Almennt um tilraunir og aðstöðu

Tilraunir sem fram hafa farið á Stóra Ármóti eru margvíslegar þó svo megináherslan sé á fóðrun og meðferð gripa. Tilraunum sem snúa að nautgripum má skipta í 4 flokka:

  1. Framleiðslutilraunir: át mælt – afurðir og efnainnihald þeirra kannað
  2. Nákvæmnismælingar: niðurbrot próteins, meltanleikamælingar
  3. Verkun gróffóðurs: grastegundir, grænfóður – rúllur, þurrt
  4.  Annað: júgurbólga, frumutala, vigtun gripa

Á sauðfénu hafa farið fram afkvæmarannsóknir til fjölda ára. Einnig hefur búið útvegað sýni og gripi til mælinga á geislavirkum efnum í mjólk og í lambakjöti.

Tilraunastarfsemi í jarðrækt fer vaxandi.

Aðstaða til tilrauna og tæki tengd þeirri starfsemi hafa smátt og smátt aukist:

Úr fundarsalnum á Stóra-Ármóti

Úr fundarsalnum á Stóra-Ármóti

  • Í tilraunaálmu er skrifstofuaðstaða og vel búinn fundarsalur 
  • Í rúmgóðri millibyggingu er heilfóðurkerfi og önnur aðstaða 
  • Þar er einnig hægt að frysta og þurrka sýni
  • Í fjósi er fóðurgangurinn breiður og rúmgóður, fóðrað er með sjálfvirku heilfóðurkerfi 
  • Þar er möguleiki á að einstaklingsfóðra á öllum básum 
  • Í mjaltabás er fullkomið mjaltakerfi (SAC) sem skráir nyt kúnna sjálfvirkt
  • Til er færanleg gripavog sem nýtist bæði til að vigta kýr og kvígur

 

Tilraunastarf á Stóra Ármóti hefur farið fram frá árinu 1987. Uppbygging staðarins m.t.t. aukinnar ræktunar, viðhald eldri húsa og nýbyggingar auk betri tilraunaaðstöðu hefur einkennt þetta tímabil. Engu að síður hefur ýmsu öðru verið hrint í framkvæmd. Til er verkefnalisti með yfirlit yfir þær tilraunir sem hafa verið framkvæmdar og uppgjör þar sem niðurstöður liggja fyrir auk lista yfir það sem er í gangi.

Sum verkefni eru þannig eðlis að þau eru stöðugt í gangi.

Vambaropskýrnar: Gerð hefur verið magaskurðaðgerð á nokkrum kúm og gúmmíhring með tappa komið fyrir á þeim. Gegnum tappann á gúmmíhringnum er aðgangurinn greiður inn í vömb. Á Stóra Ármóti eru að jafnaði 2-5 kýr með vambaropi en í vömbinni fara fram mælingar á niðurbroti próteins hinna ýmsu fóðurtegunda. Litlum nælonpokum sem innihalda fóðursýni er komið fyrir í vömbinni og þeir síðan teknir út á mismunandi tímum. Þannig fæst yfirlit yfir ferli niðurbrotsins því örverur vambarinnar vinna mismikið og mislengi á mismunandi fóðurtegundum. Niðurstöður keyrslna liðinna ára leggja grunninn að útreikningum í fóðurefnagreiningum fyrir bændur landsins. Auk þessa er tekinn vambarvökvi úr kúnum og sendur að LBHÍ Keldnaholti þar sem hann nýtist við fóðurefnagreiningar þar.

Náið samstarf hefur verið milli tilraunastöðvanna á Stóra Ármóti, Hvanneyri og Möðruvöllum. Þannig hefur framkvæmd tilrauna á Hvanneyri og Möðruvöllum verið með svipuðu sniði og tilraunaframkvæmdir á Stóra Ármóti. Á Möðruvöllum er auk þess aðstaða til að einstaklingsfóðra eldisgripi en á Hvanneyri er legubásafjós.

back to top