Frá nautakjötsráðstefnu í apríl 2002

KJÖTRÁÐSTEFNA
Ráðstefna um nautakjötsframleiðslu á tímamótum fór fram fyrir skemmstu í Rúgbrauðsgerðinni í Reykjavík.
Þrjú úr svokölluðum kjöthóp sem stjórn Félags kúabænda á Suðurlandi setti á stofn í vetur, sóttu fundinn. Þau voru Kristinn á Þverlæk, Sigurlaug í Nýjabæ og Valdimar í Gaulverjabæ. Fjórði maður í hópnum er Þórarinn í Hraungerði,Álftaveri.
Mörg fjölbreytt erindi voru flutt. Af því sem komið var inná mætti nefna; tollkvóta og innflutning nautakjöts, söluhorfur,afkoma, ráðgjöf, kjötmat og samanburður við EUROP kerfið, aðferðir til að auka meyrni og loks kynning á “styrkjaflórunni” bæði í Noregi og síðan ESB löndum.

MARKAÐSMÁL
Steinþór Skúlason taldi ekki verða knappt með framboð ungneyta fyrr en í lok ársins. (Líkt og Félag kúabænda á Suðurlandi hefur bent á með ályktun á aðalfundi í byrjun apríl, þá er það ekki sammála því mati. Þvert á móti séu flest teikn eru nú þegar að framboð ungneyta og kúa til slátrunar fari ört minnkandi yfir landið allt. Því séu að verða forsendur nú til að hækka verð til framleiðenda.)
Steinþór sagði sölu nautakjöts hafa aukist á veitingastöðum. Verra væri með t.d. mötuneyti og framstilling þessarar vöru í verslunum væri oft lítt áberandi. Vöntun væri á upplýsingum og áróðri fyrir kjötinu.

MEYRNI OG AFTUR MEYRNI
Oft er talað um að neytendur treysti ekki gæðum nautakjöts. Mest athygli í faglega þættinum vöktu erindi Dr. Magnúsar Guðmundssonar og Dr. Helgu Guðmundsdóttur sem stýrðu samanburðartilraun varðandi meyrni nautakjöts. Niðurstaða: Upphengja á mjaðmabeini í stað hækils sem venjan er , getur aukið meyrni vöðva um 30 til 40% !!!
Það fór kliður um salinn og komu satt að segja efasemdarraddir við kynningu þessa. En þetta var niðurstaðan eftir tilraun sem gerð var á Blönduósi og rímar hún við samskonar athuganir erlendis. Auk þessa þótti úrbeining þægilegri en við hefðbundna upphengju og kjöt losna betur frá beini. Heilt yfir er aukning meyrni um 20% , þremur til sjö dögum eftir slátrun með þessari aðferð. Einnig greindu þau frá svokallaðri raförvun sem farið er að nota erlendis. Fer þá kjötið gegnum rafsvið í nokkrar sekúndur sem á enn að auka meyrni.
Magnús kvatti kaupendur út í búð ef þeir treystu illa vörunni að fá hanska og þreifa vöðvann. Ef kjötið væri seigt findist það alveg á því hráu.
Það mun þó þrátt fyrir þessar niðurstöður morgunljóst að áfram má bæta eldið ( þar með gæðin) og bændur með slaka flokkun taka sig á.

INNFLUTNINGUR
Allt innflutt nautakjöt í dag er frystivara og keppir því vart við íslenskt kjöt hvað ferskleika varðar. Skilyrði nú eftir skæða sjúkdóma á meginlandinu síðustu ár er að kjötið hafi verið geymt lágmark 1 mánuð við –18°C .Aðgangur að markaðnum eru 3-5% samkv. WTO samningum. Nokkuð dró úr innflutningi á síðasta ári samkvæmt (opinberum) tölum.

STYRKIR OG AFTUR STYRKIR
Mjög fróðlegt var að heyra um styrkjakerfin í Noregi og löndum ESB í nautaeldi.
Í Noregi geta bændur fengið:
1. Styrk á hvert dýr.
2. Styrk vegna afleysinga.
3. Styrk á ræktað land.
4. Einnig á hvert kíló framleidds kjöts. Alls getur bóndi með 40 kýr átt rétt á kr. 3.342.000 í styrk. (Skildu vera jarðir til sölu?)

Hjá ESB er þessu þannig háttað í grófum dráttum:
1. Markaðsstuðningur. Ef verð fer niður fyrir ákveðin mörk.
2. Árlegur stuðningur á uxa. Kr. 12.750 Tvisvar sinnum á ævi.
Á holdakýr kr. 17.000 á grip. Til viðbótar 4.700 í hverju landi.
3. Slátrunargreiðslur.”Sveiflujöfnun.”
4. Árstíðaruppbót. Uppí kr. 6.500 per grip.

Runólfur Sigursveinsson kom með dæmi um nýtingu nauts þar sem hlutur verslunar og bónda er hinn sami eða 37%. Sigurlaug í Nýjabæ sagði hlut verslunar alltof mikinn.
Gísli í Byggðarhorni sagði lækkun SS á B- kjöti rýting í bak framleiðenda. Þorsteinn, Þverá í Öxnadal sagði misnotkun smásöluaðila á bændum staðreynd. Snorri bóndi að Sogni í Kjós taldi stöðuna þannig að stjórnvöld þyrftu að gera upp hug sinn varðandi framtíð framleiðslu nautakjöts.
Runólfur sagði menn hafa haldið sínum hlut með fórnarkostnaði, 30 til 40% lækkun væri staðreynd. Styrkir á Íslandi væru engir og fyrir óbreyttu verði væru í raun vart rekstrarlegar forsendur.

Samantekt: Valdimar Guðjónsson.


back to top