Hagnaður MS á síðasti ári 293 millj. króna

Aðalfundur Mjólkursamsölunnar (MS) var haldinn síðastliðinn föstudag, en félagið er að langstærstum hluta í eigu kúabænda (93%) á móti 7% Kaupfélags Skagfirðinga. Reksturinn síðasta árs var góður og nam hagnaður af starfseminni 293 milljónum eftir skatta sem er mikill viðsnúningur frá árinu 2009. Heildarvelta fyrirtækisins var 18,6 milljarðar króna sem er 4% aukning frá árinu 2009 og nærri 47% aukning frá árinu 2007.
Einar Sigurðsson, forstjóri MS, segir meginástæður rekstrarbatans þær að félaginu tókst að lækka söfnunar-, vinnslu- og afsetningarkostnað um 200 milljónir króna frá árinu 2009 þrátt fyrir margvíslegar kostnaðarhækkanir. Þá skipti verðhækkun á seinni helmingi árs 2009 verulegu máli. Jafnframt séu hagræðingaraðgerðir fyrri ára að skila sér inn í rekstrarniðurstöður fyrirtækisins. Þrátt fyrir góðan árangur varðandi rekstur MS er hagnaðurinn þó aðeins um 1,6% af veltu félagsins.

Í samtali við naut.is sagði Einar að: „Frá því að MS og MBF gengu í eina sæng árið 2005 hefur náðst fram 1,8 milljarða króna hagræðing í mjólkuriðnaðinum á verðlagi ársins 2011.  Hagræðingin hefur verið nauðsynleg til að hægt væri að standa við verðlagsákvarðanir um hráefni vegna þess að ekki hefur verið veitt svigrúm til að veita þeim kostnaðarauka út á markaðinn.  Hluta af þessari hagræðingu er skilað til bænda í hráefnisverðinu og hluta í lækkun söfnunarkostnaðar mjólkur.  Við gerum t.d. ráð fyrir að með þeirri vinnu sem nú er í gangi muni söfnunarkostnaður bænda fyrir mjólk lækka um u.þ.b. 20%“.


Að sögn Egils Sigurðssonar, kúabónda á Berustöðum II og stjórnarformanns Mjólkursamsölunnar, eru miklar hagræðingaraðgerðir í kjölfar endurskipulagningar á mjólkuriðnaðinum að skila bæði mjólkurframleiðendum og neytendum ávinningi, sem og að koma rekstri Mjólkursamsölunnar í gott horf. Til viðbótar erum við alltaf að bæta nýtinguna hjá okkur á hráefnum. Árlega falla t.d. um 45 milljónir lítra af mysu til við framleiðslu annarra mjólkurvara og má áætla að um 2.600 tonn af þurrefni séu til staðar í þessari mysu. Í þessu þurrefni eru fólgin verðmæti sem skipta hundruðum milljóna og við höfum fyrirætlanir um nýta enn betur mysuna á næstu þremur til fimm árum og er vinna við frekari nýtingu hennar í fullum gangi um þessar mundir, er haft eftir Agli á naut.is.


Athyglisverða aukningu í sölu árið 2010 má m.a. rekja til öflugrar vöruþróunar, en ekkert íslenskt matvælafyrirtæki á innanlandsmarkaði heldur úti viðlíka vöruþróun. Meðal nýjunga á árinu 2010 frá MS má nefna orkudrykkinn Hleðslu, sem er fyrsti íslenski próteindrykkurinn á markaðnum sem er eingöngu framleiddur úr 100% hágæða mysupróteinum. Aðrar nýjungar sem má nefna eru ódýr Heimilisjógúrt í eins lítra umbúðum, Grjónagrautur, nýjar bragðtegundir í ostatertum og nýr hvítmygluostur (Dalahringur) frá Búðardal. Neytendur hafa tekið öllum þessum vörum afar vel.


back to top