Hraungos líklega hafið
Hraungos er líklega hafið í gígnum á Eyjafjallajökli, að sögn Veðurstofu Íslands. Miklar sprengingar eru í honum. Í morgun náði mökkurinn í um 4 km hæð og bendir lægri gosmökkur til þess að vatn komist ekki lengur í gíginn og hraunflæði sé hafið. Veðurstofan segir að óróinn sem jókst kl. 4 í nótt geti gefið til kynna að hraun sé byrjað að renna úr gígnum.
Mökkinn leggur beint í suður enda stíf norðanátt. Laus aska fýkur af Mýrdalsjökli.
Veðurstofan spáir því að öskufall verði einkum undir Eyjafjöllum næstu daga.
Öskufallsspá Veðurstofunnar fyrir dagana 19. til 23. apríl 2010:
Mánudagur: Norðan 8-13 m/s og gosaskan stefnir því til suðurs frá gosstöðinni. Öskufall eða fjúkandi aska því einkum undir Eyjafjallajökli, ósennilegt að aska nái til Vestmannaeyja. Léttskýjað að mestu og ágætt útsýni til gosmakkar.
Þriðjudagur: Fremur hægur norðlægur vindur um morguninn og bjartviðri, en snýst smám saman til suðlægrar áttar síðdegis, þykknar upp og fer að rigna um kvöldið. Búast má við að gosaska berst ekki langt frá gosstöðinni.
Miðvikudagur: Hæg norðlæg átt og skýjað með köflum. Búast má helst við öskufalli undir Eyjafjöllum, og þá einkum mjög mærri eldstöðinni.
Fimmtudagur og föstudagur: Útlit fyrir fremur hæga austlæga átt og rigingu. Gosmökkur beinist til vesturs, en gosaska berst líklega ekki langt frá eldstöðinni.