Skrifað undir nýjan búnaðarlagasamning

Skrifað hefur verið undir nýjan búnaðarlagasamning sem er til tveggja ára en fyrri samningar hafa verið til fimm ára í senn. Ástæða þess að nú er skrifað undir styttri samning en venja er til, er sú óvissa sem skapast hefur vegna erfiðleika í efnahagslífinu. Gildandi búnaðarlagasamningur hefur verið skertur verulega nú þegar en hann rennur út um næstu áramót. Eins og vísbendingar voru um í frumvarpi til fjárlaga komandi árs er um mjög verulegan niðurskurð að ræða frá fyrri samningi.

Burður og burðarhjálp – umsóknafrestur að renna út

Námskeið fyrir kúabændur, á vegum Endurmenntunar LbhÍ í samstarfi við Nautgriparæktarfélag Hrunamanna 25. október nk. á Flúðum. Markmið námskeiðsins er að gera bændur hæfari í að taka réttar ákvarðanir þegar kemur að burði og burðaraðstoð hjá kúm. Á námskeiðinu verður farið yfir undirbúning kýrinnar fyrir burð, helstu sjúkdóma kringum burð, eðlilegt burðarferli, burðarerfiðleika, burðarhjáp og meðferð ungkálfa.

Gleði og gaman á degi sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í Skeiðvangi á Hvolsvelli þann 16. október s.l. Efstu lambhrútar og veturgamlir hrútar af svæðinu frá Markarfljóti að Þjórsá sem dæmdir höfðu verið í heimasveit komu á sýninguna og var þeim raðað upp á nýtt. Hér á eftir má sjá úrslitin og nokkrar myndir frá deginum.

Gyllir 03007 valinn besta naut 2003 árgangsins

Á síðasta fundi ræktunarhóps í nautgriparækt var Gyllir 03007 valinn besta naut 2003 árgangsins. Gyllir er frá Dalbæ í Hrunamannahreppi og eru ræktendur þau Arnfríður Jóhannsdóttir og Jon Viðar Finnsson. Gyllir er undan Seifi 95001 og Fluga 254 Soldánsdóttir og er því sammæðra Glæði 02001 sem einnig hefur reynst mjög vel.

Landbúnaðarbyggingar – ráðgjafi BÍ á ferð

Dagana 9. – 10. nóvember nk. verður Unnsteinn Snorri Snorrason hjá okkur á Búnaðarsambandi Suðurlands. Unnsteinn er landsráðunautur í bútækni og veitir meðal annars alhliða ráðgjöf um skipulag og hönnun landbúnaðarbygginga. Þeir bændur sem eru að velta fyrir sér t.d. vinnuhagræðingu, loftræstingu, breytingar og öðru tengdu landbúnaðarbyggingum og óska eftir að fá Unnstein í heimsókn geta panta tíma hjá Margréti í síma 480-1809 eða sent tölvupóst á margret@bssl.is .

Fjarvera ráðherra landbúnaðarmála vakti athygli

Fyrsti haustfundur LK var haldinn að þessu sinni að Þingborg í Flóahreppi fimmtudagskvöldið 14.október. Á fundinn mættu auk stjórnarmanna LK fjöldi kúabænda á Suðurlandi auk þess voru á fundinum nokkrir fulltrúar úr mjólkuriðnaðinum og tveir Alþingismenn.
Athygli vakti fjarvera sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóns Bjarnasonar en honum hafði verið boðið sérstaklega á fundinn en mætti ekki og boðaði ekki forföll.

Fyrsti haustfundur LK er í kvöld

Við minnum á að haustfundir Landssambands kúabænda hefjast í kvöld (fimmtudaginn 14. okt.)með fundi Þingborg í Flóa kl. 20.30. Sérstakur gestur fundarins er Jón Bjarnason, ráðherra landbúnaðarmála.

Auðhumla hækkar verð á umframmjólk frá 1. okt. s.l.

Auðhumla svf. hefur sent frá sér tilkynningu þess efnis að verð á umframmjólk verður hækkað á fjórða ársfjórðungi þessa árs. Tilkynningin fer hér á eftir:
„Verð á mjólkurafurðum á heimsmarkaði hefur hækkað undanfarin misseri og það hefur endurspeglast í tekjum Mjólkursamsölunnar. Þetta á einkum við um smjörmarkað. Á sama tíma hefur meðal gengi bandaríkjadollars gagnvart krónu lækkað um 12%. Gengi evru hefur einnig lækkað gagnvart krónu og þetta hefur neikvæð áhrif á útflutningstekjurnar.

Námskeið í ullarflokkun haustið 2010

Stórátak er að fara af stað í flokkun á ull í næsta mánuði þar sem Ullarmatsnefnd og Landssamtök sauðfjárbænda í samvinnu við Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands standa fyrir námskeiðum í ullarflokkun víðsvegar um land.
Námskeiðin verða haldin í fjárhúsum hjá bændum þar sem rúið verður og ullin flokkuð jafnóðum. Auk þess verður farið yfir reglur um ullarflokkun og sýndar myndir til skýringar.

Skráning á lambadómum

Þeir bændur og sauðfjárræktendur sem skrá dóma á lömbum sínum sjálfir í fjarvis.is eru beðnir að hraða þeirri vinnu sem nokkur kostur er. Sérstaklega er mikilvægt að dómar á lambhrútum verði skráðir hið fyrsta og sé lokið í síðasta 20. október n.k.  Þá er og mjög brýnt að þeir sem hyggjast mæta með hrúta á Dag sauðkindarinnar á Hvolsvelli þann 16. okt. n.k. hafi lokið skráningum í síðasta lagi fimmtudaginn 14. okt. n.k.

Haustfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands

Haustfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands verður haldinn í félagsheimili Hestamannafélagsins Sleipnis, Hliðskjálf þriðjudaginn 19. október nk. kl. 20:00. Guðlaugur Antonsson hrossaræktarráðunautur Bændasamtaka Íslands verður með framsögu á fundinum. Einnig munu Hulda Gústafsdóttir og Gunnar Arnarson upplýsa menn um horfur á útflutningi hrossa í haust.

Jarðvegssýnataka 2010

Á haustin er rétti tíminn fyrir bændur að taka jarðvegssýni úr túnum og ökrum og senda til efnagreiningar. Niðurstöður jarðvegsefnagreininga gefa góðar upplýsingar um sýrustig jarðvegs og steinefnainnihald sem eru mikilvægar forsendur fyrir áburðaráætlun komandi sumars. Hins vegar er betra að taka heysýni til að meta fosfór (P) og kalí (K) því þá sjáum við hvað plantan er að taka upp í raun. Hægt er að fá sérstakan heysýnabor hjá Búnaðarsambandi Suðurlands til þessa verks.
Búnaðarsamband Suðurlands hvetur bændur í ákveðnum búnaðarfélögum á sambandssvæðinu til að taka jarðvegssýni en að sjálfsögðu er bændum og öðrum landeigendum frjálst að taka jarðvegssýni þess utan.

Sunnlendingar nú segjum við NEI

Nú ætlum við að sýna samstöðu með heilbrigðisstofnunum á Suðurlandi vegna niðurskurðar á fjárframlögum ríkisins á næsta ári sem hefur þau áhrif að sjúkrahúsin á Suðurlandi verða lögð niður.
Til að mótmæla þessu verður samstöðufundur úti við Hótel Selfoss ármegin, mánudaginn 11. október kl. 17-19.
Inn í hótelinu verður á sama tíma fundur Sunnlenskra sveitastjórnamanna með heilbrigðisráðherra, þingmönnum og forsvarsmönnum heilbrigðistofnana á Suðurlandi.
Mætum ÖLL og látum í okkur HEYRA

Nýtt kynbótamat og nautsmæðraskrá

Búið er að uppfæra allt kynbótmat fyrir alla nautgripi í Huppu eins og fram hefur komið. Þá er búið að uppfæra reynd naut í notkun á www.nautaskra.net með nýju kynbótmati en eins og við sögðum frá um daginn koma ellefu naut úr árgangi 2004 til notkunar á næstu dögum.
Þá hefur listi yfir nautsfeður til notkunar næstu mánuði verið uppfærður en þar koma þrjú naut úr 2004 árgangnum inn.

Námskeið í jarðræktarforitinu Jörð.is

Við minnum á námskeið Endurmenntunardeildar LbhÍ í jarðræktarforitinu jörð.is þar sem fjallað verður um það hvernig bændur geta nýtt sér það til að halda utan um jarðræktarsögu búsins. Jörð.is. Námskeiðið er haldið í samstarfi við Bændasamtök Íslands, Búnaðarsamband Suðurlands og Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda.
Hér á Suðurlandi verða haldin tvö námskeið, þann 15. október á Hellu og 29. október á Höfn.

Haustfundir LK 2010 hefjast fimmtudaginn 14. okt.

Líkt og fyrri ár mun Landssamband kúabænda standa fyrir röð haustfunda á vegum samtakanna. Fyrsti fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 14. október í Þingborg í Flóa kl. 20.30. Sérstakur gestur fundarins er Jón Bjarnason, ráðherra landbúnaðarmála.

Fóðurblandan býður upp á heimsendingarþjónustu á rekstrarvörum

Fóðurblandan hefur nú tekið upp þá nýjung að bjóða upp á heimsendingarþjónustu fyrir rekstrarvörur. Um er að ræða rekstrarvörur eins og vörur frá DeLaval, hreinlætisvörur, saltsteina, bætiefni, kálfamjólk, vítamín og steinefni, svo fátt eitt sé nefnt.
Hægt er að hringja eða senda tölvupóst og vörurnar eru síðan sendar með fóðurbílnum þegar hann kemur til þín næst.

Ekkert í Lífeyrissjóð bænda

Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga er um verulegan niðurskurð að ræða á ýmsum framlögum til landbúnaðarins. Helst ber þar að nefna mikinn niðurskurð á framlögum sem falla innan svokallaðs búnaðarlagasamnings. Er þar um að ræða framlög til Bændasamtaka Íslands og til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Framlög til Bændasamtakanna eru þannig skorin niður um 144,6 milljónir króna frá yfirstandandi ári. Þar af er skorið niður um 94,6 milljónir í ráðgjafaþjónustu og búfjárrækt en um 50 milljónir í þróunarverkefnum og markaðsverkefnum. Heildarframlög til Bændasamtakanna verða þannig 394 milljónir króna ef frumvarpið nær fram að ganga en eru 468,6 milljónir króna á yfirstandandi ári.

Niðurstöður úr sýnatöku á verkuðu heyi á gossvæðinu

Komnar eru niðurstöður úr verkuðum heysýnum á gossvæðinu á vefinn hjá okkur. Þann 8. júní 2010 voru nokkrir bæir á áhrifasvæði eldgossins heimsóttir og tekin gróðursýni til steinefnamælinga. Í byrjun september var svo farið á flesta þessa bæi aftur og verkuð heysýni tekin til að skoða hvernig til hefði tekist við heyöflun m.t.t. öskumengunar. Tekin voru 1-5 verkuð heysýni frá hverjum bæ og þeim blandað saman í eitt safnsýni en athugunin gekk út á að taka sýni sem myndu lýsa heildar heyforða búsins sem nota á til að fóðra skepnur nú í vetur.

Góðar erfðaframfarir í ísl. kúastofninum

Samkvæmt nýjum útreikningum frá Ágústi Sigurðssyni, kynbótafræðingi, eru verulegar erfðaframfarir í íslenska kúastofninum. Ef litið er til árabilsins 2000-2009 eru framfarir rúmlega 1,1 kg próteins á ári. Þetta er sambærilegt við það sem gerist í Noregi. Ef horft er á framfarir í mjólkurafköstum þá eru þær ríflega 32 kg á ári að jafnaði á þessu sama tímabili.

back to top