Dýralæknaþjónusta á gossvæðinu verður tryggð

Halldór Runólfsson yfirdýralæknir segir að mikil samvinna sé af hálfu Matvælastofnunar við viðbragðsaðila á áhrifasvæði eldgossins í Eyjafjallajökli. „Héraðsdýralæknar og búfjáreftirlitsmenn eru að vinna náið með bændum vegna öskufalls og það er búið að hafa samband við alla dýraeigendur á svæðinu um að taka dýr inn og huga að þeim. Leiðbeiningar okkar hafa verið á vefsíðu stofnunarinnar, mast.is og ég hef líka bent mönnum á forsíðu Bændablaðsins frá 25. mars, þar er góð umfjöllun um þetta allt. Það sem við sögðum varðandi gosið á Fimmvörðuhálsi gildir allt ennþá. Svo hafa hins vegar komið upp auka mál vegna Eyjafjallasvæðisins og Mýrdalsins því að vegurinn við Markarfljót er jú rofinn og Mýrdalssandur á tímabili lokaður þá voru menn dýralæknislausir á svæðinu.“

Bændur skrái og myndi tjón af völdum eldgossins

Vegna eldgossins í Eyjafjallajökli er viðbúið að bændur hafi orðið, og eigi eftir að verða fyrir ýmsu tjóni. Raunar hafa þegar borist fregnir af verulegu tjóni, meðal annars á bænum Önundarhorni þar sem líklegt má telja að ríflega helmingur ræktarlands hafi orðið fyrir miklum skemmdum auk þess sem skurðir eru margir hverjir fullir af eðju. Þá er ljóst að girðingar bænda eru víða skemmdar, vatnsveitur hafa sömuleiðis orðið fyrir skemmdum og þannig mætti áfram telja. Mikilvægt er því að bændur átti sig á hvert, og með hvaða hætti, á að tilkynna tjón, hvernig meta skuli tjón og hvert hægt verður að sækja bætur.

Viðbrögð við afleiðingum gossins á matvæla- og fæðuöryggi þjóðarinnar

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra boðaði til fundar í ráðuneytinu í dag um möguleg áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli á landbúnað og sjávarútveg og viðbrögð við því.
Til fundarins voru boðaðir fulltrúar frá Matvælastofnun, Hafrannsóknastofnuninni, Veiðimálastofnun, MATÍS, Bændasamtökum Íslands, Búnaðarsambandi Suðurlands, Samtökum fiskvinnslustöðva og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ennfremur komu til fundarins Ágúst Gunnar Ármannson fulltrúi frá Almannavörnum og Ármann Höskuldsson jarðfræðingur frá Háskóla Íslands og fræddu um gosið og horfurnar framundan eftir því sem vitað er.

Mjólkursöfnun hófst undir Eyjafjöllum í morgun

Röskun hefur orðið á mjólkursöfnun undir Eyjafjöllum og þar fyrir austan vegna eldgossins. Í gær voru væntingar um að tækist að koma mjólkurbílum austur yfir Markarfljót til þess að safna en því miður tókst það ekki. Í dag, að morgni föstudagsins 16. apríl, fékkst heimild yfirvalda til þess að fara yfir gömlu brúnna á Markarfljóti og hófst mjólkursöfnun á svæðinu á tíunda tímanum.

Bændur um land allt séu tilbúnir að bregðast við öskufalli

Gosmökkur úr eldgosinu í Eyjafjallajökli með tilheyrandi öskufalli er á leið austur eftir landinu og talsverðs öskufalls hefur orðið vart nú þegar á Kirkjubæjarklaustri og nærsveitum. Búist er við suðvestan-átt í dag og nótt en líkur til að vindur snúist í norðaustan-átt á morgun. Bændur um allt land verða því að vera tilbúnir að bregðast við ef öskufalls gætir á þeirra svæðum. Leiðbeiningar um viðbrögð við eldgosum má finna á síðu Bændasamtakanna, bondi.is og eru bændur allir hvattir til að kynna sér þær grannt.

Viðlagatrygging bætir tjón

Viðlagatrygging bætir tjón af völdum flóða og eldgosa. Bændur sem orðið hafa fyrir tjóni vegna eldgossins í Eyjafjallajökli og flóðanna í Markarfljóti og Svaðbælisá geta því leitað til Viðlagatryggingar.
Viðlagatrygging er lögbundin náttúruhamfaratrygging sem bætir beint tjón á tryggðum eignum af völdum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða. Viðlagatrygging bætir ekki tjón af völdum annarra náttúruhamfara, t.d. af völdum ofsaveðurs.
Samkvæmt heimasíðu Viðlagatryggingu eru bótaskyldir tjónsatburðir eftirfarandi:

Stórt hlaup í Markarfljóti

Gos hefur verið jafnt og stöðugt í allan dag. Stórt vatnsflóð kom niður Gígjökul kl. 18.30 er að fara niður í byggð. Rauf það varnargarða í Fljótshlíð við Þórólfsfell á leið sinni til sjávar. Svo virðist sem að gamla brúin hafi sloppið en flóðið er farið að sjatna.
Öskufall hefur verið mikið í allan dag og aðallega bundið við svæðið á milli Hjörleifshöfða og Kirkjubæjarklausturs en þar féll aska er leið á daginn. Ekki sást handaskil þegar verst var á Mýrdalssandi og í Álftaveri. Vegurinn á milli Kirkjubæjarklausturs og Víkur var opnaður þegar leið á daginn og öskufall minnkaði þegar leið á kvöldið. Aska er farin að falla á Höfn á Hornafirði en þar liggur víða þunnt lag af ösku yfir. Veðurspá gerir ráð fyrir að vindur fari í norðanátt og þá má búast við öskufalli undir Eyjafjöllum og í Vestmannaeyjum þegar líður á morgundaginn.

ESB-aðild þýðir endalok svína- og kjúklingaræktar

Gangi Ísland í Evrópusambandið mun svínarækt og kjúklingarækt leggjast af á Íslandi. Þetta kom fram í máli Jóns Baldurs Lorange, hjá Bændasamtökum Íslands, á fundi um ESB og landbúnaðinn í gærkvöldi. Búnaðarfélag Mýramanna stóð fyrir fundinum.
Bændasamtökin hafa viðað að sér ítarlegum upplýsingum um landbúnað í Evrópusambandinu og hugsanleg áhrif inngöngu Ísland í bandalagið. Jón Baldur sagði að á Ítalíu fengju stærstu búin um 2,5 milljarða í styrki frá Evrópusambandinu á meðan meðalbúið væri að fá um 540 þúsund. Stærstu búin væru fyrirtækjasamsteypur sem væru með umfangsmikinn rekstur.

Innfluttar matvörur hafa hækkað um 62,8% frá ársbyrjun 2007 – íslenskar búvörur um 22,2%

Innfluttar matvörur hafa hækkað í verði um 62,8% frá ársbyrjun 2007 þar til nú. Innlendar búvörur og grænmeti hafa hins vegar einungis hækkað um 22,2% á sama tímabili. Þetta kemur m.a. fram í svari efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á Alþingi í dag.

Bankar og kröfuhafar mega ekki ráða framvindu í kúabúskap

Vinna er talsvert á veg komin í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu við breytingar á búvörulögum. Breytingarnar fela í sér að komið verði á fót miðlægum tilboðsmarkaði þar sem öll viðskipti með greiðslumark í mjólk skulu fara fram. Einnig er rætt um að samskonar markaði verði komið upp fyrir viðskipti með greiðslumark í sauðfé. Þá er jafnframt stefnt að því að setja bráðabirgðaákvæði í búvörulög sem takmarki framsal greiðslumarks út úr tilteknum byggðalögum ef um er að ræða greiðslumark sem tilheyri þrotabúum eða búum sem komin eru í greiðslustöðvun. Samkvæmt heimildum Bændablaðsins eiga bráðabirgðaákvæðin að gilda út verðlagsárið 2013.

Mögnuð gosmynd frá Þorvaldseyri

Ólafur Eggertsson á Þorvaldseyri tók þessa mögnuðu mynd af gosmekkinum yfir Eyjafjallajökli í gær.

Lítilsháttar röskun á söfnun mjólkur

Vegna eldgossins í Eyjafjallajökli er viðbúið að mjólkursöfnun raskist. Í gær átti m.a. að sækja mjólk í Mýrdalinn og á Klausturssvæðið. Af því varð ekki en gerðar hafa verið ráðstafanir til að sækja mjólk á þetta svæði í dag, fimmtudaginn 15. apríl. Mjólk verður sótt til bænda undir Eyjafjöllum á morgun, föstudaginn 16. apríl, að venju.
Mjólk sem sfnað var í gær fór til innvigtunar á Egilsstöðum en eins og útlitið er núna mun innvigtun mjólkur fara fram á Selfossi í dag.

Myndir frá hlaupinu í Markarfljóti

Valur G. Ragnarsson í Stóra-Dal sendi okkur nokkrar myndir af fyrra hlaupinu í Markarfljóti í gær. Á myndunum má sjá vatnsmagnið í fljótinu og svo áhrif þess á flag sem sáð var í káli í fyrravor. Glöggt má sjá hvernig plógstrengirnir skófust í burtu á stóru svæði.

Búfé smalað austan sands í gærkvöldi vegna öskufalls

Bændur og björgunarsveitarmenn smöluðu búfé í Meðallandi í gærkvöldi, en þar gerði mikið öskufall, svo mikið að ekki sá á milli stika á veginum. Töluvert öskufall er einnig í Álftaveri og Skaftártungu. Veginum um Mýrdalssand hefur verið lokað þar sést ekki á milli stika. Öskufallið nær ekki að Kirkjubæjarklaustri.
Ingunn Magnúsdóttir, bóndi á Syðri-Steinsmýri í Meðallandi, segir á mbl.is að ekki sé öskufall þessa stundina.
„Það kemur ekkert niður núna, en það var talsvert mikið öskufall í gærkvöldi. Það er grá hula yfir öllu. Bílarnir eru gráir,“ sagði Ingunn.
Öskufallið byrjaði um kl. 8 í gærkvöldi og stóð fram eftir nóttu. Vindáttin breyttist eitthvað í nótt, en hún er ennþá vestlæg.

Bændum austan sands er bent á að huga að búfénaði vegna öskufalls

Öskufalls frá gosinu í Eyjafjallajökli er farið að gæta verulega á svæðinu austan gosstöðvanna, í Meðallandi, Skaftártungu og neðri hluta Landbrots. Rekja má kolsvartan strók sem lagði frá gosstöðvunum fyrr í kvöld til gjóskunnar. Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli hefur verið haft samband við bændur í Meðallandi og Skaftártungum og eru þeir nú að taka búfénað inn. Þá hafa Almannavarnir sent út tilkynningu þar sem búfjáreigendum á áhrifasvæði eldgossins er bent á að fylgjast grannt með mögulegu öskufalli, t.d. með því að leggja út hvítan disk.
Á www.ruv.is er haft eftir Hauki Snorrasyni í Hrífunesi í Skaftártungu að ský hafi tekið að myndast yfir jöklinum síðdegis. Á mjög skömmum tíma hafi askan tekið að falla og svartamyrkur hafi verið komið kl. hálfátta vegna öskunnar. Ekki sé hægt að vera úti því askan fylli öll vit. Haukur segir mjög dimmt, askan hafi lagst yfir eins og ský.

Mikið tjón á Þorvaldseyri

„Þetta er engu líkt og ótrúlegt að sjá þetta,“ sagði Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri að því er fram kemur á mbl.is. Ólafur er nú að skoða aðstæður heima við eftir flóð sem varð í Svaðbælisá fyrr í dag. Ljóst er að tjón á Þorvaldseyri er umtalsvert, leiðslur fyrir heitt vatn og kalt vatn eru í sundur sem og rafmagnsleiðslur. Vatnslaust er í fjósinu og forgangsmál í augnablikinu að reyna að tryggja að gripirnir fái vatn.

Bændur mega sinna skepnum sínum

Lögreglustjórinn á Hvolsvelli hefur ákveðið að leifa bændum að fara heim til sín, tímabundið, að sinna skepnum sínum. Þetta er gert vegna vísbendinga um að flóðið niður Markarfljót sé í rénun, í augnablikinu.

Verðlaun fyrir bestu sæðingahrútana 2010

Viðurkenning fyrir bestu hrúta sæðingastöðvanna var veitt á afmælisráðstefnu Landsamtaka sauðfjárbænda 9. apríl. Á síðasta ári hófu stöðvarnar að veita þessa viðurkenningu sem eru farandgripir og mikil listaverk eftir Sigríði Kristjánsdóttur á Grund, styttur af hrúti.
Veittar eru tvær viðurkenningar, önnur fyrir besta lambaföðurinn á stöðvunum og féll hún í hlut félagsbúsins í Ytri-Skógum undir Eyjafjöllum og veitti Sigurður Sigurjónsson henni viðtöku.

Flóðið virðist vera í rénun

Vatnamælingamenn segja að svo virðist sem flóðið hafi náð hámarki og búast jafnvel við að það sé í rénun. Engir jakar eru í hlaupinu, sem þykir benda til þess að gosið sé ekki stórt.
Eldgos hófst undir Eyjafjallajökli í nótt. Það er margfalt kröftugra en gosið á Fimmvörðuhálsi. Gossprungan er um tveggja kílómetra löng.
Mikið flóð flæðir nú niður Markarfljótsaura og niður heiðarnar ofan við bæinn Þorvaldseyri, undir Eyjafjöllum. Flóðið á Markarfljótsaurum flæðir nú yfir þjóðveginn við bæinn Seljaland. Búið er að rjúfa veginn á nokkrum stöðum og enn flæðir undir brýr og ekki yfir þær.

Markarfljót flæðir yfir þjóðveginn

Gosið í Eyjafjallajökli er mun öflugra en það sem varð á Fimmvörðuhálsi. Skv. upplýsingum frá samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð er það talið vera um 10 til 20 sinnum öflugra. Sprungan norður-suður er nú um 2 km á lengd. Þrjú göt eru nú sjáanleg á jöklinum.
Flóð er í Markarfljóti og flæðir yfir þjóðveginn við bæinn Seljaland. Búið er að rjúfa veginn á nokkrum stöðum og enn flæðir undir brýrnar og ekki yfir þær. Flóðið er kolmórautt og illúðlegt á að líta og gríðarmikill straumur, þótt jarðvísindamenn segi þetta enn minna en Gjálparhlaupið, sem fylgdi gosinu í Vatnajökli árið 1996. Athygli vekji að engir ísjakar hafi borist með flóðinu. Menn eigi síst von á því að flóðið dvíni í bráð, en útilokað sé að spá um hvað gerist. Jarðvísindamenn eru ekki farnir að taka sýni, enda aðstæður mjög varasamar, fljótið eins og haf á að líta.

back to top