Síðsumarsýning Gaddstaðaflötum –frestað

Mjög góð þátttaka var á kynbótasýningunni á Gaddstaðaflötum í síðustu viku og hafa því komið óskir um að sýningin sem hefjast átti 9. ágúst verði frestað um nokkra daga. Það hefur því verið ákveðið að vera með tvær dómnefndir að störfum vikuna 16. til 20. ágúst og því trúlegt að þá náist að klára dóma á einni viku. Ef hrossin verða fleiri en svo að hægt sé að ljúka dómum á einni viku hefst sýningin seinnipartinn í næstu viku. Tekið verður við skráningum til mánudagsins 9. ágúst og er það jafnframt síðasti dagur til að ganga frá greiðslum.

Arion-banki selur svínabú

Arion-banki sem átti tvö af stærstu svínabúum landsins eftir gjaldþrot þeirra hefur selt Stjörnugrís, stærsta svínaræktanda landsins búin. Á meðan bankinn rak svínabúin þurfti hann að greiða á annað hundrað krónur með hverju kílói af kjöti frá búunum.

Bændur greiða 12% iðgjald síðari hluta ársinis

Frá og með júlí s.l. innheimtir Lífeyrissjóður bænda 8% mótframlag á móti launþegaiðgjaldi bænda en fram til þessa hafa bændur einungis greitt 4% iðgjald til sjóðsins en ríkissjóður hefur greitt mótframlagið. Þess í stað hafa bændur gefið eftir margs konar kröfur á ríkisvaldið.
Á yfirstandandi fjárlögum er hins vegar framlag ríkisins skert um 45% og því neyðist sjóðurinn til að innheimta mótframlag af bændum. Þetta þýðir kjaraskerðingu sem þessu nemur.

Yfirlit miðsumarsýningar á Gaddstaðaflötum – Hollaröðun

Yfirlit miðsumarsýningar á Gaddstaðaflötum fer fram föstudaginn 30. júlí og hefst stundvíslega klukkan 07:00. Hollaröðunin fylgir hér að neðan;

Yfirlit miðsumarsýningar á Gaddstaðaflötum

Yfirlit miðsumarsýningar á Gaddstaðaflötum fer fram föstudaginn 30. júlí og hefst stundvíslega klukkan 07:00.

Verðbólga mælist nú 4,8% á ársgrunni

Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,66% milli júní og júlí og mælist nú 361,7 stig. Þetta er mesta lækkun vísitölunnar síðan í mars árið 1986. Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,8%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs lækkað nokkuð eða um 0,6% sem jafngildir 2,3% verðhjöðnun á ári.

SS: Verðlækkun á dilkakjöti er líður á sláturtíðina

Sláturfélag Suðurlands, SS, kynnti í fréttabréfi í síðustu viku verðskrá sína fyrir haustslátrun á kindakjöti. Staðgreiðslu verður haldið áfram, föstudag eftir lok hverrar innleggsviku. Afurðaverðið í dilkakjöti lækkar hins vegar í öllum flokkum um 39,0 kr/kg frá árinu 2009, en verð af fullorðnu stendur í stað.

Miðsumarsýning á Gaddstaðaflötum – Hollaröð

Miðsumarsýning kynbótahrossa á Gaddstaðaflötum fer fram dagana 27. til 30. júlí nk. Skráð hross eru 226 talsins. Dæmt verður frá þriðjudegi til fimmtudags, tvær dómnefndir að störfum, og yfirlitssýning föstudaginn 30. júlí. Verðlaunað er fyrir 5 efstu sæti í hverjum flokki en sá dagskrárliður og kynning efstu hrossa fer fram laugardaginn 31. júlí kl. 14:00, sem hluti af viðburðadagskrá Geysismanna á Stórmóti þeirra um verslunarmannahelgina.

Farið verður að óverðtryggðum vöxtum Seðlabanka Íslands

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í morgun að vextir á lánum sem báru gengistryggingu, sem Hæstiréttur dæmdi ólögmæta 16. júní sl., eigi að vera óverðtryggðir vextir Seðlabanka Íslands frá lántökudegi. Um var að ræða prófmál og mjög líklegt er að málinu verði áfrýjað fyrir Hæstarétt.

Nýtt riðutilviki í Árnessýslu

Riðuveiki hefur verið staðfest í einni kind á bænum Hurðarbaki í Flóahreppi. Grunur vaknaði vegna sjúkdómseinkenna í einni kind og voru sýni send á Tilraunastöðina að Keldum, þar sem riðuveiki var staðfest. Riðuveiki greindist fyrst í Flóanum árið 2006. Áður hafði hún greinst bæði í Ölfusi og Hrunamannahreppi.

Kynbótasýning Gaddstaðaflötum í júlí

Auka kynbótasýning verður á Gaddstaðaflötum við Hellu vikuna 26. júlí til 30. júlí. Þeir sem nú þegar hafa fært hross yfir á þá sýningu verða að vera í sambandi til að staðfesta þær skráningar eigi síðar en 21. júlí, þó svo þegar hafi verið greitt fyrir hrossin. Tekið verður við skráningum á þessa sýningu dagana 20. og 21. júlí í síma 480-1800 eða á netfangi hross@bssl.is. Ganga verður frá greiðslu eigi síðar en miðvikudaginn 21. júlí. Hross sem ekki hefur verið greitt fyrir á tilsettum tíma verða ekki skráð til sýningar.

Kúabændur ekki ánægðir með breytingar á reglum um aðilaskipti greiðslumarks

Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytið gaf út í vikunni reglugerð um breytingar á reglugerð um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur á lögbýlum. Þar er tekinn af allur vafi á að reglugerðin taki ekki til eigendaskipta að lögbýlum með greiðslumark, að kaup- og sölutilboð skuli berast til MAST eigi síðar en 25. maí og 25. nóvember, svo sannreyna megi tilboðin áður en markaður er haldinn þann 1. næsta mánaðar. Einnig er bætt við grein um að kauptilboðum skuli fylgja bankaábyrgð.

Verð á umframmjólk frá 1. júlí 2010

Stjórn Auðhumlu svf. hefur ákveðið að verð á umframmjólk greiðslumarkstímabilið 2009 -2010 verði sem hér segir frá 1. júlí 2010:
Greitt verði fyrir umframmjólk (mjólk umfram greiðslumark), sem er ígildi 1,5% af 16 mánaða greiðslumarki hvers og eins kr. 40,- á lítra. Allir greiðslumarkshafar hafa hlutfallslega sama rétt til að framleiða þessa mjólk.

Yfirlitssýning á Gaddstaðaflötum færð til föstudagsins 2. júlí

Sökum afar óspennandi veðurspár fyrir morgundaginn hefur verið ákveðið að færa yfirlitssýningu á Gaddstaðaflötum yfir á föstudaginn 2. júlí. Dagskrá og röð flokka er óbreytt frá fyrri auglýsingu; byrjað á slaginu 9:00 á 7v. og eldri hryssum.

Miðað við lægstu óverðtryggðu eða verðtryggðu vexti Seðlabankans

Fjármálaeftirlitið (FME) og Seðlabanki Íslands (SÍ) hafa beint því til fjármálafyrirtækja að þau miði við lægstu óverðtryggðu eða verðtryggðu vexti Seðlabankans í stað gengistryggingar og erlends vaxtaviðmiðs á þeim lánum sem falla undir dóm Hæstaréttar um gengistryggð bílalán.  

Heysýni til efnagreiningar

Sláttur er nú kominn vel af stað á Suðurlandi og margir kúabændur langt komnir með slátt. Því er ekki úr vegi að minna á skil á heysýnum. Heppilegt væri að koma þeim við fyrsta hentugleika til Búnaðarsambandssins á Selfossi. Minnt er á að mjólkurbílar Auðhumlu svf. taka við sýnunum og koma þeim áfram.  

Hollaröð á kynbótasýningu á Gaddstaðaflötum

Hollaröð á kynbótasýningu á Gaddstaðaflötum dagana 28. júní – 1. júlí 2010 er komin á vefinn hjá okkur. Dómar hefjast kl. 12.30 mánudaginn 28. júní og þeim lýkur með yfirlitssýningu fimmtudaginn 1. júlí. Yfirlitssýning mun hefjast kl. 9.00 með sýningu hryssna 7 vetra og eldri.

Verðbólga mælist 5,7% á ársgrunni

Vísitala neysluverðs lækkar um 0,33% milli maí og júní. Þar vegur þyngst að verð á bensíni og díselolíu lækkaði um 5,9% milli mánaða (vísitöluáhrif -0,34%) og matar og drykkjarvörur lækkuðu um 1,5% milli mánaða (vísitöluáhrif -0,23%). Vísitala neysluverðs hefur lítið hækkað á þessu ári, undanfarna 3 mánuði hefur vísitalan hækkað um 0,3% sem jafngildir 1,3% verðbólgu á ársgrunni.

Afleysingar á gossvæðinu hefjast 5. júlí n.k.

Afleysingar á áhrifasvæði eldgossins í Eyjafjallajökli á vegum Búnaðarsambandsins, Bændasamtaka Íslands og Félags kúabænda á Suðurlandi hefjast þann 5. júlí n.k. Þeir bændur sem hug hafa á að nýta sér hana eru beðnir að hafa samband við Svein Sigurmundsson hjá Búnaðarsambandinu í síma 480 1800 eða netfang sveinn@bssl.is.

Tæpar 800 milljónir til aðgerða vegna eldgoss

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum síðastliðinn föstudag að veita 791,7 milljónir króna til endurreisnar og vegna neyðaraðgerða í kjölfar eldgosanna í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi. Styðja á við uppbyggingarstarf á eldgosasvæðinu og treysta enn frekar störf þeirra sem komið hafa að neyðaraðgerðum, öryggismálum og endurreisn í kjölfar hamfaranna.

back to top