Framleiðsla á lífeldsneyti ógnar landbúnaðinum
Prófessor Hans-Wilhelm Windhorst hjá háskólanum í Vehcta í Þýskalandi er vísindamaður í hámarksnýtingu landrýmis í landbúnaði og áhrifum landbúnaðar á umhverfið. Prófessorinn var gestafyrirlesari hjá samtökum svínabænda í Danmörku fyrir skömmu. Í fyrirlestri sínum var prófessorinn beinskeyttur og hafa orð hans vakið athygli bæði í Evrópu og í Bandaríkunum.
Prófessorinn heldur því fram að heimurinn standi nú frammi fyrir keppni um ræktunarland milli þeirra sem rækta jurtir til framleiðslu á lífeldsneyti og þeirra sem framleiða fóður fyrir dýr og menn. Hann telur stefnu Evrópusambandsins um framleiðslu á lífmassa til orkunotkunar fullkomlega óraunhæfa, í besta falli bóla sem springi en í versta falli áfall fyrir evrópskan landbúnað.
„Sú stefna sem Evrópusambandið hefur sett sér krefst þess að þrefalda verður að lágmarki það landbúnaðarland sem þarf til framleiðslu á korni, maís og annarra jurta sem nýta má til framleiðslu á lífeldsneyti. Það ættu allir að geta séð að er með öllu óraunhæft. Hvað mun þá gerast með verðið á fóðurvörum ef svo stóran hluta af evrópskri landbúnaðarjörð á að nýta til framleiðslu á lífeldsneyti? Fóðurvörur hafa nú þegar hækkað mjög mikið í verði. Þessi þróun getur ekki haldið áfram“ segir Hans Wilhelm Windhorst.
„Jafnvel þó þörfin fyrir lífeldsneyti skapi nýja markaði fyrir bændur og gefi hækkandi verð á uppskeru nokkurra jurtategunda, þá mun slíkt skapa mikil vandamál til lengri tíma, sérstaklega fyrir evrópska bændur. Verð á fóðurvörum mun hækka hratt og við munum sjá harða keppni milli fóðurvöruframleiðenda og lífeldsneytisframleiðenda um besta ræktunarlandið. Og höfum við virkilega efni á að verðleggja uppskeru jurta til framleiðslu á lífeldsneyti á hærra verði en til fóðurs dýra og manna? Hver og einn getur spurt sig þessarar spurningar, sagði Hans Wilhelm Windhorst.
Afleiðingarnar af að nota uppskeru jurta til lífmassaframleiðslu í stað fóðurs og matar hefur verið í umræðunni lengi. Ein af mögulegum lausnum er að nota svokallaða aðra kynslóð lífmassa, þ.e. það sem fellur til frá landbúnaði. Á slíkri lausn hefur Hans Wilhelm Windorst heldur ekki mikla trú.
„Ef önnur kynslóð lífmassa á yfirleitt að hafa einhverja þýðingu krefst það þess að stjórnvöld leggi áherslu á það nú þegar. Annars verður þetta eins og með sólarorkuna – sem er orkuform með mikla möguleika en ekkert raunverulegt virði. Ég tel sjálfur að við munum ekki sjá lífvænlega lausn á þessari annarri kynslóð lífeldsneytis fyrr en eftir 20 til 30 ár“, sagði Hans Wilhelm Windhorst.