Gosið í lágmarki
Stöku gufubólstrar rísa nú upp frá gígnum í Grímsvötnum líkt og gerði í allan gærdag og er gosið í lágmarki. Almannavarnir vara þó við því að sprengihætta sé ekki liðin hjá og mjög varasamt sé að nálgast eldstöðina. Á Kirkjubæjarklaustri og í nærsveitum er gott veður, hægviðri og væta.
Nú er unnið að hreinsun á öskufallssvæðum og verður settur meiri kraftur í það starf í dag og á morgun þegar meiri mannskapur og öflugri tæki koma á vettvang.
Slökkviliðsmenn á dælubílum frá Klaustri, Vík og Hvolsvelli voru að störfum í gær og í dag bætast við menn og bílar frá Isavia á Keflavíkurflugvelli, Suðurnesjum og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Starfsmenn frá ISS Ísland eru einnig komnir til aðstoðar íbúum á Klaustri við hreinsunarstarf innandyra.
Búið er að hreinsa leikskólann og búist er við að fyrstu börnin komist í leikskólann í dag. Verið er að hreinsa grunnskólann og verður sett upp fjöldahjálparstöð þar í dag. Daglegt líf mun því smám saman komast í samt lag aftur.