Fyrsta brunavarnarkerfi í fjósi hérlendis

Búið er að setja upp fyrsta brunavarnarkerfi í fjósi hérlendis að bænum Glitstöðum í Norðurárdal í Borgarfirði. Vonast er til að þetta framtak efli eldvarnir á bæjum landsins til muna í náinni framtíð.

„Áður hafa fyrst og fremst verið reyk- og hitaskynjarar sem hafa ekki virkað almennilega í útihúsum útaf raka, mismunandi hitastigi og óhreinindum. Þetta nýja kerfi er sett þannig upp að þetta eru sogdæla sem sogar stöðugt loft eftir rörum í skynjara sem komið er fyrir á góðum stað í skáp en ekki inni í gripahúsinu og tekur það í gegnum síur áður en það fer í skynjarana,“ segir Guðmundur Hallgrímsson eldvarnareftirlitsmaður sem jafnframt var spurður hvort eldhætta hafi ekki minnkað til muna eftir að menn hættu almennt að þurrka hey í lausu við misjafnar aðstæður eins og áður var?


„Það eru komnir allt aðrir hlutir inn í hlöðurnar, nú er farið að geyma vélar í þeim og ýmis rafmagnstæki eru komin bæði í hlöðurnar og fjósin. Það er náttúrlega brunahætta útaf öllum svona tækjum og þó að þetta sé nokkuð öruggt þá getur allt mögulegt gerst.“


Þess má geta að Búnaðarsamtök Vesturlands hafa hrundið af stað átaki þar sem farið er á alla bæi og þeir kortlagðir með tilliti til brunavarna, slökkviliðsmenn fá síðan möppur með teikningum og upplýsingum um húsakost og allar aðstæður og hvar hægt sé að nálgast vatn til slökkvistarfa.


back to top