Fréttir frá félagsráðsfundi FKS sem haldinn var 7.desember s.l.
Félagsráð Félags kúabænda á Suðurlandi fundaði 7. desember s.l. Á fundinum var eftirfarandi ályktun samþykkt:
“Félagsráð Félags kúabænda á Suðurlandi lýsir þungum áhyggjum yfir stöðu kúabænda ef ekki tekst að leiðrétta lágmarksverð mjólkur. Það vill eindregið hvetja verðlagsnefnd til að lita á hversu alvarleg staðan í greininni getur orðið ef ekki tekst að koma leiðréttingu á lágmarksverði mjólkur fram sem fyrst.
Það er löngu orðið tímabært að leiðrétta lágmarksverð mjólkur það hefur ekki verið leiðrétt í rúm 2 ár. Hækkunarþörfin var 8,65% eða 6,15 kr/l samkvæmt verðlagsgrundvelli kúabús frá 1. september sl. og þá er ekki tekið tillit til leiðréttingu á fjármagnsliðum sem geymd hefur verið frá verðlagningu 1.apríl 2008 en hún var þá metin á 2,79 kr/l.
Afkoma kúabænda hefur þyngst verulega undanfarið. Því hefur lengi verið haldið fram með réttu að staða kúabænda sem stóðu í framkvæmdum (fjósbyggingum) á árunum fyrir hrun sé erfið. En nú er svo komið að þeir bændur sem sigldu nokkuð lygnan sjó úr hruninu með tiltölulega viðráðanlega skuldastöðu eiga í vaxandi greiðsluerfiðleikum með búreksturinn. Verðhækkanir í tugum prósenta hafa dunið yfir greinina eins og skúraský og það virðist ekkert lát á því, kjarnfóðurshækkanir í september s.l. 4% – 10% og nú um síðustu mánaðarmót hækkun um 2% -8%. Þá er talað um verulega hækkun á áburðarverði á næsta ári.
Auk þess sem að framan er upptalið er gengið ofan í gerða samninga eins og framlag ríkisins til Lífeyrissjóðs bænda. Það nam 8% af viðmiðunartekjum bænda en var fellt niður 1.júlí sl. Það er ekkert annað en kjaraskerðing , en á sínum tíma kom þetta framlag ríkisins til Lífeyrissjóðs bænda í stað verðhækkana á afurðum, að fella niður framlag í Lífeyrissjóð bænda er hrein kjaraskerðing á bændur. Skerðing á framlagi ríkisins til búnaðarlagasamningsins þýðir ekki annað en það að annað hvort fellur þjónustan og ráðgjöfin niður sem BÍ og búnaðarsambönd inna af hendi eða reikningurinn fyrir hana verður sendur viðkomandi bónda.”
Ákveðið var að senda öllum verðlagsnefndarmönnum ályktunina.
Þá var eftirfarandi tekið fyrir á fundinum.
Úttekt á rekstri SUNNU-búa síðustu 5 ár. – Samanburður „11 bestu búa“ við meðaltal SUNNU-búa
Tekjumegin virtust þessi „11 bestu bú“ vera með ívið lægri búgreinatekjur en meðaltal SUNNU-búanna, reiknað á hvern innveginn lítra. Hins vegar voru allir liðir breytilegs kostnaðar lægri á hvern lítra á úrtaksbúunum nema verktakakostnaður. Ef úrtakshópurinn er ekki tekinn með í heildarmeðaltal SUNNU-búanna þá verður munurinn enn meiri eða um 8 kr/l í breytilegum kostnaði sem gerir þá um 2,4 milljónir króna ári og 200.000 krónur á mánuði (m.v. 300 þús. l. framleiðslu)sem þessi bú hafa meira úr að spila til að takast á fastan kostnað, laun og fjármagnskostnað, miðað við verðlag 2009.
Hvernig er hægt að ná árangri í rekstri kúabúa? Erindi frá Ásmundi Lárussyni Norðurgarði og Jóhönnu Gunnlaugsdóttur og Sævari Einarssyni Stíflu en þessi bú eru í hópi 11 best reknu Sunnu-búa. Lýstu þau búrekstri sínum og aðstöðu
Félagsstarf FKS og undirbúningur aðalfundar FKS meðal annars rætt að efla félagsvitund nautgripabænda og skipan kjörnefndar fyrir aðalfund félagsins.
Staðan í stefnumörkunarvinnu LK – Sigurður Loftsson formaður LK og Daði Már Kristófersson hagfræðingur.
Sigurður Loftsson formaður LK ræddi hvernig unnið hefði verið eftir ályktun síðasta aðalfundar LK um lækkun framleiðslukostnaðar.
Daði Már Kristófersson hagfræðingur ræddi framleiðslukostnað mjólkur milli landa út frá tiltækum gögnum sem eru frá 2007. Ljóst að kostnaður hér á landi er langtum hærri en annars staðar. Mest munar í fjármagnskostnaði og afskriftum.
Leiðir til bættrar búrekstrar.
Ein leiðin gæti verið að gera ekkert, samkeppnisstaða batnar ekkert, ef samkeppni kemur þá tapa þeir sem eru skuldugastir og verða gjaldþrota, eftir standa þá aðrir sem taka við án skulda.
Önnur leið væri t.d. uppkaupaleið. Ásættanleg upphæð miðað við raunbeingreiðslur og 7,5% vexti 270 kr/l miðað við óbreyttar greiðslur næstu 10 ár. Bætir samkeppnisstöðu lítið í raun nema greitt sé yfir raunvirði.
Mögulegar leiðir til að lækka kvótaverð/minnka kostnað kerfisins, gæti verið t.d. að banna afskriftir kvóta => umsvifalaus lækkun framleiðslukostnaðar – á pappírunum, síðan væri einnig mögulegt að lækka beingreiðslur og taka upp annað form á stuðningi, t.d. gripagreiðslur, landgreiðslur eða eingreiðslur.
Fundargerð Félagsráð FKS 7. des. 2010.