Framleiðnisjóður umsóknir
Í lok janúar rennur út umsóknarfrestur hjá Framleiðnisjóði en hann styrkir margvíslegt þróunar- og nýsköpunarstarf í landbúnaði. Með nýlegum búnaðarlagasamningi (2013-2017) var sjóðnum sniðinn ákveðinn fjárhagsrammi sem unnið er eftir. Á þessu ári er sjóðnum lagðar til 85 milljónir króna af ríksifé en sem kunnugt er var starfsemi hans skorin mikið niður í kjölfar efnahagshrunsins. Á vef sjóðsins eru bændur, samvinnuhópar þeirra og aðilar innan rannsókna- og þróunargeirans hvattir til að sækja um stuðning.
Vill auka hlut innlendrar orku til landbúnaðarnota
Í auglýsingu frá Framleiðnisjóði er sérstaklega óskað eftir umsóknum sem varða rannsóknarstarf eða aðra þekkingaröflun í landbúnaði og nýsköpunar- og þróunarstarf. Þá kemur einnig fram vilji til þess að styðja við „orkuátak“ sem ætlað er að bæta orkunýtingu og auka hlut innlendrar orku til landbúnaðarnota. Áfram verður stutt við verkefni sem miða að því að efla búrekstur og fjölga atvinnutækifærum. Sérstaklega eru kornræktendur hvattir til að sækja um í sjóðinn þar sem það sé eitt af markmiðum hans að styðja við grunnfjárfestingar til markaðsfærslu á íslensku korni. Að lokum eru nemendur í meistara- og doktorsnámi minntir á að Framleiðnisjóður veitir styrki til framhaldsnáms á fagsviði sjóðsins.
Nánari upplýsingar um Framleiðnisjóð og umsóknareyðublöð er að finna á vefsíðunni fl.is, þá má einnig senda tölvupóst á netfangið fl@fl.is eða hringja í skrifstofu sjóðsins í síma 430-4300.
Umsóknir skulu sendar á Framleiðnisjóð landbúnaðarins, Hvanneyrargötu 3, 311 Borgarnes, fyrir 31.janúar 2014 (póstspimpill gildir).