Heimaunnið sérmerkt
Beint frá býli hefur látið gera sérstakt merki fyrir býli sem framleiða matvöru úr eigin hráefni á býlinu og selja beint til notenda. Merkið má til dæmis nota á vörur sem eru framleiddar og seldar á býlunum og í auglýsingum. Áhersla er lögð á matvæli sem byggja á íslenskri matarhefð.
Býli þurfa að uppfylla ýmis skilyrði til að geta notað merkið. Uppfylla þarf opinberar kröfur og hafa leyfi til starfseminnar. Þátttakendur skulu hafa tekið þátt í námskeiði á vegum Beint frá býli eða aflað sér hliðstæðrar þekkingar með öðrum hætti. Hráefni í vöruna á að koma að langmestu leyti frá viðkomandi býli eða byggðarlagi auk þess sem framleiðsla á að fara að mestu fram á býlinu.
Vörurnar skal selja beint til neytenda, til dæmis á býlinu sjálfu, á sveitamörkuðum eða netinu. Þá er hægt að selja vörur beint til matsölustaða eða gististaða.
Nánari upplýsingar um verkefnið og þau býli sem taka þátt í því má nálgast á vefsíðunni www.beintfrabyli.is.