Niðurstöður áburðartilrauna og athugunar á Stóra-Ármóti 2010
Dreifingartími á mykju
Framkvæmd:
Mánuðina október 2009 til maí 2010 var dreift mykju, venjulega fyrstu daga hvers mánaðar. Þrír reitir voru með hvern dreifingartíma. Til að meta áhrifin voru einnig reitir sem fengu mismunandi tilbúinn áburð (mismunandi magn af N, P og K) á venjulegum tíma. Það er einkum N sem skiptir máli í þessu sambandi, og því voru viðmiðunarskammtar margir, 0, 25, 60, 100, 125 og 150 kg N/ha. Fyrir P og K voru annarsvegar reitir án þessara efna og hins vegar með 20 kg P/ha og 80 kg K/ha. Ekkert er borið á milli slátta. Fyrri sláttur var slegin 15. júní og seinni sláttur 25. ágúst.
Mynd 1. Uppskerutölur fyrir mismunandi dreifingartíma á mykju. |
Útskýring á mynd: Y-ás er fyrir mykjutíma, x-ás er uppskerumagn í kg þe/ha, dökku súlurnar eru fyrir fyrri slátt, ljósu fyrir seinni slátt. Ljósu strikin sýna uppskeru í fyrra slætti og samtals þegar ekkert var borið á, en dökku strikin þegar borið var á 60 kg N, 20 kg P og 80 kg K á hektara. |
Ályktun:
Mykjan sem er borin á í október , nóvember og janúar gefa svipaða uppskeru í fyrra slætti en háarspretta eftir desember og febrúar var nokkru minni. Dreifing í mars, apríl og maí reynast best, apríl er þó bestur þó sá munur sé varla marktækur. Mars- og aprílmykjan var borin á freðna jörð svo það virðist ásættanlegt að nota frostskánina. Mykjuáhrifin eru langvinn því haustmykjan er að skila sér í hánni.
N,P,K og S á tún:
Framkvæmd:
Í þessari tilraun voru fjórir mismunandi skammtar af N (0, 50, 100 og 150 kg/ha), fjórir skammtar af P (0, 5, 15 og 25 kg/ha), fjórir skammtar af K (0, 25 , 50 og 75 kg/ha). Til að finna hvort þörf sé á brennisteinn eru bæði reitir sem fá og ekki S. Ekkert er borið á milli slátta. Borið var á 5. maí. Slegið var 15. júní og 24. ágúst. Tilraunin var í nýlegur endurunnu túni þar sem vallarfoxgras var ríkjandi.
Ályktun:
Köfunarefni (N): Meira en 100 kg N/ha gefur mjög lítinn og ómarktækan uppskeruauka í fyrri slætti. Meira en 100 kg N/ha skilar sér í hánni.
Mynd 2. Misstórir N-skammtar á gras. |
Útskýring á mynd: Y-ásinn sýnir hkg þe/ha og x-ásinn er N-skammturinn. |
Fosfór (P): Mjög lítil fosfór svörun og enginn uppskeruauki milli 15 kg P/ha og 25 kg P/ha. Fosfór getur verið mjög fast bundinn í jarðvegi.
Mynd 3. Misstórir P-skammtar á gras. |
Útskýring á mynd: Y-ásinn sýnir hkg þe/ha og x-ásinn er P-skammturinn. |
Kalí (K): Talsverð uppskera fæst þegar ekkert kalí er borið á. Hámarks uppskera fæst með því að bera 50 kg K/ha en dregur úr uppskeru þegar borið er meira en 50 kg K/ha sem verður að teljast mjög ólíklegt samanborið við aðrar niðurstöður. Hér er því líklega um tilraunaskekkju að ræða.
Mynd 4. Misstórir K-skammtar á gras. |
Útskýring á mynd: Y-ásinn sýnir hkg þe/ha og x-ásinn er K-skammturinn. |
Í samskonar tilraun á Stóra-Ármóti sumarið 2009 fékkst uppskeruauki fyrir að auka N-skammt úr 100 í 150 kg/ha (þó efamál hvort það svaraði kostnaði), fosfór gaf engan uppskeruauka, né heldur brennisteinn, en kalísvörun var nokkur, a.m.k. fyrir allt að 50 kg/ha.
N,P,K og S á rýgresi:
Framkvæmd:
Þessi tilraun var alveg eins og áburðartilraunin fyrir tún (sjá hér að ofan). Borið var á og sáð í tilraunina þann 18. maí og slegið 29. júlí. Tilraunalandið var núupptekin spilda nærri fjósi. Hinn 28 . águst var tilraunin alveg jöfn að sjá, en endurvöxtur var ekki mældur. Landið var nokkuð ójafnt og sveifla innan nokkurra liða mjög mikil.
Ályktun:
Köfunarefni (N): Ekki er að sjá nokkurn árangur af því að bera meira en 50 kg N/ha enda má gera ráð fyrir verulegri N-losun í nýbrotnu túni.
Útskýring á mynd: Y-ásinn sýnir hkg þe/ha og x-ásinn er N-skammturinn. |
Fosfór (P): Þó P-svörun sé ekki mikil er hún uppí stærsta skammt.
Útskýring á mynd: Y-ásinn sýnir hkg þe/ha og x-ásinn er P-skammturinn. |
Kalí (K): Kalísvörun er heldur undarleg og helst að draga þá ályktun að hún sé engin þar sem sama uppskera fæst fyrir ekkert K og stærsta skammt.
Útskýring á mynd: Y-ásinn sýnir hkg þe/ha og x-ásinn er K-skammturinn. |
Brennisteinn (S): Sýnir ekki uppskeruauka hvorki fyrir gras né rýgresi.
Athugun á niðurfellingu mykju
Þann 5. maí var þess freistað að bera saman árangur af því að fella mykju niður og að dreifa henni ofaná. Við það var notaður dreifibúnaður af gerðinni Samson í eigu Skarna ehf. Athugunin var með fjórum liðum, vélasamstæðunni ekið yfir túnið án frekari aðgerða, mykja felld niður, mykja dreift ofaná og að lokum var niðurfellingartækið dregið án mykju til að meta hvort rispunin hefði einhver áhrif. Þessi reitaröð var tvítekin. Því miður tókst ekki að láta tækið dreifa mykju án niðurfellingar, svo að á þeim reitum voru rispur mun grynnri en hluti mykjunnar fór í rásina. Slegið var 15. júní, en endurvöxtur var ekki mældur. Samreitum bar mjög vel saman. Áhrif mykjunnar voru ótvíræð, en enginn munur er milli „aðferða“.
Meðferð |
Uppskera |
Ekið yfir túnið |
26,2 |
Mykja um 25 tonn /ha niðurfelld |
34,6 |
Mykja um 25 tonn „ofaná“ |
33,8 |
Túnið rispað |
25,4 |