.

Skýrsluhald í sauðfjárrækt – skil á vorupplýsingum

Þeir bændur sem enn hafa ekki að fullu gengið frá vorupplýsingunum verða að gera það nú þegar. Til að falla ekki út úr gæðastýringunni verða bændur að skila inn haustupplýsingum fyrir 1. febrúar ár hvert. Eftir því sem skilum á vorupplýsingum seinkar þá seinkar uppgjöri fyrir vorið sem seinkar svo skilum á haustupplýsingum. Einnig er haustuppgjörið á fullu skriði þessa dagana hjá BÍ og vorupplýsingum safnað saman frá mörgum bæjum til uppgjörs.

Vinna hrútaskráarinnar á lokastigi

Hrútaskrá sauðfjársæðingastöðvanna er nú lokastigi undirbúnings fyrir prentun. Áætlað er að hún komi út í næstu viku eða 17. nóvember n.k. Útgáfunnar er að venju beðið með mikilli eftirvæntingu og hefst dreifing skráarinnar um leið og prentun lýkur.
Skránni verður m.a. dreift á haustfundum sauðfjárræktarinnar sem fram fara um allt land núna seinni hluta nóvember.

Niðurstöður skoðunar á lambhrútum undan sæðingahrútum haustið 2010

Búið er að taka saman niðurstöðurnar fyrir allt landið úr skoðun sona sæðingastöðvahrútanna haustið 2010. Þær niðurstöður má allar sjá undir „Sauðfjárrækt->Hrútaskrá->Lambhrútaskoðanir“.

Ullarverð til bænda hækkaði um 8,92% þann 1. nóv. sl.

Gengið hefur verið frá samningi milli LS, BÍ og Ístex um ullarverð til bænda næstu 12 mánuði. Verðið hækkar um 8.92% að meðaltali frá fyrra ári, en að þessu sinni hækka bestu flokkarnir meira en þeir lakari svo verðmunur milli flokka eykst. Til samanburðar þá hækkaði kjötverð til bænda um 2.2% milli áranna 2009 og 2010. Verðin eru eftirfarandi:

SAM leggur til að greiðslumark mjólkur verði sem næst óbreytt

Á fundi Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði sem haldinn var í síðustu viku, var ákveðið að gera tillögu að 116 milljón lítra greiðslumarki mjólkur árið 2011 en þá verður verðlagsárið jafnframt fært að almanaksári. Það er því sem næst óbreytt greiðslumark frá því sem nú er. Greiðslumark yfirstandandi 16 mánaða verðlagsárs (1. september 2009-31. desember 2010) er 155 milljónir lítra, ef það er reiknað yfir á 12 mánuði, samsvarar það 116,25 milljónum lítra.

Haustfundir sauðfjárræktarinnar 2010

Hinir árlegu haustfundir sauðfjárræktarinnar verða haldnir sem hér segir:

Miðvikudaginn 24. nóvember.
Smyrlabjörg…………………………………………… kl. 14:00
Hótel Kirkjubæjarklaustur……………………… kl. 20:00

Fimmtudaginn 25. nóvember.
Heimaland…………………………………………….. kl. 14:00
Þingborg………………………………………………… kl. 20:00

Opnað hefur verið fyrir rafræna skráningu forðagæsluskýrslna

Matvælastofnun hefur opnað fyrir rafræna skráningu forðagæsluskýrslna á nýjum vef, www.bustofn.is. Öllum sem skiluðu forðagæsluskýrslu síðasta haust hefur nú að venju verið send eyðublöð haustskýrslu ásamt leiðbeiningum um útfyllingu og skil. Hins vegar stendur umráðamönnum búfjár einnig til boða að að skila upplýsingum um bústofn og forða rafrænt. Með rafrænum skilum er skráning upplýsinga um heyforða til muna einfaldaður.

Seðlabankinn lækkaði vexti um 0,75 prósentustig í gær

Seðlabanki Íslands lækkaði vexti bankans um 0,75 prósentur í gær. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að þessi vaxtaákvörðun marki ákveðin söguleg tímamót. Virkir vextir bankans eru nú 4,6% og hafa aldrei verið jafn lágir í sögu bankans, segir Már.
Peningastefnunefnd bankans telur að eitthvert svigrúm sé enn til staðar til áframhaldandi slökunar peningalegs aðhalds haldist gengi krónunnar stöðugt eða styrkist og hjaðni verðbólga eins og spáð er. Áætlanir um afnám hafta á fjármagnshreyfingar skapa hins vegar óvissu um hversu mikið svigrúmið er til skemmri tíma litið.

Rafræn skráning forðagæsluskýrslna

Matvælastofnun (MAST) heldur fræðslufund fyrir bændur þriðjudaginn 9. nóvember í Ársal Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Fundurinn skiptist í tvennt: Kl. 15:00 verður fjallað um rafræna skráningarforritið BÚSTOFN og rafræn skil á forðagæsluskýrslum. Kl. 15:30 verður fjallað um tilboðsmarkað með greiðslumark mjólkur.
Hægt verður að fylgjast með fræðslufundinum í beinni útsendingu og nálgast upptöku af útsendingunni á vef MAST (www.mast.is) undir ÚTGÁFA – FRÆÐSLUFUNDIR.

Sláturhúsið Hellu ehf. hækkar verð á nautgripakjöti

Sláturhúsið Hellu ehf. hefur hækkað verð á nautgripakjöti frá og með 1. nóvember s.l. Eftir hækkun er verðskráin eftirfarandi:

Eyðublöð vegna viðskipta með greiðslumark í mjólk komin út

Matvælastofnun hefur nú gefið út eyðublöð vegna viðskipta með greiðslumark í mjólk. Þau er að finna á heimasíðu stofnunarinnar (www.mast.is) sem og síðunni hjá okkur, sjá neðar. Þeir sem hyggja á viðskipti á kvótamarkaðnum 1. desember n.k. eru góðfúslega minntir á að senda þau til Matvælastofnunar fyrir þann 25. nóvember n.k. ásamt tilheyrandi gögnum.

Tilboðsmarkaður með greiðslumark mjólkur

Matvælastofnun hefur birt eftirfarandi tilkynningu vegna kvótamarkaðar sem fer fram í fyrsta skipti um næstu mánaðamót:
„Þann 1. desember n.k. hefjast viðskipti með greiðslumark mjólkur á svokölluðum kvótamarkaði. Þar er um breytt fyrirkomulag slíkra viðskipta að ræða. Þau munu eftirleiðis eiga sér stað á uppboði þar sem kaupendur og seljendur mætast og verð er ákvarðað.

Meira en 50% mjólkurvara hér njóta ekki fjarlægðarverndar

Ef Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu þýðir það algerlega nýtt starfsumhverfi og lagaumgjörð fyrir landbúnað á Íslandi. Endurskoða þyrfti öll lög sem varða framkvæmd landbúnaðarkerfisins á Íslandi og gera þyrfti grundvallarbreytingar á stjórnsýslu landbúnaðarmála að mati Landssambands kúabænda, sem leggur áherslu á að tollvernd fyrir mjólkurvörur verði viðhaldið.
Mjólkurvörurnar hafa verið flokkaðar í þrjá flokka með tilliti til þess hvort þær njóta fjarlægðarverndar eða ekki. Í síðasta flokknum eru unnar mjólkurvörur sem njóta engrar eða mjög takmarkaðrar fjarlægðarverndar. Kúabændur benda á að þetta séu um 52,4% af mjólkurvörusölunni hér á landi.

Fóðurblandan breytir efnainnihaldi í fóðurblöndum

Fóðurblandan hefur sent frá sér tilkynningu um breytingar á efnainnihaldi í fóðri. Breytingarnar eru gerðar með hliðsjón af niðurstöðum heyefnagreininga. Þannig verður járn tekið út úr fóðurblöndum fyrir jórturdýr og kopar aukinn og húðaður að hluta til að sleppa við áhrif járns í vömbinni. Jafnframt verður selen-innihald aukið og helmingur þess verður á auðleystu lífrænu formi. E-vítamín verður einnig aukið um 50%.
Nánari upplýsingar má sjá í meðfylgjandi fréttatilkynninu frá Fóðurblöndunni.

Niðurstöður afkvæmarannsókna fyrir sauðfjársæðingastöðvarnar

Búið er að taka saman yfirlit um niðurstöður afkvæmarannsóknanna sem unnar voru vegna sauðfjársæðingastöðvanna nú í haust. Á grunni þessara niðurstaðna voru teknir tveir hrútar á stöð frá Ytri-Skógum (Gosi og Kostur), einn hrútur frá Hofi í Öræfum (Geysir) og einn hrútur frá Heydalsá (Sómi). Auk þeirra kemur síðan einn hrútur (Máni) frá Hesti á stöð.

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir ráðin aðstoðarmaður ráðherra

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ráðið Gunnfríði Elínu Hreiðarsdóttur í starf aðstoðarmanns ráðherra. Hún hefur þegar hafið störf í ráðuneytinu. Gunnfríður hefur frá árinu 2007 starfað sem nautgriparæktarráðunautur hjá BÍ en verður nú í leyfi frá störfum þó hún sinni áfram tilteknum verkefnum.

Fræðslufundir fyrir kúabændur

Búnaðarsamband Suðurlands stendur fyrir fræðslufundum fyrir kúabændur dagana 27. og 28. október n.k. Fjallað verður um prótein í mjólk, fóðuráætlanagerð með NorFor, ný naut í notkun veturinn 2010-11, niðurstöður jarðræktartilrauna á Stóra-Ármóti, jarðræktarforritinu jörð.is og loks lækkun framleiðslukostnaðar á kúabúum þar sem stuðst verður við tölur úr Sunnu-verkefninu
Fundirnir verða haldnir sem hér segir:

back to top