Hey til Noregs
Þurrkar í Noregi síðustu vikur hafa valdið norskum bændum miklum áhyggjum og skortur á heyi yfirvofandi. Norskir bændur hafa því leitað til íslenskra bænda til að flytja inn hey frá þeim, þó að því fylgi einhver áhætta. Matvælastofnun hefur farið yfir þær kröfur sem íslenskir heyframleiðendur þurfa að uppfylla til að geta flutt út hey sem sjá má nánar á mast.is.
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hefur líka tekið niður nöfn áhugasamara aðila og á heimasíðu þeirra má finna nauðsynlegar upplýsingar varðandi heysöluna, nánar á rml.is
Þau svæði á Suðurlandi sem ekki uppfylla skilyrði til útflutnings eru:
Vegna riðu:
• Hreppa-, Skeiða- og Flóahólf
• Biskupstungnahólf
• Ölfus, Hveragerði og Árborg og Grafningur í Grímsnes og Grafningshreppi í Landnámshólfi
Vegna garnaveiki:
• Bæir þar sem garnaveiki hefur greinst á undanförnum 10 árum
Þeir sem hyggjast flytja hey til Noregs skulu senda beiðni um útflutningsvottorð til Matvælastofnunar á netfangið utflutningur@mast.is. Matvælastofnun mun í kjölfarið senda þeim nánari leiðbeiningar og vottorðseyðublað til útfyllingar.
Á vef Mattilsynet kemur fram að það er innflytjandinn (í Noregi) sem er ábyrgur fyrir því að heyið feli ekki í sér áhættu fyrir dýr, menn eða plöntur; að það sé ræktað við aðstæður sem samræmast kröfum Evrópusambandslöggjafarinnar og að það mengist ekki við vinnslu, flutning og geymslu. Innflytjandinn skal taka tillit til áhættugreiningar norsku dýraheilbrigðisstofnunarinnar (Veterinærinstituttet).
Auk þess bendir Mattilsynet á að hey sem uppfyllir eftirfarandi skilyrði feli í sér lágmarks smithættu:
• Hey frá svæðum þar sem lítið er um jórturdýr
• Hey frá svæðum þar sem húsdýraáburður var ekki notaður á framleiðsluárinu
• Hey frá svæðum þar sem sýnt hefur verið fram á að smitsjúkdómar sem tekið var tillit til í norsku áhættugreiningunni eru mjög óalgengir eða fyrirfinnast ekki
• Hey frá býlum þar sem gras er ekki slegið snöggt
• Hey sem ekki er mengað jarðvegi
• Vothey
Innflytjandinn í Noregi skal vera skráður hjá Mattilsynet sem fóðurinnflytjandi og skal skrá innflutninginn í Traces (kerfi sem heldur utan um innflutning dýra, dýraafurða og aukaafurða til Evrópu).
Hey sem flutt er frá Íslandi til Noregs skal flutt beint á skilgreindar landamærastöðvar í Noregi þar sem innflutningseftirlit fer fram. Um er að ræða eftirfarandi hafnir: Osló, Borg, Egersund, Måløy og Ålesund.
Heilbrigðisvottorð útgefið af Matvælastofnun skal fylgja hverri sendingu af heyi. Mögulega gæti verið óskað frekari gagna svo sem yfirlýsingu framleiðanda um að húsdýraáburður hafi ekki verið notaður á framleiðsluárinu.
Ítarefni
• Upplýsingar á vef Mattilsynet
• Listi Matvælastofnunar yfir garnaveikibæi
• Upplýsingasíða Matvælastofnunar um varnarhólf
• Listi Matvælastofnunar yfir riðubæi (riðuveiki 1998-2018)