Sæðisdropinn 01/2012
Þriðjudaginn 29. maí fundaði fagráð í nautgriparækt og tók ákvörðun um ný naut til notkunar í ljósi nýútreiknaðs kynbótamats. Ákveðið var að taka 5 ný naut úr árgangi 2006 til notkunar þar sem þau voru komin með tilskilin lágmarksfjölda dætra og koma vel út úr afkvæmaprófun. Einnig eru nokkur naut í 2006 árgangi sem ljóst er að ekki munu koma til framhaldsnotkunar þar sem þeir hljóta mjög lágan dóm. Mörg naut í þessum árgangi hafa ennþá ekki nægjanlega stóran dætrahóp með fullt fyrsta mjaltaskeið til þess að hægt sé að skera úr um það hvor þau koma til framhaldsnotkunar eða ekki og bíður sú ákvörðun því næstu kynbótamatskeyrslu. Fagráð fór einnig yfir eldri nautaárganga og ákveðið að taka nokkur naut úr notkun, úr sumum er allt sæði búið en aðrir hafa dalað í kynbótamati eða hafa fengið mjög litla eða takmarkaða notkun.