Frumvarp í smíðum

Meðal þeirra sem tóku til máls á Búnaðarþingi í gær var Steingrímur J. Sigfússon, ráðherra landbúnaðar, sjávarútvegs og fjármála. Hann sagði meðal annars að drög að nýju frumvarpi um Bjargráðasjóð lægju fyrir en í þeim er sjóðnum veitt heimild til að styrkja bændur vegna áburðarkaupa. Að hve miklu leyti liggur ekki fyrir en niðurstöðu er að vænta á næstu dögum.

Óbreytt skerðing
Ekki verður fallið frá 800 milljóna skerðingu á greiðslum til bænda. Bændasamtökin hafa beðið um endurskoðun og hafa lagt inn umsögn hjá landbúnaðarráðuneytinu. ,,Við viljum koma til móts við bændur og því er hugsanlegt að tilfærslur verði milli liða.“ Að öðru leyti vildi ráðherra lítið tjá sig um mögulegar breytingar á búvörusamningnum. Virðisaukaskattsmál bænda eru í endurskoðun og búið er að beina þeim tilmælum til skattstjóra að fella niður álag vegna skila á virðisauka, sem er í dag. Þá hefur verið ákveðið að fallast á beiðni um aukauppgjörsdag. Ef þörf krefur verður athugað hvort bændur sem eiga rétt á endurgreiðslu virðisauka síðar þurfi að leggja mikið út. ,,Þetta gæti einkum komið sér vel fyrir sauðfjárbændur sem kaupa vörur að vori en fá tekjur að hausti,“ sagði Steingrímur.

Gegn Evrópusambandsaðild
Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, sagði afar brýnt að taka á ýmsum vanda sem steðjaði að landbúnaði. Rekstrarumhverfi bænda væri erfitt. Hann benti á að um 10.000 störf tengdust landbúnaðinum. Þá sagði Haraldur að bændur legðust gegn aðildarviðræðum við Evrópusambandið og að búnaðarþing þyrfti að senda frá sér skýr skilaboð um það. ,,Íslenskir bændur telja sig geta átt gott samstarf við ESB miðað við þær leikreglur sem þegar hafa verið settar en aðild að landbúnaðarstefnu sambandsins er óhagkvæm.“ Þá minnti Haraldur á hið umdeilda matvælafrumvarp og að Bændasamtökin hefðu sent inn umsögn til Alþingis um málið. Ný umsögn yrði send á næstunni. Steingrímur taliði einnig um frumvarpið í ræðu sinni á þinginu og lagði á það áherslu að matvælaöryggi yrði í hávegum haft.

Mörg úrræði í vinnslu


  • Útgjöld meðalstórs kúabús til áburðarkaupa voru um 960 þúsund krónur árið 2007. Í vor stefnir að upphæðin verði 2,5 milljónir króna.
  • Áburðarverðshækkun á þessu vori er um 50% frá fyrra ári. Í fyrra var hækkunin tæp 80% á milli ára. Fleiri störf á höfuðborgarsvæðinu eru tengd landbúnaði en á Vesturlandi.
  • Raforkureikningar garðyrkjubænda hafa hækkað verulega. Ráðuneytið mun skoða samstarf við ráðamenn raforkumála um dreifingar- og svæðaskiptingarmál til hagsbóta fyrir garðyrkjubændur. Skógræktar- og landgræðslumál verða skoðuð sérstaklega, með atvinnumál í huga. Mögulega má fjölga störfum án mikilla fjárútláta.
  • Hlúð verði að hlunnindamöguleikum jarða og áhersla lögð á nýsköpun. Áhersla lögð á verkefnið Beint frá býli. Úrvinnsla og verðmætasköpun á býlunum sjálfum verði aukin.


back to top