Hauggas á dráttarvélarnar?

Valtra hefur nú komið fram með dráttarvél sem gengur fyrir hauggasi. Vélin verður í tilraunanotkun í Svíþjóð nú í sumar en vélin er með hefðbundnum fjögurra sýlindra díselmótor, sem hefur verið breytt svo hægt sé að nota hauggas í stað díselolíu. Þannig er mögulegt að í framtíðinni geti hver sá bóndi, sem er með hauggasframleiðslubúnað, framleitt sitt eigið dráttarvélaeldsneyti með tiltölulega einföldum hætti.

Stefnt að hrossaútflutningi í ágúst

Stefnt er að því að hefja hrossaútflutning á nýjan leik um miðjan ágúst að sögn Kristinn Guðnason, formanns Félags hrossabænda. Það verði þó ekki gert nema heilsufar hrossanna sé komið í fullkomið lag en útflutningur hefur legið niðri vegna hóstapestar sem herjað hefur á velflest hross hér á landi undanfarið.

Framkvæmdastjóri Bændasamtakanna færir norskum kollegum þakkir

Eiríkur Blöndal framkvæmdastjóri Bændasamtakanna ávarpaði í gær aðalfund norsku bændasamtakanna, Norges Bondelag sem stendur yfir í Lillehammer. Í ræðu sinni fór Eiríkur yfir stöðu landbúnaðar á Íslandi nú um stundir og tæpti á helstu málum sem hafa verið og eru í forgrunni í vinnu Bændasamtaka Íslands. Lýsti hann sérstaklega baráttu Bændasamtakanna gegn ESB-aðild og þakkaði Norges Bondelag fyrir stuðning í þeirri baráttu.

Vesturmjólk í vanda?

Þrír bændur á Vesturlandi hafa stofnað nýtt mjólkursamlag, Vesturmjólk, og hyggjast m.a. vinna úr mjólk sem framleidd er utan greiðslumarks. Nýtt frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gerir hins vegar ráð fyrir því að afurðastöð, sem tekur við mjólk utan greiðslumarks og selur innanlands, verði sektuð um 110 krónur á hvern lítra.

Stýrivextir lækka áfram

Seðlabanki Íslands ákvað í morgun að lækka vexti bankans um 0,5%. Vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana hjá bankanum eru nú 6,5%. Er þessi ákvörðun framhald á vaxtalækkunarferli sem staðið hefur síðustu mánuði. Á síðasta vaxtaákvörðunardegi, þann 5. maí sl., lækkuðu vextir bankans einnig um 0,5%. Búast má við að viðskiptabankarnir fylgi í kjölfarið og lækki bæði innláns- og útlánsvexti.

Viðtalstímar Bjargráðsjóðs á Hvolsvelli

Við minnum á að Árni Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri Bjargráðasjóðs, verður til viðtals á skrifstofu Búnaðarsambandsins á Hvolsvelli í dag, þriðjudaginn 22. júní, og á morgun, miðvikudaginn 23. júní, frá kl. 10.00 til kl. 16.00 báða dagana.
Þeir sem orðið hafa fyrir tjóni vegna eldgossins í Eyjafjallajökli geta komið og rætt málin við Árna.

BÍ telja nýfallna Hæstaréttardóma hafa veruleg áhrif á skuldastöðu bænda

Að mati Bændasamtakanna er augljóst að nýfallnir Hæstaréttardómar um ólögmæti gengistryggingar muni hafa veruleg áhrif á skuldastöðu og lánamál bænda eins og annarra heimila á landinu. Eins telja BÍ að áhrifin séu víðtæk og nái til mun fleiri lánasamninga en bíla- og tækjalána þrátt fyrir yfirlýsingar sumra lánastofnana.

Kynbótasýning á Gaddstaðaflötum 28. júní

Í dag er síðasti skráningardagur á kynbótasýninguna á Gaddstaðaflötum sem hefst 28. júní. Tekið er við skráningum í síma 480-1800 en einnig er hægt að skrá hross til sýningar á heimasíðu Búnaðarsambands Suðurlands www.bssl.is . Sýningargjaldið er hægt að greiða inn á reikning 152-26-1618, kt. 490169-6609. Sýningargjaldið er 14.500 kr fyrir fullnaðardóm en 10.000 kr fyrir bygginga eða hæfileikadóm.

Breytt starfshlutfall Þóreyjar

Þann 1. júní s.l. minnkaði starfshlutfall Þóreyjar Bjarnadóttur, sauðfjárræktarráðunautar, í 50%. Hún hefur ekki lengur viðveru á Höfn heldur heima hjá sér á Kálfafelli í Suðursveit. Þórey verður lítið við vinnu í sumar en ef það er eitthvað sem hún getur aðstoðað ykkur með þá hikið þið ekki við að hafa samband við hana.

Gengistrygging lána dæmd ólögmæt

Gengistrygging lánsfjár í íslenskum krónum var dæmd ólögmæt í fordæmisgefandi dómum sem féllu í Hæstarétti sl. miðvikudag. Í dómnum segir að: „Lög nr. 38/2001 [um vexti og verðtryggingu] heimila ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla.“ Lánin sem slík eru þó enn til staðar. Hins vegar skal miða við upphaflegan höfuðstól og reikna á hann vexti. Hvaða vextir það eiga að vera, er á þessari stundu óljóst. Líklegt er að þorri allra gengistryggðra bílalána og hluti gengistryggðra húsnæðislána séu ólögmæt.

Þorvaldseyri með vefsíðu

Heimilisfólkið á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum hefur opnað heimasíðu, www.þorvaldseyri.is, þar sem hægt er að fylgjast með fréttum tengdum bústörfum og uppbyggingu eftir eldgosið og skoða myndir. Á síðunni er einnig hægt að lesa sér til um sögu bæjarins sem rakin er í stuttu máli. Þá er að finna uppskriftir á vefnum en á Þorvaldseyri er ræktað bygg og heilhveiti sem selt er í allmörgum verslunum hérlendis.

Bjargráðasjóður með viðtalstíma á Hvolsvelli

Árni Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri Bjargráðasjóðs, verður til viðtals á skrifstofu Búnaðarsambandsins á Hvolsvelli í næstu viku, þ.e. þriðjudag 22. júní og miðvikudag 23. júní, frá kl. 10.00 til kl. 16.00 báða dagana.
Þeir sem orðið hafa fyrir tjóni vegna eldgossins í Eyjafjallajökli geta komið og rætt málin við Árna.

Hryssur drepast á öskusvæðinu

„Það eru einhver tilfelli þar sem merar hafa drepist eftir kast en við höfum ekki neinar tölur sem talist getast óeðlilegar,“ er haft eftir Katrínu Andrésdóttur, héraðsdýralæknir á Suðurlandi, á mbl.is. Vangaveltur hafa verið upp meðal hrossabænda á öskusvæðinu hvort dauði folaldsmera hafi aukist í ár. Umræða hefur skapast undir Eyjafjöllum og í Mýrdal um fjölda móðurlausra folalda, sem þarf að gefa sérblandaða mjólk eða venja undir aðrar merar og kosta talsvert umstang.

Flest sýnin undir þolmörkum nautgripa og hrossa

Svo virðist sem öskufjúkið hafi hækkað flúorinn örlítið í gróðrinum. Þó ekki það mikið að það fari yfir þolmörk hjá nautgripum og hrossum nema í Hlíð og á Butru. Annars er ekki mikil breyting milli vikna á niðurstöðum.

Fræðslu- og umræðufundur um áhrif gosösku á heyskap og heyverkun

Fræðslu- og umræðufundur um áhrif gosösku á heyskap og heyverkun á Suðurlandi í sumar verður haldinn að Hótel Hvolsvelli í kvöld, mánudaginn 14. júní kl 20:30. Fjallað verður m.a um:

Reykjahlíð gefur ekkert eftir

Uppgjör skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir maí hefur verið birt á vef BÍ. Afurðir hér á Suðurlandi standa nú í 5.434 kg/árskú sem er 6 kg minna en um áramótin síðustu. Af sýslunum fjórum eru afurðir nú mestar í Rangárvallasýslu eða 5.515 kg /árskú. Á landsvísu standa afurðir eftir árskú nú í 5.115 kg.
Reykjahlíð er enn á toppnum af einstökum búum ef litið er til búa með 10,0 árskýr eða fleiri. Þar standa afurðir nú í 7.791 kg/árskú. Kirkjulækur er í þriðja sæti á landsvísu af búum með fleiri en 10,0 árskýr með 7.568 kg/árskú og Hraunkot er í fimmta sæti með 7.466 kg/árskú.

Uppgræðsla Sólheimasands hafin

Landgræðsla ríkisins, með stuðningi Vegagerðarinnar og heimamanna, hefur hafið aðgerðir til að hefta öskufok á Sólheimasandi í Mýrdal. Tilbúinn áburður verður borinn á og grasfræblöndu sáð í sandana meðfram þjóðvegi 1 á Sólheimasandi og er vonast til þess að árangur sjást strax í sumar. Takist aðgerðirnar mun gróðurinn sem upp kemur draga verulega úr öskufoki á sandinum og tryggja öruggari umferð á þjóðveginum.
Tilgangurinn með aðgerðunum er að endurheimta að einhverju leyti lífsgæði íbúa á þessu svæði, auka möguleika til áframhaldandi búsetu og tryggja betur umferðaröryggi um þjóðveg 1 á Sólheimasandi. Verkið verður unnið að stærstum hluta af heimamönnum en starfsmenn Landgræðslunnar hafa umsjón með því.

Tekið á óvissu um mjólk utan greiðslumarks

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði fyrir helgina fram frumvarp til laga á Alþingi um breytingar á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Frumvarpið felur í sér að tekið verði á þeirri óvissu sem ríkir um innvigtun og sölu á mjólk utan greiðslumarks. Í frumvarpinu er lagt til að afurðastöðvum (mjólkursamlögum) verði gert að greiða fjársekt fyrir að taka við mjólk frá framleiðanda sem ekki hefur greiðslumark og markaðsfæra hana á innanlandsmarkaði. Sama gildir ef rekstraraðili afurðastöðvar markaðsfærir innan lands afurðir úr mjólk sem er umfram greiðslumark framleiðanda án samþykkis framkvæmdanefndar búvörusamninga. Frumvarpið gerir ráð að sektin nemi 110 kr. fyrir hvern lítra mjólkur sem markaðsfærð er innanlands.

Töluvert flóð í Svaðbælisá

Töluverðir vatnavextir hafa verið í Svaðbælisá í morgun og náði Vatn að flæða yfir varnargarða sem reistir voru í nótt til að sporna gegn því það flæddi yfir tún á svæðinu. Litlu mátti muna að það flæddi yfir þjóðveginn en ræsi undir hann höfðu ekki undan.

Frumvarp um sameiningu ráðuneyta

Ríkisstjórnin lagði fram frumvarp um breytingar á lögum um stjórnarráðið á Alþingi í gærkvöldi. Helstu breytingarnar sem felast í frumvarpinu eru að ráðuneytum verður fækkað úr tólf í níu með með því að sameina dómsmála- og mannréttindaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti í nýtt innanríkisráðuneyti, félags- og tryggingamálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti í nýtt velferðarráðuneyti og nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti verður til með sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis við iðnaðarráðuneytið. Þá er lagt til að umhverfisráðuneytið taki að hluta yfir stjórnun og stefnumörkun varðandi nýtingu náttúruauðlinda og nafni ráðuneytisins verði í samræmi við það breytt í umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Verði frumvarpið samþykkt taka lögin gildi 1. janúar 2011.

back to top