Tilraun í gangi
Áhrif fóðrunar á efnainnihald mjólkur með sérstaka áherslu á fituinnihald.
Flokkur: Fóðrun og efnainnihald mjólkur. Upphafsár: 2016
Tengiliður: Hrafnhildur Baldursdóttir Netfang: hrafnhildur@lbhi.is
Megin spurningar verkefnisins eru tvær.
1) Hefur fituviðbót (C:16) í kjarnfóðri áhrif á efnainnihald mjólkur?
2) Skiptir máli á hvaða formi sú fita er þ.e. sem duft út í heilfóður eða sem kögglar?
Grunnfóður í tilrauninni er gróffóður ásamt byggi ræktuðu á Stóra-Ármóti. Þær kjarnfóðurtegundir sem notaðar eru í tilraunina eru; 1) Bergafat, 2) Feitur Róbót 20, 3) Róbót 20. Bergafat og Feitur Róbót innihalda bæði hátt hlutfall af fituviðbótinni (C:16) en Róbót 20 innheldur litla fitu og er notað sem kontrólfóður til að átta sig á hvernig niðurstöður eru þegar ekki er fituviðbót eins og í Bergafati og Feitum Róbót 20.
Með því að prufa bæði duftið og kögglana er vonast til að niðurstöður nýtist bæði þeim bændum sem hafa möguleika á að blanda fóður í kýrnar og einnig þeim sem gefa kjarnfóðrið aðskilið. Einnig gæti þetta gefið vísbendingu um hvort sé hagstæðara að gefa bergafatið eða kögglana hafi bóndinn möguleika á báðu. Þegar fituviðbótinni er bætt út í heilfóðrið fá allar kýrnar hlutfallslega jafnmikið af þessari viðbótarfitu, en þegar henni er bætt í kjarnfóðrið fá kýrnar sem eru að mjólka minna og/eða komnar lengra út á mjaltaskeiðið minna af kjarnfóðrinu og þar með fitunni þegar gripunum er mismunað íkjarnfóðurgjöf t.d. í kjarnfóðurbásum. Þetta er því mál sem getur komið töluvert við buddunna hjá bændum og skiptir því gríðarlegu máli fyrir rekstur kúabúa.
Framkvæmd tilraunar líkur um miðjan maí í tilraunafjósinu á Stóra-Ármóti. Þá tekur við úrvinnsla og tölfræðilegt uppgjör sem áætlað er að sé lokið í desember 2016.