Hækkanirnar meiri í raun

YARA og Áburðarverksmiðjan hafa nú birt áburðarverðskrár sínar og er hækkun milli ára á bilinu 36-82% hjá báðum fyrirtækjunum, þ.e. ef borin eru saman verð einstakra áburðartegunda nú við sömu mánuði í fyrra. Í raun má þó segja að hækkunin sé öllu meiri því að afsláttarkjör eru breytt frá því sem var 2006-07. Þannig bauð YARA mest 15% afslátt frá sínu lokaverði í júní 2007 ef áburður var pantaður í nóvember 2006. Nú býðst mönnum mest 10% afsláttur frá júníverði 2008 ef pantað er í janúar eða febrúar 2008.

 Á sama hátt bauð Áburðarverksmiðjan í fyrra mest 15% pöntunarafslátt ef pantað var fyrir 15. janúar auk 5% staðgreiðsluafsláttar ef greitt var fyrir sama tíma. Nú eru bestu afsláttarkjör Áburðarverksmiðjunnar hins vegar 10% pöntunarafsláttur ef pantað er fyrir 15. febrúar auk 3% staðgreiðsluafsláttar ef greitt er fyrir þann sama tíma.

Mestur hluti áburðar undanfarin ár hefur verið seldur á mestu afsláttarkjörum hverju sinni.

Ef tekið er dæmi af algengri tegund hjá YARA eins og NPK 24-4-7 kemur í ljós að fullt verð í ár (júní 2008) er 58.333 kr/tonn samanborið við 33.788 kr/tonn í júní í fyrra. Um er að ræða 73% hækkun milli ára miðað við 12 mánaða tímabil. Á bestu kjörum nú í ár (10% afsláttur) kostar þessi tegund 52.500 kr/tonn en bestu kjör í fyrra voru 15% afsláttur í nóvember 2006 eða 28.720 kr/tonn. Þannig má segja sem svo að áburðarkaupandi sem ávalt hefur verslað sinn áburð á bestu kjörum hverju sinni þurfi nú að greiða 82,8% hærra verð fyrir þessa tegund en á síðasta áburðarsölutímabili. 

Áburðarblanda hjá Áburðarverksmiðjunni sem inniheldur sambærilegt efnainnihald og NPK 24-4-7 heitir Fjölgræðir 9. Bestu kjör þess áburðar 2006-2007 voru 24.982 kr/tonn með staðgreiðsluafslætti en bestu kjör hans nú eru 48.403 kr/tonn með staðgreiðsluafslætti. Hækkun þessarar áburðartegundar hjá Áburðarverksmiðjunni er þannig 93,7% miðað við bestu kjör hvort ár en ekki 79% hækkun eins og ætla má ef borin eru saman lokaverð (maíverð) hvort ár.

Nú á trúlega aðeins Skeljungur eftir að birta áburðarverðskrá sína en líkur benda til að aðeins þrír áburðarinnflytjendur verði á markaði að þessu sinni.


back to top