Heimaslátrun til eigin nota dæmd lögmæt
Hæstiréttur sýknaði í vikunni þrjá einstaklinga af broti á lögum um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat sláturafurða, með því að slátra 19 lömbum utan löggilts sláturhúss, til eigin nota. Talið var að ekki væri um refsiverða háttsemi að ræða.
Forsaga málsins er sú að þrír einstaklingar stóðu í heimaslátrun á Snæfellsnesi haustið 2009 á 19 lömbum. Þeir voru í framhaldinu ákærðir fyrir verknaðinn. Fram kemur í dómnum að lömbunum var slátrað með rotbyssu, í framhaldinu voru skrokkanir flegnir og gert að þeim. Í lögregluskýrslu segir að aðstaðan í gámi þar sem skrokkarnir voru hengdir upp, sé þrifaleg.
Ekki var talið að brotið hefði veirð gegn ákvæðum laga nr. 96/1997 um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat sláturafurð, þar sem afurðirnar voru ætlaðar til eigin nota en ekki til dreifingar. Var m.a. horft til þess að í lögunum er undanþáguákvæði fyrir eigendur lögbýla að slátra búfé sínu til eigin nota.