Fréttir frá FKS 31. maí 2007
Félagsráð Félags kúabænda á Suðurlandi hélt fund í gærkvöldi í Árhúsum Hellu. Fundarefni fundarins var að ræða ýmis mál sem eru í vinnslu á vegum LK, m.a. voru ræddar tillögur að útfærslum á svonefndum “óframleiðslutengdum stuðningi” sem kveðið er á um í núgildandi mjólkursamningi. Greiðslur samkvæmt þeim lið eiga að hefjast frá og með næsta verðlagsári.
Á fundinum voru einnig rædd ákvæði í nýgerðum stjórnarsáttmála um málefni landbúnaðar, m.a. um þá stöðu sem verður er landbúnaðarskólarnir fara undir menntamálaráðuneytið og þar með rannsóknastarf greinarinnar. Spurning er hver verður framtíð starfsmenntanámsins í búfræði, hvort það þróist innan almenna framhaldsskólakerfisins eða verði áfram staðsett á Hvanneyri og Hólum.
Þá var á fundinum rædd tillaga sem kom frá FKS inn á aðalfund Bssl og var samþykkt þar, um endurskoðun á starfsemi Búnaðarsambandsins. Nokkur umræða var um verðlagsmál, auk stöðunnar í framleiðslumálum
Nánari grein verður gerð fyrir fundinum í fundargerð sem birt verður hér fljótlega á vefnum.