Hafnar lögfræðiáliti frá árinu 2005
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hafnar lögfræðingaáliti sem lögfræðingar ráðuneytisins gerðu 2005. Samkvæmt því er heimilt að framleiða og selja mjólk utan greiðslumarks þrátt fyrir ákvæði búvörulaga.
Margir hafa beint spjótum sínum að frumvarpi Jóns Bjarnasonar landbúnaðarráðherra sem felur í sér að þeir sem framleiða mjólk utan greiðslumarks þurfi að greiða sekt. Samkeppniseftirlitið telur þetta ákvæði koma sér illa fyrir neytendur og stuðla að fákeppni. Jón Bjarnason svaraði því þannig til í kvöldfréttum RÚV klukkan sjö að eftirlitið væri á móti landbúnaði.
Tveir lögfræðingar sem unnu í landbúnaðarráðuneytinu 2005 komust að þeirri niðurstöðu í minnisblaði sem þeir gerðu fyrir þáverandi landbúnaðarráðherra að búvörulögin frá 1993 heimili framleiðslu og sölu á mjólk utan greiðslumarkaðskerfis þeirra laga.
Ráðuneytið sendi þetta álit til Samfylkingarinnar fyrir ári ásamt bréfi þar sem ráðuneytið skýrir ákvæði búvörulaga. Í þeirri skýringu er lagatúlkun lögfræðinga ráðuneytisins í minnisblaðinu frá 2005 hafnað.
Landbúnaðarráðherra segir að í öðrum lögfræðiálitum sem gerð hafi verið hafi verið sýnt fram á lögmæti og nauðsyn frumvarpsins til að standa við samninga sem ríkið hafi gert við bændur.