Uppeldi mjólkurkúa

Uppeldi mjólkurkúa
Grétar Hrafn Harðarson 
Tilraunastjóri, Stóra-Ármóti

Uppeldi mjólkurkúa er vandasamt verk sem krefst skipulagningar og vandaðra vinnubragða af hendi bóndans. Flestir bændur stefna að burði hjá kvígunum við 24 mánaða aldur enda hefur það sýnt sig vera hagstætt. Koma þar til nokkur atriði;

  1. Sparar mikið húspláss . Á mögum kúabúum eru allar kvígur settar á til endurnýjunar kúastofninum. Slíkt er dýrt, en þó mun dýrara ef kvígurnar eru látnar bera við þriggja ára aldurinn þar sem þriðjungi fleiri kvígur eru þá í uppeldi á sama tíma.
  2. Sparar mikið viðhaldsfóður . Eðlilega þurfa þriðjungi fleiri kvígur meira viðhaldsfóður. Allt fóður er dýrt, líka gróffóður sem e.t.v. er hægt að komast hjá að framleiða.
  3. Minnkar vinnu . Það segir sig sjálft að meiri dagleg vinna fer í að sinna fleiri gripum. Hægt er að komast hjá henni með því að láta kvígurnar bera við tveggja ára aldurinn.
  4. Betri frjósemi. Rannsóknir hafa sýnt að kvígur eru líklegri til að festa fang 15 – 16 mánaða gamlar en árinu eldri. Það er dýrt að komast að því að kvígan heldur ekki eftir 25 mánaða uppeldi.
  5. Meiri hagkvæmni er heildarniðurstaða fyrrgreindra atriða. Bandarísk athugun hefur sýnt að hver dagur umfram 24 mánaða aldur við 1. burð kostar um 2 dollara á dag (um 150 kr. íslenskar) sem þýðir að uppeldiskostnaður kvígunnar hefur kostað 20.000 krónum meira sé hún látin bera við 28. mánaða aldurinn. Þú getur fundið út kostnað við uppeldi kvíganna þinna með því að smella hér.

Til að mögulegt sé að láta kvígurnar bera við 24. mánaða aldurinn þarf þyngdaraukning kvígunnar að vera að jafnaði um 550 g/dag. Eftirfarandi töflu er gott að hafa til viðmiðunar;

Vöxtur – viðmiðun m.v. burð við 24. mánaða aldur

Aldursskeið Þyngdaraukning
g/dag
kg í lok tímabils
(brjóstmál)
0 – 2 mánaða 400 70 (91)
2 – 5 mánaða 660 130 (114)
5 – 10 mánaða 500 210 (135)
10 – 13 mánaða 590 260 (147)
13 – 17 mánaða 670 340 (163)
17 – 22 mánaða 670 440 (176)
22 – 24 mánaða 450 470 (181)

Til að ná þessum vaxtarhraða þarf uppeldið að vera markvisst og hefst það strax á síðustu vikum geldstöðu móðurinnar. Þá þegar þarf að tryggja að móðirin sé í réttum holdum og að hún fái uppfylltar allar sínar snefilefnaþarfir s.s. kopar (Cu), zink (Zn), mangan (Mn), selen (Se) og joð (I). Tvö hin síðastnefndu eru sérlega mikilvæg.

Eftir að kálfurinn er fæddur er mjög mikilvægt að hann fái broddmjólk móðurinnar en í honum eru öll þau mótefni sem kálfurinn þarfnast. Ólíkt mörgum öðrum spendýrum s.s. manninum fær kálfurinn engin mótefni frá móður í gegnum fylgju heldur aðeins í gegnum broddmjólkina. Rannsóknir hafa sýnt að kálfurinn er móttækilegastur fyrir upptöku mótefnanna fyrstu 6 klukkustundir lífs síns og því skal virða þau tímamörk.

Mjólk er öllu ungviði nauðsynlegt og því skipar hún veglegan sess í uppeldi kálfsins. En hve mikla mjólk á að gefa og hve lengi? Kálfum ætti að vera nóg að fá mjólk í 6 – 8 vikur enda hafi þeir haft frálsan aðgang að próteinríkum ungkálfakögglum strax nokkurra daga gamlir. Kjarnfóðurgjöfin örvar vöxt vambar- og þarmatota og gerir kálfinn hæfan til að taka til við heyátið þegar þar að kemur. Kjarnfóðrið dregur líka verulega úr fóðurbreytingunum sem kunna að verða þegar mjólkurgjöf er hætt og kemur þar með í veg fyrir að dragi úr vexti á þeim tímapunkti. Hætti vöxtur þegar mjólkurgjöf er hætt tapast dýrmætur tími við þyngdaraukningu kálfsins sem erfitt er að vinna upp. Því lengur sem mjólkurgjöfinni er haldið áfram því meiri hætta er á að kálfurinn verði fyrir áfalli þegar mjólkurgjöfinni er hætt.

Engum tilgangi þjónar að gefa kálfum hey fyrr en við 3 vikna aldur. Rétt kjarnfóður er mun auðmeltara en hey og það er það sem kálfurinn þarfnast fyrstu vikurnar. Öllum kálfum skal tryggja frjálst aðgengi að fersku drykkjarvatni frá fyrstu dögum ævinnar.

Fóðuráætlun fyrir ungkálfa samkvæmt framansögðu gæti litið út á eftirfarandi hátt;

Fóðuráætlun fyrir ungkálfa

  Dagsþörf á grip
Aldur Mjólk Kálfakögglar Hey Vatn
1 – 3 daga 3 x 1 l.
4 – 7 daga 2 x 2 l. Frjáls aðg. 0,1 kg Frjáls aðg.
2 vikna 2 x 2 l. Frjáls aðg. 0,1 kg Frjáls aðg.
3 vikna 2 x 2 l. Frjáls aðg. 0,2 kg 0,1 kg. Frjáls aðg.
4 vikna 2 x 2 l. Frjáls aðg. 0,3 kg 0,1 kg. Frjáls aðg.
5 vikna 2 x 2 l. Frjáls aðg. 0,4 kg 0,2 kg. Frjáls aðg.
6 vikna 2 x 2 l. Frjáls aðg. 0,5 kg 0,2 kg. Frjáls aðg.
7 vikna 2 x 2 l. Frjáls aðg. 0,6 kg 0,3 kg. Frjáls aðg.
8 vikna 1 x 2 l. Frjáls aðg. 0,7 kg 0,3 kg. Frjáls aðg.
9 – 10 vikna 1 – 2 kg. Frjáls aðg. Frjáls aðg.
11 – 12 vikna 1 – 2 kg. Frjáls aðg. Frjáls aðg.

 

Við þriggja mánaða aldur ætti kvígan að vera orðin um 100 kíló að þyngd og þyngdaraukningin um 600 grömm á dag. Átgeta kvíganna ætti að vera nálægt því að vera 2 – 2,5% af lífþunga þeirra. Í gegnum allan uppvöxt kvíganna er mjög mikilvægt að huga vel að próteinþörfum þeirra enda er prótein byggingarefni vöðva. Í þessu sambandi er hlutfall AAT (amínósýrur uppteknar í mjógirni) og FEm (fóðureiningar mjólkur) góður mælikvarði. Mikilvægt er að hlutfallið þarna á milli sé alltaf yfir 90. Sé þess gætt ætti þyngdaraukningin að vera í formi vaxtar en ekki fitusöfnunar en það er mjög mikilvægt, ekki síst á hinum svokallaða „krítíska tíma“ sem er tímabilið frá 5 – 12 mánaða aldurs. Við ranga fóðrun á þessum tíma er hætta á að fita safnist fyrir í júgurvef sem er að þroskast og hefur það áhrif á getu kýrinnar til mjólkurmyndunar síðar, – sjaldan launar kálfurinn ofeldið.

Að þessu sögðu er ljóst að bygg er ekki rétta fóðrið til handa kálfum og kvígum. Bygg er orkufóður en það sem kálfarnir þurfa er prótein! Bygg nýtist mun betur sem fóður handa framleiðslugripum.

 

Fóðuráætlun fyrir kvígur

  Dagsþörf á grip
Aldur/þungi Vöxtur
g/dag
Át 2,0 – 2,5%
kg þe/dag
FEm AAT
g/dag
AAT/FEm
3 mán. (100 kg) 600 2 2,7 280 104
6 mán. (150 kg) 670 4 3,2 310 97
10 mán. (200 kg) 500 5 3,3 300 90
15 mán. (300 kg) 670 7 4,4 390 88
20 mán. (400 kg) 670 8 5,7 400 70

 

Þroski kvíganna skiptir miklu máli. Hægt er að hafa til viðmiðunar að að eðlilegt sé að kvígur nái kynþroska þegar þær eru um 42% af þyngd fullorðinna kúa eða þegar þær hafa náð um 210 kg þunga. Kvígurnar ættu að festa fang þegar þær eru um 55% af þyngd fullorðinna kúa (275 kg) og þyngd þeirra ætti að vera um 85% af þyngd fullorðinna kúa að loknum burði (425 kg). Þá skiptir þroski kvíganna höfuðmáli þegar kemur að afurðum þeirra en afurðirnar eru taldar aukast um 4 kg fyrir hvert kg í aukinni þyngd. Þannig má búast við að kvíga sem er 400 kíló að líkamsþyngd skili um 4.000 kg ársnyt á meðan kvíga sem er 450 kíló að þyngd skilar um 4.200 kg. Það munar um minna…

 

Fóðuráætlun fyrir kvígur

  Dagsþörf á grip
  Kjarnfóður Þurrhey,
Frjáls aðg.
Áætl. át + þarfir
Aldur/þungi Vöxtur
g/dag
Kíló
kjf.
FEm AAT Kíló
heys
FEm AAT Kíló
þurrefnis
FEm AAT
3 mán. (100 kg) 600 1,8 * 1,9 235 0,5 *** 0,4 35 2 – 2,50 2,7 280
6 mán. (150 kg) 670 1,0 ** 1,1 115 3,5 *** 2,2 225 3 – 3,75 3,2 310
10 mán. (200 kg) 500 0,5 ** 0,5 58 5,0 **** 3,4 315 4 – 5 3,3 300
15 mán. (300 kg) 670 8,0 **** 5,3 490 6 – 7,50 4,4 390
20 mán. (400 kg) 670 10,0 **** 6,8 630 8 – 10 5,7 400
* Miðað er við próteinríka ungkálfaköggla
** Miðað er við 16% kúaköggla, s.s. MR-16, KK-16 eða sambærilegt
*** Miðað er við orkuríkt hey með 88% þe, 0,83 FEm/kg þe og 75 AAT/kg þe
**** Miðað er við slakara hey með 88% þe, 0,76 FEm/kg þe og 70 AAT/kg þe
back to top