Landgræðslugirðing í Meðallandi stendur sauðfjárbændum til boða

Landgræðsla ríkisins hefur boðið fram landgræðslugirðingu í Meðallandi, kennda við Leiðvöll, til sauðfjárbeitar nú í sumar til að létta á vandræðum sauðfjárbænda á gossvæðinu. Girðingin nær frá Kúðafljóti austur að Hnausum og er girt af með rafmagnsgirðingu, um 3.000 ha. alls. Um helgina verða girðingar yfirfarnar og beitargildi metið. Að því loknu ætti að vera ljóst hvenær flytja má fé í girðinguna.

Birtingu hollaröðunar frestað

Vegna kvefpestar sem nú herjar á hross hafa skráningar verið dræmar á kynbótasýninguna á Sörlastöðum í Hafnarfirði og þess vegna mun hún ekki hefjast fyrr en 25. maí eins og þegar hefur verið tilkynnt. Mikið var um afskráningar í dag og nokkrir knapar hafa haft samband og ætla að sjá til fram yfir helgi hvort þeir geti mætt með þau hross sem þegar hafa verið skráð til leiks.

Enn og aftur öskufall undir Eyjajföllum

Vindátt er nú smátt og smátt að snúast til norðlægrar áttar og öskufall hefur færst suður og austur á bóginn. Eins og við sögðum frá í morgun féll aska vestur af eldstöðinni í nótt og í morgun, þ.e. í Fljótshlíð, Hvolsvelli og vart varð við ösku í Grímsnesi, Hveragerð, Selfossi, Flóa og Þorlákshöfn svo dæmi séu tekin. Eftir því sem liðið hefur á daginn hefur öskufallið fæsrt til suðurs og þá féll aska í Landeyjum.
Nú fellur aska í Vestmannaeyjum og enn og aftur er komið öskufall undir Eyjajföllum.

SS býðst til að slátra fé fyrir bændur í næstu viku

Sláturfélag Suðurlands hefur boðist til að slátra fé fyrir bændur á Suðurlandi í næstu viku. Guðmundur Svavarsson, framleiðslustjóri SS á Hvolsvelli, segir að haft hafi verið samband við alla deildarstjóra í sveitunum við Eyjafjallajökul í dag. Að sögn Guðmundar er stefnt að því að slátra á Selfossi fimmtudaginn í næstu viku. Um gæti verið að ræða að bændur vilji létta á með því farga geldfé.

Öskufall í Landeyjum

„Gosmökkurinn er yfir okkur í augnablikinu og hér rignir ösku,“ segir Guðlaug Björk Guðlaugsdóttir bóndi á Voðmúlastöðum í Austur-Landeyjum í viðtali við mbl.is. Öskufall úr Eyjafjallajökli sem snemma í morgun féll yfir Fljótshlíð, Hvolsvöll og útsveitir í Rangárþingi fer nú yfir efstu bæi í Austur-Landeyjum.
„Við bregðumst við þessum aðstæðum eins og kostur er. Núna er ég á leið út í haga til að koma kvígum sem þar eru í hey og rennandi vatn,“ segir Guðlaug sem býr á Voðmúlastöðum ástamt Hlyni Thódórssyni, eiginmanni sínum.

Aska fellur til vesturs frá eldstöðinni

Talsvert öskufall er nú í vestur frá eldstöðinni í Eyjafjallajökli og er það í fyrsta skipti frá byrjun goss sem aska fellur til vesturs svo einhverju nemi. Þannig hefur aska fallið í Fljótshlíð og á svæðinu kringum Hvolsvöll en hún virðist ekki ná að neinu ráð niður i Landeyjar. Vart hefur orðið við ösku í Grímsnesi, á Selfossi og í Hveragerði.
Í viðtali við mbl.is segir Eggert Pálsson, bóndi á Kirkjulæk í Fljótshlíð að það sé heldur að birta til en um klukkan sex í morgun hafi verið ansi svart um að litast. „Ég vona bara að þessu fylgi væta, enda skolar þá öskunni af gróandanum. Núna stend ég hér úti á hlaði og myndi ekki hreyfa bílinn nema skola af honum áður,“segir Eggert ennfremur. Hann segir mikinn óróa fylgja gosinu. „Við vorum að stússa í sauðfénu fram til klukkan eitt í nótt og þá voru mikil læti í fjallinu, eldingar og glampar. Ég vona bara að gosinu fari að ljúka enda er nú komið á fimmtu viku frá því það hófst.“

Kemur til greina að aflétta tollvernd gagnvart landbúnaðarafurðum?

Kemur til álita að fallast á að hverfa frá núgildandi landbúnaðarstefnu, heimila innflutning á lifandi dýrum og aflétta tollvernd gagnvart landbúnaðarafurðum, samanber álit framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 24. febrúar sl.? Þannig hljóðaði fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar til Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á Alþingi fyrr í dag.
Jón rifjaði upp hvar í samningaferlinu Íslendingar væru staddir og benti á að Ísland uppfyllti skilyrði fyrir viðræðum, en formleg ákvörðun ráðherraráðsins þar um hafi ekki verið tekin. Las hann í framhaldinu upp úr bókunum Bændasamtaka Íslands og nefndaráliti utanríkismálanefndar Alþingis frá síðasta ári.

Öskufall í Skaftártungu

Í nótt hefur verið mikið öskufall í Skaftártungu ásamt því að það hefur rignt á svæðinu. Haft er eftir Gísla Halldóri Magnússyni, bónda í Ytri-Ásum að það sé erfitt að átta sig á umfanginu því þegar aska og vatnið blandast saman sé þetta ein klessa. Sauðburður er langt kominn í Ytri Ásum hefur hefur Gísli Halldór verið með féð í gerðum heima við fjárhús. „Ærnar nýbornar og lömbin hafa verið úti í nótt og eru öskugrá á litinn. Ef ekki rætist úr svo hægt verði að koma fé á beit þá stefnir í talsverð vandræði hér,“ segir Gísli sem hefur þurft að spúla ösku af vélum og tækjum í nótt. Bílar og vinnuvélar séu huldar ösku og húsþök eru svört.

Kynbótasýning Sörlastöðum í Hafnarfirði

Vegna kvefpestar sem nú herjar á hross hafa skráningar verið dræmar á kynbótasýninguna í Hafnarfirði og því hefur verið ákveðið að sýning þar hefjist ekki fyrr en 25. maí í stað 17. maí eins og til stóð. Sýningunni lýkur með yfirlitssýningu föstudaginn 28. maí og mun hún verða auglýst betur þegar nær dregur. Hollaröðun verður birt á hér á heimasíðu Búnaðarsambands Suðurlands föstudagskvöldið 14. maí. Þeir sem hafa skráð hross á Sörlastaðasýninguna eru beðnir um að láta vita um forföll í síma 480-1800 eins fljótt og auðið er.

Breytingar á búvörulögum vegna eldgossins

Gera á breytingar á búvörulögum til að bregðast við því ástandi sem skapast hefur á Suðurlandi vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Samkvæmt frumvarpi um breytingarnar verður fallið frá framleiðslutengingu beingreiðslna, bæði hjá kúabændum og sauðfjárbændum, ef þeir ákveða að bregða búi eða að draga verulega úr sinni framleiðslu af völdum gossins. Sömuleiðis verður sett inn ákvæði um að flytji bændur bústofn tímabundið af jörðum sínum á aðrar jarðir geti þeir engu að síður lagt inn afurðir í sínu nafni og haldið beingreiðslum.

Hrossaflutningar úr Mýrdalnum gengu vel

Síðastliðna helgi var vaskur flokkur björgunarsveitarfólks og flutningabílsstjóra að störfum í Mýrdalnum við að flytja 150 hross austur á Síðu í Skaftárhreppi og í Árnessýsluna. Að sögn Hermanns Árnasonar, starfsmanns Búnaðarsambands Suðurlands, gekk þessi vinna gríðarlega vel en nú er unnið að því í Mýrdalnum að setja upp gerði í kringum fjárhús svo hægt sé að viðra féð eilítið.

Mjólkurinnlegg síðsutu vikna á Selfossi minna en síðustu ár

Mjólkurinnlegg síðustu vikna á Selfossi er mun minna í ár en á síðasta ári. Þrátt fyrir það er innlegg þessa árs meira en á sama tíma í fyrra og munar 166.945 lítrum eða 0,93%. Síðustu vikur hefur innleggið aukist mun minna en sömu vikur í fyrra. Undanfarin ár hefur innleggstoppur ársins verið í viku 18 og þá náð rúmlega 1.050 þús. lítrum en í ár virðist toppurinn hafa verið í viku 10 en þá losaði innleggið 1.020 þús. lítra.
Eldgosið í Eyjafjallajökli virðist alla vega ekki enn sem komið er hafa haft önnur áhrif en þau að innlegg færðist milli vikna. Ekki er að sjá að minnkun hafi orðið á innleggi vegna þess en hins vegar er spurning hvað gerist þega rlíða fer á sumarið.

Yfirlitssýning kynbótahrossa í Víðidal

Yfirlitssýning kynbótahrossa  í Víðidal verður á morgun, miðvikudaginn 12. maí 2010, og hefst kl. 9:00. Byrjað verður á hryssum í flokki  7 vetra og eldri  og endað á stóðhestum 7 vetra og eldri.  Reiknað er með að yfirlitssýningu verði lokið um kl. 11. Röðun í holl verður birt fyrir miðnætti í kvöld.

Búnaðarsamband Suðurlands

Öskufall til austurs í dag

Í gær féll grófkorna aska undir Eyjafjöllum, einkum í Drangshlíð og Skarðshlíð og svæðinu þar í kring. Gosmökkurinn úr eldstöðinni náði mest fimm til sex kílómetra hæð en aukinn kraftur var í gosinu í kjölfar skjálftahrinu um og rétt fyrir hádegi. Síðdegis dró aftur úr gosvirkni.
Klepragígur hleðst upp í ískatlinum, en hraunrennsli er í lágmarki. Veðurstofan gerir ráð fyrir vestlægri átt og þá má reikna með öskufalli austur af eldstöðinni, allt austur að Kúðafljóti.

Landsbankinn býður 25% höfuðstólslækkun erlendra lána

Landsbankinn býður nú einstaklingum og fyrirtækjum í viðskiptum við bankann 25% höfuðstólslækkun lána í erlendri mynt gegn því að þeim verði breytt í verðtryggð eða óverðtryggð lán í íslenskum krónum. Í útreikningi á lækkun höfuðstóls verður miðað við stöðu lána þann 30. apríl 2010. Öll rekstrar- og fasteignafélög sem tóku lán í erlendri mynt fyrir 8. október 2008 geta sótt um lækkunina. Þetta er tímabundið úrræði og verður í boði til 30. júlí.
Lækkunin á við um öll lán í erlendum myntum, ekki bara íbúðalán, og viðskiptavinum bankans stendur til boða að sækja um þessa lausn.

Ráðunautar heimsækja bændur á áhrifasvæði eldgossins

Teymi héraðsráðunauta alls staðar að af landinu munu á þriðjudag og miðvikudag fara á bæi á öskufallssvæðinu fyrir austan, ræða við bændur og meta með þeim aðstæður og þörf fyrir aðstoð vegna fóðuröflunar og beitar í vor og sumar. Það er Búnaðarsamband Suðurlands, Bændasamtökin og búnaðarsambönd um allt land sem standa að skipulagningu heimsókna ráðunauta auk sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Alls munu rúmlega 20 ráðunautar koma að verkefninu frá flestum búnaðarsamböndum og BÍ. Ekki verður eingöngu farið á bæi þar sem öskufalls hefur orðið vart heldur einnig á svæði í nágrenni hamfaranna.

Afkvæmarannsóknir á hrútum fyrir kjötgæðaeiginleika haustið 2009

Haustið 2009 var umfang afkvæmarannsókna á hrútum sem unnar voru á vegum búnaðarsambandanna um allt land meira en nokkru sinni. Rannsóknir voru gerðar á samtals 269 búum og voru yfir 2.400 afkvæmahópar sem þar fengu sinn dóm. Allar niðurstöður úr einstökum rannsóknum hafa nú verið settar á vef Bændasamtaknna. Þarna má finna allar helstu meðaltalstölur fyrir hvern einstakan afkvæmahóp ásamt einkunnum hrúta í rannsókninni.

Niðurstöður á flúormælingum í 4 gróðursýnum

Fjögur gróðursýni voru tekin á jafnmörgum bæjum undir Eyjafjöllum þann 3. maí síðast liðinn. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun þá er miðað við flúorþolmörk í fóðri hjá nautgripum um 25-30 mg/kg og sauðfjár við 70-100 mg/kg.
Niðurstöður úr þessum fjórum gróðursýnum eru allt frá því að vera vel yfir þeim viðmiðunarmörkum upp í að vera langt yfir mörkunum.

Stærstu eigendur Líflands vilja innleysa hlutabréf

Sagt er frá því í Morgunblaðinu í dag að stærstu eigendur í Líflandi hf. hafa óskað eftir að innleysa hlutabréf í félaginu á genginu 2,5. Þórarinn V. Þórarinsson lögfræðingur segir þetta gert vegna þess að einn aðili sé kominn með yfir 90% hlut í félaginu, en um 250 smáir hluthafar fari með liðlega 7% hlutafjár.
Lífland hét áður Mjólkurfélag Reykjavíkur. Það félag var samvinnufélag, en var breytt í hlutafélag fyrir nokkrum árum í kjölfar rekstrarerfiðleika og fékk þá nafnið Lífland. Langstærsti eigandi Líflands er Geri ehf. en stærstu eigendur þess eru Kristinn Björnsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs, og Þórir Haraldsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Líflands.

Sækja þarf um leyfi til flutnings líflamba milli varnahólfa fyrir 1. júlí n.k.

Þeir sem sækja um leyfi til að flytja líflömb milli varnarhólfa skulu sækja um það til Matvælastofnunar fyrir 1. júlí á sérstökum eyðublöðum, sem eru að finna á heimasíðu stofnunarinnar. Matvælastofnun veitir leyfi fyrir 1. ágúst eða hafnar umsókninni ef umsækjandi uppfyllir ekki skilyrði reglugerðarinnar.
Þeir sem hyggjast sækja um eru hvattir til að kynna sér reglugerð nr. 550/2008 um flutning líflamba milli landsvæða.

back to top