Hafa mikla trú á búrekstrinum
Nýtt 150 bása fjós, búið tveimur mjaltaþjónum, verður tekið í notkun í Flatey á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu eftir 3-4 vikur. Fyrirtækið Lífsval á Akureyri á búið og sagði Jón Björnsson, framkvæmdastjóri Lífsvals, að nú væri verið að leggja lokahönd á fjósið en erfitt veðurfar í vetur hefði tafið framkvæmdirnar.
Reiknað er með að ársframleiðsla búsins í Flatey verði a.m.k. 600.000 lítrar af mjólk til að byrja með og að við það starfi allt að fimm starfsmenn. Mjólkin verður lögð inn hjá MS á Selfossi.
Lífsval er búið að kaupa bústofn í nýja fjósið í Flatey. Jón sagði mikla stækkunarmöguleika í Flatey og taldi víst að uppbyggingu yrði haldið áfram þar enda næg eftirspurn eftir mjólk.
„Við erum í landbúnaði og höfum trú á honum, ekki síst þegar maður sér heimsmarkaðsverð á matvælum rjúka upp,“ sagði Jón. „Við trúum því að það sé skynsamlegt að þjóðin sé sjálfri sér nóg með mat og ætlum okkur að taka þátt í því. Þótt þetta sé erfiður rekstur þá höfum við trú á því til framtíðar að vera í matvælaframleiðslu.“
Fimmta bú Lífsvals og þriðja kúabúið
Lífsval rekur nú þegar tvö kúabú, í Skriðufelli í Jökulsárhlíð og á Ytrafelli í Eyjafirði. Einnig er fyrirtækið með tvö sauðfjárbú, á Barkarstöðum í Húnavatnssýslu og Miðdal í Skagafirði, með samtals um 1.400 fjár. Á kúabúum Lífsvals verða alls um 300 mjólkandi kýr eftir að búið í Flatey bætist við. Hjá fyrirtækinu starfa nokkrir búfræðingar og sagði Jón að þeir mótuðu rekstur búanna. Vegna stærðarinnar í Flatey verður t.d. að beita nokkuð öðrum aðferðum en tíðkast á litlum kúabúum. Þrátt fyrir stærð búsins verður kúnum tryggð næg útivist yfir sumarið.
Jón sagði Flatey bjóða upp á mikla stækkunarmöguleika en óvíst er hvenær ráðist verður í frekari uppbyggingu. Hann taldi að víst að byggð yrðu fleiri ný fjós í Flatey frekar en að byggja við nýja fjósið. Jón sagði stærðarhagkvæmni mikla í kúabúskap, líkt og í annarri frumframleiðslu. Hann sagði að t.d. í Flatey yrði hægt að rækta allt að því þúsund hektara tún á sléttlendi og nútíma heyvinnuvélar og önnur tæki nýttust þar mjög vel. Því mundi bæði fylgja mikill sparnaður og minni mengun.
Lífsval keypti jörðina Flatey árið 2006 en þar var áður rekin graskögglaverksmiðja. Jörðin er um 1.300 hektarar að stærð.
Morgunblaðið 27. mars 2008, Guðni Einarsson (gudni@mbl.is)