Hátt í 200 nautgripir dauðir – tugmilljóna króna tjón
Allar líkur eru á að a.m.k. 150 nautgripir hafi drepist í eldsvoðanum á Stærra Árskógi í Dalvíkurbyggð í gær. Þrjú sambyggð hús; nýtt fjós, hlaða og gamla fjósið, eyðilögðust í eldinum. Íbúðarhúsið var ekki í hættu þar sem vindátt var heppileg hvað það varðar, og fólki varð ekki meint af. Bóndinn á bænum gekk reyndar hart að sér til þess að bjarga því sem bjargað varð af skepnum, að sögn Ingimars Eydal, aðstoðarslökkviliðsstjóra á Akureyri.
Ljóst er að mikið tjón varð á Stærra Árskógi, því fjósið þar var eitt það fullkomnasta í Eyjafirði og voru pláss fyrir um 200 gripi í því.
Ingimar Eydal segir aðstæður hafa verið erfiðar; eldurinn var mikill og veðrið mjög slæmt. „Það var vonskuveður, 10 til 15 metra skyggni, bálhvasst og mikið kóf. Það er ekki oft sem maður hefur þurft að berja klaka af gleraugunum sínum,“ sagði hann í kvöld. Talið er að vindhraðinn hafi verið 15-20 metrar á sekúndu.
Tilkynnt var um eldinn um kl. 17 og slökkvistarfi lauk um kl. 20. Um 30 slökkviliðsmenn frá Dalvík og Akureyri unnu að slökkvistarfinu, auk félaga í björgunarsveitinni á Árskógsströnd.
Um 200 gripir voru í byggingunum og flestir drápust. „Við sáum um 30-40 gripi á lífi fyrir utan byggingarnar en annars var mjög erfitt að sjá þarna til vegna myrkurs og slæms veðurs,“ segir Ingimar.
Á heimasíðu Slökkviliðs Akureyrar segir að þegar slökkviliðið á Dalvík kom á staðinn hafi verið mikill eldur í fjósinu og hlöðunni en byggingar eru sambyggðar með millibyggingu sem einnig var alelda. Fram kemur að talsvert langt var í vatn og þegar Slökkviliðið á Akureyri kom á staðinn var dælubíll frá liðinu settur í að dæla vatni frá brunahana við bifreiðaverkstæði við Litla Árskóg, um 6-800 metra leið á eldstað.
Slökkvistarf tók um tvær og hálfa klukkustund en einnig var vakt við húsið í nótt.