Hæstu landbúnaðarstyrkirnir á Íslandi að mati OECD
Heldur dró úr landbúnaðarstyrkjum í aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, á síðasta ári en þeir námu samt samtals yfir 270 milljörðum dala á því ári, jafnvirði 16.500 milljarða króna. OECD segir, að hæsta hlutfall styrkja sé á Íslandi, þar sem yfir 60% af tekjum greinarinnar komi úr opinberum sjóðum. Hlutfallið er einnig yfir 60% í Noregi, Kóreu og Sviss.
Fram kemur í skýrslu OECD um landbúnaðarstyrki, að hlutfall opinberra styrkja af tekjum í landbúnaði hafi þó farið jafnt og þétt lækkandi á Íslandi á síðustu árum. Þetta hlutfall hafi verið 77% á árunum 1986 til 1988 en hafi nú lækkað í 66% á árunum 2004-2006. Þetta sé þó rúmlega tvöfalt hærra hlutfall en meðaltal innan OECD.
Í skýrslunni kemur fram, að lækkandi hlutfall landbúnaðarstyrkja innan OECD stafi aðallega af hækkun matvælaverðs en ekki breytinga á stefnu stjórnvalda.
Umbætur séu nú mestar innan Evrópusambandsins, þar sem hlutfall greiðslna af tekjum hafi lækkað úr 33% í 32% milli ára.
Að jafnaði er hlutfall styrkja í landbúnaði 27% af tekjum að jafnaði innan OECD en var 29% árið 2005. Lægst er hlutfallið í Nýja-Sjálandi þar sem innan við 1% af tekjum í landbúnaði er rakið til opinberra styrkja.
Skýrsla OECD