Hagsmunir bankans felast ekki í því að ganga hart fram
Fulltrúar Bændasamtaka Íslands ásamt ráðuneytisstjóra sjávarútvegs- og landbúnaðaráðuneytisins áttu í vikunni fund með Finni Sveinbjörnssyni bankastjóra Nýja Kaupþings og Bjarka Diego framkvæmdastjóra, um horfur í landbúnaði og stöðu bænda. Líkt og á fundi með stjórnendum NBI-banka (nýja Landsbankans) var lögð megináhersla á það markmið að rekstur búa sé tryggður til lengri og skemmri tíma.
Lögð var áhersla á sérstöðu atvinnuvegarins og minnt á að yfirleitt er búið einnig heimili fjölskyldunnar. Þættir eins og dýravelferð og mikilvægi þess að framleiðsla stoppi ekki vegna matvælaöryggis voru einnig ræddir. Þá var farið yfir hvað samtök bænda bjóða fram varðandi ráðgjöf til bænda og ekki síður til faglegrar aðstoðar einstaka útibúum, þar sem mikil þekking á landbúnaði hefur byggst upp.
Fram kom hjá Nýja Kaupþingi banka að landbúnaður er sem atvinnugrein vel til þess fallinn að skuldbreyta og lengja lánstíma, enda eru að baki hans fasteignir, jarðir og matvælaframleiðsla sem er einn af hornsteinum samfélagsins. Þá sögðu stjórnendur bankans að góður skilningur væri á því að fyrirgreiðsla þyrfti að vera vegna t.d. kaupa á aðföngum. Hagmunir bankans fælust ekki í því að ganga hart fram, heldur að greiða úr einstökum verkefnum. Erfiðir tímar eru engu að síður framundan hjá fyrirtækjum í landinu. Fulltrúar bankans sögðu að farið yrði yfir málefni bænda og leitast við að samræma viðbrögð útibúa bankans.
Að mati Bændasamtakanna lýsa viðhorf bankans skilningi á mikilvægi landbúnaðar í nútíð og framtíð. Það er vilji Bændasamtanna að eiga gott samstarf við fjármálafyrirtæki og aðstoða við að greiða úr þeim erfiðleikum sem nú eru í þjóðfélaginu.