Fyrr mun vora á Íslandi að öld liðinni
Hugsanleg 3 stiga meðalhlýnun hér á landi á næstu hundrað árum eða svo hefur bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar fyrir gróður á Íslandi. Hlýnunin mun hafa þau áhrif að fyrr vorar og seinna haustar, semsagt að veturinn styttist en sumarið lengist. Þessi hlýnun í báða enda sumarsins, verði hún að veruleika, mun þýða að vaxtartímabil fyrir korn mun lengjast. Líklegt er að bygg þroskist að fullu langflest ár, en óvíst er að sama megi segja um hveiti þegar líður að aldarlokum. Neikvæðar hliðar hlýnunar lúta hins vegar að því að sveppa- og bakteríugróður, auk nýrra landnema úr röðum skordýra, munu nema hér land.
„Nýjustu spár gera ráð fyrir að á næstu hundrað árum hækki hiti hér um tæp þrjú stig að meðaltali.“ segir Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur, sem hélt erindi á Fræðaþingi landbúnaðarins í gær um líklega þróun veðurfars á Íslandi með tilliti til ræktunar. „Það mun líklega hlýna mest á vorin og á haustin en minna yfir hávetur og hásumar. Veturnir verða því styttri en sumrin lengri.“
Haraldur segir að það nýjasta í rannsóknum á veðurfarinu hér bendi til að harður vetur þurfi í framtíðinni ekki endilega að gefa vísbendingu um kalt sumar, líkt og veðurgögn frá upphafi mælinga hér á landi hafi sýnt fram á. „Hingað til hefur það verið þannig að mjög kaldur vetur eykur líkur á að sumarið sem á eftir fer verði kalt.“ segir Haraldur. „En það lítur út fyrir að þetta samband milli vetrar- og sumarhita muni rofna í framtíðarveðurfarinu. Það gæti skipt máli fyrir ræktun. Reynslan hefur sýnt að þegar kornuppskera fer forgörðum kemur oft fleira en eitt til. Kaldur vetur með miklum jarðklaka seinkar sáningu og ef sumarið er svo kalt aukast líkurnar á lítilli uppskeru. Í framtíðinni ræður tilviljun ein hvort kalt sumar fylgir köldum vetri, samkvæmt þessum spám.“
Haraldur segir að vísbendingar séu um að vaxtartímabil korns muni lengjast, þar sem fyrr vori en nú. Einnig munu líklega verða mun færri næturfrost að hausti. „Breytingin fyrir gróður verður þó líklega helst að vori,“ segir Haraldur.
Að öld liðinni segir Haraldur að spár geri ráð fyrir að úrkoma muni aukast lítillega, um 10–15% eða þar um bil.
Spurður um hvort þessi þróun sé þegar hafin segir Haraldur að þegar litið sé til hitamælinga í heiminum sé ljóst að hlýnað hefur töluvert á undanförnum árum og að sú hlýnun verði ekki skýrð með breytingu á sólgeislun. „Þá er afar nærtækt að reikna með því að þar séu gróðurhúsaáhrifin að verki.“
Haraldur segir að neikvæðar hliðar hlýnunar fyrir gróður á Íslandi felist m.a. í auknum sveppa- og bakteríugróðri. „Að líkindum munu fleiri skorkvikindi, bakteríur og aðrar misvinsælar lífverur nema hér land.“
Morgunblaði 16. febrúar 2007, Sunna ósk Logadóttir (sunna@mbl.is)